Morgunblaðið - 29.03.2019, Síða 15

Morgunblaðið - 29.03.2019, Síða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 29. MARS 2019 EES-samningurinn var samþykktur á Al- þingi árið 1993 með 33 atkvæðum gegn 23, en sex þingmenn sátu hjá, þar á meðal helmingur þingflokks Framsóknar og þrír sjálfstæð- ismenn. Samtök um óháð Ísland söfnuðu undirskriftum 34.378 kosningabærra manna gegn samningnum og afhentu þær Salóme Þorkelsdóttur þá forseta Alþingis. Jafnframt beind- ust áskoranir að Vigdísi forseta um að hún skrifaði ekki undir lögin um EES, þannig að málið færi í þjóð- aratkvæðagreiðslu eins og ítrekað hafði verið krafist innan og utan þings. Vigdís varð ekki við þeirri áskorun, en ljóst var að hún tók málið nærri sér og íhugaði að segja af sér embætti af þessu tilefni (Mbl. 9. júlí 1996). Skömmu áður, eða 1992, hafði EES-samningurinn farið í þjóð- aratkvæði í Sviss og verið felldur, og enn býr Sviss að þeirri niðurstöðu. Í febrúar 1992 flutti ég á Alþingi tillögu til þingsályktunar „Um EES- samning og íslenska stjórnskipan“. Meðflutningsmenn að tillögunni voru Steingrímur Hermannsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Þar sagði í upp- hafi: Alþingi ályktar að setja á fót nefnd sex sérfróðra manna sem athugi hvort aðild að evrópsku efnahags- svæði í því formi sem fyrir liggur í samningsdrögum nú eða síðar brjóti með einhverjum hætti gegn íslenskri stjórnskipun eða hvort gera þurfi breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins vegna fyrirhugaðs EES-samnings. Tillögunni var að umræðu lokinni vísað til utanríkismálanefndar, þar sem ekki reyndist meirihluti fyrir af- greiðslu hennar. Nú er það löngu viðurkennt af fjölda sérfróðra að EES-samningurinn eins og frá honum var gengið af Alþingi 1993 hafi þá þegar verið á gráu svæði gagnvart stjórnskipun okkar og síðan ítrekað brotið gegn henni eins og hann hefur þróast. Nú brenn- ur á þingi og þjóð svo- nefndur orkupakki 3, og honum tengist spurningin hvort nú sé ekki mælirinn fullur. Furðuleg fréttatil- kynning ráðherra Hinn 22. mars sl. sendu utanríkis- ráðuneytið og atvinnuvega- og ný- sköpunarráðuneytið frá sér frétta- tilkynningu með fyrirsögninni: „Ríkisstjórnin samþykkir að leggja þriðja orkupakkann fyrir Alþingi.“ Tilkynning þessi er hið furðulegasta plagg, bæði margt af því sem þar kemur fram og þó enn frekar valið úrtak með tilvitnunum í lögfróða um- sagnaraðila, þar sem ekki er hálf saga sögð af aðvörunum þeirra og fyr- irvörum, sérstaklega lögmannanna Friðriks Árna Friðrikssonar og Stef- áns Más Stefánssonar. Svo langt er gengið í gyllingu á ágæti vænt- anlegrar tillögu ríkisstjórnarinnar að staðhæfa eftirfarandi: „Um er að ræða orkupakka á íslenskum for- sendum. Hann er tekinn upp í ís- lenskan rétt á þeirri forsendu að Ís- land er ekki tengt við raforkumarkað ESB.“ Þegar þessi fullyrðing er borin saman við álitsgerð nefndra lög- manna sem skiluðu hinn 19. mars sl. álitsgerð um „stjórnskipuleg álitamál tengd framsali ríkisvalds til stofnana ESB/EFTA vegna þriðja orkupakka ESB“ kemur í ljós hve óheiðarlega er hér gengið til verks. Í stað þess að birta álitsgerðir lögmannanna sem lágu á borði ráðherra dögum áður en málið var borið upp til afgreiðslu í ríkisstjórn eru umsagnir þeirra með fjölda aðvarana og álitaefna um orku- pakka 3 faldar fyrir þingmönnum og almenningi. Enn á að skauta framhjá stjórnarskránni Utanríkisráðherra ætlar Alþingi samkvæmt ofangreindu að innleiða orkupakka 3 með þeim fyrirvara að viðkomandi bindandi reglur hans komi ekki til framkvæmda nema þingið heimili lagningu sæstrengs til raforkuflutnings frá Íslandi og „þá þarf jafnframt að taka á nýjan leik af- stöðu til þess hvort reglurnar stand- ist stjórnarskrá“. Með þessu á að læða í gegn staðfestingu Alþingis á orkupakka 3, sem augljóslega stríðir gegn stjórnarskrá lýðveldisins og óumdeilanlega yrði virkur ekki síðar en með lagningu sæstrengs. Um þá framkvæmd á síðan orrustan að snú- ast, ef ekki yrði þá þegar búið að breyta stjórnarskránni. Friðrik og Stefán Már minna á það í álitsgerðinni að „það er réttur EES/ EFTA-ríkjanna samkvæmt EES- samningnum að neita upptöku gerða í EES-samninginn og eftirfarandi inn- leiðingu á viðkomandi gerðum … Slíkt kallar hins vegar á sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES- nefndarinnar“. (s. 38) Þeir benda jafnframt á annmarka á boðuðum fyrirvara vegna sæstrengs: „Þessi lausn er þó ekki gallalaus.“ Lög- mennirnir taka fram (s. 24) að hygg- ist Alþingi aflétta fyrirvara við fyr- irliggjandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017 „ber þinginu m.a. að gæta að því, hvort þær ESB-gerðir, sem ákvörð- unin tekur til, samræmist stjórn- arskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/ 1944“. Þótt sæstrengur sé enn ekki til staðar „breytir það því þó ekki, að þriðji orkupakkinn verður ekki tek- inn upp í íslenskan landsrétt nú nema hann standist stjórnarskrána“. Ákvörðun Alþingis um að innleiða þriðja orkupakkann í landsrétt verð- ur „að miðast við þá forsendu að grunnvirkjum yfir landamæri verði komið á fót hér á landi …“ (s. 24). – Lögmennirnir vekja jafnframt at- hygli á, að við undirritun EES- samningsins hafði þáverandi Róm- arsamningur engin sérstök ákvæði haft að geyma um raforku. Því sé álitamál, hvort unnt sé að taka vald- heimildir á því sviði upp í EES- samninginn án samsvarandi breyt- inga á honum sjálfum (s. 9). Í þessu samhengi er mjög athyglisverð um- fjöllun þeirra um dóm EFTA-dóm- stólsins gagnvart Noregi í svonefndu Heimfallsmáli (s. 10). Þar var tekist á um það, hvort ákvæði norskra laga um vatnsréttindi féllu utan við gild- issvið EES-samningsins, eins og Norðmenn héldu fram, en þeirri rök- semd þeirra var hafnað. Orkupakkinn og yfir- þjóðlegar valdheimildir Með tilskipun 96/92/EB um fyrsta orkupakkann, sem varð hluti EES- samningsins 1999, var kveðið á um samkeppni í raforkuvinnslu. Þá sótti Ísland um og fékk undanþágu á grundvelli þess að hér væri lítið og einangrað kerfi. Þessi undanþágu- heimild var víðtæk og bauð upp á að sótt yrði um ýmsar fleiri efnislega mikilvægar undanþágur frá ákvæð- um pakkans. Á það var hins vegar ekki látið reyna af Íslands hálfu held- ur var orkupakki 2 innleiddur hér að fullu vegna hugmynda um að koma hér á samkeppnismarkaði fyrir raf- orku. Þegar svo kom að orkupakka 3 og reynt var að fá tilteknar und- anþágur strandaði það m.a. á van- rækslu og fyrri ákvörðunum ís- lenskra stjórnvalda. „Sambands- stofnunin“ ACER (sbr. reglugerð 713/2009) er ótvírætt yfirþjóðleg stofnun með afar víðtækar heimildir, hefur m.a. vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir á ýmsum til- teknum sviðum, „sem vekja spurn- ingar um hvort viðkomandi ákvæði reglugerðarinnar standist stjórn- arskrá …“ (s. 20 í álitsgerð lög- manna). Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur hér vissu hlutverki að gegna í samvinnu við ACER, en lög- mennirnir vekja sérstaka athygli á ráðandi hlutverki ACER í þeim sam- skiptum (s. 22-23). Átakamál um framtíð og þjóðarhagsmuni Málið sem ríkisstjórnin nú hyggst knýja Alþingi til að samþykkja á gal- opnum forsendum og gegn ákvæðum stjórnarskrár okkar varðar yfirráð yfir náttúruauðlindum, íslenskum fallvötnum, nýtingu þeirra og vernd- un. Það er hliðstætt spurningunni um hvort afhenda ætti útlendingum sjáv- arauðlindir okkar. Sótt er að Lands- virkjun með einkavæðingu í huga og fyrirtæki eins og HS Orka og Arctic Hydro kemba nú landið undir merkj- um smávirkjana, með góðfúslegu leyfi Orkustofnunar. Þessir aðilar leggjast nú bak við tjöldin fast á sveif með hagsmunaöflum, innlendum og erlendum, um að tengja Ísland við orkumarkað Bretlands og megin- landsins. Íslensk náttúra og almenn- ingur greiða reikninginn með stór- hækkuðu raforkuverði og umturnun á friðsælum dölum og heiðum, sem sloppið hafa við umrót virkjana fram að þessu. Hvað segir íslensk æska og kjörnir alþingismenn um slíka framtíðarsýn? Eftir Hjörleif Guttormsson » Lögmenn: Þótt sæ- strengur sé enn ekki til staðar verður orku- pakki 3 „ekki tekinn upp í íslenskan landsrétt nú nema hann standist stjórnarskrána“. Hjörleifur Guttormsson Höfundur er náttúrufræðingur. Afhendum ekki ESB völdin yfir íslenskum auðlindum með orkupakka 3 Það er metið svo í geðlækningum að þegar milljón prósent menn kaupa knattspyrnufélag eða stofna flugfélag séu viðkomandi komnir á hættustig mik- ilmennskubrjálæðis. Sú hætta beinist ekki að milljón prósent mönn- unum heldur að því samfélagi, þar sem þeir safna sínum prósentum. Rekstur knattspyrnufélags er raungerð leikjafræði. Oftar en ekki endar hver leikur með sigri annars liðsins. Endurteknir tapleikir leiða til þess að liðið fellur um deild og er ekki talið þess vert að taka þátt í leik bestu liða. Sérhvert knattspyrnulið aðlagar leik sinn að andstæðingi sínum. Hnefaleikar er einnig leikjafræði þar sem niðurstaðan getur orðið það sem kallað er „Game of Chicken“, það er að báðir keppendur falla í valinn. Rekstur flugfélaga er um margt svipaður rekstri knattspyrnufélags. Þar heitir keppni bestu liða sam- keppni. Stundum er það svo að nið- urstaðan verður „Game of Chicken“. Öll flugfélög á markaði skaðast, sum falla. Sennilega hafa vel á annað hundrað flugfélög í Evrópu orðið gjaldþrota frá því flugrekstur var gefinn frjáls í Evr- ópu seint á síðustu öld. Svipaða sögu er að segja frá Bandaríkjunum þar sem vagga flugsins stendur. Gömul og ný flugfélög hafa horfið af sjónarsvið- inu. Stjórnvald í flugmálum Öll lönd eru með sérstakt stjórn- vald í flugmálum. Flugmál eru talin til grunninnviða í þessum löndum. Vagga flugsins var í Bandaríkjunum. Þar eru eðlilegar og ótrufl- aðar flugsamgöngur taldar til þjóðar- öryggis. Bandaríkja- forseti getur skipað flugmönnum hjá stærstu flugfélögum þar í landi að láta af verkföllum og hefja störf, vegna þjóðarör- yggis. Í Bandaríkjunum er starfandi flugmálastjórn, „Federal Aviation Administration, FAA“, og til hliðar við bandarísku flug- málastjórnina starfar rannsókn- arnefnd samgönguslysa, „National Transportation Safety Board, NTSB“. Það er svipað fyrirkomulag á stjórn flugmála og slysarannsóknum hér á landi. Og ekki aðeins hér á landi, því með aðild að „evrópska efnahagssvæðinu“ og sameiginlegum markaði í Evrópu hefur Ísland lög- tekið samræmingarverk Evrópusam- bandsins í samgöngu- og flugmálum. Samræmingin hér á landi byggist á neytendavernd. Neytendaverndin nær til flugöryggis og þess að neyt- endur komist ferða sinna fyrir far- gjöld, sem farseðlar hafa verið keypt- ir fyrir. Neytendur eru lánveitendur flugfélaga. Það er algengt að flug- félög hafi innheimt flugfargjöld næstu tveggja mánaða án þess að hafa veitt þjónustuna, en hafa tekið á sig skuldbindingu til að veita þjón- ustuna. Skilyrði þess að fá flugrekstrar- leyfi útgefið hjá flugmálastjórn, sem hér á landi heitir Samgöngustofa, er að viðkomandi flugrekandi geti rekið flugfélagið í þrjá mánuði án þess að afla tekna. Laust fé og veðandlag Þannig er flugfélag ekki ólíkt banka; greidd fargjöld eru innlán. Til þess að standa við skuldbindingar þurfa bankar og flugfélög laust fé. Því eru það fyrstu skilaboð til viðtakandi forstjóra flugfélags frá fráfarandi for- stjóra: „Sjáðu til þess að eiga alltaf gnógt lausafjár.“ Þetta lausafé þarf einnig að eiga til að geta staðið við skuldbindingar vegna lána og leigu á flugvélum. Flugvélar eru gott veð. Það er ekki eins og frystihús á Rauf- arhöfn, það er alltaf á Raufarhöfn. Það er hægt að vörslusvipta flugvél og færa hana á milli staða. Færanlegt veðandlag! Í því felst vernd lánveit- andans, og það tryggir hagstæð lán, ef flugrekandi er á annað borð á vetur setjandi. Það er einnig nauðsynlegt að eiga fyrir viðhaldi og nauðsynlegu eftirliti eins og frekast er krafist til að tryggja öryggi farþega. Það er neyt- endavernd á sama hátt og krafa um að flugfélag geti veitt farþegum þjón- ustu með flugi, eins og farseðill kveð- ur á um. Býsnavetur Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með WOW Air í vetur. Búið er að fara í marga hringi í samningum um kaup og endurskipulagningu á fjárhag fé- lagsins. Fyrst er Icelandair hf. boðið að borði og félagið segir „nei takk“. Svo er bandarískum flugrekanda í Evrópu boðið að borði í flóknar við- ræður sem tóku þrjá mánuði og sá segir einnig „nei takk“, nema til komi meðgjöf frá íslenskum skattgreið- endum. Enn er Icelandair hf. boðið að borði og eftir þrjá daga segir félagið aftur „nei takk“. Sennilega hefur kássan úldnað í millitíðinni. Þá koma eigendur verðlausra skuldabréfa og bjóða upp í dans. Sá sem vill dansa þarf að greiða fimm milljarða til að félagið verði rekstr- arhæft. Og að hin verðlausu skulda- bréf í formi hlutafjár verði að „pen- ing“. Trúverðugleiki í tilboði Spurningin sem milljarðamæring- urinn þarf að fá svar við er: „Hver er viðskiptavildin?“ Viðskiptavild er nú- virði framtíðarhagnaðar umfram eðli- lega ávöxtunarkröfu og efnislegar eignir ef einhverjar væru. Það liggur fyrir að skuldir WOW Air virðast yfir tuttugu milljarðar. Hvernig hafa þær skuldir orðið til nema vegna tap- rekstrar? Ekki eru til efnislegar eign- ir í fyrirtækinu. Við spár um framtíð- arhagnað má oft hafa nokkra hliðsjón af fortíðarhagnaði. Er tilboðið til milljarðamæringsins trúverðugt, og samanburðarhæft við aðra kosti fyrir ódrukkinn millj- arðamæring? Ósjálfbær rekstur Ósjálfbær rekstur hefur ekki já- kvæð áhrif á landsframleiðslu. Þegar ósjálfbær rekstur hverfur vex lands- framleiðsla. Þegar hinn ósjálfbæri rekstur er hættur að gleypa gjaldeyri í taphít, þá styrkist gengi íslensku krónunnar. Samgöngustofa Hvar er neytendavernd Sam- göngustofu? Skilyrði flugrekstrar- leyfis er að flugrekstraraðili geti staðið við skuldbindingar sínar í framtíð, til þriggja mánaða. Hve mikið svigrúm ætti Samgöngustofa að veita til fjárhagslegrar endur- skipulagningar? Á það svigrúm eng- an enda að taka? Hvernig geta sam- töl við erlendan flugrekstraraðila staðið í þrjá og hálfan mánuð án þess að það skili annarri glóru en þeirri að óska eftir ríkisábyrgð án nokkurra trygginga. ISAVIA Er ISAVIA fjármálafyrirtæki? Stundar ISAVIA lánastarfsemi? Á hvaða lagagrunni starfar þetta fjár- málafyrirtæki? Er fyrirtækið eftir- litsskylt hjá Fjármálaeftirliti? Á að vista alla starfsemi ISAVIA undir Bankasýslu ríkisins vegna þess að fyrirtækið hegðar sér eins og fjár- festingarbanki? Meðal annars með ímynduðum haldsrétti á eignum þriðja aðila fyrir skuldum WOW Air. Ef allt fer á versta veg tapast út- lán ISAVIA. Í aðalfundarræðu sinni hótaði forstjóri fyrirtækisins því að skilvísir viðskiptavinur skyldu greiða fyrir vanskilamenn. Heiðvirðir við- skiptavinir greiða ekki fyrir óreiðu- menn. Ó hvað veraldarvirðing er völt og svipul að reyna. ISAVIA veitir þjónustu í flug- leiðsögu, rekstri flugvalla og aðstöðu í flugstöð. Ætla má að ISAVA skuli gæta jafnræðis milli kaupenda þjón- ustu. Það er hlutverk fjármála- fyrirtækja að lána. Nema bankar taki að sér flugleiðsögu. Heilbrigð skynsemi Hvenær ætla Samgöngustofa og ISAVIA að hætta að misbjóða heil- brigðri skynsemi landsbúans? Það skapar fátækt að halda svona rugli áfram. Maðkflugan er kanarífugl ör- eigans. Ef til vill eignast þjóðin að- eins maðkflugur en engar flugvélar! Nóttin langa í flugrekstri Eftir Vilhjálm Bjarnason » Þá koma eigendur verðlausra skulda- bréfa og bjóða upp í dans. Sá sem vill dansa þarf að greiða fimm milljarða til að félagið verði rekstrarhæft. Vilhjálmur Bjarnason Höfundur var alþingismaður.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.