Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 27.07.2016, Blaðsíða 20

Fréttir - Eyjafréttir - 27.07.2016, Blaðsíða 20
20 Eyjafréttir / Miðvikudagur 27. júlí 2016 Í ár eru liðin 30 ár frá Þjóðhátíðinni 1986, sem oft er kölluð „stóra Þjóðhátíðin“. Hún var stór á þeim tíma og sú stærsta þar til Herjólfur fór að sigla til Landeyjahafnar. Hún er sú eftirminnilegasta í minni minningu. Ég sá þá um fjármálin á Þjóðhátíðinni sjálfri og annað eins af peningum og ávísunum hafði ég aldrei séð. Þá voru ekki komin greiðslukort. Allt greitt með peningum og ávísunum. Einhverra hluta vegna var ekki farið með innkomuna á Þjóðhátíðinni í banka fyrr en á mánudeginum eftir. Hjónin Axel Ó Lárusson og Sigurbjörg Axelsdóttir, gegnheilir Þórarar, höfðu ákveðið að fara ekki í Dalinn þessa Þjóðhátíð, heldur vera heima. Buðust þau til að geyma alla peningana og ávísanirnar heima hjá sér framyfir Þjóðhátíð. Fór ég því til þeirra á nokkurra klukkustunda fresti með það sem komið var í peningakassann hverju sinni. Þau sögðu mér það eftirá, að peningana hefðu þau sett undir koddana á hjónarúminu sínu. Þau hafi hinsvegar átt erfitt með svefn, bæði höfðu þau áhyggjur af að hugsan- lega yrðu þau rænd, og svo hitt að koddarnir hefðu verið svo háir, að þau hefði nánast sofið upprétt, sem var víst ekki þægilegt. Hefðbundinn undirbúningur Undirbúningur fyrir Þjóðhátíðina 1986 var með hefðbundnum hætti. Það stefndi í þokkalegan gesta- fjölda. Snemmsumars var að mestu búið að ganga frá ráðningu skemmtikrafta. Dagskráin var hefð- bundin. Lúðrasveitin, hugvekja prests Landakirkju, Þjóðhátíðar- ræða sem Finnbogi Friðfinnsson átti að flytja, íþróttir, bjargsig og brúðubíllinn. Á kvölddagskránni áttu að vera meðal annars, Ómar Ragnarsson, frumflutningur á Þjóðhátíðarlaginu, Halli og Laddi, Bergþóra Árnadóttir, Siggi Gúmm, Jóhannes Kristjánsson og Snigl- arnir, bifhjólasamtök lýðveldisins. Á litla pallinum átti hljómsveitin Seðlar að spila og Sniglarnir og Stuðmenn áttu að spila á stóra pallinum. Og Árni Johnsen átti að sjálfsögðu að sjá um brekkusönginn á sunnudagskvöldinu og Bragi Steingrímsson að sjá um varðeld- inn, sem þá var leyfður framan við stóra sviðið. Þjóðhátíðarnefndina skipuðu Þór Vilhjálmsson, formaður, sem jafnframt var framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Með honum í þjóðhátíðarnefndinni voru; Þorsteinn Ingólfsson, Guðni Valtýsson, Gunnar Andersen, Sigurður A Sigurbjörnsson og Ásmundur Friðriksson. Merki Þjóðhátíðarinnar teiknaði Jói listó. Samið við Stuðmenn um prósentur af inngangseyri Samningar við skemmtikraftanna gengu þokkalega, það var helst að þrefað var nokkuð við hljómsveitina Stuðmenn. Þeir höfðu áður spilað á Þjóðhátíðinni 1982, þeirri frægu hátíð þegar kvikmyndin Með allt á hreinu var að hluta til tekin upp. Þá höfðu þeir þegar skrifað handritið að myndinni með Þjóðhátíðina í huga og voru því í þröngri stöðu að semja um greiðslu fyrir að spila á Þjóðhátíðinni sem Þjóðhátíðar- nefndin nýtti sér. Þótti Stuðmönnum þeir bera skarðan hlut frá borði. Þeir kunnu hinsvegar vel að meta velvild Þjóðhátíðarnefndar að fá að taka upp hluta kvikmyndarinnar í Dalnum og þá aðstoð sem þeir fengu. - Hljómsveitin var hinsvegar í allt annarri stöðu árið 1986. Þá var hún ein vinsælasta hljómsveit landsins. Þetta var árið þegar Gorbasjov og Reagan funduðu í Höfða og Stuðmenn nýttu sér þá athygli. Þá um vorið hafði hljómsveitin verið á ferð í Kína undir merkjum hljómsveitarinnar Strax og fengið mikið umtal. Stuðmenn þóttu eitt heitasta bandið um sumarið. Þeirra samningsstaða gagnvart Þjóðhá- tíðarnefnd þetta árið var því mjög sterk, fóru þeir fram á mun hærri greiðslu en Þjóðhátíðarnefnd var tilbúin að greiða. Niðurstaðan varð síðan sú, að þeir fengju fasta greiðslu og síðan prósentur af inngangseyri umfram 4500 gesti og aðeins hærri prósentu eða 6% ef gestafjöldinn færi yfir 6000. Voru báðir aðilar sáttir við þá niðurstöðu, þótt hún væri mjög óvenjuleg. Síðar átti Þjóðhátíðar- nefndin eftir að naga sig í handar- bökin yfir þessum samningi, en Stuðmenn hinsvegar í skýjunum af ánægju. Smyrill tekin á leigu Um mitt sumar fóru flutningsaðilar, Herjólfur og flugfélögin að verða varir við auknar pantanir á Þjóðhátíðina. Meiri eftirspurn en áður hafði verið. - Það var svo í byrjun júlí að Ferðaskrifstofa Vestmannaeyja gerði samning um leigu á Smyrli, farþegaskipi, sem var í eigu Strandfaraskipa landsins í Færeyjum. Var Smyrli ætlað að sigla milli Eyja og Þorlákshafnar fyrir og eftir Þjóðhátíðina. Engilbert Gíslason, framkvæmda- stjóri ferðaskrifstofunnar, sagði í viðtali við Fréttir að afhending skipsins yrði 30. júlí og því skilað aftur að kvöldi 6. ágúst. „Við fáum skipið afhent í Færeyjum og hyggjumst þar selja miða til Íslands, á Þjóðhátíðina. Lagt verður af stað kl. 20.00 um kvöldið og komið 17 tímum síðar til Seyðisfjarðar. Þar verður selt í skipið og eigum við von á að fylla það af Austfirðingum þar sem engin Atlavíkurhátíð er í ár. Frá Seyðisfirði verður farið beint til Eyja. Síðan er ætlunin að skipið verði í stanslausum ferðum á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar á meðan á Þjóðhátíðinni stendur. Á sunnudeginum er síðan ætlunin að bjóða gestum upp á a.m.k. tvær áhugaverðar skemmtisiglingar kringum Surtsey." Engilbert sagði að Smyrill tæki 800 farþega í einu og yrði tvo tíma að fara á milli lands og Eyja enda gangmikið skip. Engilbert bjóst við að farþegar með Smyrli yrðu allt að 6.000 manns. Stefndi í stóra Þjóðhátíð með tilkomu Smyrils Það var þá orðið ljóst, að allt stefndi í stóra Þjóðhátíð. Betri samgöngur hafa alltaf leitt til meiri ferða- mannastraums. Tilkoma Smyrils myndi örugglega leiða til þess að fólk sem hefði ekki hugleitt áður að koma á Þjóðhátíð vegna þess hve erfitt væri að komast á milli, kæmi nú. Einnig opnaði þetta fólki annarsstaðar en af SV-horni landsins, að koma hingað. Sér- staklega var þetta gott fyrir Austfirðinga, því dýrt væri að fljúga frá Austfjörðum til Vestmannaeyja og mikið fyrir því haft. Einnig væri þetta mikið öryggi ef flug félli niður vegna veðurs. Um 300 manns komu með Smyrli frá Austfjörðum. Það mátti líka finna á Vestmanna- eyingum vegna umræðunnar um þann fjölda sem von var á, að þeim fannst mörgum spennandi Þjóðhátíð framundan, og það sýndi sig líka að Vestmannaeyingar urðu óvenju margir á þessari Þjóðhátíð og hústjöldin hafa aldrei fleiri. Vegna þess fjölmennis sem búist var við á þessa Þjóðhátíð, kallaði sýslumaðurinn til fundar með Þjóðhátíðarnefnd. Vildi hann að fyrir lægi plan B, ef veður yrði slæmt þannig að hægt væri þá að hýsa alla þessa þjóðhátíðargesti sem ekki hefðu annað húsaskjól. Niðurstaðan varð sú að gera Völundarhúsið svokallaða við Tangaveg, sem þá stóð autt, klárt til að það gæti hýst veðurhrakta þjóðhátíðargesti ef þannig viðraði. Þá var talið að ef svo margt fólk yrði á Þjóðhátíðinni eins og stefndi í, yrði að dreifa fólkinu eins og hægt væri um Dalinn. Var því sett upp diskótek inn við vatnspóstinn, þar sem nú eru hús Palla Schevings og Hafdísar Kristjánsdóttur. Gömlu stýrishúsi af Þórunni Sveinsdóttur VE 401, var komið þar fyrir og Ragnar Sigurjónsson ráðinn diskótekari. Urgur í Herjólfsmönnum En leigan á Smyrli hafði sínar afleiðingar. Stjórn Herjólfs var ekki hrifin af þessari leigu. Á fundi í stjórn Herjólfs 15. júlí var ákveðið að segja upp samkomulagi við Ferðaskrifstofu Vestmannaeyja, sem gert var 1984. Magnús Jónasson framkvæmda- stjóri Herjólfs h/f staðfesti í samtali við Fréttir að stjórnin hefði samþykkt að segja upp samningi þessum á fundi sínum. Ekki vissi hann um framhaldið en sagði að allavega yrði um breytt fyrirkomu- lag að ræða í framtíðinni. Að- spurður hvort leigan á Smyrli hefði haft einhver áhrif á þessa ákvörðun stjórnarinnar, sagði hann það ekki hafa verið ótrúlegt að það hefði haft einhver áhrif. Einhverjir samskipta- örðuleikar hefðu verið þarna á milli og þetta hefði e.t.v. fyllt mælinn. Tekið skal fram að Herjólfur hf. var hluthafi í Ferðaskrifstofu Vest- mannaeyja. Engilbert Gíslason og Ásmundur Friðriksson hjá Ferðaskrifstofu Þjóðhátíðin 1986 fyrsta risahátíðin :: Fór langt fram úr björtustu vonum Gott veður, Stuðmenn og síðast en ekki síst Smyrill gerðu gæfumuninn GÍSLi VaLTýSSon gisli@eyjafrettir.is Þau voru ófá tjöldin í Herjólfsdal á Þjóðhátíðinni 1986. Mynd Sigurgeir Jónasson

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.