Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 27.07.2016, Blaðsíða 10

Fréttir - Eyjafréttir - 27.07.2016, Blaðsíða 10
10 Eyjafréttir / Miðvikudagur 27. júlí 2016 Nýverið útskrifaðist ég með mastersgráðu í Menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Í MA-ritgerð minni fjallaði ég um þjóðhátíð Vestmannaeyja, með undirtitlinum: Er lífið yndislegt á þjóðhátíð? Markmið mitt var að rannsaka viðhorf bæjarbúa í Vestmannaeyjum til hátíðarinnar og leitaðist ég við að fá svör við því hvers vegna hátíðin skiptir okkur svona miklu máli. Þegar ég stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun að finna efni til að rannsaka og fjalla um, var ég ekki lengi að ákveða mig. Þjóðhátíð er partur af lífinu hérna og á sér langa sögu sem menningarviðburður, sem sífellt fer stækkandi. Hún snertir hvern bæjarbúa á einn eða annan hátt og er stór partur af því að búa í Vestmannaeyjum og er einn af hápunktum sumarsins. Ég lagði upp með að varpa ljósi á þá afstöðu sem Eyjamenn hafa til hátíðarinnar, hvað varðar þátttöku og viðhorf til hennar. Ég taldi mikilvægt að átta mig á hver hugur Eyjamanna er til hátíðarinnar og hvernig má gera hana sem jákvæð- asta fyrir alla sem þangað mæta, ekki síst fyrir heimamenn. Án þeirra í Dalnum er þetta ekki sú hátíð sem hún hefur hingað til verið og alls ekki sú hátíð sem við viljum að hún verði. 644 svöruðu Megindlega rannsókn varð fyrir valinu og lagði ég könnun fyrir bæjarbúa í gegnum nokkrar netsíður á Facebook sem tengjast Eyjum. Svörunin stóð ekki á sér og svöruðu rannsókninni 644 einstaklingar frá aldrinum 13 ára og eldri, sem telst nokkuð gott svarhlutfall. Langar mig að nota tækifærið að þakka þeim sem sáu sér fært að svara könnuninni. Könnunin samanstóð af 24 spurningum er varðar m.a. þátttöku og afstöðu Eyjamanna til hátíðarinnar. Að auki var gefinn möguleiki á að svara opnum spurningum og hafði ég ákaflega gaman af þeim svörum sem komu þar fram, þar sem flest svörin voru ákaflega jákvæð og skemmtileg. Taldi ég mikilvægt að stýra verkefni mínu þannig að raddir þeirra sem búa í Vestmannaeyjum fái að heyrast í sambandi við hátíðina og hvort einhverju megi breyta og einnig ef einhver óánægja væri þar áberandi. Með því að átta sig betur á þeim áhrifum sem hátíðin hefur á bæjarbúa gætu hátíðarhaldarar ef til vill nýtt sér skoðanir þeirra í framhaldinu og unnið að því að gera hátíðina sem ánægjulegasta fyrir alla. Ég taldi rannsókn af þessu tagi gæti upplýst þá sem halda hátíðina, hvernig standa megi betur að henni og þá með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Almennt ánægðir Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að þátttakendur rannsóknarinnar séu almennt ánægðir með hátíðina. Þeir vilja þó sjá einhverjar breytingar á skipulagi hennar. Flestir eru andvígir frekari fjölgun gesta á þjóðhátíð og var áberandi í svörun þátttakenda að þeir vilji sjá hátíðina meira fjölskyldutengda. Afgerandi meirihluti þátttakenda hefur áhuga á þjóðhátíð og telur viðhorf Eyja- manna jákvætt eða frekar jákvætt. Tengsl voru á milli þess hve lengi fólk hefur búið í Vestmannaeyjum og fjölda ára sem það hefur farið á þjóðhátíð. Meirihlutinn á í engum erfiðleikum með að sleppa þjóðhátíð en telja hana þó mikil- væga fyrir sig persónulega. Mikilvæg samfélaginu Eitt af því sem stóð uppúr í rannsóknarniðurstöðum eru ummæli þátttakenda um ánægju sína á hátíðinni og nefna í því samhengi stemninguna, samveruna með fjölskyldunni, hefðirnar og þá gleði sem hátíðin veitir. Meirihluti þátttakenda ætlar að vera á næstu Þjóðhátíð og nánast allir sem tóku þátt telja hana vera komna til að vera. Flestir þeir sem tóku þátt telja hátíðina mikilvæga samfélaginu og slæm umfjöllun í fjölmiðlum virðist fara fyrir brjóstið á Eyjamönnum og telja þeir að þar megi verða stórvægileg breyting á. Umfjöllunin sé neikvæð og gefi ekki rétta ímynd af hátíðinni út á við. Þeir telja að bæta megi úr for - vörnum, ásamt því að bæta megi úr samgöngum inn og út úr Dalnum og takmarka megi bílaumferð. Salernismálin voru áberandi þegar kom að því að svara í hverju þátttakendur vildu sjá breytingar. Þeir vilja aukna gæslu, fleiri salerni hjá aðkomutjöldunum og að salernin sem eru undir sviðinu séu nýtt fyrir fjölskyldufólk, á meðan börnin eru með í Dalnum. Þátt- takendur rannsóknarinnar óska eftir ódýrari miðum í Dalinn fyrir heimafólk og einnig að það sé ódýrara fyrir aldurshópinn 15 til 17 ára, þar sem þeir hafa takmarkaðan aðgang í Dalinn, sökum aldurs. Of mikið af tónlistaratriðum Margir vilja sjá breytingar á dagskránni og þá með tilliti til barnanna. Þátttakendur telja að ef um fjölskylduhátíð sé að ræða, sé nauðsynlegt að hafa áhugaverða dagskrá fyrir alla aldurshópa. Of mikið sé af tónlistaratriðum og að eitthvað vanti fyrir ákveðinn aldurshóp sem eru unglingar á aldrinum 12 til 17 ára. Nokkrir nefndu að gaman væri að sjá meira af atriðum frá Eyjamönnum sjálfum, þar sem Eyjarnar hafa að geyma marga efnilega lista- og tónlistarmenn. Þeir nefndu að hátíðin hefur tekið þó nokkrum stakkaskiptum hin síðustu ár þar sem hátíðin hefur undið upp á sig, hvað varðar markaðssetningu sem síðan skilar sér í auknum fjölda þeirra sem mætir á hátíðina. Slíkt er í sjálfu sér góð þróun en þó er nauðsynlegt að hafa varann á, því Vestmannaeyjar verða að hafa burði til þess að taka á móti þeim fjölda sem hingað vilja sækja. Aldrei er uppselt og því oft á tíðum margt um manninn í Herjólfsdal. Þessar áhyggjur mátti greina í niðurstöðum rannsóknar- innar. Aðrar breytingar telja þátttakendur ekki svo mikilvægar. Veitir gleði og ánægju Jákvæðu áhrif þjóðhátíðar á íbúa Vestmannaeyja er án efa sú gleði og spenna sem margir upplifa þegar þjóðhátíðin nálgast. Þjóðhátíð virðist veita flestum þátttakendum rannsóknarinnar einhverja gleði og ánægju. Flestir eru sammála um að samvera með fjölskyldu og vinum sé hvað jákvæðast við þjóðhátíð og að þær hefðir sem skapast hafa í áranna rás fái að halda sér. Að sitja saman í brekkunni, njóta stundanna í hvítu tjöldunum með vinum og ættingjum, er eitthvað sem veitir ánægjulega upplifun fyrir þá sem taka þátt í gleðinni af lífi og sál og fylgir því að mæta á þjóðhátíð. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að þátttakendur telji hátíðina ómissandi lið í hinum árlegu viðburðum fjölskyldunnar og telja hana fjölskylduhátíð og að kostir hennar séu mun fleiri en gallarnir. Þeir segja hana tengda menningu Vestmannaeyja og muni verða haldin í Herjólfsdal um ókomna tíð. Meira en helmingur þeirra sem tóku þátt í rannsókninni segist ætla að mæta á næstu Þjóðhátíð, sem telst jákvætt fyrir skipuleggjendur hátíðarinnar og sýnir að Vestmannaeyingar hafa jákvætt hugarfar í sambandi við hátíðina sem er ánægjuleg niður- staða. Það má segja að niðurstöð- urnar hafi ekki komið á óvart og að lífið sé í raun yndislegt á þjóðhátíð. Gleðilega hátíð. Sigrún Alda Ómarsdóttir :: Þjóðhátíð Vestmannaeyja: Er lífið yndislegt á þjóðhátíð? „Í mínum huga er þjóðhátíðin svo margt. Hátíðin er upplifun sem erfitt er að lýsa fyrir þeim sem ekki hafa kynnst henni. Undirbúningurinn byrjar mörgum vikum fyrr og tilhlökkunin gerir vart við sig. Einn liðurinn er Þjóðhátíðarlagið sem beðið er eftir á hverju ári, þær eru margar dægurlagaperlurnar sem hafa verið Þjóðhátíðarlög í upphafi. Umgjörðin – Herjólfsdalur þessi fallegi staður sem umfaðmar hátíðina svo vel,“ segir Þórdís Úlfarsdóttir útisbússtjóri Íslands- banka í Vestmannaeyjum. „Sagan er svo sterk, þjóðhátíðin hefur verið haldin 140 sinnum og enn í dag er haldið í hefðirnar. Setningin á föstudeginum er hátíðleg stund, flestir mæta prúðbúnir og eftirvæntingin liggur í loftinu. Tjaldlífið er stór hluti af þjóðhátíðinni, fjölskyldur sameinast um tjöld og allir boðnir velkomnir. Hátíðarkaffið í tjaldinu að setning- arathöfninni lokinni er einn af hápunktunum að mínu mati. Brennan á Fjósakletti en einn af föstu liðunum, það er tignarlegt að sjá logana stíga til himins á föstudagskvöldinu. Flugeldasýn- ingin á laugardeginum er alltaf tilkomumikil og óskiljanlegt hvernig hægt er að toppa hana á hverju ári. Brekkusöngurinn á sunnudags- kvöldinu þar sem allir koma saman og syngja við varðeldinn, hver með sínu nefi. Þegar þjóðsöngurinn ómar svo ekki sé talað um lagið hans Hreims „Lífið er yndislegt“ og blysin eru tendruð í brekkunni og lag Fjallabræðra „Þar sem hjartað slær“ hljómar svo kröftugt þá hríslast um mann einhver ólýsan- legur hrollur svo mögnuð er leikmyndin. Þjóðhátíð er fjölskylduhátíð, þar fyrirfinnst ekkert kynslóðabil. Þórdís ásamt fjölskyldunni í kaffiboði við tjaldið á Þjóðhátíð. Þórdís Úlfarsdóttir útisbússtjóri Íslandsbanka: Þá hríslast um mann ólýsanlegur hrollur svo mögnuð er leikmyndin Sigrún Alda í Dalnum ásamt manni sínum, Sveini Ásgeirssyni.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.