Fréttir - Eyjafréttir

Tölublað

Fréttir - Eyjafréttir - 27.07.2016, Blaðsíða 24

Fréttir - Eyjafréttir - 27.07.2016, Blaðsíða 24
24 Eyjafréttir / Miðvikudagur 27. júlí 2016 Unnar Gísli Sigurmundsson, betur þekktur sem Júníus Meyvant, hefur slegið rækilega í gegn á Íslandi með hverjum smellinum á fætur öðrum. Ævintýrið hófst með laginu Color Decay árið 2014, sem var til að mynda útnefnt besta lag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið eftir. Einnig var Unnar Gísli valinn bæjarlistamaður Vestmannaeyja árið 2016 fyrir framlag sitt. Fékk hann einnig Fréttapíramídann fyrir framlag til menningar í Vestmanna- eyjum í janúar sl. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, tónleika- ferðalög um Evrópu og ný plata svo eitthvað sé nefnt. Þá kom hann fram á Hróarskeldu í sumar sem verður að teljast stór áfangi. Fyrsta breiðskífa kappans, Floating Harmonies, kom út 8. júlí síðast- liðinn sem er einnig afmælisdagur konu hans sem er engin tilviljun eða hvað? „Sko, ég vil vera maðurinn sem segir að þetta hafi allt verið planað en þetta var ekki planað. Þetta bara hittist þannig á og hún veit það en ef að hún hefði ekki vitað það þá myndi ég segja að þetta væri planað. Þetta er frábært að vissu leyti en ég hefði kosið annan dag því þetta var ömurlegur afmælisdagur fyrir konuna mína. Ég var í sex viðtölum þennan dag, líklega í sex klukkustundir og hafði hálftíma til þess að borða með henni um kvöldið,“ sagði Unnar sem stefnir á skemma afmælisdag sonarins með næstu plötu sinni. Sala á plötunni hefur almennt verið góð en sjálfur segist hann ekki fylgjast nógu vel með í þeim efnum. „Við erum komnir á top 100 lista á Itunes í Þýskalandi veit ég, sem er mjög gott. Það er líka eitthvað að gerast á Itunes í Bandaríkjunum. Svo er túristinn duglegur að kaupa og sömuleiðis Íslendingar.“ Danir áhugasamir Platan er bæði til á Vínyl og geisladisk en mikill uppgangur hefur verið á vínylplötunni að undanförnu og segir Unnar ungu kynslóðina vera meira að versla hana. Aðdáendurnir koma víða að og er áhugi Dana áberandi. En óvæntur áhugi frá Litháen kom honum skemmtilega á óvart. „Þeir koma oft til Þýskalands, bara einhver hópur frá Litháen, ég lenti bara allt í einu í fullt af Litháum sem vissu allt um mig. Mér fannst það dálítið fyndið.“ Tónlist Júníusar Meyvants hefur verið flokkuð sem einhverskonar þjóðlagapopp og segist hann svo sem ekkert ósáttur við þá skilgrein- ingu. „Ég ætlaði bara að gera plötu þar sem 60´s og 70´s „soundið“ hittir okkar tíma, það var mitt markmið. Síðan er þetta blanda af sálartónlist, fönki og þjóðlaga- tónlist. Þú getur sagt í rauninni allt, ég verð ekkert reiður. Innblásturinn er svona soul, blús, jazz, kvik- myndatónlist, allt frá 1940 til 1970.“ Lengi að taka það upp En áttu þér einhvern uppáhalds tónlistarmann? „ Lengi var það Bob Dylan en ég hlusta ekkert mikið á hann í dag. Dylan fór yfir svo margt og tók svo mörg tímabil, skemmti- legir textar og tóndæmi frá honum.“ En hið fullkomna „sound“ er eilífur eltingarleikur ef marka má lýsingar Unnars af upptökum lagsins Color Decay. „Ég var lengi að taka það upp, lengi að finna „soundið“. Oft finnur maður hvert maður vill fara þegar maður kemur lagi í útvarpið fyrst, maður þarf að hljóðgreina eftir því lagi. Ég var ekkert voðalega ánægður með „soundið“ í Color Decay þegar það kom út fyrst, ég finn alltaf mikið að hlutunum, en síðan lærði ég að sætta mig við það.“ Ertu erfiður í stúdíó? „Já, ég er ömurlegur gaur. Ég er þessi týpa sem veit nákvæmlega hvað hann vill ekki en veit ekki nákvæmlega hvað hann vill. Ég er mjög erfiður en samt rólegur, ég á bara erfitt með að loka hlutunum.“ En ertu ánægður með lokaniður- stöðuna? „Ég er sáttur. Ég sé samt í hverju einasta lagi eitthvað sem ég hefði vilja hafa öðruvísi.“ Túrað um Evrópu Í janúar tók Unnar túr með bróður sínum Guðmundi um Evrópu sem taldi um 20 daga, en þar stoppuðu þeir m.a. í Danmörku, Englandi og Frakklandi. Í haust er stefnan hins vegar sett á 24 daga túr þar sem fjórir hljófæraleikarar munu ferðast með honum. Ljóst er að þessi túr verður stærri í sniðum en hingað til og verður fjöldi áfangastaða í takt við það. Meðal þeirra nefnir Unnar Austurríki, Sviss, Danmörk, Holland, Þýskaland, England og Frakkland. „Við verðum í fyrsta skiptið á rútu, sofum í henni. Nú verður tekið á því,“ segir Unnar sem snögglega dregur úr þeim áformum. „Nei, við verðum örugglega bara í tölvunni allan daginn og gleymum tónleik- unum.“ Að öllu gamni slepptu þá er Unnar gríðarlega sáttur við þetta fyrir- komulag enda miklir kostir sem því fylgir. „Ef þú ert með rútu þá keyrir bílstjórinn bara á nóttunni, við sofum bara og vöknum á nýjum stað. Síðustu túrar hafa bara verið þannig að þú kemur inn í bæinn þar sem spilað er, spilar, ferð strax upp á hótel og gengur frá dótinu, ferð að sofa og vaknar eldsnemma næsta morgun, keyrir í átta tíma og rétt nærð hálftíma hvíld áður en þú ferð aftur að spila. Þvílík keyrsla. En núna verður þetta mjög „sweet“. En hvernig er fjárhagurinn eftir svona ferðalag? „Við förum í stóran mínus á svona túr en við söfnum styrkjum, náum að halda vel heppnaða útgáfutónleika og þá erum við í góðum málum. Við fáum alveg góðar greiðslur en það hverfur þarna úti. Við þurfum t.d. að hafa bílstjóra og rútu, ferðin út og aftur heim kostar sitt. Við þurfum að halda okkur uppi í fæði, borga allskonar tolla og múta fólki,“ segir Unna og hlær. „Það þarf að borga strákunum líka, til að gera alla ánægða þá fá allir borgað sem er gott.“ Bræðraband Eins og margoft hefur komið fram þá er Unnar með tvo bræður sína með sér í bandinu, áðurnefndur Guðmundur og svo Ólafur Rúnar, en þeir sjá um allt sem lýtur að hljómborðunum. „Guðmundur er alltaf númer eitt á lista, það er svo létt að svíkja hann. Maður réttir honum 500 krónur og segir, „hérna eru launin þín, þetta er taxtinn í dag“ og hann er bara sáttur.“ Ásamt bræðrunum eru í bandinu þeir Árni og Kristófer Rodriguez, sá fyrri á bassa og sá síðari á trommur. „Það hefur bæði kosti og galla að vera fimm í stað þess að vera tveir,“ segir Unnar. „Þegar við vorum tveir var þetta rosa mikið chill, ég bara spilaði og Guðmundur sá um að selja plötur og stilla upp fyrir mig. Það er líka léttara að ákveða hvað á að borða, Guð- mundur borðar allt, skurnina af egginu, banahýðið og allt. Núna þegar við erum fimm þá fara svona tveir tímar á dag í að rökræða hvað á að borða, sem er lúxusvandamál.“ Er show-maður Tíð og löng ferðalög hljóta að taka sinn toll á fjölskyldulífið, er þetta kannski bara eins og að vera sjómaður? „Ég er show-maður ef þú veist hvað ég meina, en jú þetta er eins og að vera sjómaður, þú túrar og kemur síðan heim og þá er kominn nýr karl á heimilið og þú þarft að henda honum út,“ segir Unnar og hlær.“ „Eins og er þá fæ ég ekki eins góð laun og sjómaður en ef þetta fer einhvert þá fæ ég betri laun en sjómaður, þú þarft að vera fáránlega vel heppnaður í þessum bransa til að fá það mikinn pening. Flestir eru að ströggla, sama hvað menn fá mikið „reviews“ á Spotify. Tónlistamaður sem er semi vel þekktur er ekkert að baða sig í peningum. Ég lifi t.d. á því að spila einn hér og þar, það eru svona mín laun í dag. Ég reyni að lifa á því og svo fer restin í sveitina, til að halda okkur gangandi.“ Húið á Hróarskeldu Unnar segir þetta snúast mikið um hvort makinn styðji mann eða ekki. „Konan mín styður mig og það gerir þetta mun einfaldara. Ef hún væri alltaf að röfla, að ég væri aldrei heima þá myndi þetta náttúrulega taka sinn toll.“ Hróarskelduhátíðin fór fram í lok júní og spilaði Júníus Meyvant þar á fimmtudagskvöldinu á þriðja stærsta sviðinu, Pavilion. Unnar segir að þeir hafi ekki mikið verið að blanda geði við aðrar hljóm- sveitir baksviðs og að súkkul- aðimoli með andlitinu hans hafi eiginlega staðið upp úr. Það var greinilega ekki ónýtt að vera Íslendingur um þessar mundir því EM í Frakklandi var í fullum gangi. „Það fór örugglega helmingurinn af tónleikunum í að gera íslenska víkinga húh-ið, fólk vildi það eftir hvert einasta lag. Þarna var hype-ið í hámarki, við nýbúnir að vinna Englendinga. Síðan eyðileggur það ekki fyrir að ég er með mikið skegg og lubba.“ Unnar hélt síðan til Frakklands til sjá íslenska landsliðið etja kappi við heimamenn en komst ekki fyrr en eftir hálftímaleik eins og svo margir en kveðst þó ekki hafa verið mjög sár yfir því. Heiður að spila á þjóðhátíð Júníus Meyvant kemur einnig fram á Þjóðhátíð í ár og stígur á stokk klukkan tíu laugardagskvöldið. Unnar segir það fyrst og fremst mikinn heiður að fá að spila á Þjóðhátíð, fyrir framan sitt heimafólk en um leið gerir hann sér grein fyrir að undirtektirnar verði líklega meiri hjá öðrum lista- mönnum. „Það vita það allir að Þjóðhátíð er eins og stórt ball, Jón Jónsson, Friðrik Dór, Land og Synir, eitthvað sem allir geta sungið með, það er Þjóðhátíð. Ég verð ekki fyrir miklum vonbrigðum ef það verður ekki sungið jafn mikið með mér og „skál fyrir þér“ með Friðriki Dór.“ Vinna sem tónlistarmaður Hver eru næstu skref hjá Júníusi Meyvant, hver eru markmiðin? „Það er bara að gefa út aðra plötu og vinna sem tónlistarmaður. Mitt markmið er bara að byggja upp nafnið svo ég geti haft þetta sem vinnu. Ég vil gera betri tónlist og finna hið fullkomna lag sem er ekki til. Ef mér gengur vel þá gengur einhverjum öðrum vel, ég ryð kannski braut fyrir aðra og gef öðru fólki vinnu í kringum batteríið mitt ef það stækkar. Að reyna er númer eitt, tvö og þrjú í staðinn fyrir að fara að væla og deyja út af því að lífið er stutt og svo lengi sem ég er ekki að troða yfir eitthvað annað fólk þá er ég að gera réttan hlut,“ segir Unnar Gísli en rétt er að minna á að formlegir útgáfutón- leikar verða í Háskólabíó 27. ágúst næstkomandi og síðan í Höllinni í Vestmannaeyjum eftir Evróputúrinn í september en það er ekki komin föst dagsetning á þá tónleika. Unnar Gísli með mörg járn í eldinum :: Þjóðhátíð :: Ný plata :: Tónleikaferðalög um Evrópu Innblásturinn er soul, blús, jazz og kvikmynda- tónlist frá 1940 til 1970 :: Breiðskífan Floating Harmonies gengur vel :: Ömurlegur gaur í stúdíói :: Veit hvað ég vil en veit það ekki Einar KriSTinn HELGaSon frettir@eyjafrettir.is Hluti hljómsveitarinnar Júníus Meyvant á Þjóðhátíð 2015. Frá vinstri Árni Magnússon, þá koma bræðurnir fjórir Einar, Unnar Gísli, Guðmundur Óskar og Ólafur Rúnar Sigurmundssynir, þá næst Kristófer Rodriguez og Snorri Sigurðsson.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.