Morgunblaðið - 07.06.2019, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 7. JÚNÍ 2019
Við Solla fengum Baughól 2 en
Hulda systir og Ómar Baughól
8. Allar götur síðan – í 45 ár –
hafa þau heiðurshjón farið hjá
eldhúsglugganum okkar, ýmist
akandi eða gangandi, tvö ein,
með börn sín, síðar barnabörn
og að lokum barnabarnabörn.
Ferðir systur minnar upp heim-
keyrsluna verða hins vegar ekki
fleiri og við munum sakna þess
að sjá hana ekki skunda
framhjá, á leið í sund eða kraft-
göngu.
Hulda var mikil útivistar- og
sundkona. Hún var félagsvera
og hló bæði hátt og innilega með
öðrum. Hún var barngóð, bónfús
og góður nágranni. Hún var líka
hörkutól og ekki vön að kveinka
sér. Þegar það breyttist skyndi-
lega fyrir fáeinum mánuðum
mátti öllum vera ljóst, að systir
mín væri mikið veik. Það kom
líka á daginn og veikindin færðu
hana í annan heim á aðeins
nokkrum vikum.
Huldu minnist ég með mikilli
hlýju og væntumþykju. Hún var
stóra systir mín, þremur árum
eldri og vitrari en ég. Við vorum
ekki alltaf sammála, gátum
meira að segja tekist hressilega
á, en virðing mín fyrir henni var
ósvikin.
Það var viðeigandi að Húsa-
vík skartaði sínu fegursta þegar
fáni var dreginn í hálfa stöng
Huldu til heiðurs, morguninn
eftir andlát hennar. Henni
fannst Húsavík fegursti staður í
heimi, þar sem sól skini bjartar
en annars staðar og rigningin
gerði loftið svo einstaklega tært.
Vafalaust er það rétt hjá henni
en hitt er ljóst að bærinn okkar
verður ekki samur án hennar.
Við Solla þökkum samfylgd-
ina og vottum Ómari og fjöl-
skyldu samúð okkar.
Pétur Óskar.
Við kveðjum þig með tregans þunga
tár
sem tryggð og kærleik veittir liðin ár.
Þín fórnarlund var fagurt ævistarf
og frá þér eigum við hinn dýra arf.
(Guðrún Jóhannsdóttir)
Elsku Hulda. Þú varst okkur
bæði ljóst og leynt ljósberi á alla
vegi.
Hjartans þakkir fyrir allt,
elsku systir og frænka.
Ásdís, Aníta og Dögg.
Það þarf fólk eins og þig,
fyrir fólk eins og mig
…
(Rúnar Júlíusson)
Þegar ég hugsa til elsku syst-
ur minnar Huldu koma þessi orð
upp í hugann.
Hún hvarf svo snögglega af
sjónarsviðinu og eftir stöndum
við hnípin og hálfrugluð.
Hulda tókst á við mjög erfið
og snörp veikindi sem gátu ekki
endað nema á einn veg. Það var
erfitt að fylgjast af vanmætti
með henni takast á við svo
grimman sjúkdóm, hún var svo
máttug og máttvana í senn en
nú er hennar baráttu lokið.
Stundirnar verða litlausari án
Huldu okkar, það streymdi frá
henni orka, það stafaði frá henni
hlýja, hún hafði einstaka nær-
veru, kærleiksrík og sönn
kjarnakona sem fyllti upp í rým-
ið hvar sem hún kom.
Samverustundirnar voru
margar og góðar alla tíð og allt-
af mikil tilhlökkun að heimsækja
Huldu og Ómar á Baughólinn
þar sem ætíð var boðið það
besta og maður dekraður á allan
hátt. Hulda var mikill höfðingi
heim að sækja og oft margt um
manninn.
Henni var svo eiginlegt að
gefa að hún vissi ekki hvenær
hún gaf.
Huldu var einstaklega lagið
að færa tímann aftur á bak þeg-
ar hún lét minnið og frásagnar-
gáfuna njóta sín og einnig höfð-
um við gaman af að kíkja inn í
framtíðina með því að hvolfa
bolla. Hún á margan gullmolann
og skemmtileg tilsvör sem lifa
svo sterkt í minningunni að það
er erfitt að sleppa takinu og
heyra ekki í henni framar.Hulda
átti því láni að fagna að eiga
Ómar að lífsförunaut, afburða-
mann sem var henni yndislegur
eiginmaður, sálufélagi og vinur.
Barnahópurinn þeirra ber
þeim fagurt vitni og voru börnin
fimm ávallt í fyrsta sæti. Svo
bættust tengdabörn í hópinn,
enn stækkaði hópurinn og
barnabörnin og barna-barna-
börnin fæddust, öll jafn velkom-
in og mun þessi hópur stækka
enn frekar og afkomendum
fjölga.
Ég þakka yndislega vináttu
og væntumþykju og fallega
brosið, lífsskrautið verður ein-
hvern veginn fátæklegra eftir
hennar dag og hennar verður
sárt saknað.
Ég trúi því að það hafi verið
tekið vel á móti Huldu á öðru
tilverustigi og mamma og pabbi
séu henni við hlið.
Fjölskyldan sá til þess að
Hulda væri aldrei ein í hennar
veikindastríði og var oft fjöl-
mennt við rúmið hennar á
krabbameinsdeild 11E Land-
spítala háskólasjúkrahúsi þar
sem hún naut einstakrar
umönnunar.
Það sýnir hversu mikið hún
átti inni af góðvild og kærleik
sem fólk vildi gjarnan fá að
endurgjalda.
Á sárri skilnaðarstundu
kveðjum við Óli Huldu með
þakklæti fyrir samfylgdina og
vottum Ómari, Hólmfríði Lillý,
Skarphéðni, Sólveigu, Ómari
Gunnari, Birki Vagni og fjöl-
skyldum þeirra okkar dýpstu
samúð.
Hversvegna er leiknum lokið?
Ég leita en finn ekki svar.
Ég finn hjá mér þörf til að þakka
þetta sem eitt sinn var.
(Starri í Garði)
Hólmfríður (Hoffa systir).
Krjúptu að fótum friðarboðans
og fljúgðu á vængjum morgunroðans
meira að starfa guðs um geim.
Elsku systir, þessar fallegu
ljóðlínur Jónasar Hallgrímsson-
ar komu upp í huga minn er ég
hugleiddi hver tilgangurinn
væri með því að taka þig frá
okkur svona fljótt og svo harka-
lega sem raun bar vitni. Taka
þig burt frá Ómari þínum, börn-
um ykkar, tengdabörnum og
ömmubörnunum sem öll unnu
þér svo heitt. Helst fannst mér
að hann sem öllu ræður hafi
vantað traustan og góðan
starfsmann til að sinna dægra-
dvöl þarna í Sumarlandinu og til
þess hefði hann ekki getað feng-
ið betri manneskju. Ég sé fyrir
mér að vel hafi verið tekið á
móti þér, ég sé Eymund minn
með bros á vör, mömmu og
pabba, Skarphéðin minn, allt
það góða fólk sem þú hugsaðir
svo vel um á Skógarbrekku og
marga fleiri, umvefja þig við
komuna til þeirra. Taka þig
burt frá Víkinni okkar fögru,
sem þú unnir svo heitt, Sund-
lauginni, Sjóböðunum sem þú
ætlaðir svo sannarlega að njóta,
göngutúrunum, Sólseturskórn-
um, fótboltaleikjunum hjá nöfnu
þinni og Elfu Mjöll, ferðalag-
anna með fjölskyldunni o.fl. Já,
þú ætlaðir að njóta efri áranna
með öllu þínu góða fólki. Það er
svo margs að minnast og margs
að sakna. Mér er efst í huga
þakklæti fyrir öll góðu árin í
gegnum tíðina, þakklæti fyrir
umhyggju þína við Eymund
minn í hans veikindum og veit
ég að Kristján og Ásta Eir voru
þér og ykkur Ómari óendanlega
þakklát fyrir þá umhyggju.
Ég votta Ómari þínum, sem
við ætlum að reyna að halda vel
utan um, börnum ykkar,
tengdabörnum og ömmubörnun-
um öllum mína innilegustu sam-
úð. Missir okkar allra er mikill
en þeirra missir er mestur. Góða
ferð, elsku systir, þú flytur
kveðju mína.
Að lokum set ég hér inn ljóð
sem mér finnst eins og Davíð
Stefánsson hafi samið um þig.
Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna
og varst þér sjálfri hlífðarlaus og
hörð.
Þú vaktir yfir velferð barna þinna,
þú vildir rækta þína ættarjörð.
Frá æsku varstu gædd þeim góða
anda,
sem gefur þjóðum ást til sinna landa,
og eykur þeirra afl og trú,
en það er eðli mjúkra móðurhanda
að miðla gjöfum eins og þú.
Sjáumst síðar, þín systir
Lilja.
Elsku tengdamamma, við
kveðjumst nú að sinni. Mikið á
ég eftir að sakna þín, þú sem
hefur verið svo stór hluti af lífi
mínu og fjölskyldunnar.
Mér er svo minnisstætt þegar
við hittumst fyrst á Húsavík,
milli jóla og nýárs fyrir næstum
18 árum. Þið tengdapabbi stóð-
uð í heimreiðinni og buðuð mig
hjartanlega velkomna. Heimilið
var svo fallegt og þú hafðir ein-
stakt lag á að láta fara vel um
gestina þína; straujuð rúmföt,
fallegu smákökurnar, hand-
skorna laufabrauðið, lambalund-
irnar, rauða sósan og súkku-
laðifrómasinn. Myndarskapur og
einstakt handbragð einkenndi
þig alla tíð.
Þú hefur alltaf sýnt okkur
einstaka væntumþykju, áhuga
og traust. Þegar stelpurnar
fæddust komst þú til að heyra
fyrsta grátinn, bakaðir og
smurðir flatbrauð þegar hátíð-
isdagar voru í fjölskyldunni.
Þegar ég var að fara í próf
kveiktir þú á kerti og baðst fyrir
mér, enda gekk mér alltaf vel.
Eftir að við fluttum til Svíþjóðar
þótti mér svo vænt um það þeg-
ar þið tengdapabbi heimsóttuð
okkur reglulega og voruð í
lengri tíma. Þá fórum við í ár-
lega pílagrímsför til Kaup-
mannahafnar á janúarútsölurn-
ar, fengum okkur „smørtebrød“
í Torvehallerne og dásömuðum
góssið sem við vorum með í pok-
unum. Þú varst mikill fagurkeri
og vildir aðeins það besta.
Þú hafðir mjög gaman af því
að ferðast og þær eru ófáar
skemmtiferðirnar sem við fórum
saman; þér fannst dásamlegt að
sitja i sólinni og fara í sund,
sagðir að það væri lækningar-
máttur í vatninu.
Ég dáðist að því hvað þú
varst óhrædd að standa á þínu
og standa með lítilmagnanum
þótt það væri í mótvindi. Þú
hreyktir þér þó aldrei af verkum
þínum, mættir fólki sem jafn-
ingjum og reyndir að sjá styrk-
leika þess. Í veislum varstu
óhrædd að koma fram, ávarpa
gestina með fallegum orðum eða
söng. Þú varst vön að segja „ég
geri þetta bara eins fallega og
ég get“ og það gerðir þú svo
sannalega. Þú kvaddir okkur
alltof snemma og söknuðurinn
er afar þungbær. Ég sá alltaf
fyrir mér að þú yrðir háöldruð
og myndir ferðast með okkur til
fjarlægra landa enda lifðir þú
heilbrigðu lífi alla tíð. Ég trúi
því að þú verðir með okkur alla
tíð þó að þú sért horfin sjónum
okkar.
Hvíldu í friði, Hulda mín.
Þín tengdadóttir
Hulda Rósa.
Hulda vinkona mín hafði
sterkan persónuleika og lá ekki
á skoðunum sínum. Hún trúði að
holl hreyfing og útivera væri
góð fyrir líkama og sál og stund-
aði því sund eða göngutúra
flesta daga og oftast hvort
tveggja, alla vega þá daga sem
minna var umleiki hjá henni.
Í heita pottinum hafði hún
gjarnan orðið og réð þeim mál-
efnum sem um var rætt og stóð
skemmtilega fast á sínu. Henni
lá hátt rómur og fólk heyrði ekki
bara skoðnir hennar og viðhorf
heldur lét hún viðmælendur sína
líka finna að hún meinti það sem
hún sagði. Hulda kom úr stórum
systkinahópi og fékk þá skóla-
göngu sem algengust var á upp-
vaxtarárum hennar. Hún hefur
örugglega þráð meiri menntun
og hefði sómað sér vel sem
hjúkrunarfræðingur eða á þeim
starfsvettvangi, því þar átti hún
sína sterkustu hlið. Umönnun
sjúkra og aldraðra var hennar
lífsstarf, ásamt heimilisstörfun-
um því Hulda var líka mynd-
arleg húsmóðir og lagði sig þar
alla fram. Að gera hlutina vel
var hennar stíll.
Hulda fór snemma að búa og
börnin komu hvert af öðru, alls
urðu þau fimm. Hún lagði ríka
áherslu á menntun þeirra. Þau
skyldu njóta þess sem hún fór á
mis. Ég hreifst með og mér lík-
aði best við Huldu þegar hún
tjáði sig um mikilvægi mennt-
unar, því aðeins með henni gætu
afkomendur hennar tryggt sér
öruggan og góðan starfsframa,
eða vinnu sem gæfi vel og
tryggði fjölskyldu þeirra góða
afkomu.
Ég votta Ómari eiginmanni
Huldu samúð mína, einnig börn-
um, tengdabörnum og öllum af-
komendum hennar, systkinum
hennar og vinum og vanda-
mönnum. Hulda var litrík og
skemmtileg kona sem við eigum
öll eftir að sakna.
Kristín Sigurðardóttir.
Vorið er komið og gróður all-
ur að taka við sér, farfuglar í
hreiðurgerð og nótt bráðum al-
björt. Þá dregur ský fyrir sólu
þegar góð vinkona mín hún
Hulda kveður þetta líf, allt of
snemma, eftir stutt en erfið
veikindi. Langar mig í örfáum
orðum að minnast Huldu, eða
„nöfnu“ eins og við gjarnan
nefndum hvor aðra, og þakka
henni fyrir áralanga vináttu og
hlýju á samferð okkar í svo
mörgu gegnum lífið.
Hulda var dugleg kona með
góða nærveru. Hún var mikil
húsmóðir, mamma og amma
sem var ætíð svo stolt af stóra
hópnum sínum. Ég var svo
heppin að vinna með henni á
Sjúkrahúsinu á Húsavík í mörg
ár og einstakt að fylgjast með
hvernig hún annaðist fólk þar
með sinni góðvild og hlýju.
Ég minnist skemmtilegu
göngutúranna okkar á árum áð-
ur, upp í skógrækt, norður leitið
og þá voru málin rædd og
krufin. Mikið sem ég á eftir að
sakna allra löngu símtalanna
okkar elsku nafna mín, sem voru
ómissandi hluti af hversdagslíf-
inu og okkar góðu vináttu.
Í hvert sinn sem ég kom
norður á víkina fögru var mér
mikilvægt að koma við á Baug-
hóli 8, þiggja veitingar og gott
spjall hjá þeim hjónum Huldu
og Ómari. Ævinlega var sama
hlýjan og góðvildin á þeim bæn-
um og bæði heilsað og kvatt
með innilegu faðmlagi.
Ég kveð þig kæra vinkona
með miklum söknuði, en um leið
með þakklæti fyrir vináttu okk-
ar og óska þér góðrar heimkomu
í Sumarlandið. Við nöfnurnar
munum síðar taka saman göngu-
túra þar og fara yfir það helsta
sem á góma ber.
Elsku Ómar, Hólmfríður,
Skarphéðinn, Sólveig, Ómar
Gunnar, Birkir Vagn og fjöl-
skyldur. Við Nonni sendum ykk-
ur innilegar samúðarkveðjur.
Missir ykkar er mikill og megi
góður Guð styrkja ykkur í sorg-
inni um leið og minningin um
einstaka konu lifir með okkur
öllum.
En sólin hún hnígur og sólin hún rís.
Og sjá þér við hlið er þín
hamingjudís,
sem alltaf er skjól þitt, þinn skjöldur
og hlíf.
Það er íslenska konan, tákn trúar og
vonar,
sem ann þér og helgar sitt líf.
(Ómar Ragnarsson)
Hulda Salómonsdóttir.
Í dag kveðjum við góða vin-
konu okkar Huldu Skarphéðins-
dóttur, þingeyska kjarnakonu,
tengdamóður Huldu Rósu dótt-
ur okkar.
Eitt er að börnin eignist góð-
an maka, en að honum fylgi
traust og góð fjölskylda er ekki
sjálfgefið. Í okkar huga fékk
Húsavík aðra merkingu eftir að
Ómar Gunnar kom inn í líf okk-
ar og við kynntumst fólkinu
hans. Stundum fannst okkur að
Húsavík hlyti að vera miðja al-
heimsins. Þar skein sól á
Kinnarfjöllin alla daga, þar var
Baughóll heimili Huldu Skarp-
héðins og Ómars Vagnssonar.
Heimili sem var trausti punkt-
urinn í lífi stórrar fjölskyldu.
Heimili sem stóð alltaf opið vin-
um og vandamönnum. Heimili
sem bar merki um dugnað,
myndarskap og elsku. Heimili
þar sem uxu úr grasi fimm
mannvænleg börn og barna-
börnum var hjálpað út í lífið.
Þarna setti ættmóðirin Hulda
Skarphéðins mark sitt á allt,
hvatti og annaðist fólkið sitt á
einstakan hátt. Var einstaklega
vandvirk við allt sem hún tók
sér fyrir hendur, fegraði heim-
ilið með handavinnu og fallegum
hlutum. Hún var hörkudugleg,
gekk og synti daglega og naut
útiveru. Hún vann auk þess utan
heimilis þegar börnin uxu úr
grasi og þar lagði hún sig fram
um að auðga líf vistmanna.
Hulda og Ómar urðu góðir
vinir okkar og áttum við margar
góðar stundir saman, ekki síst
með börnunum okkar í Deger-
hyltan. Í minningunni er alltaf
sól. Feðgarnir á leið í golf. Við
sitjum í grænni lautu fyrir neð-
an húsið, sólum okkur, drekkum
kaffi og röbbum saman um lífið
og tilveruna. Hulda segir okkur
frá æskuheimili sínu sem líkt og
hennar eigið var mannmargt og
gestkvæmt. Hún var vel inni í
heimsmálum og með fastmótað-
ar skoðanir í pólitík. Leiðarljósið
sanngirni og réttlæti. Hún segir
okkur frá Mærudögum og við
dáumst að bleiku hlutunum sem
eiga að prýða Baughól af því til-
efni. Rifjum upp ferðirnar okkar
saman til Póllands og Berlínar.
Á kvöldin kemur keppnisskap
Huldu í ljós þegar gátur eru
lagðar fyrir og besta skemmti-
atriðið valið. Spilum, syngjum
og njótum samveru með börn-
unum og barnabörnum. Fyrir
jólin berast alltaf gjafir á Lind-
arflötina, vænst þykir okkur um
smákökurnar og laufabrauðið
sem er næfurþunnt og listaverk
hver og ein kaka.
Hulda var sannkölluð ættar-
móðir sem sást svo vel þegar
hún veiktist. Fólkið hennar sat
hjá henni daga og nætur til að
styðja hana og hlúa að henni.
Þar var fremstur í flokki Ómar
Vagnsson sem aldrei vék frá
henni. Persónueinkenni hennar
kristölluðust í veikindum henn-
ar, hún hélt ró sinni, tók erfiðum
veikindum eins og verkefni sem
þyrfti að takast á við og hugsaði
um velferð fjölskyldunnar til
hinstu stundar.
Við erum ævinlega þakklát
fyrir að hafa fengið að njóta vin-
áttu og samveru við Huldu
Skarphéðinsdóttur.
Bryndís og Þórarinn.
Ekki má sköpum
renna, enn einn
gamall félagi og
bekkjarbróðir er
allur, sá 22. úr hópnum sem taldi
samtals 67 og útskrifaðist úr
MA, í stórhríðinni á Akureyri
hinn 17. júní 1959, fyrir réttum
60 árum.
Haustið 1955 settist hópur
ungs og glaðværs fólks í 3. bekk
MA.
Árganginum var skipt í þrjár
bekkjardeildir og í 3B, sem var
Björn Þ.
Guðmundsson
✝ Björn Þ. Guð-mundsson
fæddist 13. júlí
1939. Hann lést 16.
maí 2019.
Björn var jarð-
sunginn 27. maí
2019.
strákabekkur, voru
fimm harðduglegir
Akurnesingar og
einn þeirra var
Björn Þ. Guð-
mundsson. Í ár-
ganginum voru
miklir dugnaðar-
menn og sterkir
karakterar sem
flestir bjuggu sam-
an í heimavistinni.
Þar mótaðist sterk
samkennd og samheldni, sem
haldist hefur alla tíð síðan í MA-
hópnum okkar. Ævilöng vina-
bönd og tengsl urðu til og halda
enn þann dag í dag.
Næsta vetur var árganginum
skipt í tvær máladeildir og eina
stærðfræðideild og vorið 1959
lauk dýrmætri og ógleymanlegri
samveru fjögurra vetra skóla-
vistar í MA. Björn Þ. Guð-
mundsson útskrifaðist úr mála-
deild en undirritaður úr
stærðfræðideild 6. bekkjar.
Björn og Þórunn Bragadóttir
bekkjarsystir okkar felldu hugi
saman í MA og þau, svo og við
Sjöfn, vorum meðal þeirra, sem
settu upp hringana á MA-hátíð-
inni 16. júní, kvöldið fyrir út-
skriftina.
Hamingjurík samvera beggja
paranna hefur því staðið í meira
en 60 ár.
Hugur Björns stóð til lög-
fræðináms við Háskóla Íslands
og starfa á vettvangi lögfræð-
innar og þar gat hann sér góðan
orðstír.
Undirritaður hafði þá þegar
hug á því að fara í BA-nám í Há-
skóla Íslands og síðan í kenn-
arastarf.
Í eintak mitt af hinni sígildu
Carminu, minningabók nýstúd-
entanna, skrifaði Björn eftirfar-
andi:
„Mundu í starfi þínu, að einu
sinni varst þú nemandi, þiggj-
andi en ekki gefandi. Megi til-
vonandi starfsgjafar þínir verða
þess besta aðnjótandi er þú átt
til. Framtíðar þinnar forðabúr
fyllist gæfusmjöri. Hamingjunn-
ar helliskúr holdvotan þig
gjöri“!
Samband okkar MA-félag-
anna hefur alla tíð verið náið.
Fyrir utan árlega samkomu ár-
gangsins og makanna hittist
stór hópur nánast vikulega alla
vetur.
Björn Þ. Guðmundsson var
sannarlega áður fyrr einn af
drífandi einstaklingum í þessum
hópi, en hann dró sig í hlé fyrir
mörgum árum og síðan hefur
samgangur við gömlu félagana
verið stopull eða lítill. Erfið
veikindi hrjáðu þennan gamla
félaga okkar síðustu árin.
Um leið og ég bið góðan Guð
að blessa minningu þessa horfna
félaga okkar vottum við gömlu
vinirnir og félagarnir úr MA ’59
Þórunni bekkjarsystur okkar og
kærri vinkonu, svo og fjölskyld-
unni, innilega samúð okkar á
sorgarstundu.
Skúli Jón Sigurðarson.