Morgunblaðið - 26.06.2019, Síða 19

Morgunblaðið - 26.06.2019, Síða 19
MINNINGAR 19 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. JÚNÍ 2019 ✝ Helga Lofts-dóttir fæddist í Reykjavík 4. maí 1939. Hún lést á Vífilsstöðum 19. júní 2019. Foreldrar henn- ar eru Laufey Ein- arsdóttir, f. 4. júlí 1909, d. 9. október 1991, og Loftur Georg Jónsson, f. 20. september 1902, d. 20. febrúar 1969. Systk- ini Helgu eru Skarphéðinn Loftsson, Eyrún Lára Lofts- dóttir, Lofthildur Kristín Lofts- dóttir, Guðmunda Loftsdóttir, Eiríkur Jón Loftsson og Hrefna úar 1986, kvæntur Hörpu Hrund Hinriksdóttur, f. 25. september 1987, og Andri Björn Róberts- son, f. 24. febrúar 1989, kvæntur Ruth Jenkins Róbertsson, f. 25. janúar 1987. Barnabörn Helgu eru sjö talsins, Rómeó Máni Ragnarsson, 15 ára, Emilía Embla Ragnardóttir, 9 ára, Lúk- as Myrkvi Gunnarsson, 10 ára, Andrea Ylfa Gunnarsdóttir, 5 ára, Álfrún Alba Gunnarsdóttir, 3 ára, Hilda Rose Andradóttir Róbertsson, 1 árs og Magnús James Andrason Róbertsson, 3ja mánaða. Helga starfaði alla sína starfsævi við verslunarstörf. Fyrst í versluninni Réttarholti og síðan í verslun Hagkaupa í Skeifunni. Útförin verður frá Bústaða- kirkju í dag, 26. júní 2019, kl. 13. Loftsdóttir. Guð- munda og Hrefna lifa Helgu. Þann 30. desember 1971 gift- ist Helga Gunnari Kristjánssyni, f. 2. febrúar 1941, d. 28. janúar 2014. Helga eignaðist soninn Róbert Birgi Agn- arsson 21. október 1957. Róbert er kvæntur Önnu Björnsdóttur, f. 23. nóvember 1958. Barnabörn Helgu eru Helga Sif Róbertsdóttir, f. 21. júlí 1981, gift Ragnari Má Sverr- issyni, f. 14. janúar 1980, Gunn- ar Freyr Róbertsson, f. 10. febr- Elsku mamma. Nú er hvíldin komin. Hvíldin sem þú þráðir svo mjög í þínum þungbæru veikindum. Eftir sitj- um við með allar góðu minning- arnar, sem munu ylja okkur að eilífu. Þú varst mér yndisleg frá þeirri stundu sem ég fæddist. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri móður, sem alltaf var til staðar fyrir mig og vildi mér allt hið besta. Auðvitað þurftir þú að strita myrkranna á milli þegar þú varst ein með mig. Þá var gott að búa í Hólmgarðinum, í hlýjum höndum ömmu og afa. Þú sást til þess að mig skorti aldrei neitt, hvorki veraldlega hluti né ljúfa ást og umhyggju. Svo kom yndislegur eiginmað- ur þinn, Gunnar Kristjánsson, inn í líf okkar. Hann var þér ást- kær eiginmaður og mér góður faðir. Það er mér afar minnis- stætt þegar litla fjölskyldan fluttist í nýju, fallegu og heim- ilislegu íbúðina í Asparfellinu. Svo varð strákurinn þinn ást- fanginn og fluttist að heiman. Það voru eflaust mikil viðbrigði fyrir þig og mig. En lífið hélt áfram. Og þú og Gunnar hélduð áfram að styðja mig og Önnu með ráðum og dáð. Svo komu barnabörnin þrjú eitt af öðru. Þeim sinntuð þið af mikilli alúð og þau elska að segja frá fjörinu þegar þau heimsóttu ömmu og afa í Aspó og fóru með ykkur í ævintýraferðir út í Gróttu. Og seinna komu barnabarnabörnin, sem nú eru orðin sjö. Og öll börn- in elskuðu ykkur vegna þess hversu ljúf og góð þið voruð við þau. Þú vannst ekki á mörgum stöðum um ævina, mamma. Í versluninni Réttarholti og síðan í Hagkaup í Skeifunni. En þú vannst þín störf af miklum áhuga og fagmennsku. Ég var svo stolt- ur af þér þegar frétt kom um það í blaðinu að verðmerkingar væru réttastar í Hagkaup í Skeifunni. Það var þitt starf og þetta var viðurkenning sem mér fannst miklu merkilegri en fálkaorðan. Sýndi og sannaði hveru frábær starfsmaður þú varst. Þú vannst störf þín af trúmennsku og varst ánægð í þínu. Þér var boðið að sinna ábyrgðarstörfum, en það var ekki á þínu áhugasviði. En mamma, þú hefðir getað lært og unnið við hvað sem er. Aðstæður þínar voru bara þannig að það var ekki í boði fyrir þig á þínum yngri árum. Það var þungbært fyrir þig þegar Gunnar lést langt fyrir aldur fram. Þið voruð svo sam- rýnd og góð saman. Þá varst þú orðin veik og dvaldist á hjúkr- unarheimilinu Eir. Þau voru þung sporin þangað fyrir mig til að tilkynna þér lát Gunnars. Frá þeim tíma hafa liðið fimm erfið ár fyrir þig. Þú varst glæsileg kona, sem allir tóku eftir. Þú varst heiðar- leg og réttsýn. Þú barðist fyrir lítilmagnann og gerðir allt sem í þínu valdi stóð til að létta líf þeirra sem erfiðleikar steðjuðu að. Fólkið sem bjó í sambýlinu í Asparfelli 8 fann vel fyrir velvild þinni og oftar en ekki þegar ég heimsótti þig sat fólk úr sambýl- inu við uppdekkað borð hjá þér og þáði hjá þér veitingar og hjartahlýju. Þú varst mikill fróð- leiksbrunnur, því þú last mikið og vissir þar af leiðandi mikið. Meira en flestir. Margir höfðu því gaman af því að heyra þig segja frá liðnum tímum, merki- legu fólki og atburðum. Elsku, hjartans mamma. Ég sakna þín mikið. Þinn sonur, Róbert Birgir Agnarsson. Athvarf hlýtt við áttum hjá þér ástrík skildir bros og tár. Í samleik björt, sem sólskinsdagur samfylgd þín um horfin ár. Fyrir allt sem okkur varstu ástarþakkir færum þér. Gæði og tryggð er gafstu í verki góðri konu vitni ber. Aðalsmerkið: elska og fórna yfir þínum sporum skín. Hlý og björt í hugum okkar hjartkær lifir minning þín. (Ingibjörg Sigurðardóttir) Hvíl þú í friði, elsku tengda- mamma. Þín Anna Björnsdóttir. Elsku amma. Þú varst ljósið í lífinu sem lýstir okkur hinum veginn með visku þinni, manngæsku og gleði. Nú ertu farin og við söknum þín svo óskaplega mikið. Við minnumst þín með þeim ótalmörgu minningum um þig og afa Gunnar sem þú ferð nú til fundar við í draumalandinu, ást- in í lífi þínu bíður í Gróttunni ykkar með vönd af hvítum orkí- deum, kaffibrúsa og langajón. Ykkar staður, við sjávarniðinn í fallegu veðri að virða fyrir ykkur hafið og fjöruna í samneyti hvort annars. Þið kennduð okkur að líf- ið þarf ekki að vera flókið til að hægt sé að njóta þess. Allar góðu stundirnar í Asp- arfellinu þar sem við lékum okk- ur með gullið þitt, ekkert var svo kært að við mættum ekki leika með það. Alltaf hefurðu stutt við bakið á okkur og við munum halda merki þínu á lofti með já- kvæðni og manngæsku að vopni, óendanlega þakklát fyrir allt það sem þú gafst okkur. Tíma, kær- leik og ótakmarkaða ást. Asparfellið var þessi staður sem gott var að koma á, fá að gista, spila ólsen-ólsen og breyta íbúðinni í kastala með öllu því sem var tiltækt. Við munum svo vel eftir bíltúrum með þér og afa, þar sem við keyrðum á Þingvöll, niður á höfn, að Esjuhlíðum eða út í Gróttu og áttum þar fallegar stundir í faðmi náttúru og ykkar tveggja, óaðskiljanleg í öllu sam- hengi, Helga og Gunni. Við áttum mörg samtölin í gegnum tíðina þar sem þú leiddir okkur í sannleikann um svo margt, kenndir okkur á lífið sitj- andi við borðendann í eldhúsinu, klædd í hvítt með bláa kaffiboll- ann á borðinu með rauðum vara- lit á barminum. Seinna þegar þú varst komin inn á spítalann hvarf ekki viljinn til að skeggræða um allt milli himins og jarðar. Mikill söknuðu er að þessum samtölum og líf okkar er fátækara án þeirra. Það er við hæfi að í Asparfell- inu voru reist virki, því þú ert amma drottning, glæsilegasta kona sem við höfum augum litið. Alltaf vel tilhöfð, barst af hvar sem þú komst. Máttir ekkert aumt sjá án þess að stökkva til og hjálpa á hvern þann hátt sem mögulegt var. Vegna þess laðað- ist fólk að þér, þessi fallega per- sóna sem vildi öllum vel og gerði engan mun á því fólki. Allir voru velkomnir í þitt líf og allir fengu veislu í formi nærveru og skiln- ings á hverju því sem þeir höfðu fram að færa. Þetta upplifðu barnabarna- börnin þín og makar okkar svo heitt hjá þér og kölluðu þig jafn- an ömmu drottningu. Þau gerðu sér grein fyrir hvað þú varst mikilvæg, góð og falleg í alla staði. Þú gafst þeim tíma þinn, ástúð og nærveru við hvert tæki- færi. Faðmaðir innilega og kysstir og sýndir að kærleikur- inn er það allra dýrmætasta sem við eigum í þessu lífi. Minningarnar ylja og munu lifa með okkur allt þar til við göngum á vit nýrra ævintýra í draumalandinu og hittum fyrir ykkur afa í fjörunni góðu. Hetja í lifanda lífi. Minningin um þig mun aldrei hverfa úr hug- um okkar. Þar munt þú eiga stóran sess og lita líf okkar fal- legum litum þar sem við höldum merkinu á lofti og heiðrum minn- ingu þína með gjörðum okkar og hugsunum. Megi guð og gæfan geyma þig allt til enda veraldar, eilíf ást. Þín Helga Sif, Gunnar Freyr, Andri Björn og fjölskyldur. Vertu nú yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sigurður Jónsson frá Presthólum) Við elskum þig, elsku hjartans amma drottning. Þín langömmubörn, Rómeó Máni, Lúkas Myrkvi, Emilía Embla, Andrea Ylfa, Álfrún Alba, Hilda Rose og Magnús James. Elsku Helga okkar hefur kvatt þennan heim eftir áralöng erfið veikindi. Það er margs að minnast á þessari stundu og söknuður mikill. Við systur vor- um samrýndar og eftir að við eignuðumst fjölskyldur var mik- ill samgangur. Við unnum á sama vinnustað í yfir 50 ár, fyrst í Réttarholti og síðar í Hagkaup- um, sem auðveldaði dagleg sam- skipti. Varla leið sá dagur að við heyrðumst ekki. Helga var glæsileg, gegnheil og hjartahlý kona, vel lesin og hafði gaman af kvikmyndum. Þau Gunni bjuggu lengst af í Asparfelli og var heimili þeirra alltaf opið fyrir okkur og dætur okkar. Þau voru alltaf boðin og búin að aðstoða þegar eitthvað bjátaði á, en jafn- framt fyrst til að samgleðjast með fjölskyldunni á meðan heils- an leyfði. Að leiðarlokum er okkur efst í huga þakklæti fyrir samfylgdina og þá tryggð sem Helga sýndi okkur. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V.Briem.) Elsku Róbert og fjölskylda, við sendum ykkur okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Helgu. Við trúum því að nú liggi hún í blómabrekkunni í Sumarlandinu í faðmi Gunna. Hrefna og Hjörtur. Í dag kveð ég Helgu Lofts- dóttur mágkonu mína, þá stór- glæsilegu konu sem vakti athygli hvar sem hún fór. Það var árið 1966 sem hún og Gunnar bróðir minn fóru að draga sig saman. Ég var 10 ára þegar Gunni fór að koma með hana í heimsókn á Laufásveginn. Helga bauð af sér góðan þokka. Hún hafði reisulegt fas og tjáði sig yfirvegað. Þegar farið var að kynnast betur kom í ljós, sér- staklega í minni hópum, sögu- manneskja með mikinn húmor, létt og skemmtileg. Gunni og Helga voru talsvert eldri en ég og Helga átti son, Róbert, sem var á svipuðum aldri og ég. Þau voru dugleg að fara með Róbert og okkur yngri systkini Gunna í bíltúra, veiðiferðir o.fl. Helga var dugnaðarforkur til vinnu, fór snemma að vinna í Réttarholtsbúðinni, þar var hún ánægð og vann í mörg ár. Og ekki sá Helga bara um vörur og afgreiðslu. Eigendur voru hjón og konan var lömuð. Á hverjum degi fór Helga upp til Gunnu eig- anda og hjálpaði henni að fara á fætur. Þá var engin heimahjúkr- un og fólk hjálpaðist að við þau verk sem þurfti að sinna. Seinna flutti Helga sig yfir í Hagkaup í Skeifunni þar sem hún vann þar til hún hætti störfum, vel liðin og verðlaunaður starfsmaður. Þegar árin liðu skipti aldurs- munur okkar Helgu engu máli. Samskiptin voru í heimsóknum án þess að gera boð á undan sér og hin ýmsu tilefni. Það var gam- an þegar Gunni og Helga voru í sögustuði, heyra kostulegar sög- ur frá því í gamla daga, úr flot- anum, verslunarbransanum, af minnisstæðu fólki og öllu milli himins og jarðar. Helga var eins og áður kom fram stórglæsileg kona, Gunni var það líka svo þau voru falleg hjón. Helga hafði mikinn áhuga á fötum og hafði flottan stíl. Á sín- um yngri árum saumaði hún eða lét sauma á sig flíkur sem hún sá myndir af eða hannaði sjálf og þóttu mjög smart. Eftir að inn- flutningur á fötum jókst var hún ákaflega fundvís á flíkur á þau bæði sem sómt hefðu konung- bornum. Heimili þeirra var fal- legt og smekklegt og lífleg myndlist á veggjum. Helga og Gunni voru náttúru- börn og leituðu ekki langt yfir skammt. Það sem veitti þeim gleði var á Íslandi, fegurð nátt- úrunnar, fólkið, Elliðaárdalur- inn, Gróttan uppáhaldsstaður- inn, Reykjanesið, fara til berja, í bíltúr að skoða skipin, þetta gladdi þeirra hjörtu. Gunni lést eftir vanheilsu 2014. Helga var þá sjálf orðin veik af parkinsons og elli kerling fór ekki um hana mjúkum hönd- um. Þegar Helga átti skárri daga glitti í gömlu Helgu sem sagði sögur og langaði í fatabúðir þótt hún kæmist ekki fram úr rúm- inu. Helga var mannkostamann- eskja, vel gerð, traust, heiðarleg, skipulögð, snyrtileg, reglumann- eskja. Hún var ekki fyrir að láta á sér bera, hógvær og stundum dul. Hún var góð manneskja, ekki síst þeim sem þurftu á því að halda. Það er því með söknuði sem ég kveð þessa vinkonu mína, með þakklæti fyrir allt það góða sem hún var mér og mínum. Kær kveðja, Hanna Karen Kristjánsdóttir. Á sólríkum sumardegi við fuglasöng kvaddi Helga eftir erf- ið veikindi. Helga var einstak- lega tignarleg kona með fallegt rautt hár, óaðfinnanlegar rauð- lakkaðar neglur og aldrei langt í varalitinn. Ósjaldan var Helga með tísku- sýningu þegar við heimsóttum hana í Aspó. Hún var yfirleitt í ljósum eða litríkum fötum, hafði sinn stíl og hljóp ekki á eftir tísk- unni heldur skapaði sína eigin. Hún átti ótrúlegt magn af skart- gripum og við systur elskuðum að komast í hvíta skrínið til að leika með alla stóru smellu- eyrnalokkana og perlufestarnar sem þar voru geymdar. Helga var einstaklega kærleiksrík kona, hún sýndi okkur ávallt hlýju og áhuga sem hvatti okkur áfram. Erfitt er að minnast Helgu án þess að nefna Gunnar eiginmann hennar en hann féll frá fyrir 5 ár- um. Helga og Gunni voru afar samrýnd og dásamlega heima- kær hjón. Símanúmerið þeirra var okkar plan B ef ekki náðist í foreldra okkar enda líklegt að þau væru í heimsókn í Aspó ef þau væru ekki heima. Við minn- umst fjölda bílferða með Helgu og Gunna þar sem farið var í berjamó, skipin skoðuð við bryggjuna og fjöruferða út í Gróttu með nesti. Oft var löngum stundum setið við eldhúsborðið í Aspó, gætt sér á veitingum, spil- að og spjallað. Helga hafði gam- an af því að synda og fórum við systur oft með þeim hjónum í Breiðholtslaugina þar sem Helga synti á meðan Gunni var með okkur í stífum köfunaræfingum. Við systur náðum allar að vinna með Helgu í Hagkaupum en þar vann hún í áratugi við verðbreytingar. Helga var ein- staklega talnaglögg og sam- viskusöm í vinnu og tók ávallt á móti okkur með faðmlagi og björtu brosi. Nú vonum við að elsku Helga okkar sé komin til Gunna síns, sem hún saknaði svo sárt síðustu árin. Minning þín er ljós í lífi okkar. Elín, Elfa og Tinna. Við hittumst á fyrsta degi skólagöngu okkar, ég og Róbert Birgir Agnarsson. Síðan höfum við verið vinir og á þá vináttu hefur aldrei borið skugga. Nú kveður Róbert móður sína, en ég kvaddi mína fyrir tæpum tveim- ur tugum ára. Við vorum báðir elskir og hændir að mæðrum okkar, en við áttum líka athvarf hvor hjá annars móður. Þegar ég kom á heimili Ró- berts, var mér tekið af móður- legu ástríki og kærleik. Sama átti við um móður mína, sem sýndi Róberti vini mínum dálæti og ást. Því kveð ég Helgu Lofts- dóttur og harma fráfall hennar sem sonur kveður móður. Mig langar því að láta hér fylgja ljóð sem ég orti eftir fráfall móður minnar, en Bergþór Pálsson samdi lag við ljóðið og söng það við útför hennar. Kveðja til mömmu. Við hugsum til þín elsku mamma mín og minnumst þess hve þú varst öllum góð, en tárin byrgja augum alla sýn, í okkar hjartasári brennur glóð. Við þekkjum falleg, góð og göfug verk, sem gjöful hún til þægðar öðrum vann. Í lífsins róti stóð hún djörf og sterk, uns stundarklukka hennar úti rann. Okkur virðist hart að þola það, sem þó er létt á móti byrðum hans, er forðum einn á krossi bænir bað, um blessun Guðs og náð til sérhvers manns. Ég margar syndir drýgt hef Drottinn minn, en dásamleg er fyrirgefning þín, æ þess ég bið að verði vilji þinn og viska þín og dýrð mér opni sýn. Við stöndum hér við mömmu blessað beð og biðjum hann sem kann við öllu ráð, að okkur verði líkn með þrautum léð og liðnum veiti’ hann blessun sína og náð. Nú brostin eru blessuð augun þín, ég blíðum Drottni sálu þína fel. Hvíl í friði elsku mamma mín, mildi faðir gættu hennar vel. (Haraldur Haraldsson) Elsku Róbert og Anna, þið sem berið góðu genin hennar Helgu og ykkar forfeðra og for- mæðra áfram til ykkar fallegu, góðu og hæfileikaríku afkom- enda. Ég harma það að geta ekki verið viðstaddur útförina, en eins og þið vitið þá er ég með ykkur í dag sem aðra daga í huga og hjarta. Margs er að minnast og gott er að muna yndislega manneskju og mannvin. Megi blessun Drottins leggja ykkur líkn með þraut. Blessuð sé minning Helgu Loftsdóttur. Haraldur Haraldsson. Helga Loftsdóttir Sálm. 10.14 biblian.is Þú gefur gaum að mæðu og böli og tekur það í hönd þér. Hinn bágstaddi felur þér málefni sitt, þér sem hjálpar munaðarlausum.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.