Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.06.2019, Blaðsíða 13

Morgunblaðið - Sunnudagur - 16.06.2019, Blaðsíða 13
16.6. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13 með útboði – hvað á að gera? Við teljum okkur ekki þurfa útboð, við erum að drukkna í vinnu. Eigum við að fara að reikna út allar aðgerðir og skipta því innbyrðis á milli okkar? Ég sé ekki þörfina á því að við færum út í slíkt. Við lifum ekki í slíku draumaríki; við erum allir að vinna eins mikið og við getum. Kerfið á eftir að þróast þannig að ef SÍ hættir að borga þá þarf sjúk- lingur sjálfur að borga, til dæmis hálfa milljón fyrir axlaaðgerð. Um leið og það fer í gang vakna tryggingarfélögin og sjá að þarna er fólk sem er tilbúið að kaupa tryggingar. En auðvitað væri best að hanna slíkar kerfisbreytingar áður. Svona tryggingar eru til í öllum löndunum í kringum okkur í Skandínavíu,“ segir Ágúst og segir ennfremur að ekki hafi allir efni á prívat sjúkratryggingum þannig að samningslaus staða eins og nú er uppi er slæm fyrir almenn- ing á Íslandi. „Við hér í Orkuhúsinu erum að gera aðgerðir sem eru ekki gerðar á spítölunum; við erum endastöðin og teljum okkur vera hluta af opin- bera kerfinu. Fólkið sem kemur til okkar hefur ekkert val því þessar aðgerðir eru ekki gerðar inni á spítölunum þótt fólkið vildi fara þangað,“ segir Ágúst. „Þetta snýst ekki um læknana, þetta snýst um sjúklinginn sem á að fá þjónustuna, hann gleymist alltaf,“ segir Ragnar. „Ef þetta kerfi dettur upp fyrir og þjónustan verður flutt inn á sjúkrahúsin, sem er tálsýn að gangi eftir, þá er ekkert mál fyrir læknana á einkastofunum að flytja erlendis ef þörf verður á; þeir fljúga inn í vinnu hvar sem er í Evrópu. Yfirvöld gera sér ekki grein fyrir því hversu mikil þekking og reynsla býr þar á bakvið,“ seg- ir Ragnar og nefnir að ekki sé gott að missa þekkinguna úr landi. Ástand sjúklings á að ráða Ný heilbrigðisstefna til ársins 2030 var sam- þykkt með 45 atkvæðum og án mótatkvæða á Al- þingi nýlega. Sérfræðingar eru ekki allir sáttir. „Eins og fréttir og viðtöl við Svandísi sýna skilur hún ekki hið eðlilega flæði sem þarf að vera á sjúklingum á milli einkastofa og spítala miðað við þarfir og almennt ástand þeirra. Það er ástand sjúklings; sjúkdómsgreiningar, aldur og fleira, sem ætti að ráða hvar á að fram- kvæma þjónustuna. Hún er bara með veggi og girðingar og getur aldrei náð árangri, því hún hefur hafnað reynslunni og þekkingunni sem býr í kerfinu sem sérfræðingar hafa þróað í ára- tugi fyrir lágmarkskostnað. Hún hugsar málið út frá aðgerðarflokkum en ekki út frá einstak- lingsbundnum þörfum hvers og eins og ekki með hagsmuni þjóðfélagsins í huga til að nýta fjármagnið sem best,“ segir Ágúst. „Enda er hennar pólitík og lífsýn að ein- staklingar séu bara skattstofn og ef vantar meiri peninga til að viðhalda ósjálfbæru kerfi er alltaf til ein frábær leið; að hækka skatta á al- menning. En á endanum mun það ekki duga,“ segir Ágúst. „Það er kaldhæðnislegt ef Vinstri Grænir verða til þess að búa til alvöru tvöfalt kerfi í heil- brigðismálum á Íslandi.“ Réttur sjúklingsins Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur í heil- brigðismálum? „Framtíðin er sú að spítalinn hefur alltaf meira og meira að gera. Það verður aukin þörf á að samþætta þessa þjónustu og nýta þá sem hafa mestu reynsluna,“ segir Ágúst. Það er einnig skoðun Ágústs og Ragnars að þrátt fyrir skiptar skoðanir um einkarekstur, stofurekstur og þjónustu bæklunarlækna utan sjúkrahúsa telji þeir nauðsynlegt að styrkja bæklunardeildir sjúkrahúsanna, svo þær geti sinnt þeirri þjónustu sem þær eiga að sinna. Starfsemin þar líður fyrir pláss- og aðstöðuleysi og bæklunarlæknar þar eru fáliðaðir. „Ég reyni að nýta minn tíma þannig að sem flestir geta nýtt mína sérfræðiþekkingu, það er mín frumskylda. Vegna þess að ég er sann- færður um að við séum að gera góða hluti. Og sá sem heldur því fram að við séum ekki að gera það, er fólk sem er í öðrum heimi,“ segir Ágúst. „Ég held að þetta ættu að vera þrjár stoðir; Heilsugæslan, og þar er einkarekstur byrjaður að hluta til sem er mjög jákvætt, sérfræðiþjón- usta með aðgerðaþjónustu, til að létta á spítal- anum og svo spítalarnir. Það þarf að leggja nið- ur þessa fáránlegu hugsjónabaráttu gegn einkarekinni starfsemi,“ segir Ragnar. „Ég sé fyrir mér að fara með þyngri tilfellin inn á spítalana og það er nauðsynleg þróun. Svo þurfum við líka að hafa betri aðgang að spítöl- unum því komið hafa upp tilvik þar sem sjúk- lingur þurfti að leggjast inn eftir aðgerð hjá okkur og var meinað um það,“ segir Ágúst. „Það gleymist að þetta er réttur sjúklingsins en ekki læknisins,“ segir Ragnar. „Það þarf að viðurkenna þessi kerfi og láta þau vinna betur saman. Það er fólk sem skilur ekki læknisfræði sem er að skipuleggja hvernig framtíðin á að vera; það var ekki talað við lækna. Það er heilaþvottur í gangi að þetta utanspítalakerfi sé ekki gott og það er rangt. Það á að nota okkur til þess að bæta þjónustuna og bæta flæðið,“ segir Ágúst að lokum. Morgunblaðið/Ásdís Reynir Arngrímsson læknir og formað-ur Læknafélags Íslands segist hafagert alvarlegar athugasemdir við heilbrigðisstefnu stjórnvalda þegar hún var í smíðum. „Því miður virðist fátt eða ekkert af þeim hafa ratað inn í þingsályktunartillöguna sem var samþykkt á Alþingi á dögunum. Í fyrsta lagi gerðum við athugasemd við hvernig staðið var að gerð áætlunarinnar. Þetta var fyrst og fremst samtal ráðuneytisins við for- stjóra heilbrigðisstofnana á landinu. Það var ekkert samráð haft við fagfélög starfsmanna í heilbrigðiskerfinu, ekkert samband við fé- lög heilbrigðisfyrirtækja eða allan þann hóp sem vinnur sjálfstætt að heilbrigðisþjónustu. Þetta fannst okkur mjög sérkennileg vinnu- brögð,“ segir Reynir. „Það voru haldnir kynningarfundir af hálfu ráðuneytisins og óskað eftir athuga- semdum sem við tókum mjög alvarlega. Við unnum hér í stórum vinnuhópum í lækna- félaginu á síðasta aðalfundi og voru hátt í sjötíu læknar sem settust yfir skýrsluna. Við sáum margt jákvætt í henni og töldum mikilvægt að það væri mótuð heilbrigð- isstefna. En það vantaði mjög margt í stefn- una sem við bentum á. Það var eins og allt það starfsfólk sem vinnur sjálfstætt hafi gleymst. Ég get nefnt SÁÁ. Hver er heil- brigðisstefnan varðandi samskipti við SÁÁ og meðferð á fíknisjúkdómum til dæmis? Reykjalundur er annað dæmi, einnig heilsu- stofnun Náttúrulækningafélagsins, sjálf- stætt starfandi sjúkraþjálfarar, sjálfstætt starfandi sálfræðingar og sjálfstætt starf- andi læknar. Það var bara eins og allt þetta fólk væri ekki til.“ Þreyta í þingheimi Reynir segir að í heilbrigðisstefnunni megi finna eina setningu varðandi sjálfstætt starf- andi heilbrigðisstarfsmenn. „Það er ein setn- ing sem hljóðar svo: „umfang 2. stigs þjón- ustu verður á hverjum tíma ákveðið í samningum við SÍ, í samræmi við þarfir þeirra sem þurfa þjónustunnar.“ En það voru engin önnur markmið sett en við lítum svo á að öll þjónusta sem Sjúkratryggingar Íslands semja um fyrir hönd ríkisins sé hluti af op- inbera heilbrigðiskerfinu. Það er hið op- inbera sem greiðir langmestan kostnaðinn við það, semur um það en er hins vegar að fá aðra til að veita þjónustuna. Þetta er bara eðlilegt fyrirkomulag,“ segir hann. „Við bentum á fleira. Til dæmis kemur hvergi fram að heilbrigðisþjónustan sem á að vera í landinu til 2030 byggist á gagn- reyndum fræðum. Þegar meðhöndla á fólk þarf að liggja fyrir ákveðin sjúkdómsgrein- ing áður en stofnað er til kostnaðar,“ segir Reynir og segir það vanta í stefnuna. „Svo tókum við undir athugasemdir sótt- varnarlæknis og ég sé að það hefur heldur ekki komist inn í þingsályktunartillöguna. Það er ekkert minnst á varnir og viðbrögð við alvarlegum smitsjúkdómum og öðrum sjúkdómum sem geta ógnað almannaheill. Þetta á líka við heilsuvá vegna eitrunar og mengunar. Það vantar allt um heilbrigðis- öryggi landsmanna í þessa stefnu.“ Heilbrigðisstefna til ársins 2030 var sam- þykkt með 45 atkvæðum og án mótatkvæða á Alþingi nýlega. Reynir segist halda að komin hafi verið þreyta í þingliðið á þessum tíma. „Þeir hafa ekki sett sig inn í málið. Þegar svona stór galli er á heilbrigðistefnunni virð- ist vera að þeir hafi ekki lesið athugasemd- irnar og því hafi þetta farið svona í gegn.“ Ekkert um réttindi sjúklinga Fleira er það sem Reynir telur vanta í stefn- una. „Það er ekkert um rétt- indi sjúklinga í stefnunni. Það er ekkert um sjúkra- tryggingaréttinn. Við höf- um séð að það er deilt um hann núna vegna langra bið- lista. Ætti ekki fé að fylgja sjúklingi frekar en stofn- unum? Í dag er hægt að fá fé til að fara til einkarekinnar stofnunar erlendis en ekki einkarekinna stofnana hér heima. Það vantar allt um sjúk- lingaréttinn. Við höfðum bent á að við vildum fá umboðsmann sjúklinga, sem við höfðum reyndar áður bent á. Við lögðum til að stofn- uð yrði regnhlífarsamtök sjúklingafélaga og að ríkið tryggði því rekstrarlegan og fagleg- an grunn. Það var ekkert hlustað á þetta. Það er mjög margt sem við hefðum viljað sjá inn í stefnu sem verið er að móta,“ segir hann. „Það stendur í heilbrigðisstefnunni að í gildi verði langtíma samningar við erlend há- skólasjúkrahús. Það er gott og blessað en hvað um langtímasamninga við þjónustuveit- endur hér á Íslandi sem eru ekki ríkisreknir. Af hverju eru ekki langtímasamningar við SÁÁ? Við Reykjalund? Og sjálfstætt starf- andi lækna. Það virðist vera hægt að semja til lengri tíma við einhverja aðila í útlöndum en það er ekki hægt að gera það hér innan- lands.“ Beðið eftir aðgerðaráætlun Nú eru samningar sjálfstætt starfandi lækna lausir. Er eitthvað að gerast í þeim málum? „Það lítur út fyrir að stefnan í samningum við sjálfstætt starfandi lækna sé mjög óljós og að umboð sjúkratrygginga sé ekki klárt. Það er mjög bagalegt að ekki séu samningar um þessa þjónustu. Ef við skoðum greiðslu- þátttöku sjúklinga fyrir lyf og læknisþjón- ustu segir í heilbrigðisstefnunni að hún jafn- ist á við það sem lægst gerist í nágranna- löndum okkar. En það er alveg ljóst að ef engir samningar eru þá nær hið opinbera engum af sínum markmiðum því þá verða bara frjálsar álagningar. Það eru hagsmunir sjúklinga að það sé samið við sérfræðinga; bæði til að tryggja góða þjónustu og líka til þess að það sé skilgreint hver kostnaður þeirra er. Ég hef miklar áhyggjur af því hvað gerist í haust ef ekki verður búið að semja við sérfræðinga, hvernig læknis- þjónustan verður þá. Samningar Lækna- félags Íslands fyrir sjúkrahúslækna og heilsugæslulækna eru líka lausir. Þetta þarf að klárast núna fljótt svo ekki komi truflun í heilbrigðisþjónustuna,“ segir Reynir og nefnir að þá þjónustu sem sjálfstætt starf- andi sérfræðingar veita sé ekki hægt að flytja inn á spítalana. „Það er hvorki húsnæði né starfsfólk til að taka við því. Það yrði að fjölga mjög í starfsliði sjúkrahússins og við sjáum það ekki gerast miðað við nýja útfærslu á fjár- hagsáætlun fyrir næsta ár þar sem á að skera niður um 4,7 milljarða í sjúkra- húsþjónustunni.“ Hver eru viðbrögð lækna við þessari nýju heilbrigðisstefnu? „Það kemur ekki á óvart að það hafi ekki náðst fram breytingar. Það er ekki hlustað á það sem við höfum verið að gera. Menn bíða núna eftir aðgerðaáætluninni. Eitt er stefna og annað að útfæra hana. Við bíðum eftir að læknar verði kallaðir að borðinu um hvernig eigi að útfæra stefnuna. Það hefur ekki orðið ennþá. Aðgerðaáætlunin skiptir í raun meira máli en stefnan og þar vonumst við til þess að fá að taka á þeim agnúum sem við höfum bent á. Við bíðum eftir símtali úr ráðuneyt- inu.“ LÆKNAFÉLAG ÍSLANDS Bíðum eftir símtali úr ráðuneytinu Reynir Arngrímsson

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.