Morgunblaðið - 14.08.2019, Blaðsíða 26
26 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. ÁGÚST 2019
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm
stund.
Vinirnir kveðja,
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
(Valdimar Briem)
Já, kallið er komið. Hún Guð-
björg hefur lotið í lægra haldi
fyrir sjúkdómi sínum sem kennd-
ur er við Benson. Það er búið að
vera sorglegt að fylgjast með því
hvernig þessi greinda og glað-
væra kona smám saman hvarf
inn í einhvern óminnishjúp og
varð hægt og hægt ófær um að
gera einföldustu hluti, s.s. að
matast. Lengi vel gat Gugga
rætt af hreinskilni um sjúkdóm
sinn og við ræddum oft um
hvernig helvítið hann Benson
væri að fara með hana. Fyrir
nokkrum árum sagði prestur við
mig að helvíti væri ekki staður,
heldur ástand. Ég held að lífið
með Benson hafi verið hreint hel-
víti fyrir Guggu og hennar nán-
ustu.
Guðbjörgu kynntist ég fyrst í
Kennaraskólanum um 1970. Við
þekktumst ekki mikið á þeim ár-
um en vissum þó vel hvor af ann-
arri. Það var svo um 20 árum síð-
ar þegar Guðbjörg réði sig til
kennslu að Laugum í Þingeyjar-
sýslu að kunningsskapur okkar
endurnýjaðist og varð að djúpri
og sannri vináttu. Guðbjörg var
mikill mannþekkjari og hún var
ein fárra sem áttuðu sig á erf-
iðleikum sonar míns, sem var
nemandi hennar. Eftir að höggið
stóra reið yfir reyndist Guðbjörg
mér sem hinn besti klettur og
sannaðist þar málshátturinn „Sá
er vinur sem í raun reynist“. Ég
veit bara hreinlega ekki hvernig
ég hefði komist í gegnum fyrstu
vikurnar án hennar.
Eftir að við Guðbjörg komum
báðar suður gerðum við ýmislegt
saman, fórum á tónleika, sam-
söng í Hannesarholti og fleira. Á
einhverjum tímapunkti stofnuð-
um við ásamt þriðju skólasyst-
urinni úr Kennó félagið „Tvær
fráskildar og ein ekkja“. Fé-
lagsskapur þessi varð nú ekki
langlífur, enda lítið annað á verk-
efnaskrá félagsins er að fara á
harmonikkuball á Suðurlandi, en
allar höfðum við mikla ánægju af
söng og dansi. Nú eru þessar
skólasystur mínar báðar horfnar
yfir á æðra tilverustig og vænt-
anlega farnar að dansa og
syngja, lausar úr viðjum sjúk-
dómanna sem lögðu þær að velli.
Elsku Guðbjörg! Takk fyrir
allt sem þú varst mér. Hvíl þú í
Guðs friði.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Guðbjörg
Þórisdóttir
✝ Guðbjörg Þór-isdóttir fæddist
25. mars 1952. Hún
lést 2. ágúst 2019.
Útför hennar fór
fram 12. ágúst 2019.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú
hljóta skalt.
(Valdimar Briem)
Elsku Þóra Kar-
ítas, Einar, makar
og börn, svo og
systkini Guðbjarg-
ar og fjölskyldur.
Ég votta ykkur
mína dýpstu sam-
úð og bið Guð að styrkja ykkur
og styðja í ykkar miklu sorg. En
öll eigum við ljúfar minningar
um góða konu. Þær minningar
munu verða okkur öllum ljós á
vegi sorgarinnar.
Hulda Finnlaugsdóttir.
Haustið er handan við hornið
með naprar næðandi kólgur og
norðangjóst. Á Laugum er nátt-
úran þó enn klædd sumarklæð-
um og gullslegin roðadýrð
Laugafells glitrar mót sólu. Í
fjarska má sjá hin tignarlegu
Kinnarfjöll. Hvílík umgjörð um
menn og dýr. Nemendur í
Laugaskóla hafa sest niður í
skólastofunni í Dvergasteini þar
sem beðið er komu nýs kennara,
sem ku vera „kona“ að sunnan.
Inn gengur með þjósti ljóshærð
kona, klædd svörtu pilsi og hvítri
blússu með ógnarstórt rautt sjal
er hylur axlir hennar. Á öxlinni
ber hún stóran taupoka sem er
uppfullur af lífsins sannleik. Kon-
an horfir á nemendurna, sem eru
með brennandi eggjan til ótrauð-
rar sóknar á þroskans bröttu og
seinfæru fjöll. Konan fer úr
skónum og stígur upp á stól og
þaðan liggur leiðin upp á kenn-
araborðið. Konan heldur á bók.
Án þess að nemendurnir fái
nokkra viðvörun byrjar konan að
lesa upp úr bókinni með miklum
tilþrifum. „Mig dreymdi ég
geingi útí skóg einsog í fyrra
þegar ég gekk útí skóg með
stöllu minni; og stóð ein í rjóðr-
inu við lækinn....“. Konan klárar
„Únglinginn í skóginum“ og seg-
ir „Þetta er Halldór Kiljan Lax-
ness – þið munið kynnast honum
í vetur“. Síðan skellir hún upp úr
eins og Jóni Hreggviðssyni var
tamt að gera eftir að hafa flutt
rímur. Nemendurnir eru furðu
lostnir. „Konan“, Guðbjörg Þór-
isdóttir, hefur náð athygli nem-
anda og þegar myndað með þeim
tilfinningaleg tengsl. Tengsl sem
ekki rofna.
Þetta voru mín fyrstu kynni
eða upplifun af þeirri miklu til-
finningaveru sem Guðbjörg Þór-
isdóttir var. Með okkur tókst
mikill vinskapur og er það mín
blessun að hafa kynnst henni á
þeim tíma í lífi mínu er ég var
villtur í fánýtri leit að völtum
veraldargæðum og í tilfinninga-
legu tómarúmi. Guðbjörg hafði
eyra sem hlustaði og hefur ef-
laust séð að ég, líkt og hún sjálf,
átti ýmislegt óuppgert við fortíð-
ina og lokaði sársaukann af. Guð-
björg varð eins konar andleg
móðir mín og til að vinna úr því
sem þjakaði hugann kvað hún
ekkert betra en að lesa bækur
Laxness og ræða í framhaldinu
um tilfinningar. Ég, líkt og marg-
ir aðrir, beið alltaf eftir því að
Guðbjörg gæfi út skáldsögu,
enda er ég sannfærður um að
Guðbjörg hefði orðið frábær rit-
höfundur. Þó að sú hafi ekki orð-
ið raunin hefur hún þó með sín-
um hætti skrifað sig með
varanlegum hætti inn í líf fjöl-
margra samferðamanna sinna,
með því einu að vera hún sjálf,
kærleiksrík, bros- og hláturmild.
„Kærleikur, það er að finna til
með öðrum“ sagði Ólafur Kára-
son í Heimsljósi. Ég væri ekki sá
maður sem ég er í dag hefði Guð-
bjargar ekki notið við enda var
hún fljót að greina sálina í fólki,
sem er eiginleiki sem hún kvaðst
hafa frá Guðnýju ömmu sinni.
Kæra vinkona. Ég þakka þér
af öllu hjarta fyrir samfylgdina
og uppeldið í skóla lífsins. Elsku
Þóra Karítas og Einar, mikill er
missir ykkar af Heimsljósinu
sjálfu. Nóbelskáldið orðaði það
einu sinni svo að hafi maður
misst það sem hann elskar heit-
ast þarf ekki að yrkja, hreimur-
inn í rödd manns segir allan
skáldskap lífsins. Megi góður
guð styrkja ykkur í sorginni.
Jón Þór Ólason.
Við vinkonurnar kynntumst í
íslenskudeildinni við Háskóla Ís-
lands á áttunda áratugnum.
Þetta var samheldinn hópur og
Guðbjörg, eða Gugga, vakti strax
athygli í hópnum. Hún bjó yfir
miklum persónutöfrum, var opin
og skemmtileg, hafði alltaf eitt-
hvað til málanna að leggja og lá
aldrei á skoðun sinni.
Að námi loknu gerðust mörg
okkar íslenskukennarar og við
hittumst gjarnan á sumarnám-
skeiðum norrænna móðurmáls-
kennara. Margar góðar minning-
ar tengjast þeim. Gugga, sem var
félagslynd, naut sín vel þegar
blanda af bókmenntum, söng og
gleði réði ríkjum. Til að styrkja
vináttuna fórum við seinna að
hittast reglulega og oftar en ekki
var rætt um bókmenntir. Við
ákváðum því að stofna bóka-
klúbb.
Gugga hafði alla tíð mikinn
áhuga á bókmenntum og trúði á
gildi góðra bóka fyrir fólk, ekki
síst börn. Það tengdist áhuga
hennar á tilfinningaþroska og
hvernig aðstæður móta líf okkar.
Hún las oft góðar bækur af mik-
illi áfergju og það var gaman að
ræða bókmenntir við hana. Þá
naut sín innsæi hennar. Hún
kunni að meta dýpt í lýsingum á
tilfinningum fólks og heillaðist
mjög af sterkum kvenpersónum.
Salka Valka og fleiri konur í bók-
um Halldórs Laxness áttu sér-
stakan sess í huga hennar. Til er
saga af því þegar Gugga var að
fara yfir Sölku Völku með nem-
endum ásamt öðrum kennara.
Þeir höfðu orð á því að þetta
væru eins og tvær ólíkar bækur.
Í tímunum hjá hinum kennaran-
um var sagan samfélags- og
verkalýðssaga en ástarsaga í
meðförum Guggu.
Starfsvettvangur Guggu var
alla tíð helgaður kennslu og
skólastarfi. Hún gerði sér grein
fyrir mikilvægi góðra kennara
fyrir börn og ungt fólk og vildi
helst gera allt gott fólk sem varð
á vegi hennar að kennurum. Hún
var næm á líðan nemenda og
óhrædd við að taka á málum
barna, ekki síst þeirra sem
bjuggu við erfiðar aðstæður.
Hún naut þess að tala við börn og
átti auðvelt með að setja sig í
þeirra spor. Þau treystu henni og
gátu leitað til hennar með vanda-
mál sín.
Á góðra vina fundi lék Gugga á
als oddi og var hrókur alls fagn-
aðar. En þrátt fyrir glaðværðina
mátti skynja undirliggjandi
harm sem erfitt var að henda
reiður á. Þegar saga Guggu, bók-
in Mörk, kom út fyrir örfáum ár-
um var hulunni svipt af átakan-
legri reynslu hennar í bernsku.
Gugga átti sér þann draum að
verða skáld og skrá reynslu sína.
Það varð ekki en hún treysti
Þóru Karítas dóttur sinni til að
takast á við það vandasama verk-
efni að segja frá hrottalegri mis-
notkun sem hún mátti þola í
barnæsku. Enginn verður samur
eftir lestur þeirrar bókar.
Við sendum Einari, Þóru og
fjölskyldunni allri okkar innileg-
ustu samúðarkveðjur. Fallin er
frá eftirminnileg kona sem hafði
áhrif á alla sem hana þekktu. Við
minnumst góðrar vinkonu með
hlýju og söknuði.
Auður Guðjónsdóttir,
Ingibjörg Axelsdóttir,
Kristín Jónsdóttir,
Svava Björnsdóttir og
Þuríður Jóhannsdóttir.
Í dag verður til moldar borin
elskuleg vinkona okkar Guðbjörg
Þórisdóttir, eða Gugga eins og
hún var alltaf kölluð. Leiðir okk-
ar lágu saman haustið 1969 í
Kennaraskóla Íslands þegar við
lentum allar saman í bekk.
Fyrsta minning okkar um Guggu
var þegar hún kom stormandi
inn skólaganginn, sköruleg í fasi
með síðar fléttur. Hún vakti
sannarlega eftirtekt fyrir sjálfs-
öryggi, léttleika í fasi, glaðlyndi
og hláturmildi, djúpan skilning á
mannlegu eðli, en ekki síst fyrir
áræðni. Sem dæmi um áræðni og
skörungsskap Guggu réði hún
sig strax eftir fyrsta bekk, þá að-
eins 17 ára gömul, til kennslu í
einn vetur við barnaskólann að
Skógum. Þaðan sneri hún reynsl-
unni ríkari og umtalsvert þrosk-
aðri en við hin.
Á fjórða ári var Gugga kosin
formaður nemendafélagsins, sem
sýnir það traust sem samnem-
endur báru til hennar. Þess má
geta að á þessum árum voru
mörg hundruð nemendur við
skólann.
Strax á fyrsta skólaárinu tókst
með okkur, sem þetta rita, mikil
og sterk vinátta sem hefur hald-
ist allar götur síðan. Eftir út-
skrift stofnuðum við saumaklúbb
sem við héldum gangandi þrátt
fyrir tímabundna fjarveru ein-
hverrar okkar svona í áranna
rás.
Margar góðar minningar
koma upp í hugann á þessum
tímamótum. Gugga var vakin og
sofin bæði í starfi sínu og uppeldi
eigin barna og lenti því stundum
í tímaþröng þegar hún átti sjálf
að halda saumaklúbb. Minnis-
stætt er eitt sinn þegar við mætt-
um í saumaklúbb til Guggu. Hún
var þá í baði og átti alveg eftir að
kaupa í matinn. Við brugðum
okkur þá nokkrar niður á Lauga-
veg í innkaup og síðan heim aftur
í matseld. Hún var ekkert að
kippa sér upp við svona smá-
muni, sló bara á létta strengi og
við áttum ógleymanlega stund
saman.
Á skólaárum okkar kynntumst
við fjölskyldu Guggu vel, enda
stóð æskuheimili hennar okkur,
sem öðrum vinum hennar, ætíð
opið.
Skólamálin voru Guggu alltaf
hugleikin, enda var hún vakin og
sofin í starfi sínu, fyrst sem
kennari, en síðar sem skólastjóri.
Það var gaman að fylgjast með
frumkvöðla- og forystuhæfileik-
um hennar. Það var t.d. gaman
að heyra hana lýsa því hvernig
hún notaði bókmenntir til að
opna umræðu um ýmsa hluti og
nálgast þannig viðkvæm mál
nemenda, enda átti velferð barna
hug hennar allan.
Minningar um stórbrotna
konu lifa um ókomna tíð. Elsku
Þóra og Einar, við vottum ykkur
og fjölskyldunni allri okkar
dýpstu samúð.
Anna, Jóhanna, Jónína,
Lilja og Selma.
Það er svo gaman að vera með
þér, vinkona mín; við sitjum
kannski saman á bekk á Klam-
bratúninu, eða í eldhúsinu mínu á
Njálsgötunni eða í eldhúsinu
þínu á Leifsgötunni; þú ert
sennilega að syngja og segja mér
að söngurinn sigri allt; þú veist
þetta og vilt deila því með mér;
þú ert alltaf að uppgötva eitthvað
sem hugsanlega getur bjargaði
öllu og öllum, helst heiminum;
söngurinn eyðir til dæmis þung-
lyndi, þrautum og allri lífsins
ólukku, segirðu og bætir við að
þú sért gangandi dæmi um
mannveru sem hafi tónlistina
eina að vopni og hafi sungið sig
til lífsins hvað eftir annað.
Ég trúi þér og ég reyni þetta á
sjálfri mér; ég syng þegar mér
líður illa, syng þegar mér líður
vel, geri bara þetta einfalda og
frjálsa sem þú ráðleggur mér –
og svo hlærðu því að hláturinn er
eina náttúruaflið sem læknar. Þú
segir það ekki, en við vitum það
öll sem þekkjum þig; gleðin býr í
þér og hún lifnar við í okkur.
Auðvitað líða aldir í örfáum
minningarorðum eins og þessum;
bestar eru minningarnar sem
komast aldrei á blað en eiga un-
aðsstundir í hjartanu; þessar
sem munu alltaf halda nafninu
þínu og viskunni á lofti. Ég
þakka þér gjafirnar þínar, elskan
mín.
Við tölum svo oft um minning-
arnar; þessar ódauðlegu, dular-
fullu, skrýtnu og fallegu; minn-
ingarnar sem eru einhvernvegin
allt; límið sem heldur öllu saman,
án þeirra er aldrei neitt, segir þú
– sem ert límið okkar allra.
Þegar þú ert byrjuð að gleyma
gleymirðu samt aldrei söngnum
og ég sem er rammfölsk hika
ekki við að ná til þín með því að
syngja og þú tekur undir og við
náum saman. Ég og þú. Alltaf.
Þú ert alltaf falleg; þegar þú
logar af forvitni; þegar þú segir
skoðanir þínar umbúðarlaust;
þegar þú segir sögur; þegar þú
ferð með kvæði; þegar þú talar
um börnin þín; þegar þú lest
skáldskapinn þinn, sögurnar,
ljóðin, leikritin, ritgerðirnar;
þegar þú og þegar þú og þegar
þú og alltaf og alltaf og alltaf þá
ertu dásamleg, vinkona mín – og
vitrust ertu alltaf og ekki síst
þegar þú manst ekki neitt því
einmitt þá trúirðu mér fyrir því
að himinninn sé yfir þér og hann
sé líka yfir mér og okkur öllum
og svo strýkurðu mér um hárið
og ég veit að við munum hittast
aftur seinna þótt ekki sé nema í
skýjum; en það undursamlega er
að án minnis geturðu gefið og
elskað og gefið og elskað. Þannig
ertu og þannig verðurðu alltaf –
og þess vegna hittumst við aftur
seinna, hjartkær mín, og kveðj-
um hvor aðra aldrei.
Samúðarkveðjur sendi ég
Þóru og Einari og barnabörnun-
um og öllum sem elska þig.
Vigdís Grímsdóttir.
Nú hefur mín kæra vinkona
kvatt okkur eftir ótrúlega erfið
veikindi. Við kynntumst þegar
við vorum 11 ára gamlar og urð-
um fljótlega mjög góðar vinkon-
ur. Mér fannst Gugga vera algjör
töffari þegar hún kom í bekkinn
en fljótlega kom hin, glaðlynda
og góða Gugga, í ljós. Við fylgd-
umst að í skóla næstu 10 árin og
margt var brallað og skrafað,
drukkið appelsín með lakkrísröri
og borðuð Lindubuff meðan við
gerðum úttekt á lífinu og tilver-
unni. Það var gaman að koma
heim til Guggu í Álftamýrina,
spjalla við Kaju, móður hennar,
sem var bæði fróð og skemmti-
leg, og ekki skemmdi hversu auð-
velt að plata Þóri pabba hennar
til þess að skutla okkur í skólann
eða bíó. Gugga var alveg einstak-
lega góður námsmaður og ég get
ekki neitað því að ég var oft á tíð-
um mjög stolt af vinkonu minni.
Hún fór einhvern veginn rólegri í
gegnum unglingsárin en við hin,
líklega af meiri visku. Það er
ógleymanleg stund þegar við
vorum á 17. ári, búnar að klára 1.
bekk í Kennó og sáum þá auglýs-
ingu í Vísi þar sem óskað var eft-
ir kennara að Barnaskólanum í
Skógum, gagnfræðapróf æski-
legt. Við báðar svona líka meðvit-
aðar og áttum ekki orð en Gugga
ákvað að hringja til þess að heyra
betur hvers konar metnaðarleysi
þetta væri. Það fór þó þannig að í
lok símtalsins var Gugga búin að
ráða sig til kennslu að Skógum
næsta vetur og ég auðvitað mjög
vonsvikin að missa hana út á land
í heilan vetur. Þetta símtal hafði
örugglega mjög mikil áhrif á líf
Guggu, því hún bast Skógum
tryggðaböndum.
Eftir að hún lauk kennaraprófi
fór hún þangað og kenndi í nokk-
ur ár, þótt ekki væri það sam-
fellt. Eftir að við kláruðum
Kennó fórum við báðar á dálítinn
þvæling, út á land og út í heim,
eignuðumst maka og börn, en
alltaf var jafn gaman að hittast
og vera saman, þetta var vinátta
sem þoldi fjarlægð og breyting-
ar. Fjarlægðin var þó aldrei mik-
il, því við fundum okkur alltaf
tíma. Nú síðustu árin höfum við
verið í stórskemmtilegum bóka-
klúbbi sem við stofnuðum með
Ásdísi, okkar kæru vinkonu, og
fleiri mætum konum. Mér finnst
ég rík að hafa átt svona góða vin-
konu, auðvitað vorum við löngu
búnar að ákveða að verða gamlar
saman, sitja og sötra sérrí og
ræða gamla yndislega daga, en
engin ræður sínum næturstað.
Elsku Þóra Karítas og Einar,
það er sárt til þess að hugsa
hversu stuttan tíma mamma ykk-
ar fékk með ykkur og fjölskyld-
um ykkar, hún talaði oft um hvað
hún hlakkaði til þess að verða
amma, dekra við börnin og
mennta. Við Stefán sendum ykk-
ur okkar innilegustu samúðar-
kveðjur. Við söknum hennar.
Þórunn Traustadóttir.
Við fráfall Guðbjargar reikar
hugurinn aftur til haustsins 1996
er hún var ráðin skólastjóri við
Breiðagerðisskóla. Starfsfólk
skólans beið í eftirvæntingu eftir
að hitta nýja skólastjórann.
Fyrsti starfsmannafundurinn
var öðruvísi en við áttum að venj-
ast. Eftir að hafa heilsað upp á
okkur bað Guðbjörg okkur að
syngja með sér eitt af uppáhalds-
lögum sínum og las síðan fyrir
okkur sögu. Þarna gaf hún tón-
inn, bókmenntir voru mikilvægur
þáttur í uppeldi og kennslu að
hennar mati. Góður skólabragur
og léttleiki fylgdu henni frá
fyrsta degi. Guðbjörg naut þess
að hafa gleði og líf í skólanum og
ein leið sem hún sá til þess var að
gera öskudag að nemendadegi
þar sem nemendur og starfsfólk
mættu í furðufötum og gerðu sér
glaðan dag.
Þetta var nýmæli þá. Ógleym-
anlegt er þegar arkitektinn sem
teiknaði nýbyggingu skólans
kom til að hitta Guðbjörgu á
öskudegi. Hann spurði um skóla-
stjórann og var bent á konu í
mjög furðulegum fötum með hatt
á höfði og sagt að þetta væri
skólastjórinn. Guðbjörg gekk í
flest störf ef þurfti.
Jafnvel mátti sjá hana með
svuntu og gúmmíhanska í háhæl-
uðum skóm að þrífa skólann eða
elda mat. Rausnarleg innkaup
einkenndu Guðbjörgu þegar átti
að gera vel við fólk. Allt þetta
mótaði heimilislegan brag í skól-
anum sem gestir og gangandi
nutu með okkur.
Áræðni við að takast á við
breytingar og styðja og hvetja þá
sem vildu brjótast úr viðjum van-
ans einkenndu Guðbjörgu sem
skólastjóra. Vanahugsun var
ekki hennar stíll. Spurningum
sem fengu fólk til að hugsa upp á
nýtt hluti sem fæstir höfðu velt
fyrir sér áður varpaði hún gjarn-
an fram á kennarafundum. Eins
og eitt sinn þegar rætt var um
námsmat og hún spurði fólk hvað
einkunnin sjö í ritun þýddi. Hún
hélt því fram að það segði meira
um stöðu og virkni nemandans
að vigta afrakstur vinnunnar
heldur en einkunnin sjö.
Áhersla á grasrótarstarf þar
sem allir áttu að koma að málum
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
UNA ÁSGEIRSDÓTTIR,
Espigerði 4,
Reykjavík,
lést mánudaginn 29. júlí.
Jarðarförin fer fram frá Fossvogskirkju
miðvikudaginn 14. ágúst klukkan 13.
Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hinnar
látnu er bent á Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir
fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.
María Marta Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir
Jón Ásgeir Einarsson Sólveig Gyða Jónsdóttir
barnabörn og barnabarnabörn