Morgunblaðið - 14.08.2019, Page 36
36 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. ÁGÚST 2019
DUXIANA Reykjavik | Ármuli 10 | Reykjavik | +354 5 68 99 50 | www.duxiana.is
GÆÐI OG ÞÆGINDI
SÍÐAN 1926
DUX 6006 - SVÆÐISMEÐFERÐ
Í örfáum einföldum skrefum geturðu sett upp rúmið þitt til að mæta þörfum þínum.
VIÐTAL
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Sýningar hefjast í dag á nýjustu
kvikmynd Quentins Tarantino,
Once Upon a Time ... in Holly-
wood, þeirri níundu sem hann
skrifar og leikstýrir. Tarantino er
einn þekktasti og vinsælasti leik-
stjóri heims og er kvikmynda hans
jafnan beðið með mikilli eftirvænt-
ingu. Heba Þórisdóttir hefur verið
yfirmaður förðunardeildar við
kvikmyndir Tarantino allt frá fyrri
hluta Kill Bill tvennunnar og hefur
gegnt þeirri stöðu við fjölda ann-
arra Hollywood-mynda og þar af
nokkurra Marvel-ofurhetjumynda.
Næsta verkefni hennar er hins
vegar förðun við Suicide Squad 2
sem er úr smiðju helsta keppi-
nautar Marvel, DC Comics. Heba
segir Marvel alveg fyrirgefa henni
þetta hliðarspor. „Marvel er allt
öðruvísi en hin kvikmyndastúd-
íóin,“ segir hún. Marvel sé vissu-
lega mikil verksmiðja en ráði oftar
en ekki sama fólkið í kvikmynda-
verkefnin. „Það er voða mikil fjöl-
skyldustemning þar,“ segir Heba
um reynslu sína af tökum fyrir
Marvel, en síðasta Marvel-myndin
sem hún kom að var Captain Mar-
vel.
Hringdi sex árum seinna
Hollywood-stjörnurnar eru
margar í nýjustu kvikmynd Tar-
antino, Brad Pitt og Leonardo
DiCaprio í aðalhlutverkum og
Margot Robbie leikur Sharon Tate
sem myrt var af Manson-genginu
árið 1969. Af öðrum stjörnum má
nefna Al Pacino, Kurt Russell og
Bruce Dern. „Það var rosalega
gaman að hafa Leo og Brad saman
í þessari mynd,“ segir Heba um
stjörnustóðið en hún er alvön því
að vinna með heimsþekktum kvik-
myndastjörnum eins og sjá má af
glæsilegri ferilskránni.
Tarantino hefur Heba þekkt í
ein 26 ár, kynntist honum þegar
hann var að skrifa handritið að
meistaraverki sínu Pulp Fiction.
Hún fylgdist síðar með tökum á
Jackie Brown og upplifði þar ein-
staka stemningu. Hún sagði Tar-
antino að hún vildi gjarnan fá að
vinna fyrir hann og væri allt eins
til í að sópa gólfin ef til þess
kæmi. „Hann hringdi svo í mig sex
árum seinna,“ segir Heba kímin.
Tarantino bauð henni að stýra
förðunardeild Kill Bill: Vol. 1 og
var það upphafið að blómlegu sam-
starfi þeirra.
Mikil skipulagsvinna
Heba hefur í mörg horn að líta í
starfi sínu. „Ég þarf að sjá um
fjárhagsáætlun, lesa handritið í
gegn og finna út hversu marga
starfsmenn ég þarf, þarf að láta
vita fyrir fram hvað ég þarf marga
og ráða fólk,“ telur hún upp. Hún
segist líka þurfa að gera úttekt á
því hvaða efni þurfi til verksins og
hversu mikið af þeim. Starfið
krefst því mikils skipulags, sem
Heba segir geta reynt á, því starf-
ið eigi líka að vera listrænt og hún
skapandi. „Ég öfunda stundum
fólkið sem ég ræð með mér því
það kemur bara í vinnuna, fær að
sinna förðun og situr svo úti í kaffi
á meðan ég er að gera áætlanir,“
segir Heba og hlær að hlutskipti
sínu. Hún ítrekar að henni þyki þó
hvort tveggja skemmtilegt, að
farða og skipuleggja.
Langir vinnudagar
Kvikmyndatökur eru engin
lúxusvinna og vinnudagarnir eru
oftar en ekki langir. Heba segist
hafa unnið í 17-18 klst. á dag, sex
daga vikunnar, við tökur á Kill
Bill: Vol. 1 en nú sé vinnutíminn
aðeins styttri, um 14 klst. á dag
sem flestum þykir þó býsna langt
enda almennur starfsdagur átta
klukkustundir. Förðunarfólk og
leikarar þurfa að vakna fyrir allar
aldir svo að útlitið sé í lagi þegar
kveikt er á myndavélunum.
Heba gegndi reyndar fleiri
störfum fyrir Tarantino að þessu
sinni því hún fer með örlítið hlut-
verk í myndinni, hlutverk förð-
unarfræðings, nema hvað. Hún á í
stuttum samskiptum við DiCaprio
sem leikur leikarann Rick Dalton
(sjá gagnrýni á næstu síðu).
Með Hannah í stólnum
Heba segist hafa vitað af því að
hún ætti að fara með lítið hlutverk
en hins vegar hafi textinn komið
henni á óvart. „Ég las ekki lín-
urnar fyrr en daginn áður því ég
vissi ekki af þeim,“ segir Heba.
Tarantino hafi breytt handritinu.
Mikil leynd hvílir jafnan yfir
tökum Hollywood-mynda á borð
við Once Upon a Time ... in Holly-
wood og tökulið er bundið þagn-
arskyldu, má ekki tjá sig um
stjörnurnar og kvikmyndirnar al-
mennt. Heba má því ekki segja
lesendum Morgunblaðsins krass-
andi sögur af stjörnunum, því mið-
ur. Hins vegar má spyrja hvort
hún hafi aldrei orðið „star struck“,
verið slegin stjörnublindu, við að
hitta einhverja stórstjörnuna í
fyrsta sinn, t.d. Al Pacino. „Það
var auðvitað geggjað að fá Pacino
í stólinn,“ svarar Heba og segir
Pacino hafa strítt henni örlítið í
stólnum. Hún hafi aftur á móti
verið slegin stjörnublindu þegar
hún hitti leikkonuna Daryl
Hannah. „Ég elska Blade Runner
og þegar Daryl Hannah kom í
stólinn hjá mér áttaði ég mig á
því, í miðri förðunarvinnu, að ég
væri með Pris í stólnum og hnén á
mér gáfu aðeins eftir,“ segir Heba
og hlær við, en Pris er persónan
sem Hannah leikur í hinni sígildu
kvikmynd Ridley Scott.
Ekki vinir
Heba segist hoppa á milli þess
að vera förðunarfræðingur stakra
leikara og yfirmaður förðunar-
deildar kvikmynda. Í fyrrnefnda
starfinu segir hún mikilvægt fyrir
förðunarfólk að muna að leikar-
arnir séu ekki vinir þess. Nándin
geti verið mikil í starfinu og þá
sérstaklega á tökustað þegar töku-
lið fer saman út að borða, í bíó eða
á tónleika. „Svo þegar myndin er
búin heyrir maður kannski ekki í
neinum í marga mánuði,“ útskýrir
Heba. „Ég man þetta alltaf og fer
aldrei yfir þessa línu,“ segir hún
og að starfið krefjist þess líka að
hún lesi í fólk, hvort það vilji tala
eða ekki, svo dæmi sé tekið.
Stundum vilji leikarar fá að vera í
friði og lesa. „Maður þarf að vera
jafnmikill sálfræðingur og förð-
unarmeistari.“
Eins og brimbrettakappi
Once Upon a Time ... in Holly-
wood var tekin í Los Angeles og
nágrenni og eru leikararnir í henni
mjög sólbrúnir. Heba er spurð að
því hvort þetta hafi verið raun-
veruleg brúnka og segir hún svo
ekki vera. „Þetta er allt gervi-
brúnka. Við fórum í gegnum
margar gerðir af brúnkukremum.
Það var mikið stöðutákn að eiga
sundlaug í Los Angeles á sjöunda
áratugnum og konurnar fóru til
dæmis í lagningu á hverjum föstu-
degi og létu hárgreiðslufólkið taka
hárið aðeins niður aftast og bleyta
það þannig að þær litu út fyrir að
vera nýkomnar upp úr sundlaug-
inni. Helmingur þessara kvenna
átti ekkert sundlaug,“ segir Heba
og hlær. Tarantino vildi að Brad
Pitt væri með hár eins og brim-
brettakappi og blásið líkt og hann
hefði verið að keyra blæjubíl.
„Hann er alltaf með hárið aðeins
upp að aftan,“ bendir Heba á, en
Pitt er mikið undir stýri í mynd-
inni.
Hrottalegt ofbeldi
Eins og í flestum kvikmyndum
Tarantino kemur ofbeldi við sögu í
þeirri nýjustu og er eitt atriði sér-
staklega blóðugt og hrottalegt.
Heba segir brellumeistara sjá að
mestu um slík atriði þar sem
dúkkur þurfi m.a. til en allt sem
snúi að andlitum leikaranna heyri
undir förðunardeild, m.a. að sjá til
þess að leikararnir séu eins í
framan milli takna. Heba segist
ekki hafa verið viðstödd tökur á
fyrrnefndu atriði enda hafi það
ekki krafist nærveru hennar og
hún ekki haft lyst á því. „Ég sagð-
ist bara ætla að snúa mér að skrif-
stofustörfunum,“ segir hún glettin.
Ljósmynd/Kyle Christy
Á tökustað Heba með leikkonunni Maríu Birtu Bjarnadóttur sem fer með aukahlutverk í kvikmyndinni.
Sólbrúnka og sundlaugarhár
Once Upon a Time ... in Hollywood verður frumsýnd hér á landi í dag Heba Þórisdóttir var yfir-
maður förðunardeildar Sjötta kvikmyndin sem hún gerir með leikstjóranum Quentin Tarantino
AFP
Stjörnur Leikstjórinn Quentin Tarantino með aðalleikurum Once Upon A
Time ... In Hollywood, þeim Brad Pitt, Margot Robbie og Leonardo
DiCaprio, á frumsýningu myndarinnar í Los Angeles 22. júlí síðastliðinn.