Morgunblaðið - 19.08.2019, Blaðsíða 11
Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi
umhverfis- og auðlindaráðherra,
flutti hátíðarræðu á Hólahátíð í
gær og fjallaði
um byggðarösk-
un og loftslags-
mál. Mbl.is
ræddi við hana
um ræðuna í gær
en þar lýsti hún
þeirri skoðun að
flutningur frá
Hólum, suður til
Reykjavíkur og í
Skálholt hefði
verið alvarleg-
asta byggðaröskun sem orðið hefði
á Íslandi. „Þetta var gríðarlegt
högg fyrir Norðurland,“ sagði hún.
Sigrún fjallaði m.a. um íslenska
tungu, neysluhyggju og um-
hverfismál. Loftslagsmál eru
henni hugleikin. „Ég vil vara við
því að menn séu með heimsenda-
spár því hver kynslóð hefur þurft
að búa við sínar ógnir eða breyt-
ingar og maður má ekki ala ung-
menni upp í því að allt sé að fara
veg allrar veraldar,“ sagði hún.
„Ég hef fulla trú á unga fólkinu í
dag, að við finnum leiðir til þess
að breyta rétt og laga okkur að
því sem er að gerast. Finna græn-
ar lausnir,“ sagði Sigrún.
„Vegið að rótum hjarta míns“
Neysla er ofarlega í huga Sig-
rúnar en hún sagði hvern og einn
þurfa að huga að eigin neyslu og
að breyta henni. „Maður þarf að
taka til í öllu,“ sagði Sigrún og
bætti við að innflutningur á lamba-
hryggjum, sem mikið hefði verið
rætt um undanfarið, hefði sýnt
henni fram á að Íslendingar ættu
langt í land í því að breyta neyslu-
hegðun sinni. „Það var vegið að
rótum hjarta míns með þessari vit-
leysu. Það er það mest „absúrd“
sem hægt er að gera. Það sannar
að við höfum ekki lagað hugsunina
í umhverfismálum. Það sýnir of-
neysluna, neysluhyggjuna alveg í
raun. Að flytja inn lambahryggi,
eina afurð sem kannski skortir í
örfáa daga eða vikur – og fullt til
af öðru lambakjöti. Að flytja þá
líka inn gamalt kjöt frá Nýja-Sjá-
landi!“ sagði Sigrún, en ljósmyndir
teknar í frystihólfum stórmarkaða
fóru nokkuð víða á samfélagsmiðl-
um í sumar. Sýndu þær lamba-
hryggi af nýsjálensku sauðfé sem
báru upprunaársmerkinguna 2017.
Varar við spám
um heimsenda
Sigrún Magnúsdóttir flutti ræðu á Hólahátíð
Sigrún
Magnúsdóttir
Rósa Margrét Tryggvadóttir
rosa@mbl.is
Landbúnaðarháskóli Íslands stefnir
að því að hefja kennslu fyrir trjá-
fræðinga eða arborista á næsta ári.
Er námið liður í Erasmus+ verkefn-
inu „Safe Climbing“ og er unnið í
samstarfi við Kaupmannahafnar-
háskóla.
Þetta staðfestir Ágústa Erlings-
dóttir, skrúðgarðyrkjumeistari og
verkefnastjóri Erasmus+ verkefn-
isins. Hún sér um skipulagningu á
ráðstefnu með yfirskriftina „Trjá-
klifur á Íslandi“ sem haldin verður
22. ágúst en þar verður m.a. kynnt
ný námskrá fyrir Trjáfræði.
„Þetta er fólk sem sérhæfir sig í
öllu sem viðkemur umhirðu trjáa og
fellingu þeirra. Þetta eru trjáklifr-
arar að atvinnu,“ segir Ágústa spurð
hvað það feli í sér að vera arboristi.
Segir hún að arboristar sjái helst
um tvenns konar verkefni, annars
vegar að fella tré sem eru orðin það
há að það þarf að höggva þau í búta
til að koma í veg fyrir skaða eða
hinsvegar að klippa og snyrta há tré.
Eru þeir ávallt vel búnir sér-
stökum trjáklifurbúnaði og þjálfaðir
til að lesa í aðstæður og ástand
trjánna.
„Það er ekki æskilegt að reisa
stiga upp við tré og klifra upp þann-
ig, eins og margir gera,“ segir
Ágústa.
Féll úr tré og hélt á keðjusög
Segir hún slys vegna trjáklifurs
vera algeng og að það sé ein ástæðan
fyrir verkefninu, en Félag skrúð-
garðyrkjumeistara hafði upphaflega
samband við Landbúnaðarháskól-
ann vegna slysa á félagsmönnum
sem höfðu verið að vinna í trjám. Al-
varlegasta slysið varð á manni sem
hélt á keðjusög og féll úr tré með
þeim afleiðingum að hann hlaut ör-
orku. Segir Ágústa að einstaklingur-
inn hafi verið heppinn að lifa af fall-
ið, en hann lenti ofan á keðjusöginni
sem var enn í gangi.
„Það er bara tímaspursmál hve-
nær það verður banaslys því það
hefur orðið fjöldinn allur af slæmum
slysum sem hefði verið hægt að
koma í veg fyrir með því að beita
réttum aðferðum,“ segir hún.
Ágústa segir að mikil þörf sé fyrir
fólk sem sérhæfir sig í trjáfræði og
segir það liðna tíð að ekki þurfi að
hafa áhyggjur af trjám hér á landi.
Segir hún að aðeins eitt fyrirtæki
sérhæfi sig í störfum arborista á Ís-
landi og að starfsmennirnir séu um-
setnir af sveitarfélögum og stofn-
unum eins og kirkjugörðum vegna
verkefna sem garðyrkjumenn ráða
ekki við vegna hæðar trjánna og um-
fangs.
„Í rauninni er staðan orðin þannig
að við erum komin með fullt af trjám
sem er ekkert hægt að gera við
nema með því að beita þessum að-
ferðum. Þó að maður hugsi alltaf að
það séu engin stór tré á Íslandi er
þeim að fjölga og með hlýnandi
veðurfari er vöxturinn í þessum
trjám orðinn mun meiri á hverju ári
heldur en hann var fyrir 10-20 árum.
Þannig að þetta er alltaf að gerast
hraðar,“ segir Ágústa.
„Við sjáum fram á að ef við ætlum
að vera tilbúin fyrir það sem gerist á
næstu 10 til 15 árum þá þurfum við
að setja þetta í gang sem fyrst. Líka
bara til að forðast almenn slys á
fólki.“
Tímaspursmál hve-
nær verður banaslys
Segir mikla þörf fyrir fólk sem sérhæfir sig í trjáfræði
Ljósmynd/Safe Climbing
Trjáklifrarar Arboristar eru vel búnir til klifurs og þjálfaðir til að snyrta og
höggva niður há tré slysalaust. Brátt verður hægt að læra fagið hér á landi.
Rósa Margrét Tryggvadóttir
rosa@mbl.is
Bæði skipuleggjendur og gestir
aðdáendaráðstefnunnar Midgard
leggja nú hart að sér við undirbún-
ing fyrir ráðstefnuna sem verður
haldin í annað skipti í Reykjavík
hinn 13.-15. september í knatt-
spyrnuhöllinni Fífunni í Kópavogi.
Þar mun fólk með áhuga á ýmiss
konar skáldskap koma saman og
deila áhugamálum sínum. Midgard
verður með stærra móti í ár en bú-
ist er við því að 3.000 manns sæki
hana. Um 1.500 mættu á ráðstefn-
una í fyrra og komust færri að en
vildu. Þetta staðfestir Hilmir Kol-
beins, einn skipuleggjandi ráðstefn-
unnar, en hann segir undirbúning
nú vera í fullum gangi. Segir hann
að mikið verði um að vera á ráð-
stefnunni og margt að sjá en al-
þjóðleg nöfn úr aðdáendaheiminum
munu m.a. láta sjá sig, búninga-
keppni verður haldin og víkinga-
félagið Rimmugýgur verður með
sýningu.
SkipuleggjendurMidgard eru
ekki þeir einu sem þurfa að undir-
búa sig fyrir ráðstefnuna heldur
einnig metnaðarfyllstu gestirnir
sem margir koma í heimatilbúnum
búningum. Einn þeirra er hin 23
ára Jónína Strumann sem hefur
mikla ástríðu fyrir búningagerð.
Hún er þýsk en hefur búið ásamt
fjölskyldu sinni á Íslandi sl. tvö ár.
Jónína hóf að búa til búninginn
sinn í síðasta mánuði og segir vinn-
una ganga vel en hún telur að bún-
ingurinn verði tilbúinn eftir tæpan
mánuð. Persónan sem hún ætlar að
klæða sig upp sem heitir Hawks og
er úr japönsku teiknimyndaserí-
unni, „My Hero Academia“ sem er í
miklu uppáhaldi. Hún er með úfið
hár og stóra rauða englavængi að
sögn Jónínu.
„Það er mikið sem þarf að und-
irbúa. Það þarf að skera út, móta
og mála efnið og það tekur mikinn
tíma. Þetta er erfitt verk og þess
vegna byrjaði ég svona snemma“
segir Jónína í samtali við Morgun-
blaðið en hún segist panta efnið
sem hún notar í búningana frá út-
löndum. Jónína er enginn byrjandi í
búningagerð. Hún hefur búið til
búninga í um 9 ár, frá því hún var
14 ára gömul. Midgard-ráðstefnan í
ár verður 68. aðdáendaráðstefnan
sem hún sækir. Í gegnum tíðina
hefur hún nokkrum sinnum hlotið
fyrstu verðlaun í búningakeppnum
en hún vann m.a. í búningakeppn-
inni á japönskum dögum í Háskóla
Íslands á síðasta ári.
Jónína segist hlakka mikið til
ráðstefnunnar en vinir hennar frá
Þýskalandi ætla að ferðast til lands-
ins til að sækja hana. Jónína sótti
ráðstefnuna einnig í fyrra og segir
hana hafa verið frábæra.
Listræn Jónína leggur hart að sér við að búa til búning fyrir ráðstefnuna
Midgard. Í fyrra fylgdi hún japönsku tískufyrirbrigði á ráðstefnunni.
Hefur sótt um 70
„nördaráðstefnur“
FRÉTTIR 11Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 19. ÁGÚST 2019