Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.08.2019, Side 17
Sátu tveir, brýndu
klærnar og möluðu
Þegar Boris hafði hreiðrað um sig í Downingstræti
og þeir sátu saman við skrifborð valdsins, hann og
Larry, yfirmúsaveiðari bresku ríkisstjórnarinnar,
annar við borðið og hinn uppi á því, enda þegar búinn
að hafa eina þrjá eða fjóra forsætisráðherra á sínum
snærum, benti hinn fyrrnefndi á að hann þyrfti ekki
að fá leyfi þingsins til að fara úr ESB 31. október nk.
frekar en Larry þyrfti leyfi til að veiða mýs. Larry
væri æviráðinn, eins og kunnugt væri og þjóðin hefði
ákveðið útgönguna, og hún væri meitluð í lög sem
undirrituð eru af þjóðhöfðingja sem undirritað hefði
slíka pappíra og innsiglað með krúnustimpli sínum
lengur en nokkur annar, og það þótt horft væri til
allrar heimsbyggðarinnar.
Það fóru margir út af í lausamölinni þegar þessi
skilaboð bárust frá þeim Larry. John Major, fv. for-
sætisráðherra, hótaði að draga Boris fyrir dómstóla
og aðrir flokksmenn hótuðu að bera við fyrsta tæki-
færi upp vantraust á ríkisstjórn hans og standa með
Verkamannaflokknum við að samþykkja það. Farið
yrði fram á það við ESB að fresta útgöngunni á með-
an kosningar og ný stjórnarmyndun færi fram.
Boris benti á að það væri aðeins einn maður í land-
inu sem gæti farið fram á slíka frestun og sá héti Bor-
is og hann myndi ekki biðja um það á meðan sólin
kæmi enn upp í austri.
Óvæntasti leikurinn og
ekki síðri mótleikur
Þá var komið að John McDonnell, þingmanni og
hægri hönd Jeremy Corbyns um langt skeið. Hann
sat fyrir svörum á Edinborgarhátíð, sem áður hefur
verið vitnað til, og var spurður um hvað væri nú til
ráða. Hann veitti þetta svar: „Komi þessi staða upp
mun ég senda Jeremy Corbyn í leigubíl til Buck-
ingham-hallar til 93ja ára frúarinnar þar og tilkynna:
Nú tökum við yfir.“
Mörgum viðstaddra og víðar um Bretland varð
nokkuð um sitthvað í þessari stuttu setningu og
talsmenn leiðtoga Verkamannaflokksins reyndu að
benda á að þetta hafi verið sagt í gamansömum tón
af hálfu hægri handarinnar. Einhver varð þá til þess
að benda á að drottningin væn og góð ætti í þessu
dæmi eins og öllum öðrum síðasta orðið og síðustu
fléttuna. Og þegar henni hefði verið sagt að Corbyn
hefði komið í leigubifreið til hallarinnar og hirð-
stjórinn útskýrt hvers konar fyrirbæri það væri (og
var þá átt við bifreiðina en ekki Corbyn) hefði hún
þegar í stað ákveðið að fela Philip prinsi að keyra
Corbyn heim. Þegar Corbyn hefði heyrt um þann
óvænta mótleik í þröngri stöðu hefði hann þegar í
stað harðneitað öllum hugmyndum um slíka háska-
för.
Hvernig voga þeir sér?
Forðum tíð þegar utanbæjarstúdentar biðu í röð til
að komast einu sinni í viku í símann til að hringja
heim heyrðu þeir óþolinmóðir langorðan stúdent,
sem síðar varð landsfrægur klerkur, segja: „Já, en án
gamans pabbi, er amma dauð?“
Og í sama anda hlýtur að vera spurt, án alls gam-
ans, hvers vegna menn ganga svona langt til að
hindra lýðræðislega vilja sinnar eigin þjóðar.
Fólkið vildi fara úr ESB og sagði það í atkvæða-
greiðslu sem það hafði beðið eftir í áratugi. Foringjar
allra flokka á þingi lofuðu því og lögðu æru sína undir
að þeir myndu fylgja vilja þjóðarinnar, hver sem
hann yrði. Sumir, sem lofuðu, eru reyndar taldir hafa
gefið svo ótvíræð loforð af því að birtar og ekki síður
óbirtar kannanir sögðu þeim að ESB-sinnar myndu
hafa öruggan vinning.
Og það tók suma þeirra sem lofað höfðu upp á æru
og trú að standa að því að tryggja að farið yrði eftir
niðurstöðu meirihlutans dálítinn tíma að finna af-
leggjara af braut loforða og sannleika. Jafnvel harð-
svíruðustu menn eiga stundum fullt í fangi með að
eiga við samviskuna og það fyrir opnum tjöldum.
Smám saman tókst mönnum að sameinast um út-
gönguleið sem þeir felldu að sínum vonda málstað
með þvingum og skrúfstykkjum.
Af hverju gera menn annað eins og það?
Það er ekki gott að segja. Spyrja má slíkra spurn-
inga í nærsveitum. Detti menn niður á svarið er það
örugglega líkt á báðum stöðum.
Ekki vafi, afi.
Morgunblaðið/RAX
’Útganga Breta úr ESB virtist ekkert vandamál þegar niðurstaðaþjóðarinnar lá fyrir. Allir flokkar semnáðu máli höfðu lofað að sjá um að sú
niðurstaða yrði virt.
11.8. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17