Skessuhorn - 30.12.2015, Blaðsíða 6
MIÐVIKUDAGUR 30. DESEMBER 20156
Ólík en mörg
verkefni
lögreglu
VESTURLAND: Alls urðu
níu umferðaróhöpp í umdæmi
Lögreglunnar á Vesturlandi í
liðinni viku. Flest þeirra voru
minniháttar og öll án teljandi
meiðsla á fólki. Ökumaður sem
ók utan í bifreið sem hann var
að mæta á Vesturlandsvegi við
Fiskilæk, viðurkenndi að hafa
líkast til dottað við aksturinn.
Honum hafi síðan orðið svo
mikið um að hann ók áfram í
um 10 km áður en hann ætl-
aði að stoppa og tilkynna um
óhappið. En í því stöðvaði
lögreglan akstur hans og tók
hann tali. Fjórir ökumenn
voru teknir fyrir að aka undir
áhrifum fíkniefna í liðinni viku
og einn þeirra reyndist einnig
vera ölvaður. Nokkuð var um
að lögreglan væri kölluð út
til að skakka leikinn á heimil-
um fólks yfir jólin. Um var að
ræða fjögur tilvik, allt frá mál-
um sem flokka má sem heim-
ilisófrið upp í átök og ofbeldi
þar sem börn voru á heimili.
Þá voru tvö líkamsárásarmál
tilkynnt til lögreglu um jól-
in. Í öðru þeirra var greini-
lega um misskilning ölvaðra
að ræða í samkvæmi í heima-
húsi í Borgarnesi, sem leiddi
til átaka og síðan afskipta lög-
reglu. Þá kærði maður ann-
an fyrir að kýla sig í andlitið
utan við skemmtistað á Akra-
nesi og vankaðist viðkomandi
við höggið og hlaut áverka í
andliti. Árásarmaðurinn flúði
af vettvangi en vitað er hver
hann er. Málið er í rannsókn.
Loks var lögreglu tilkynnt um
að fólk væri að róta í rusla-
gámi við verslun í Borgarnesi.
Kom í ljós að um útlendinga
var að ræða. Þeir voru ekki að
leita sér að mat að eigin sögn,
heldur hlutum sem þeir gætu
notað við listgjörning. Voru
þeir beðnir um að láta af þess-
ari iðju.
–mm
Mjólkurbíll valt
BORGARFJ: Mjólkurbíll
með tengivagn á leið norð-
ur lenti útaf Vesturlandsvegi
í Norðurárdal við gatnamót
Vestfjarðavegar síðdegis á
þriðjudag í liðinni viku og
valt ækið á hliðina. Ökumað-
ur slapp án meiðsla. Kvaðst
hann hafa beygt útaf til að
lenda ekki aftan á fólksbíl sem
var kyrrstæður fyrir framan.
Sá hafði ætlað að beygja til
vinstri inn á Vestfjarðaveg en
rétt misst af gatnamótunum
og því stöðvað bifreiðina.
Snjóþekja og hálka var þegar
óhappið varð.
-mm/Ljósm.LVL.
Hvasst fram að
gamlárskvöldi
LANDIÐ: Því var spáð í gær
að djúp lægð kæmi sunnan
úr höfum og færi yfir aust-
anvert landið í nótt, aðfarar-
nótt miðvikudags. Versta
veðrinu er spáð austan-
til á landinu, en þar má bú-
ast við ofsaveðri og jafnvel
fárviðri austast í dag. Sam-
kvæmt spánni verður veðrið
ekki með alversta móti hér
Vestanlands, en þó suðvest-
an rok allan daginn og fram
undir kvöld á gamlársdag
má búast við hvassviðri, að
sögn Veðurstofunnar. Sam-
kvæmt spánni á vindhraði
að ganga niður um svipað
leyti og Kryddsíldinni lýkur
í sjónvarpinu. Vestlendingar
ættu að geta fagnað nýju ári
í hæglætisveðri, en takmörk-
uðu skyggni þar sem spáð er
éljagangi.
–mm
Orkuveitan
lokar afgreiðslu
sinni
BORGARNES: Afgreiðslu
Orkuveitu Reykjavíkur í
Borgarnesi verður lokað um
áramótin. „Þjónustustigið á
vef Orkuveitunnar er orð-
ið það hátt og fólk farið að
nota hann í svo miklum mæli
að það er ekki talin þörf á því
lengur að hafa sérstaka af-
greiðslu í Borgarnesi. Þessu
fylgja þó engar uppsagnir
þar, við skipuleggjum okkur
einfaldlega örðuvísi en verið
hefur,“ segir Eiríkur Hjálm-
arsson upplýsingafulltrúi
Orkuveitunnar í samtali við
Skessuhorn. Samhliða þessu
verður afgreiðslu fyrirtæk-
isins í Hveragerði einnig
lokað. Einnig verða gerðar
breytingar á afgreiðslutíma
þar sem áfram verður opið.
Þannig verður afgreiðsla
Orkuveitunnar á Akranesi
opin frá klukkan 13:00 til
16:30 alla virka daga. Þjón-
ustuvakt Orkuveitu Reykja-
víkur verður svo opin allan
sólarhringinn, alla daga árs-
ins í síma 516 6000.
–mþh
Óvenjuleg húsbygging hefur átt
sér stað nú síðari hluta ársins hjá
félagbúinu á Miðhrauni í Eyja- og
Miklaholtshreppi. Þar er nú búið
að reisa fjögurra íbúða raðhús fyr-
ir starfsmenn búsins. Nú laust fyrir
jól afhenti verktakinn, sem var SÓ
Húsbyggingar í Borgarbyggð, lykl-
ana að hinu nýja raðhúsi til félags-
búsins. Starfsmenn þess munu nú
hefjast handa við að innrétta húsið.
Áætlað er að það standi tilbúið fyrir
íbúða að flytja inn nú á vordögum.
„Þessar fjórar íbúðir eru hver um
90 fermetrar að flatarmáli. Þetta var
vissulega dálítið óvenjulegt verk-
efni, svona á sinn hátt. Það er afar
fátítt að reist séu raðhús úti í sveit.
Þau hjá félagsbúinu voru tilbúin
með teikningarnar og fólu okkur
að sjá um þetta verk að byggja hús-
ið. Við hófumst handa í júlí síðast-
liðnum og skiluðum þessu af okkur
fokheldu núna rétt fyrir jól,“ seg-
ir Jóhannes Freyr Stefánsson fram-
kvæmdastjóri SÓ Húsbygginga í
samtali við Skessuhorn.
Jóhannes Freyr lætur vel af sér
þegar hann er spurður um frekari
verkefnastöðu fyrirtækisins nú við
áramót. „Við erum langt komnir
með nýbyggingu fjölbýlishúss við
Arnarklett í Borgarnesi og að byggja
stórt og mikið fjós á Gunnlaugs-
stöðum í Stafholtstungum í Borg-
arfirði. Síðan vinnum við að áform-
um um byggingu hótels og íbúða
fyrir eldri borgara í Borgarnesi.
Nú er verið að koma því í gegnum
skipulagsferli og við stefnum að því
að byrja þar í vor,“ segir Jóhannes
Freyr. „Það er óendanlega mikið að
gera. Okkur vantar bara mannskap
og gætum bætt við fleirum. Fyrst
og fremst er skortur á húsasmiðum.
Það hafa allir nóg að gera í þessum
geira núna.“
Byggja yfir starfsmenn
Sigurður Hreinsson hjá félags-
búinu á Miðhrauni segir að nýja
raðhúsið sé reist fyrir starfsmenn
búsins, en á Miðhrauni hefur með-
al annars verið stunduð fiskþurrkun
um árabil. „Starfsfólkið okkar hefur
búið í leiguhúsnæði hér í sveitinni,
í Borgarnesi og Stykkishólmi. Við
vorum reyndar búin að ákveða fyrir
mörgum árum að ráðast í byggingu
þessa húss en því hefur svo alltað
verið slegið á frest vegna anna við
önnur verkefni þar til nú. Það var
hins vegar ekki lengur um annað að
ræða en ráðast í þessa byggingu. Við
höfum að stærstum hluta haft sama
góða starfsfólkið hér árum saman.
Börnin vaxa hins vegar úr grasi og
það er orðið þröngt um fólk. Síð-
an er skortur á íbúðarhúsnæði hér
og því erfitt að fá leigt,“ segir Sig-
urður. Hann segir að tvær íbúðir í
nýja húsinu verði með tveimur her-
bergjum og tvær með þremur. Ráð-
gert er að fólk flytji inn á vordög-
um.
mþh
Reistu raðhús í sveit
Guðbjörn Kristinsson hjá SÓ Húsbyggingum var yfirsmiður við framkvæmdina.
Hér afhendir hann Sigurði Hreinssyni á Miðhrauni lyklana að nýja raðhúsinu rétt
fyrir jólin.
Nýja raðhúsið er alls um 380 fermetrar að flatarmáli og í því eru fjórar íbúðir.