Skessuhorn - 18.01.2017, Blaðsíða 31
MIÐVIKUDAGUR 18. JANÚAR 2017 31
Klettagörðum 15 | 525 7700 | flytjandi.is
DAGLEGA Á FERÐINNI MEÐ
VÖRUR UM ALLT LAND
Eimskip Flytjandi veitir samræmda flutningaþjónustu
um land allt og eru áfangastaðirnir 80 talsins.
Í gær var dregið í undanúrslitum
Maltbikarsins, bikarkeppni KKÍ,
en undanúrslitaleikirnir fara fram
í Laugardalshöll miðvikudaginn 8.
febrúar næstkomandi.
Stórleikur undanúrslitanna er
Vesturlandsslagur Skallagríms og
núverandi bikarmeistara Snæfells í
bikarkeppni kvenna. Snæfell sigraði
Stjörnuna 68-63 í spennandi leik í
átta liða úrslitum á sunnudagskvöld
en Skallagrímur valtaði yfir KR,
78-42, á mánudag.
Liðin eru bæði í toppbaráttu Dom-
ino‘s deildarinnar og mættust ein-
mitt í Stykkishólmi í síðustu umferð.
Þar höfðu Skallagrímskonur betur
og hafa þær unnið tvær af þremur
viðureignum liðanna í deildinni það
sem af er vetri og mætast nú einu
sinni enn í bikarnum. Sigurvegarinn
úr viðureign Skallagríms og Snæfells
mætir sigurvegaranum úr leik Kefl-
víkinga og Hauka í bikarúrslitaleikn-
um sem fram fer í Laugardalshöll-
inni laugardaginn 11. febrúar.
Í undanúrslitum Maltbikars karla
drógust Grindvíkingar gegn Þór
Þorlákshöfn og 1. deildar lið Vals
mætir KR-ingum, sem eru einmitt
ríkjandi bikarmeistarar karla.
kgk
Vesturlandsslagur í
undanúrslitum bikarsins
Snæfell hampaði bikarmeistaratitli kvenna síðasta vor. Liðið mætir nágrönnum
sínum í Skallagrími í undanúrslitum að þessu sinni. Ljósm. úr safni/ sá.
Búið er að draga í töfluröð Pepsi-
deildar karla í knattspyrnu fyrir
komandi sumar og hægt er að sjá
alla leiki mótsins á vef KSÍ. Í fyrstu
umferðinni fá Skagamenn Íslands-
meistara FH í heimsókn á Akra-
nes en Víkingur Ólafsvík heimsæk-
ir Val. Í annarri umferð taka Vík-
ingar á móti KR en ÍA hefur mótið
á tveimur heimaleikjum og fær Val í
heimsókn. Í þriðju umferð mótsins
er svo á dagskrá slagur hinna fornu
fjenda ÍA og KR í Frostaskjóli í
Reykjavík en í sömu umferð heim-
sækja Ólafsvíkingar nýliða Grinda-
víkur.
Þá má geta þess að Vesturlands-
liðin tvö mætast annars vegar í
Ólafsvík um mitt mót og hins vegar
á Akranesi í lokaumferðinni.
Gert er ráð fyrir því að Íslands-
mótið hefjist sunnudaginn 30. apríl
og að lokaumferðin verði leikin
30. september. Drög að leikdög-
um verður birt á næstu dögum á vef
KSÍ. kgk
ÍA fær Íslandsmeistarana í
heimsókn í fyrsta leik
Svipmynd úr leik ÍA og Víkings Ó.
síðastliðið sumar.
Ljósm. úr safni/ gbh.
Sannkallaður Vesturlandsslagur
var háður í Domino‘s deild kvenna
á miðvikudag í liðinni viku, en þá
mættust Snæfell og Skallagrímur í
Stykkishólmi. Liðin hafa átt prýði-
legu gengi að fagna á Íslandsmótinu
það sem af er, voru fyrir leikinn jöfn
að stigum í 2. og 3. sæti deildarinn-
ar. Því var fyrirfram búist við mikl-
um spennuleik í Stykkishólmi en sú
varð ekki raunin. Skallagrímur var
sterkara liðið og skrefinu á undan
Snæfelli í öllum sínum aðgerðum.
Borgarnesliðið leiddi allan leikinn
og vann að lokum þægilegan 13
stiga sigur, 67-80.
Skallagrímskonur komu mjög
ákveðnar til leiks og náðu snemma
undirtökunum. Þær komust í 20-10
eftir aðeins sjö mínútna leik en
Snæfell kom aðeins til baka áður
en upphafsfjórðungurinn var úti.
Staðan að honum loknum var
18-24 fyrir Skallagrími. Í upp-
hafi annars leikhluta fóru liðin sér
hægt hvað stigaskor varðar en eftir
því sem leið nær hálfleiknum bættu
Skallagrímskonur hægt og sígandi
við forskot sitt. Þær leiddu með 13
stigum í hléinu, 41-28.
Síðari hálfleikur fór fremur ró-
lega af stað og Skallagrímur hélt
heimaliðinu í þægilegri fjarlægð.
Snæfell gerði þó smá áhlaup um
miðjan þriðja leikhluta og minnkaði
muninn í átta stig. Skallagrímsliðið
svaraði fyrir sig en aftur minnkaði
Snæfell muninn seint í fjórðungn-
um áður en gestirnir komu forskoti
sínu aftur í 13 stig áður en leikhlut-
inn var úti. Snæfell hóf lokafjórð-
unginn af krafti og minnkaði mun-
inn í sjö stig en nær komust þær
ekki það sem eftir lifði leiks. Skalla-
grímur kom forskoti sínu aftur í
tveggja stafa tölu og kláraði leikinn
síðan nokkuð þægilega, 67-80.
Tölfræði leiksins
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir átti
stórgóðan leik fyrir Skallagrím.
Hún var með 18 stig, 16 fráköst og
fjórar stoðsendingar. Tavelyn Til-
lman var hins vegar stigahæst með
26 stig og Jóhanna Björk Sveins-
dóttir skoraði ellefu stig og tók sex
fráköst en aðrar höfðu minna.
Í liði Snæfells var Aaryn Ellen-
berg-Wiley atkvæðamest með 24
stig, ellefu fráköst og þrjár stoð-
sendingar. Berglind Gunnarsdótt-
ir var með 15 stig og sjö fráköst og
Gunnhildur Gunnarsdóttir skor-
aði 11 stig, tók sex fráköst og varði
fjögur skot.
Staðan í deildinni
Úrslit leiksins gerðu það að verkum
að liðin höfðu sætaskipti í deildinni.
Skallagrímur lyfti sér upp í 2. sætið
og hefur 22 stig eftir 15 leiki, jafn
mörg stig og topplið Keflavíkur.
Snæfell situr aftur á móti í 3. sæti
deildarinnar með 20 stig, tveimur
stigum frá toppnum og jafn mörg-
um stigum á undan Stjörnunni í
sætinu fyrir neðan.
Næsta umferð Domino‘s deildar
kvenna verður leikin laugardaginn
21. janúar næstkomandi. Þá heim-
sækja Snæfellskonur lið Njarðvíkur
en Skallagrímur mætir Stjörnunni í
Borgarnesi.
kgk
Skallagrímur stjórnaði ferðinni gegn Snæfelli
Snæfellingurinn Berglind Gunnarsdóttir sækir hér að körfu Skallagríms en
Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Fanney Lind Thomas eru til varnar. Ljósm. sá.
Birta Sigþórsdótt-
ir úr HSH gerði
sér lítið fyrir og
setti stúlknamet í
kúluvarpi innan-
húss á gamlársdag.
Birta er úr Stykk-
ishólmi, fædd 2003
og keppti í flokki
13 ára stúlkna. Hún
tók þátt í Coca Cola
móti FH í Kapla-
krika í Hafnarfirði
og bætti gildandi
Íslandsmet í sínum
aldursflokki þeg-
ar hún kastaði 2 kg
kúlu 14,48 m. Kast-
serían var þessi;
12,76 m - 13,89 m
- 14,07 m - 13,59m
og 14,48 m. Daginn eftir, nýárs-
dag, var Birta komin í 14 ára ald-
ursflokkinn og þar kasta stúlkur
þriggja kílóa kúlu. Það er því óhætt
að segja að Birta hafi nýtt gamlárs-
dag vel í íþróttinni.
Í apríl 2016 kastaði hún 12,31 m
og bætti þá héraðsmet HSH inn-
anhúss í sínum flokki. Henni fór
því mikið fram á síðasta ári. Gild-
andi met í flokki 13 ára stúlkna
átti áður Hekla Rún Ámundadótt-
ir úr ÍR, en hún kastaði 14,20 m í
nóvember 2007. Þess má geta að
einungis Hekla Rún og nú Birta
hafa kastað yfir 14 m í flokki 13
ára stúlkna í kúluvarpi innanhúss
en þriðji og fjórði besti árangurinn
í flokknum eru köst upp á 13,44 m
og 13,38 m.
kgk
Nýtti gamlársdag vel
Nýársmót HSH í frjálsum íþrótt-
um var haldið síðasta sunnudag í
íþróttahúsinu í Ólafsvík. Alls voru
52 keppendur sem tóku þátt, alls
staðar af Snæfellsnesinu. Yngsti
keppandinn var á fjórða aldursári
en þeir elstu á 16. ári. Keppt var í
35 m hlaupi, langstökki með og án
atrennu og kúluvarpi. Mótið fór vel
fram og voru margir keppendur að
fara á sitt fyrsta mót.
Frjálsar íþróttir eru nú æfðar í
Stykkishólmi, Grundarfirði og Snæ-
fellsbæ. Mótið átti að vera jólamót
en hafði verið frestað vegna veðurs.
„Við vorum bara kát með þetta mót
sem var stutt og skemmtilegt,“ seg-
ir í tilkynningu frá frjálsíþróttaráði
HSH.
Allir keppendur fengu þátttöku-
verðlaun, íþróttapoka merktan HSH
og þeir sem ekki áttu hana fyrir fengu
húfu merkta HSH. Þá má geta þess
að keppta var í óhefðbundinni auka
keppnisgrein, „sokkakeppni“ þar
sem keppt var um skrautlegustu,
frumlegustu og glaðlegustu sokka
keppenda. kgk
Góð þátttaka á nýársmóti HSH í frjálsum
Keppendur í 35 metra hlaupi búa sig undir að verða ræstir af stað. Allir keppendur mótsins fengu þáttökuverðlaun, íþróttapoka merktan HSH og húfu.