Skessuhorn - 03.01.2018, Síða 12
MIÐVIKUDAGUR 3. JAnúAR 201812
Venju samkvæmt gengst Skessuhorn
fyrir útnefningu á Vestlendingi árs-
ins, en sú hefð hefur haldist óslit-
ið frá upphafi blaðsins árið 1998.
Valið fer þannig fram að kallað er
eftir tilnefningum íbúa um þá sem
þeim þykja verðugir þess að vera
sæmdir nafnbótinni fyrir árangur í
leik eða starfi. Að vanda bárust fjöl-
margar tilnefningar en engu að síð-
ur var snemma ljóst í hvað stefndi.
Vestlendingur ársins 2017 er Svav-
ar Garðarsson í Búðardal. Er hann
tilnefndur fyrir óeigingjarnt starf í
þágu samfélagsins með því að hafa
um árabil unnið í sjálfboðastarfi við
umhverfisbætur í og við Búðardal.
Á liðnu ári hafði hann einnig frum-
kvæði að því að tveimur kópum
úr Fjölskyldu- og Húsdýragarðin-
um var komið í tímabundið fóst-
ur í Búðardal. Hefur hann hugsað
um selina frá því þeir komu fyrst í
bæinn á liðnu hausti. nýjustu íbúar
bæjarins, kóparnir tveir, hafa vakið
mikla athygli gesta og gangandi og
hefur Svavar fengið mikið hól fyrir
framtakið. Skessuhorn hitti Svavar
milli jóla og nýárs, á köldum en fal-
legum degi í Búðardal.
„Þegar mér var tilkynnt að ætti
að sæma mig þessari nafnbót hugs-
aði ég: „Hvur andskotinn“,“ segir
Svavar og brosir. „En ég er engu
að síður ákaflega þakklátur Vest-
lendingum fyrir að hafa veitt því
sem ég er að gera athygli og sýnt
mér þann heiður að tilnefna mig
til þessarar nafnbótar. En um leið
er rétt að benda á að það geta allir
gert það sem ég hef verið að gera,
það er að segja tekið til hendinni í
nærumhverfinu. Það þarf bara að
skipuleggja sig og láta verkin tala.
Þetta er skemmtilegt, maður sér
afrakstur vinnunnar jafnóðum og
það er manni hvatning til að halda
áfram. Ég hvet alla til að gera slíkt
hið sama og þakka fyrir mig,“ segir
hann.
Hefur tekið um 20
svæði í gegn
Svavar fluttist í Búðardal 8. janúar
árið 1976, þá 24 ára gamall. Hann
er alinn upp á Hríshóli í Reykhóla-
sveit en fjölskyldan flutti á Akra-
nes þegar hann var 16 ára gam-
all. Þaðan hélt Svavar á ný vestur
á bóginn, settist að í Búðardal og
hefur verið þar búsettur allar göt-
ur síðan. Hann segir að það hafi
hins vegar ekki verið fyrr en fyrir
tiltölulega skömmu síðan að hann
hóf að láta sig nærumhverfið varða
og ráðast í umhverfisbætur í bæn-
um. „Ég byrjaði bara á þessu fyrir
nokkrum árum síðan. Þá lagði ég
til við sveitarfélagið að lagðir yrðu
peningar í sjóð sem íbúar gætu
sótt í til að sinna umhverfisbót-
um í sjálfboðavinnu. Sveitarfélagið
myndi þá greiða útlagðan kostnað
og vinnan yrði að vera sjálfboða-
vinna. Reglurnar um úthlutun eru
skýrar; gera verður ítarlega grein
fyrir útgjaldaliðum og sá sem sæk-
ir um fær ekki krónu meir en það
sem fæst vilyrði fyrir,“ segir Svav-
ar. „Vel var tekið í erindið og síð-
an þessum sjóði var komið á fót
þá hef ég sótt um fyrir hinum og
þessum verkefnum og verið að laga
til hingað og þangað um bæinn all-
ar götur síðan,“ segir hann. Svæðin
og blettirnir sem Svavar hefur dytt-
að að og fegrað undanfarin ár tel-
ur hann að séu um 20 talsins. Þar
að auki hefur hann tekið að sér að
hirða blettina, einnig í sjálfboða-
starfi. nú er svo komið að tíminn
sem fer í að hirða um svæðin sem
hann hefur tekið í gegn er farinn
að þrengja verulega að nýjum sam-
félagsverkefnum. „Samhliða þessu
er ég auðvitað í vinnu, ég starfa
sem verktaki en þetta gengur með
góðu skipulagi. Það er gott að vera
sjálfstætt starfandi, þá getur maður
skipulagt sinn tíma sjálfur. Annars
gæti ég væntanlega ekki gert jafn
mikið,“ segir hann.
Byrjaði af illri nauðsyn
En af hverju byrjaði hann á þessu?
„Það var nú eiginlega bara af illri
nauðsyn. Mér fannst staðurinn víða
illa hirtur og þá var annað hvort
að gera þetta sjálfur eða fara bara
í burtu,“ segir Svavar og brosir.
„Mörg svæði voru illa hirt og hálf
ömurleg fannst mér. Allt eru þetta
blettir í eigu Dalabyggðar og ekki
ofarlega á verkefnalista stjórnenda
sveitarfélagsins að koma þeim í
betra horf. Á sama tíma fannst eng-
um öðrum eins og þeir ættu að gera
neitt í málinu. Þannig að ég byrj-
aði bara, lagði til að þessi sjóður
yrði stofnaður, sótti um og hófst
handa,“ segir Svavar. „Það geta all-
ir gert þetta. Það þarf bara að vera
skipulagður og láta verkin tala,“
bætir hann við. „Ef maður byrjar
á ljótasta blettinum og gerir hann
fínan þá er hann ekki lengur ljót-
astur, heldur einhver annar. Svo
heldur maður áfram koll af kolli
og með tímanum verður það þann-
ig að verstu blettirnir eru kannski
ekkert svo slæmir.“ Og Svavar seg-
ist hvergi nærri hættur að taka til
hendinni í Búðardal. „næsta sumar
hef ég í huga að sækja um til að laga
tvö svæði. Þau verkefni eru bæði
áframhaldandi lagfæringar á blett-
um sem ég hef þegar tekið í gegn,“
segir hann.
Selirnir koma
í Búðardal
Það var 26. september síðastlið-
inn að fjölgaði í Búðardal um tvo
og það fyrir tilstilli Svavars. Hann
hafði frumkvæði að því að tveim-
ur landselskópum úr Húsdýra-
garðinum var komið í tímabund-
ið fóstur í bænum. Vakti framtak-
ið mikla athygli og fékk góða um-
fjöllun. „Hugmyndina fékk ég fyr-
ir rúmum tveimur árum síðan þeg-
ar kópur strauk úr Húsdýragarðin-
um og komst inn á tjaldsvæðið þar
í nágrenninu. Lögregla var kölluð
til, fangaði kópinn og kom honum
í garðinn að nýju. En síðan strauk
kópurinn aftur og þá var ákveðið að
lóga honum. Það var bara einhver
einn maður sem tók þá ákvörðun,“
segir Svavar. „Ég ritaði því garðin-
um bréf og bauðst til þess að taka
við kópunum í fóstur, með það að
markmiði að sleppa dýrunum út
í náttúruna að nýju. Mér var tjáð
að einn Þrándur væri í Götu og
það væru dýraverndarlögin, þar
sem segir að ekki megi sleppa dýr-
um sem hafa alist upp hjá mönn-
um út í náttúruna aftur, nema fisk-
um eða seiðum,“ segir hann. „Mér
var því vísað á Matvælastofnun og
var í samskiptum við þá og ráðu-
Svavar Garðarsson er Vestlendingur ársins 2017
„Það þarf bara að skipuleggja sig og láta verkin tala“
Blaðamaður Skessuhorns færir Vestlendingi ársins blómavasa og blómvönd að gjöf fyrir hönd Skessuhorns og með kveðju frá lesendum. Bæði vasinn og vöndurinn eru
úr versluninni Módel á Akranesi.
Svavar ræðir við blaðamann á útsýnispalli við Ægisbraut í Búðardal. Pallinn smíð-
aði Svavar í verktöku fyrir Dalabyggð, en verkefnið var styrkt af Framkvæmda-
sjóði ferðamannastaða.
Svavar og selirnir sem eru í tímabundnu fóstri í Búðardal. Kóparnir komu úr Húsdýragarðinum á liðnu hausti og hefur Svavar
hugsað um þá síðan. Markmiðið er að sleppa þeim frjálsum í náttúruna fyrir næsta haust, fáist til þess tilskilin leyfi, svo fóstra
megi aðra kópa í Búðardal næsta vetur.