Heimsmynd - 01.05.1993, Qupperneq 6
Frá ritstjóra
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
hefur farið geyst í ræðu og riti
undanfarið til varnar ákveðinni
valdaklíku í þjóðfélaginu og hafa
skrif hans helst minnt á ofsóknir
mccarthyismans í Bandaríkjunum á
sjötta áratugnum. McCarthy ofsótti
pólitíska andstæðinga sína með því
að bera fram stórfelldar ásakanir á
hendur þeim og bar þá ýmsum
sökum sem hann gat ekki rökstutt
fremur en Hannes Hólmsteinn nú.
En það er alkunna að þegar rökin þrjóta tekur skítkastið við.
Enda hefur lengi vafist fyrir mér hvort skrif þessa manns, sem
skákar í skjóli akademíunnar, væru svaraverð.
Rétt eins og hægrimaðurinn Joe McCarthy ofsækir Hannes
menn með því að kalla þá kommúnista, meira að segja suma
sem standa fastari fótum í einkaframtakinu en hann gæti
dreymt um í sínum villtustu draumum. Raunar er erfitt að
ímynda sér um hvað draumar þessa manns snúast því hann
hefur umhverfst í skoðunum sínum frá því að hann þóttist helsti
talsmaður frjálshyggju í anda hagfræðingsins Friedrich August
von Hayeks sem hlaut nóbelsverðlaun 1974. Þekktasta verk
Hayeks er bókin Leiðin til ánauðar, en þar varar hann við því
að miðstýring hvort sem er til hægri eða vinstri hljóti alltaf að
leiða til alræðis á vettvangi stjómmálanna. En nú bregður svo
við að Hannes Hólmsteinn er orðinn fulltrúi þessarar alræðis-
áráttu sem allir frelsiselskandi menn óttast. Þessi maður sem á
sínum tíma vakti athygli fyrir skrif sín um frjálshyggjuna hefur
nú hlotið þau örlög að vera ekki eingöngu málpípa spillingar-
innar heldur lifandi tákn hennar.
Hannes lætur sér ekki nægja að ofsækja menn í skrifum
heldur vakir hann yfir þeim með ísköldu auga Stóra bróður og
veitist að þeim vogi þeir sér að andmæla opinberu athæfi sem
er þó liður í lýðræðinu. Hann bregst við af miklum ofsa ef fólk
vogar sér að impra á því hve peningum almennings sé illa varið
af pólitíkusum enda nýlega búinn að þiggja nokkrar milljónir úr
almannasjóðum samkvæmt fréttum og hver veit hvort allt er
þar með upptalið. Hann er kominn langan veg frá hugmyndum
Hayeks og er með atferli sínu eins og hver önnur afæta, byrði á
skattborgurum sem margir eiga um sárt að binda í kreppunni.
Sú spilling sem Hannes Hólmsteinn ver með kjafti og klóm
er að ná slíku hámarki að hætt er við að hún verði þeim sem
fyrir henni standa að falli. Loksins. Hingað til hafa valdamenn
haldið að þeir kæmust upp með alls konar svínarí án þess að
almenningur léti þá gjalda fyrir. En umræðan undanfarið, bæði
hér og víða annars staðar, bendir til þess að mælirinn sé fullur.
Þeir sem sækjast eftir að vera í forsvari verða að ganga á undan
með góðu fordæmi. Það dugir ekki að kalla til einhvern í
grímubúningi galdranornar og ógna þeim sem andmæla.
McCarthy og félagar hans voru afhjúpaðir og svo fer einnig hér
fyrir þeim sem ofsækja þá sem tala í nafni lýðræðis og
frelsis. ■
Irjc^ÁCi p€>/iýclwÁcttl\
SIGRÍÐUR ÞORGEIRSDÓTTIR heimspekingur
skrifar frá Berlín um hrottaverkin í
Bosníu. Þar er ekki aðeins konum
nauðgað og þær neyddar til að fæða
börnin. Karlar eru einnig geldir og
limlestir og bendir höfundur greinarinnar
á hvemig hryðjuverkin gegn múhameðs-
trúarfólki hafa aðeins eitt að takmarki:
Hægfara útrýmingu þess. Sigríður er
fyrsta íslenska konan sem lýkur doktors-
prófi í heimspeki en viðfangsefni hennar
var samband listar og sannleika í kenn-
ingum Nietzsches. Hún lauk BA-prófi frá Boston University í
Bandaríkjunum og stundaði síðan framhaldsnám við Freie
Universitat í Berlín.
MflR JÓNSSON, höfundur greinarinnar um bandarísk furðufréttarit
(bls. 88), vinnur um þessar mundir að sagnfræðirannsóknum í
Princeton. Már lagði fram doktorsritgerð við Háskóla Islands
síðastliðið sumar sem fjallar um blóðskömm á Islandi frá 1270-
1870. Hann skrifar reglulega í HEIMSMYND.
ÞÓRA KRISTÍN ÁSGEIRSDÓTTIR blaðamaður
skrifar athyglisverða grein sem hún
kallar Krabbamein í kerfinu (bls. 58).
Þóra Kristín ræðir þar við fólk af ólíkum
þjóðfélagsstigum og ber saman kjör
þeirra og lífsstíl. Hún tók einnig viðtalið
við Móeiði Júníusdóttur, hina glæsilegu
söngkonu, sem prýðir forsíðuna að þessu
sinni.
JONfl FflNNEY FRIÐRIKSDÓTTIR er
nýútskrifaður fjölmiðlafræðingur frá
Freie Universitat í Berlín en þaðan lauk
hún magisterprófi í vetur. Hún dvaldist
um árabil í Þýskalandi ásamt manni
sínum Guðna Franssyni klarinettuleik-
ara. Jóna Fanney tók viðtal fyrir HEIMS-
MYND við ísraelsku kvikmyndagerðar-
konuna Michal Aviad, sem fékk friðar-
verðlaun á alþjóðlegu kvikmynda-
hátíðinni í Berlín í ár fyrir heimildar-
mynd sína um líf kvenna í Palestínu og Israel (bls. 78).
GUÐJÓN FRIDRIKSSON fjallar um kreppuárin og fylgifiska þess tíma
í grein sinni Krakkar í kreppu (bls. 90). Guðjón Friðriksson
sagnfræðingur er þjóðkunnur fyrir skrif sín. Hann hlaut íslensku
bókmenntaverðlaunin fyrir bók sína Saga Reykjavíkur. Hann
hefur skrifað í HEIMSMYND í fimm ár.
HEIMS
6
MYND