Fréttablaðið - 26.02.2014, Qupperneq 29
7 | 26. febrúar 2014 | miðvikudagur
Veltutölur í tölvuleikjaiðnaði eru gífur-
legar og virðist vöxtur í geiranum engan
enda ætla að taka ef marka má spár.
Greiningarfyrirtækið Gartner gerði
undir lok síðasta árs ráð fyrir að stærð
tölvuleikjamarkaðarins, þar sem horft
er til tölvuleikja af öllu tagi og á hvers
kyns tækjum, næmi árið 2013 tæplega
93,3 milljörðum Bandaríkjadala. Upp-
hæðin samsvarar rúmum 10.576 millj-
örðum íslenskra króna. Fyrirtækið gerir
í áætlun sinni ráð fyrir vexti upp á tæp
18,3 prósent á milli 2012 og 2013.
Tölvuleikir á fartækjum (snjallsímum,
spjaldtölvum og viðlíka tækjum) eru svo
sagðir sá geiri þar sem vöxtur er hvað
hraðastur í leikjaiðnaði.
Fyrirtækið spáir svo áframhaldandi
vexti þannig að markaðurinn fari í 101,6
milljarða dala á þessu ári (vaxi um 8,9
prósent í 11.521 milljarð króna) og vaxi
svo um önnur 9,3 prósent milli 2014 og
2015.
„Tölvuleikir á netinu og í PC-tölvum
verða vinsælir áfram en þeim geira eru
þó skorður settar í stærð. Gartner býst
við að hefðbundnum PC-tölvum verði
ekki skipt út fyrir nýjar þegar kemur að
endurnýjun hjá heimilum, heldur verði
spjaldtölvur fremur fyrir valinu,“ segir
í tilkynningu Gartner. Þetta leiði til þess
að leikjatölvur og leikir fyrir fartæki nái
afgerandi forystu á „hefðbundna“ tölvu-
leiki fyrir einkatölvur.
Samkvæmt gögnum Superdata Research,
sem gefur út margvíslega tölfræði fyrir
leikjaiðnaðinn, námu tekjur af stafræn-
um leikjum á Vesturlöndum 21,8 millj-
örðum dala á síðasta ári og jukust um 12
prósent á milli ára. Í krónum eru tekjurn-
ar tæpir 2.472 milljarðar króna. Tölvu-
leikjasala í Bandaríkjunum einum hafi
numið 18 milljónum dala (2.041 millj-
arði króna), en þar af hafi 65,6 prósent
farið fram á netinu með stafrænni af-
hendingu.
Leikirnir sem mest voru sóttir í far-
tæki Apple á netinu í fyrra hafi svo verið
Candy Crush Saga þegar horft er til
ókeypis leikja og Minecraft þegar horft
er til leikja sem greiða þarf fyrir. Super-
data Research spáir líka hnignun sér-
tækra leikjatölva og bendir á að í fyrra
hafi 51 prósent leikið sér í einkatölvum,
30 prósent í leikjatölvum, 14 prósent í
fartækjum og fimm prósent í smærri
leikjatölvum (GameBoy og þess háttar).
Í nýrri spá alþjóðlega greiningarfyr-
irtækisins IDC er því spáð að tekjur af
tölvuleikjum fyrir einkatölvur (PC og
Mac) haldi áfram að vaxa í heiminum
og fari yfir 24 milljarða dala (yfir 2.721
milljarð króna) árið 2017. Þar ráði miklu
aukning í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu.
Spár fjárfestingarbankans Digi-Capital,
þar sem horft er til tölvuleikjamarkað-
ar í heild, eru svo enn bjartsýnni. Þar
er gert ráð fyrir að leikir á netinu og
í fartæki nái yfirhöndinni með 60 pró-
senta hlutdeild árið 2017 og að tekjur af
stafrænum leikjum fari um leið yfir 100
milljarða dala. Eftir nokkru er að slægj-
ast í þessari þróun því í krónum talið er
kakan þá orðin tæplega 11.340 milljarð-
ar króna að stærð.
Hlutur nets og fartækja stækkar
Leikir á netinu og í fartæki kynda undir gífurlegan vöxt í leikjaiðnaði. Tekjuspár nálgast stjarnfræðilegar stærðir.
SPJALDTÖLVA Í NOTKUN Stúlka drepur tímann í
iPad-spjaldtölvu sinni með tölvuleiknum Hay Day frá
Supercell. Því er spáð að fartæki og netleikir saxi hratt
á hlut einkatölva og leikjatölva á næstu misserum.
FRÉTTABLAÐIÐ/AP
SKJÁSKOT Candy Crush er einhver vinsælasti netleikur
heims um þessar mundir. Framleiðandinn, King Digital
Entertainment, undirbýr hlutafjárútboð þar sem safna
á allt að 500 milljónum dala (56,7 milljörðum króna).
FRÉTTABLAÐIÐ/AP
Netritið GamesIndustry International fjallaði nýverið um tekjuhæstu netleiki síðasta árs. Þar kemur meðal annars fram að
League of Legends frá Riot Games hafi verið sá næsttekjuhæsti samkvæmt gögnum SuperData, þrátt fyrir að hafa halað inn
yfir 600 milljónir dala. Vinsælastur reyndist vera suður-kóreski leikurinn CrossFire með tæpan milljarð dala í tekjur.
Leikur Tekjur
1. CrossFire 957 mUSD (108,5 ma.kr.)
2. League of Legends 624 mUSD (70,7 ma.kr.)
3. Dungeon Fighter Online 426 mUSD (48,3 ma.kr.)
4. World of Tanks 372 mUSD (42,2 ma.kr.)
5. Maplestory 326 mUSD (37,0 ma.kr.)
6. Lineage 257 mUSD (29,1 ma.kr.)
7. World of Warcraft 213 mUSD (24,1 ma.kr.)
8. Star Wars: The Old Republic 139 mUSD (15,8 ma.kr.)
9. Team Fortress 2 139 mUSD (15,8 ma.kr.)
10. CounterStrike Online 121 mUSD (13,7 ma.kr.)
TEKJUHÆSTU NETLEIKIR 2013
UPPLÝSINGATÆKNI
Óli Kristján Ármannsson | olikr@frettabladid.is