Morgunblaðið - 04.09.2019, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 04.09.2019, Blaðsíða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 4. SEPTEMBER 2019 Ójöfnuður Minningarsjóðurinn Öruggt skjól efndi til mótmælastöðu við Ráðhús Reykjavíkur í gær í von um að vekja athygli á bágri stöðu heimilislausra, en hátt í 80 manns mættu. Hari Fæstir stjórnmála- manna eru hugsuðir í eðli sínu. Þeir byggja viðhorf sín fremur á einföldum grunnhug- myndum en djúpri hugmyndafræðilegri sannfæringu. Aðrir eru hreinir teknókratar, uppteknir af því að smíða þjóðfélagsmódel, lög og reglur um alla mannlega hegðun. Enn aðrir haga seglum eftir vindum. Óhætt er að halda því fram að sæmileg sátt sé á Íslandi um grunn- hlutverk ríkisins. Ríkið á að vernda borgarana gegn utanaðkomandi of- beldi jafnt og ofbeldi innanlands, tryggja eignaréttinn, setja og fram- fylgja almennum leikreglum, tryggja að börn og unglingar hljóti almenna góða menntun og sjúklingum sé veitt góð heilbrigðisþjónusta óháð efna- hag. Við höfum einnig sameinast um að hjálpa þeim sem minna mega sín til sjálfshjálpar og tryggja að þeir sem ekki geta, hafi til hnífs og skeið- ar og eigi mannsæmandi líf. Ágreiningurinn verður djúpstæð- ari þegar tekist er á um hvort og hvernig ríkið eigi að sinna öðrum verkefnum. Raunar er einnig tekist á um það með hvaða hætti ríkisvaldið uppfyllir grunnskyldur sínar. Þetta á t.d. við um heilbrigðisþjónustu, þar sem ríkishyggjan hefur grafið undan einka- rekstri og þarfir kerf- isins eru oft settar ofar réttindum okkar allra sem erum sjúkratryggð. Jafnvel varðstaðan um eignarréttinn getur brostið enda gera rót- tækir vinstrimenn atlögu að eignarréttinum þegar færi gefst. Orðræða um vannýtt tekjutækifæri og vannýtta tekjustofna, þegar reynt er að koma böndum á skattagleði hins opinbera, á rætur í hugmyndafræði þar sem eignarrétturinn er virtur að vettugi. Þokukenndar hugmyndir Ég óttast að skilgreining á ríkis- valdinu og hlutverki þess verði stöð- ugt óskýrari – fremur þokukennd hugmynd. Fyrir marga hentar þró- unin vel – hagsmunum þeirra er bet- ur borgið. Eftir því sem markmiðin, skyldurnar og verkefnin eru óljósari því greiðari er leiðin að ríkishyggju. Mörkin milli ríkisins og einstak- lingsins, milli ríkisrekstrar og einka- rekstrar, þurrkast hægt og bítandi út. Í þokunni þenst ríkið út, stofnanir og ríkisfyrirtæki fara að vasast í verkefnum sem þau eiga ekki að koma nálægt. Ohf-væðing ríkisfyrirtækja hefur reynst meiri skaðvaldur en nokkurn gat órað fyrir. Í stað þess að auka gagnsæi í rekstri og gera ákvörðun- artöku markvissari hafa opinberu hlutafélögin fremur orðið eins og lok- uð einkafyrirtæki. Þau lúta ekki valdi eigenda sinna líkt og almenn hluta- félög. Oft virðast engin bönd halda ríkisfyrirtækjum, ekki síst þeim sem starfa í skjóli ohf. Skipulega og í auknum mæli seilast þau inn á verk- svið einkafyrirtækja – stunda sam- keppni þar sem aldrei getur ríkt jafnræði eða sanngirni. Verst af öllu: Þeim stjórnmála- mönnum fer fækkandi sem spyrja hvað í fja. ríkið sé alltaf að vasast í hlutum sem koma því ekkert við. Af hverju ríkisfyrirtæki telja sig hafa rétt til að gera strandhögg hjá einka- fyrirtækjum er spurning sem flestir eru hættir að spyrja. Spurningarnar eru hættar að heyrast og þess vegna eru litlar at- hugasemdir gerðar við að ríkið hasli sér völl í samkeppni við sjálfstæða atvinnurekendur með rekstri sendi- bílaþjónustu. Allt í einu eru vöru- dreifing, sendlaþjónusta, vöruhýsing og prentþjónusta á verksviði ríkisins. Með sama hætti er sjálfsagt að ríkið sé stærsti smásali snyrtivara á Ís- landi og umfangsmikill leikfangasali. Athugasemdir við ríkisrekna sæl- gætissölu eru afgreiddar sem öfgar. Í skjóli Fríhafnarinnar á Keflavík- urflugvelli keppir „Undirfataverslun ríkisins“ við einkareknar verslanir sem ólíkt Fríhöfninni þurfa að standa skil á virðisaukaskatti og toll- um. Ríkishyggjan festir rætur Fyrir marga er það martraðar- kennd tilhugsun að ríkið dragi sig út úr smásölu, hætti rekstri fríhafnar og selji rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þeir sofa betur í þeirri fullvissu að tugir milljarða séu bundnir í flugstöð en ekki í nauðsyn- legum samfélagslegum innviðum. Þegar gerð er athugasemd við að ríkið skuli á 21. öld standa í rekstri fjölmiðlafyrirtækis er brugðist hart við. Meirihluti stjórnmálamanna er sannfærður um nauðsyn þess að rík- ið taki virkan þátt í rekstri fjölmiðla og sé í harðri samkeppni við einka- rekna miðla. Tilvist Ríkisútvarpsins er mikilvægari en að sæmilegt jafn- ræði sé á fjölmiðlamarkaði þannig að einkareknir fjölmiðlar fái að dafna. Í janúar á liðnu ári sagðist ég vona „að ægivald ríkisrekins fjölmiðils sé ekki orðið svo mikið að stjórn- málamenn treysti sér ekki til að breyta leikreglunum. Veigri sér við að jafna stöðu sjálfstæðra og ríkis- rekinna fjölmiðla“. Fátt bendir til að pólitískur vilji sé fyrir hendi að skil- greina hlutverk, skyldur og umsvif Ríkisútvarpsins með þeim hætti að einkareknir fjölmiðlar fái þrifist. Ég óttast að von mín sé reist á sandi. Ríkishyggjan hefur náð að skjóta sterkum rótum í íslensku samfélagi og því miður í öllum stjórnmála- flokkum. Það er þægilegra að setja hugmyndafræðina ofan í skúffu og telja sjálfum sér trú um að hægt sé að leysa hvers manns vanda á grunni ríkishyggju. Hægt og bítandi miss- um við því sjónar á hlutverki og skyldum ríkisins sem heldur áfram að selja ilmvötn og auglýsingar. Og þá rennur kannski upp fyrir ein- hverjum hvað Ronald Reagan, fyrr- verandi Bandaríkjaforseti, átti við þegar hann lýsti hugmyndafræði vinstrimanna: „Ef það hreyfist, skattleggðu það. Ef það heldur áfram að hreyfast, settu lög. Ef það stoppar, settu það á ríkisstyrk.“ Eftir Óla Björn Kárason »Ríkishyggjan hefur náð að skjóta sterk- um rótum í íslensku samfélagi – í öllum stjórnmálaflokkum. Það er þægilegra að geyma hugmynda- fræðina í skúffu. Óli Björn Kárason Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Á ríkið að selja ilmvötn og auglýsingar?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.