Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.11.2019, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 10.11.2019, Blaðsíða 14
VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 10.11. 2019 Þ að er allt í bókum á vinnustofu Einars Más Guðmundssonar í Grafarvoginum; í hillum, á stólum, á borðum, á gólfinu og úti í glugga. Ég kem auga á laust pláss í tveggja sæta leðursófa og hlamma mér í það. Skáldið sest andspænis mér í skifborðsstól; hitt lausa sætið í rýminu. „Já, já, hér er eitthvað af bókum,“ segir Einar Már sposkur, eins og hann hafi lesið hugsanir mínar. „Samt er ég búinn að grisja þetta mikið. Nú eru börnin farin að heiman og ég fékk heilt herbergi undir bækur inni,“ bætir hann við en vinnustofan var upprunalega bíl- skúr við heimili hans – eða átti alltént að vera það. En hver tekur ekki bækur fram yfir bíla? „Þetta er vinnustaður minn; hér vinn ég fyrst og fremst að mínum verkum, þannig lagað. Auðvitað tengjast ferðalög þessu líka, gott getur verið að fá ákveðna fjarlægð á það sem maður er að gera og þar kvikna líka oft hugmyndir. Mest er ég þó að fín- pússa og lesa yfir á ferðum mínum; skrifin fara yf- irleitt fram hér heima. Hér er best að sitja við og núna eru morgnarnir minn tími. Það hafa auðvitað komið tímar þar sem maður snýr sólarhringnum við en þeim fer fækkandi með árunum. Það er helst ef mikið liggur við á lokasprettinum fyrir útgáfu. Það myndast gjarnan einhver stefna og stíll í kringum verkið sem ég vinn að á hverjum tíma.“ Koma úr lausu lofti Í vikunni kom nýjasta verk Einars Más út, ljóða- bókin Til þeirra sem málið varðar. Um er að ræða sjöundu ljóðabók höfundar fyrir utan ljóðasöfn og þá fyrstu í heil þrettán ár. Seinast kom Ég stytti mér leið framhjá dauðanum árið 2006. Ég byrja á að spyrja um titilinn. „Það er svo skrýtið með þessa titla að þeir koma oft úr lausu lofti,“ svarar Einar Már kíminn. „Í þessu tilviki var ég að spjalla við Sune De Souza Schmidt-Madsen, vin minn og útgefanda í Dan- mörku, og talið barst að því hvernig enski frasinn „to whom it may concern“ og algengur er í bréfum hljómaði á dönsku. „til rette vedkommende“ reynd- ist það vera og það varð úr. „Til þeirra sem málið varðar“ á íslensku. Auðvitað hafði þetta verið á sveimi í höfðinu á mér, eitthvað í þessum dúr, en það small þarna. Sumir segja að titlarnir á ljóða- bókunum mínum séu yfirleitt hversdagslegir en titl- arnir á skáldsögunum hátíðlegri. Í mínum huga er titill fyrst og fremst hugblær sem tengist efninu á einhvern hátt – svona stemning.“ – Á bókarkápu er því haldið fram að Til þeirra sem málið varðar sé „ástríðufullt ávarp til samtíð- arinnar“. Upplifir þú það þannig sjálfur? „Sú fullyrðing kemur frá útgefandanum,“ svarar Einar Már brosandi. „Hvað skal segja? Ætli þetta sé ekki einhvers konar leit að fótfestu í tímanum og hugleiðing um það hvar við stöndum. Niðurstöð- urnar eru ekki beint vísindalegar; þetta er meiri vafi og efahyggja. Ljóðlistin er oftar en ekki inni- legt samband við heiminn og tímann en maður veit ekki svörin. Ljóðið er vettvangur þar sem við skynj- um frekar en skiljum eða einhvers staðar þarna mitt á milli. Kannski er þetta sannleikur sem við finnum bara þar.“ Almættið þeytir skífum – Þú vísar í ýmsar áttir í bókinni, svo sem í Stein. „Steinn leitar alltaf á mann; hefur gert síðan maður var unglingur og gerir enn. Þegar maður var að alast upp hafði maður á tilfinningunni að skáld eins og Steinn svifu yfir. Sumt sem talaði sterkt til okkar þá má segja að sé í pásu núna – en kemur allt aftur. Því get ég lofað. Svo lifa skáld eins og Steinn og Tómas Guðmundsson líka í gegnum tónlistina.“ – Talandi um tónlist þá fær gamla góða vínil- platan hið endanlega heilbrigðisvottorð í bókinni; sjálft almættið er að þeyta skífum á himnum. Og hlusta á Stairway to Heaven og fleiri sígild lög. „Já, já,“ segir Einar Már og hlær. „Grammófónn- inn festi sig miklu betur í sessi og á dýpri rætur í hefðinni en sú tækni sem á eftir honum kom. Það er því eðlilegt að guð setji plötu á fóninn. Ekki er hann á Spotify!“ – Það er mikið um flug í bókinni sem er svo sem ekkert nýtt hjá þér. Og fugla. Meira að segja er lagt til að fugl og skáld skipti um hlutverk. „Já, en þú veist ekki hvort leggur það til, skáldið eða fuglinn,“ segir hann og brosir. „Ég hefði átt að verða flugmaður. Ætli þetta sé ekki eitthvað úr skáldskapnum og svo tengist það líka tímunum sem maður var alinn upp á. Flug hefur alla tíð heillað mig og ekkert hefur dregið úr því með árunum. Sama má segja um fuglana; það er eitthvað við at- ferli þeirra og frelsið sem getur varpað ljósi á atferli okkar mannanna. Það er póesía í fluginu eins og sundinu. Það er margt líkt með því að fljúga og kafa.“ Að batna og versna – Klukkan er korter í upphafið. Klukkan er korter í endalokin, segirðu. Hvað ertu að fara þarna? „Ég er að velta fyrir mér hvar við stöndum og þegar ég segi að heimurinn sé að batna hef ég rétt fyrir mér og líka þegar ég segi að hann sé að versna. Við lifum í svo miklum þversögnum og allt í kringum okkur eru menn að slá öllu mögulegu föstu. Við þær aðstæður gerist hinn skáldlegi hugur reikull og veit ekki hvar hann á að staðsetja sig.“ – Hvernig verða ljóðin til? „Ljóð verða til á löngum tíma. Þau eru hér og þar; í kollinum á mér, á blaði, í tölvunni. Skyndilega fær gömul setning merkingu og maður fer að vinna með hana í samræðum við tímann sem er, var og jafnvel verður.“ – Það eru þrettán ár síðan þú sendir síðast frá þér ljóðabók, yrkirðu samt jafnt og þétt? „Já, ég er alltaf með ljóð til hliðar, auk þess sem sagnaskáldskapurinn hefur líka ljóðræna eig- inleika. Ljóðið er einhvern veginn allt í öllu, sam- anber söguljóðið, epos. Þetta var upphaflega allt það sama. Það býr hugmyndaauðgi í ljóðunum – þessi milliliðalausu átök við veruleikann.“ – Þú hófst ferilinn sem ljóðskáld. Varstu alltaf staðráðinn í að skrifa líka skáldsögur? „Þegar ég byrjaði að skrifa ljóð sem ungur mað- ur þá flæddi hugurinn út um allt en ég fékk fljótlega löngun til að skrifa póesískan prósa. Ég hugsaði þó ekki strax um heilar skáldsögur og vissi í raun ekki hvernig þetta myndi allt verða. Ætli þetta hafi ekki verið eðlileg þróun frá ljóði yfir í sögu. Sem er líka praktískt. Sagnaskáldskapur er nálægt fólki, ekki síst okkur Íslendingum, og margir veðja á hann en þegar maður horfir yfir völlinn sér maður marga sem gera hvort tveggja, yrkja ljóð og skrifa skáld- sögur. Hér á Íslandi er algengt að fyrstu bækur höfunda séu ljóðabækur. Það er nóg að vera með blýant og blað; þá geta menn farið í vinnuna.“ Skáldsagan frjálsari – Ertu frjálsari í ljóðinu en skáldsögunni? „Nei, skáldsagan er að mínu viti frjálsasta form- ið. Þar hefur maður óendanlegt frelsi; getur tekið á sig lykkju og talað um fuglana en komið svo aftur að þræðinum. Kvikmyndahandrit eru strangari hús- bóndi enda þarf maður alltaf að hafa hið myndræna í huga. Þau eru ekki ósvipuð byggingu ljóðs; atriði eins og ljóðlínur og svipaður strúktúr gildir. Mér þótti mjög gaman að taka þátt í að skrifa Bíódaga en það var eitthvað sem gerði mig syfjaðan þegar ég las handritið. Síðan styttist það og þá kom þetta. Ljóð verður oft til á svipaðan hátt. Og er að því leyti harður húsbóndi – segir manni sjálft hvenær það er búið.“ – Við lifum á skrýtnum tímum. Er póstmódern- isminn búinn að ná tökum á tilveru okkar? „Póstmódernismi er ekki beint stefna, heldur si- túasjón, og mörg kerfi byggjast á því. Við höfum ekki lengur neitt eitt haldreipi; því sem á að vera traust treystir ekki nokkur maður lengur og þar fram eftir götunum. Um leið á hið fornkveðna við: The Times They Are A-Changin’. Það er bæði ástæða til að vera bjartsýnn og svartsýnn. Valdhaf- arnir eru sterkari en oft áður og fyrir vikið er van- máttur almennings meiri. Valdhafarnir voru hræddari 1968 en á sama tíma allt á blússandi sigl- ingu í alls konar réttinda- og frelsisbaráttu. Það fór út um allar koppagrundir. Eigi að síður er ákveðin einsleitni í því sem menn kalla meginstrauma. Þannig kom ræða Jonas Eika, handhafa bók- menntaverðlauna Norðurlandaráðs, mörgum rosa- lega á óvart um daginn og engir urðu eins hissa og stjórnmálamennirnir. Þessi viðhorf heyrast ekki lengur. Fyrir tuttugu árum þóttu viðhorf Piu Kjærsgaard [fyrrverandi formanns Framfara- flokksins í Danmörku] ekki húsum hæf en verða svo að talsmáta stjórnmálaflokka. Svo kemur 28 ára rit- höfundur og segir eitthvað sem ætti ekki að koma neinum á óvart og allt verður vitlaust. Eins og alltaf þá eru bókmenntirnar spegill á hugsunarháttinn á hverjum tíma.“ Forðast að skilgreina mig – Þú varst mjög áberandi í þjóðmálaumræðunni eft- ir hrun. Skilgreinir þú þig sem róttækling? „Kannski forðast ég nú að skilgreina mig,“ svarar hann brosandi. „Auðvitað var margt í loftinu í þjóð- félaginu sem ég ólst upp í, róttækni og fleira, en síð- an verður skáldskapurinn mitt viðhorf og mín póli- tík, og líklega er hún róttæk þó að ég eigi alveg mína íhaldssemi. Það hefur í grunninn ekkert breyst; eftir hrunið notaði ég það sem ég kunni úr bókmenntunum til að lýsa þjóðfélaginu eins og það blasti við mér. Ég fann til skyldu í þeim skilningi að mér hefur tekist að fúnkera sem skáld og langaði að gefa eitthvað til baka. Á þessum tíma voru stjórn- málamennirnir oft eins og leikarar og erfitt var að fá mynd af hlutverkum þeirra. Sjálfur hef ég lært bókmenntir og sögu og lesið mikið um þjóðfélags- mál og gæti ekki skrifað sagnaskáldskap ef sam- félagið brynni ekki á mér. Þegar ég tjái mig um þjóðmál finnst mér ég ekki vera að gera neitt annað en í skáldskapnum. Aðrir upplifðu þetta kannski sem pólitísk skrif, sem þau auðvitað voru, en hvað er pólitík? Er ekki allt pólitík? Ég var bara að lýsa veruleikanum.“ – Og fékkst mikil viðbrögð. „Það er svo merkilegt að ég fékk á þessu daglega plani miklu meiri viðbrögð en ég var vanur. Ertu hættur að skrifa og á leið í pólitík? spurði fólk. Þess- ar pælingar enduðu í tveimur greinasöfnum, Hvítu bókinni og Bankastræti núll, og voru leið inn í skáldverkin sem komu á eftir, Íslenska kónga og Hundadaga. Það var sögulegur skáldskapur í díalóg Guð er ekki á Spotify Þegar maður les nýju ljóðabókina hans Einars Más Guðmundssonar, Til þeirra sem málið varð- ar, líður manni eins og maður sé staddur í draumi en þó með viðkomu í veruleikanum annað veifið. Kemur svo sem ekki á óvart enda hefur skáldið sjálft sagt það sitt markmið að skoða töfrana í veruleikanum og veruleikann í töfrunum. Einar Már segir ljóðið sem form við góða heilsu; þetta sé bara spurning um hvort einhverjir vilji dansa við það. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Einar Már Guðmundsson rithöfundur á vinnustofu sinni. Þarna þykir honum best að sitja við og morgn- arnir eru hans tími. ’ Ljóðlistin er oftar en ekki innilegt samband við heiminnog tímann en maður veit ekki svörin. Ljóðið er vettvangur þar sem við skynjum frekar en skiljum eða einhvers staðar þarna mitt á milli. Kannski er þetta sannleikur sem við finnum bara þar.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.