Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.12.2019, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.12.2019, Blaðsíða 17
sem ríki úr öðrum álfum hefðu þá skotið þeim aftur fyrir sig. Evrópa stæði nú fyrir 25% heimsbúskapar, en yrði komin niður fyrir 15 prósentin á þessu tíma- bili og það hallaði einnig mjög undan í íbúaþróun sambandsríkjanna. Juncker taldi þó að einmitt þessi úrtöluspá sín kallaði frekar á það en hitt að ESB- ríkin héldu áfram hópinn og ykju samstarfið. Athyglisvert var að Juncker taldi þó nauðsynlegt á kveðjustund að minna á að leiðtogar Evrópu yrðu að gæta þess að „þurrka ekki út þjóðareinkenni aðildar- ríkjanna, heldur yrðu þeir þvert á móti að hlúa að þeim“. Satt og rétt, en of seint fram komið þó að þarna glitti óneitanlega í viðurkenningu á skaðlegri þróun. Pirrings gætir Um leið og fráfarandi forseti kveður með þessum orðum er skrifuð ritstjórnargrein í netútgáfu Spiegel. Þar segir að Þýskaland hafi lengi verið mjög ákaft í baráttu sinni fyrir samrunaferlið í Evrópu, sem þétt- ist því ört með hverju árinu. Ástæða þessa ákafa hafi legið í því, að ESB hafi á þessum tíma verið lykillinn sem gat einn opnað Þýskalandi glufu og svo góða leið að sæti við háborð alþjóðlegrar samvinnu eftir óhugnað heimsstyrjaldarinnar seinni. En hvernig horfir þetta við nú, spyr ritstjórn Spiegel. Og svarar sér svo sjálf: Úr fyrrnefndum ákafa hefur mjög dregið og nú er svo komið að áhuga- leysi (stjórnmálaforystunnar) í Berlín er komið að hættumörkum. Hið vinstrisinnaða tímarit er augljóslega í öngum sínum yfir meintum aumingjadómi þeirra í Berlín og telur að áhugaleysið ýti undir þau öfl sem verst séu, efasemdarmenn um ágæti ESB í Póllandi og Ung- verjalandi, en þeir þar séu þó aðeins sem óvirk peð við hliðina á Matteo Salvini, sem „Berlín“ hafi látið undir höfuð leggjast að þrengja að, þegar gott færi gafst til þess eftir að honum mistókst að knýja í gegn kosningar í skyndi og féll í framhaldinu niðurlægður út úr ítölsku ríkisstjórninni. Spiegel óttast að tómlætið í Berlín um framgang Evrópusamrunans gefi Salvini nú færi á að ná vopn- um sínum á ný. Og þá gæti verið orðið of seint að stöðva „hægrisinnuðu lýðskrumarana“ að mati tíma- ritsins. Og því er svo bætt við að í stærra samhengi gæti samrunadeyfðin leitt til þess að Kínverjar og jafnvel Rússar Pútíns næðu fótfestu á norðausturströnd Miðjarðarhafsins með ófyrirsjánlegum afleiðingum. Stuttur kannski, en með því dýpri vasa Í Bandaríkjunum hefur Michael Bloomberg, fyrrver- andi borgarstjóri í New York, ákveðið að skella sér í slag demókrata um þann sem fái að slást við Donald Trump um forsetaembættið í nóvember að ári. Trump var sagður ríkur, en nú er sagt að Bloomberg sé að minnsta kosti 20 sinnum ríkari en Trump. Og þeir demókratar, sem tóku tilkynningunni vel, bentu á að Bloomberg væri, ólíkt Trump, góður milljarða- mæringur. Ekki bara af því að hann væri demókrati, sem fer að jafnaði langt með að duga, heldur munaði þar mestu að Bloomberg hefði nurlað öllum sínum milljörðum saman sjálfur, en Trump hefði fengið verulega forgjöf frá gamla Trump, þótt strákur hefði, eftir að hafa gengið í gegnum nokkur gjaldþrot, án þess að fara alveg, náð sér í 3-5 milljarða dollara, sem meira að segja Jóakim frændi hefði talið álitlegt. Þessi skilgreining demókrata um Bloomberg hefði ekki dugað John F. Kennedy á sínum tíma sem var firna ríkur, en gamli Jósep hafði önglað því öllu sam- an, svo John F. var alla tíð og eingöngu eyðslumegin í bókhaldinu. En það var ekki látið bitna á svo góðum dreng. Og af því að Jósep var traustur og góður demókrati, þótt hann hafi verið fullveikur fyrir Adolf heitnum foringja svo það væri þægilegt, þá gerði það syninum ekkert til þótt lunginn af fjármunum þess gamla hefði verið sagður hafa komið frá viðskiptum sem þoldu illa dagsins ljós. Inn og út úr flokkum En varðandi flokkshollustu þá varð Bloomberg borg- arstjóri þegar hann var flokksbundinn repúblikani. Þá var Trump reyndar demókrati og þess vegna var þá ekkert að peningunum hans. Næst þegar Bloomberg bauð sig fram sem borgar- stjóri var hann orðinn „óháður“ frambjóðandi og gott ef Trump hafi ekki einmitt þá verið það líka. Seinast bauð Bloomberg sig fram í borgarstjórann sem demókrati og þá hittist reyndar svo á að Trump var einmitt nýlega orðinn repúblikani. Þetta voru því æði lausbeisluð flokksbönd, rétt eins og er hjá þeim í VG á Íslandi. Bloomberg milljarðamæringur verður 78 ára í febr- úar nk. þannig að það kemur sér ekki illa fyrir Trump, sem núna er því sagður vera liðlega sjötugur, eftir að hafa verið 73 ára frá því í júní. En hinum 20 demókrötunum eða svo, sem hafa slegist um það mánuðum saman að verða forsetaefni, finnst það súrt að Bloomberg „litli“, eins og Trump uppnefnir hann, fái að kaupa sér forsetaembættið. Og þeir hafa nokkuð til síns máls því að Bloomberg hefur lýst því yfir að hann muni ekki óska eftir nein- um samskotum frá almenningi og muni leggja til hlið- ar af sínum fjármunum sem svarar til 15-40 milljarða íslenskra króna til að kosta framboðið. Fyrst hann ætlar að stilla þessu svona í hóf þá mun ekki sjá högg á vatni. En Trump er vís til þess að benda á að þetta séu miklir fjármunir á hvern lengdarsentimetra þar sem Bloomberg sé rétt 170 á meðan Trump sé rúm- lega 190 og enn að lengjast. Þá hefur Bloomberg tilkynnt að fjölmiðlaveldið mikla, sem við hann er kennt, hafi fengið fyrirmæli um það að rannsaka engar ábendingar sem kynnu að koma fram um hann sjálfan eða einhverja aðra fram- bjóðendur demókrata til þingsins eða ríkisstjóra þetta ár sem kosningabaráttan stendur. En til sátta við þær þúsundir fjölmiðlamanna, sem eru á hans launaskrá, þá verða engar hömlur lagðar á rannsóknir þeirra, skrif eða neikvætt álit á Donald Trump forseta. Enn hefur enginn þessara fjölmiðla- manna, sem sjálfsagt mega ekki vamm sitt vita, sett fram eina einustu kvörtun vegna þessara óvenjulegu skilmála frambjóðandans. Enda má segja að þetta viðhorf, sem svo undarlega hljómar í fyrstu, sé heldur skárra en það sem þeir fjölmiðlar hafa sýnt sem hafa einhliða hjólað í Trump garminn frá því í kosningabaráttunni 2016 og alla daga síðan og halda því samt blákalt fram að þeir séu algjörlega óhlutdrægir í allri sinni framgöngu. Þessir fjölmiðlar hafa þó aldrei gengið svo langt að halda því fram að þeir séu eins rosalega óhlutdrægir og hið íslenska „RÚV“, enda væri þá auðvitað mjög langt gengið. Enda getur enginn náð fréttastofu sem nær engri átt. Enginn. Morgunblaðið/Árni Sæberg 1.12. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.