Morgunblaðið - 09.12.2019, Side 10
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 9. DESEMBER 2019
Fastus ehf | Síðumúli 16 I 108 Reykjavík I Sími 580 3900 I fastus.is
fastus.is
EINNOTA HANSKAR
Í ÖLLUM REGNBOGANS LITUM
• Fjórir litir í einu boxi
• Púðurslausir
• Ofnæmisprófaðir
• Gott grip og passa vel á hendi
BLEIKIR | GULIR | GRÆNIR | APPELSÍNUGULIR
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Um 200 manns búa á um 40 bæjum
og húsum í Svarfaðardal, sem geng-
ur inn í Tröllaskagann til suðvesturs
frá Dalvík. Landslagið hér er líkt því
sem gerist víða norðanlands; Svarf-
aðardalsá fellur um miðjan dalinn
sem er umlukinn háum hlíðum fjalla.
Undir þeim standa bæirnir og al-
mennt er vel hýst í þessari sveit. Í
dalnum eru mörg myndarleg bú og
félags- og menningarlíf í blóma.
Fyrirmyndarsveit, eins og blaða-
maður Morgunblaðsins komst að
þegar hann kynnti sér staðhætti
þarna nú í haust.
Frá Hrafnsstöðum að Skáldalæk
Hefð er fyrir því hér að byrja upp-
talningu á bæjaröðinni við Hrafns-
staði sem eru vestanvert í dalnum
skammt fyrir innan Dalvík. Þaðan
rekur maður sig inn dalinn, sem
klofnar þar sem píramídalagaður
Stóllinn gengur fram. Norðan hans
heldur Svarfaðardalur áfram en
sunnan Stólsins er Skíðadalur. Utan
við Skíðadal er austanverður Svarf-
aðardalur og ystur bæja þar er
Skáldalækur.
Förum nú á bæjaflakk. Tjörn, sem
er utarlega í vestanverðum dalnum,
er kirkjustaður og þar fæddist
Kristján Eldjárn (1916-1982), þriðji
forseti lýðveldisins. Þar fyrir ofan
standa nokkur íbúðarhús á svo-
nefndri Gullbringutorfu sem kennd
er við gamalt býli sem nú er sumar-
hús afkomenda Kristjáns forseta. Á
þessum slóðum er Sundskáli Svarf-
dæla, reistur 1929, fyrsta yfirbyggða
sundlaugin á Íslandi sem hefur verið
í notkun fram undir þetta. Rétt inn-
ar, í brekkurótum, er þéttbýliskjarni
með 5-10 íbúðarhúsum í landi
Laugahlíðar.
Niðri á sléttlendinu í dalnum vest-
anverðum eru yfirgefnar byggingar
Húsabakkaskóla en skólahald þar
var lagt af árið 2005 og börnum ekið
til skóla á Dalvík. Innar, niður undir
Svarfaðardalsá, er bærinn Bakki,
sem við eru kenndir hinir fákænu
Bakkabræður sem til eru um marg-
ar þjóðsögur. Sjálfsagt voru Gísli,
Eiríkur og Helgi aldrei til í raun-
heimum, en sagnir lifa, svo sem af
því uppátæki þeirra að byggja
gluggalaust hús og bera birtu inn í
trogum. Ögn innar og uppi í brekku
er eyðibýlið Bakkagerði, en íbúðar-
húsið þar var sviðsmynd í kvik-
myndinni Land og synir, sem var
filmuð í Svarfaðardal fyrir 40 árum.
Heimkynni fugla himinsins
Um tuttugu kílómetrar eru frá
Dalvík að Koti og Atlastöðum, sem
eru innstu bæir í Svarfaðardal. Þeir
eru norðan við Stólinn, sem er 1.214
metra hár og „hið heilaga fjall Svarf-
dælinga“, segir í lýsingu Hjartar
heitins Þórarinssonar á Tjörn í Ár-
bók Ferðafélags Íslands 1972 sem
fjallaði um þessar slóðir. Þekktastur
bæja í framdalnum er sennilega
Urðir; kirkjustaður frá fornu fari.
Skíðadalur sunnan Stólsins er
tæplega 10 km langur og innsti bær
þar er Klængshóll, nú bækistöð
fjallafólks og skíðakappa.
Í austanverðum Svarfaðardal eru
mörg mektarbýli. Má þar m.a. nefna
Hofsá og kirkjustaðinn Velli, þar
sem starfrækt er sælkeraverslun
með heimaunnum matvælum. Þá er
Hánefsstaðaskógur eftirtektar-
verður staður; 11 ha. skógur sem
plantað var til um miðja síðustu öld.
Úr Hánefsstaðaskógi – sem sumir
nefna reit – liggur stígur með
göngubrú yfir í Friðland Svarfdæla.
Það er beggja vegna Svarfaðar-
dalsár, neðan frá sjó að Húsabakka-
skóla, votlendissvæði þar sem um 30
tegundir fugla himinsins eiga heim-
kynni og verpa innan um akursins
liljugrös.
Svarfaðardalur
til fyrirmyndar
Tjörn Höfuðból í mörgu tilliti. Héðan var dr. Kristján
Eldjárn, þjóðminjavörður og þriðji forseti Íslands.
Bakkagerði Hér var hin eftirminnilega kvikmynd Land
og synir tekin upp fyrir um fjörutíu árum.
Blómleg byggð 40 staðir og 200
íbúar í dalnum Gísli, Eiríkur, Helgi
Sviðsmynd í íslensku bíói
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Urðir Kirkjustaður og
einn fremstu bæja í
Svarfaðardalnum.
Húsabakkaskóli Yfirgefnar byggingar því nú er öllum
börnum sveitarinnar ekið í grunnskólann á Dalvík.
Stóllinn Klýfur dalinn og er „hið heilaga fjall“, eins og
segir í sveitarlýsingu í gamalli Ferðafélagsbók.
Í Svarfaðardal er blómlegur bú-
skapur og á tólf bæjum er mjólk-
urframleiðsla. Á átta þeirra hafa
fjós verið stækkuð eða ný byggð
og róbótar sjá nú um mjaltir og
fleiri verk. Búin eru líka orðin all-
stór; framleiðsla á ári er gjarnan
um 400 þúsund lítrar og 50 til
60 kýr í fjósi. „Búin þurfa að vera
stór svo þau standi undir fjárfest-
ingum og kröfum tímans, meðal
annars um aðbúnað gripa,“ segir
Trausti Þórisson, bóndi á Hofsá.
Sóknarhugur svarfdælskra
bænda hefur vakið athygli víða
en Trausti bóndi telur þessa þró-
un vera smitandi. „Ef einn bóndi
fer í uppbyggingu fylgir gjarnan
annar á eftir. Þannig hefur það
verið hér í sveit á síðustu árum,“
segir Trausti sem er ættaður úr
Svarfaðardal, en uppalinn í Ólafs-
firði. Fjarlægur draumur hans var
alltaf sá að verða bóndi og sá
draumur rættist þegar þeim Ás-
dísi Erlu Gísladóttur, konu hans,
sem er frá Hofsá, bauðst að
koma inn í búskapinn með for-
eldrum hennar. Það var árið 1994.
Fáum árum seinna tóku ungu
hjónin svo við búinu, sem þau
hafa eflt mikið á undanförnum
árum.
Landbúnaður er undirstaðan í
Svarfaðardal en allmargir sækja
þó vinnu af bæ, til dæmis til Dal-
víkur, svo sem fólk sem býr í
þéttbýlinu við Laugastein.
„Félagslífið hér í sveitinni er
sterkt; margir eru í kórum, menn-
ingin í kringum búskapinn svo
sem göngur á haustin og slíka
viðburði er sterk og af þorra-
blótshaldi hér fara alltaf miklar
sögur. Mér fannst sveitin reyndar
missa talsvert þegar Húsabakka-
skóla var lokað fyrir 14 árum. Það
var góður skóli þar sem krökk-
unum leið vel en sem betur fer
hefur tíminn mildað þau von-
brigði. Þá er Dalvíkurskóli, en
þangað fara börnin nú, öflugur og
starfsfólkið þar metnaðarfullt,“
segir Trausti á Hofsá.
Uppbyggingin er smitandi
BLÓMLEGUR BÚSKAPUR OG MARGIR ENDURBYGGJA FJÓSIN
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Svarfdælingar Trausti Þórisson og Ás-
dís Erla Gísladóttir eru bændur á Hofsá.