Fréttablaðið - 19.12.2019, Page 22
Tómas
Guðbjartsson
hjartaskurð-
læknir og
náttúruunnandi
og Ólafur Már
Björnsson
augnlæknir og
ljósmyndari
Ofan Grundarfjarðar á Snæfellsnesi er hrikalegur fjallgarður sem heitir því kuldalega nafni Helgrindur. Þarna er oft stórviðrasamt og í mestu hvass-viðrum hvín í þeim eins og fölsku pípuorgeli og geta lætin heyrst alla
leið niður í Grundarfjörð. En þótt nafnið sé frá-
hrindandi þá er ganga á Helgrindur frábær upplifun
í góðu veðri og ekki eru Grindurnar síðri fyrir þá
sem stunda vetrarferðir og fjallaskíði. Algengast er
að hefja gönguna við bæinn Kálfárvelli, rétt áður en
komið er að Búðum. Gengið er meðfram Kálfá austan
megin en í henni er fallegur foss. Fyrsta brekkan er
býsna brött og því skynsamlegt að notast við stafi og í
vetrarferðum mannbrodda og ísöxi. Þegar brekkan er
að baki tekur við nokkuð aflíðandi Kálfárdalur með
litlum fossum og smátjörnum. Smám saman eykst
brattinn og þá opnast stórkostlegur fjallasalur sem
skartar fjöllum eins og Stakkfelli, Kambi og Erninum.
Í vestri gnæfir síðan sjálfur Snæfellsjökull (1.485 m).
Haldið er í norður upp brekkur Helgrinda uns komið
er að hæsta tindinum, Böðvarskúlu (988 m). Þarna
blasir Breiðafjörðurinn við í öllu sínu veldi en ekki er
síður tilkomumikið að sjá Kirkjufellið og Grundar-
fjörð og til austurs glittir í Kolgrafarfjörð. Skammt frá
Böðvarskúlu er skarð þar sem hægt er að renna sér á
fjallaskíðum niður norðurhlíðar fjallsins, jafnvel alla
leið að fossinum fræga við Kirkjufell. Þetta er með
eftirminnilegri fjallaskíðabrekkum á Íslandi en á
sumrin er þetta sömuleiðis frábær gönguleið. Flestir
kjósa þó að ganga sömu leið til baka af Helgrindum
að Kálfárvöllum, eða halda í vestur og norður af
Böðvars kúlu og þaðan meðfram fjallinu Kaldnasa
(986 m) uns komið er í hömrum girtan Lárdal sem
leiðir að þjóðveginum skammt frá Kvíárbryggju.
Það eru ekki nema tæpir 15 km að þvera Snæfellsnes
yfir Helgrindur og tekur daginn með 1.000 m
hækkun. Ekki er ráðlegt að halda á Hel-
grindur nema veðurspá sé góð, enda fjallið
mikið veðravíti eins og nafnið gefur til
kynna. En í góðu veðri eru fáir staðir
sem bjóða upp á annað eins landslag
og útsýni – og örstutt í himnaríki.
Himneskar
Helgrindur
Helgrindur kljúfa Snæfellsnes í tvennt eftir endilöngu og standa undir nafni sem hrikalegur fjallgarður. MYNDIR/ÓMB
Ofan af Helgrindum fæst frábært útsýni yfir Kirkjufell og Grundarfjörð.
Á veturna eru Helgrindur ísilagðar og minna helst á frystikistu.
1 9 . D E S E M B E R 2 0 1 9 F I M M T U D A G U R20 F R É T T I R ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð