Læknablaðið - Jan 2019, Page 23
LÆKNAblaðið 2019/105 23
Í pistlunum Úr penna
stjórnarmanna LÍ birta þeir sínar
eigin skoðanir en ekki félagsins.
Reynir Arngrímsson
formaður
Björn Gunnarsson
gjaldkeri
FAL
Guðrún Ása Björnsdóttir
Ýmir Óskarsson
FÍH
Salóme Ásta Arnardóttir
Jörundur Kristinsson
varaformaður
FS
María I. Gunnbjörnsdóttir
Gunnar Mýrdal
ritari
LR
Þórarinn Guðnason
Guðmundur Örn Guðmundsson
Stjórn
Læknafélags
Íslands
Þurfa læknar gula sloppa á nýju ári?
Senn líður að lokum 100 ára afmælis Læknafélags
Íslands. Umhverfi og heilsa voru efst á baugi á af-
mælishátíð félagsins í Eldborg 14. janúar 2018, enda
eru umhverfismál nátengd heilbrigði og lýðheilsu.
Á hátíðinni fluttu nafnkunnir einstaklingar erindi,
læknum og öðrum til áminningar um ábyrgð lækna.
Afmælishátíðin og Læknadagar gerðu góð skil
meðal annars sögu félagsins og lækninga allt frá
landnámi að vangaveltum um framtíðarþróun. Þátt-
takan í viðburðum afmælisársins var framar björt-
ustu vonum og voru gestir á þessum viðburðum að
minnsta kosti 2500 ef með eru taldir opnir viðburðir
fyrir almenning, Kaldalónskvöld og samræður við
almenning um geðheilbrigðismál.
Á aðalfundi LÍ í nóvember síðastliðnum var horft
til framtíðar með málstofu um heilbrigðisstefnu til
ársins 2030. Þá var leitt í lög félagsins að stofna sam-
skipta- og jafnréttisnefnd en hlutverk hennar verður
að stuðla að jákvæðum samskiptum og jafnrétti
kynjanna með fræðslu fyrir félagsmenn og tryggja
að vinnustaðir lækna hafi viðeigandi viðbragðs-
áætlanir og úrræði í þessum málum. Kærumál
vegna samskipta lækna innbyrðis og kvartanir al-
mennings um starfshætti og brot á siðareglum falla
áfram undir siðanefnd félagsins, en þar situr héraðs-
dómari í forsæti.
Á aðalfundinum hófst svo lokahnykkurinn í
innleiðingu skipulagsbreytinga LÍ í samræmi við
lagabreytingar frá aðalfundinum 2017 með nýrri
samsetningu á stjórn félagsins og vali á aðalfundar-
fulltrúum. Við hátíðarkvöldverð aðalfundar var fjór-
um brautryðjendum í hópi kvenna í læknastétt veitt
heiðursviðurkenning LÍ.
Aldarafmælis LÍ hefur verið minnst með marg-
víslegum hætti. Því hafa verið gerð góð skil í Lækna-
blaðinu, bæði með sérvöldu myndefni á kápu, viðtöl-
um, greinum sem ritstjórn kallaði eftir úr ýmsum
áttum, aðsendu efni og umfjöllun um starfsemi
og sögu félagsins. Innra félagsstarf hefur verið eflt
og ýmsu tjaldað til. Tónlistar-og ljóðakvöld lækna
mæltust vel fyrir. Góð þátttaka var í golfmótaröð-
inni og þannig mætti áfram telja.
LÍ réðst í það stórvirki að gerast á árinu gestgjafi
aðalfundar og ársþings Alþjóðasamtaka lækna
(World Medical Association) og skipulagði samhliða
ráðstefnu um lífsiðfræði. Fyrir þinginu lá aðal-
fundarsamþykkt LÍ frá 2014. Undirbúningstíminn
leið skjótt og fyrr en varði mættu fulltrúar þorra
læknafélaga allflestra landa og þinguðu í viku í
Hörpu. Hvorttveggja tókst með miklum ágætum
og fluttu bæði forseti Íslands og heilbrigðisráðherra
ávörp. Á aðalfundi WMA var til umfjöllunar endur-
skoðun á yfirlýsingu samtakanna um erfðafræði í
læknisfræði. Þó ekki næðist að ljúka endurskoðun-
inni var samþykkt að hún skyldi héðan í frá nefnd
Reykjavík Declaration of Genetics in Medicine.
Umbrotatímar eru framundan á vinnumarkaði ef
fram heldur sem horfir. Þetta hefur ekki farið fram
hjá læknum. Samningar LR við Sjúkratryggingar
Íslands eru lausir frá áramótum og þarf vart að rifja
þá sögu upp. Þegar þetta er ritað eru engin teikn á
lofti um að samningar séu í nánd. Búið er að hrekja
fyrir dómi fyrr á árinu ólöglega ákvörðun heilbrigð-
isráðherra um að stöðva eðlilega nýliðun sérfræði-
lækna á samningstímanum sem er að renna sitt
skeið. Í komandi samningi þarf að mörgu að hyggja
til að tryggja eðlilegan rekstrargrundvöll sjálfstætt
starfandi lækna, ekki einungis einingarverð og
lengd samningstíma, heldur einnig kröfulýsingar
um rekstur og gæði og tryggja að þessi hópur geti
uppfyllt símenntunarkröfur sem gerðar eru í starfs-
umhverfi sem tekur hröðum framförum og staðið að
innleiðingu tækniframfara og nýjunga sem leiða til
meiri hagkvæmni og betri meðferðar fyrir sjúklinga.
Á nýju ári mun LÍ leggja fram kröfugerð vegna
komandi kjarasamnings. Áhersla á bætta grunnvið-
miðun eftir samþjöppun launabils milli starfsstétta
ásamt mótvægisaðgerðum vegna vaxandi álags og
langs vinnutíma starfshópsins verður meðal þess
sem þarf að sinna. Af mörgu er að taka sem ekki
verður farið nánar í að sinni.
Það eru ekki einungis blikur á lofti í kjara-
málum heldur virðist upp kominn alvarlegur
faglegur ágreiningur milli lækna og stjórnvalda
á ýmsum sviðum. Má þar nefna viðurkenningar
á sérfræðileyfum og kröfur til framhaldsnáms,
ábyrgðarsvið yfirlækna og stjórnskipulag á heil-
brigðisstofnunum, innleiðing Alþingis á tvöföldu
heilbrigðiskerfi með ákvörðun um að gefa afslátt á
þekkingu, gæðum og öryggi þegar kemur að lyfja-
ávísunum.
Þá er sérstakt áhyggjuefni áhugi alþingismanna á
tilslökun á lýðheilsumarkmiðum hvað varðar áfeng-
islöggjöfina, sölu á rafsígarettum, blekkingum um
gagnsemi fíkniefna í lækningaskyni, gagnrýnislaus
meðmæli skottulækninga undir því yfirskyni að um
einhvers konar viðbótarmeðferð geti verið að ræða,
ásamt undanlátssemi frá viðmiðunum sem til dæm-
is má finna í Genfarsáttmála lækna um að virða
mannslíf staðfastlega til hins ýtrasta.
Lokahnykkur aldarafmælisársins verður á
Læknadögum 2019. Þá verða kynntar niðurstöður
skoðanakönnunarinnar Íslenski læknirinn, könnun á
líðan og starfsaðstæðum lækna á Íslandi og málstofur
verða um lækna og stefnumótun á vegum FAL í
samvinnu við LÍ. Margt fleira áhugavert verður að
vanda á Læknadögum sem lýkur með veglegri árs-
hátíð þar sem afmælisárið verður kvatt og nýjum
tímum fagnað.
Ú R P E N N A S T J Ó R N A R M A N N A L Í
Reynir
Arngrímsson
erfðalæknir
formaður Læknafélags
Íslands
reynir@lis.is