Fréttablaðið - 04.04.2020, Blaðsíða 16
Gunnar
ÚTGÁFUFÉLAG: Torg ehf. STJÓRNARFORMAÐUR: Helgi Magnússon FORSTJÓRI OG ÚTGEFANDI: Jóhanna Helga Viðarsdóttir RITSTJÓRI: Jón Þórisson jon@frettabladid.is, FRÉTTASTJÓRAR: Ari Brynjólfsson arib@frettabladid.is,
Garðar Örn Úlfarsson gar@frettabladid.is MARKAÐURINN: Hörður Ægisson hordur@frettabladid.is FRÉTTABLAÐIÐ.IS: Kristjón Kormákur Guðjónsson kristjon@frettabladid.is.
Fréttablaðið kemur út í 80.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslun um á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í
gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871 FRÉTTABLAÐIÐ Kalkofnsvegur 2, 101 Reykjavík Sími: 550 5000, ritstjorn@frettabladid.is HELGARBLAÐ: Björk Eiðsdóttir bjork@frettabladid.is MENNING: Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrunb@frettabladid.is
LJÓSMYNDIR: Anton Brink anton@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Sæmundur Freyr Árnason sfa@frettabladid.is
Mín skoðun Sif Sigmarsdóttir
Þegar það
verður
vonum við að
hefðir, siðir
og venjur
lifni við á ný.
Jón
Þórisson
jon@frettabladid.is
Konungsbók Eddukvæða er gersemi og þar er geymdur gimsteinn. Í Hávamálum er að finna lífsspeki – hversdagslegar ráðleggingar og háspeki. Hávamál hafa fylgt okkur í gegnum aldir og margar af hendingunum lifað góðu lífi með þjóð-
inni og hún gripið til þeirra við ýmis tilefni.
Ein er sú sem um þessar mundir hefur sérstaka
þýðingu:
Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
þá varð eg villur vega,
auðigur þóttumst
er eg annan fann,
maður er manns gaman.
Það er sum sé auðvelt að villast af leið séu menn einir og
hafi sér engan til halds og trausts. Líklegra er að finni
menn sér förunaut finni þeir réttu leiðina í lífinu þar
sem ánægja fylgi því að njóta félagsskapar annarra.
Þessi ábending Hávamála kemur í hugann nú þegar
við búum við samkomubann og takmörkum samvistir
við aðra sem mest við megum. Þeim sem vanir eru að
heilsa með handabandi líður eins og þeir séu óupp-
dregnir dónar og menn leggja jafnvel lykkju á leið sína
til að forðast að stíga inn fyrir tveggja metra radíus
þeirra sem á vegi þeirra verða. Þessu er erfitt að venjast.
Bent hefur verið á að þeir sem verst verða úti á
þessum samneytislausu tímum séu þeir sem eru
rosknir eða veilir og því viðkvæmari fyrir sóttinni
en hinir yngri og fullfrísku. Fjölskyldur hætta að
heimsækja afa og ömmu og þeir sem ekki eru fullfrískir
halda sig að mestu innanhúss og hitta fáa. En þetta eru
þeir sem rannsóknir sýna að sé sá hópur sem er mest
einmana alla jafna.
Á þessum tímum er ýmislegt annað að varast. Van-
traust grefur um sig og tortryggni verður vart. Er örugg-
lega verið að segja okkur satt? Kviksögur eiga reiprenn-
andi farveg. Kvarðar með margs konar tölfræði verða
að meginatriði. Enginn veltir fyrir sér hvort fleiri tapi
lífinu við fall í stiga árlega en þeir sem veiran verður að
aldurtila.
Og ef á fyrir mönnum að liggja að deyja, fyrr eða
síðar, voru orð Kára Stefánssonar í helgarblaðsviðtali
Fréttablaðsins um síðustu helgi forvitnileg þegar hann
var spurður um hvort hann óttaðist að smitast: „Ég
vona að ef ég sýkist þá jafni ég mig en ef ég jafna mig
ekki þá er ég búinn að lifa býsna góðu lífi.“ Æðruleysið
verður varla tærara.
En mikilvægast í öllu þessu er að tapa ekki gleðinni.
Gleðjast yfir stóru og smáu og hugsa með tilhlökkun
til þess tíma þegar þetta allt verður að baki. Sá dagur
nálgast þó mörgum finnist föstudagurinn langi vera
daglega. Þegar það verður, vonum við að hefðir, siðir og
venjur lifni við á ný. Heimsóknir til ömmu og afa, vina-
fundir, faðmlög og handabönd verði eins sjálfsagðir og
áður. Þá verður næstum allt eins og fyrrum var.
Og maður verður manns gaman á ný.
Manns gaman
Ég sest við stofuborðið með fartölvuna til að skrifa pistil. Innan úr barnaherberginu heyrast hlátra-sköll. Því næst: „Hei, taktu mynd af rassinum á
mér.“ Í venjulegu árferði hefði uppástungan orðið til
þess að foreldri kæmi sem stormsveipur inn í herberg-
ið með ygglda brún og umvandanir. En á tímum þegar
kórónaveiran veikir verklag og ryður burt leikreglum
hafa hefðbundnir uppeldisstaðlar verið settir til hliðar.
Hér í London þar sem ég bý ríkir svo gott sem
útgöngubann vegna COVID-19. Í tvær vikur höfum við
kúldrast fjögur í íbúð, tvö fullorðin og tvö börn. Eftir
hnökra í byrjun þar sem foreldrarnir sátu daglangt
með höfuð í höndum sér og veinuðu „hvar hafa dagar
lífs míns lit sínum glatað“ tókst okkur að finna nýjan
lífstakt.
Í veröld þar sem hinir fullorðnu teljast enn starfs-
menn milli níu og fimm á daginn en einnig kennarar,
matráðar, ræstitæknar, íþróttaþjálfarar og skemmti-
kraftar er lykillinn að því að komast lífs af að finna
gleðina í hinu smáa: Kaffibolla morgunsins, óvenju-
góðum COVID-19 brandara á Facebook, óvenjugóðum
prumpubrandara frá börnunum, Joe Exotic þáttunum
á Netflix, súkkulaðimolanum eftir kvöldmatinn og
gleðiópunum sem kveða við þegar einkadóttirin
aðstoðar við kökubakstur og hrópar „ég braut egg, ég
braut egg“ af svo einlægum ákafa að ætla mætti að hún
hefði fundið upp bóluefni við kórónaveirunni. Veru-
leikinn er kannski eins og ef kvikmyndirnar Ground-
hog Day og Armageddon rynnu saman í eina – en góðu
fréttirnar eru þær að með hverjum degi sem líður
færumst við einum degi nær því að mega opna Nóa
páskaeggin sem bárust okkur með pósti frá Íslandi.
Eftir tvær vikur í stofufangelsi taldi ég mig hafa
neglt nýja lífsstílinn. En skyndilega runnu á mig tvær
grímur.
Að vera og gera
Fyrir ári rakst ég á færslu á Facebook sem sat lengi í
mér. Í henni lýsti einkar skarpskyggn Facebook-vinur
áhyggjum sínum af óhóflegum kröfum samtímans til
tilverunnar:
- Þú þarft ekki bara að vera í leikfimi – þú þarft að vera
í formi eins og atvinnumaður.
- Þú þarft ekki bara að vera í góðri vinnu – þú þarft að
vera leiðtogi.
- Þú þarft ekki bara að eiga börn – þau þurfa að vera
framúrskarandi.
- Þú þarft ekki bara að fara í frí – þú þarft að vera í
Víetnam.
- Þú þarft ekki bara að borða hollt – þú þarft að vera
vegan.
- Þú þarft ekki bara að vera vel menntuð/aður – þú
þarft doktorspróf.
- Þú þarft ekki bara að stunda útivist – þú þarft að vera
landvættur.
- Þú þarft ekki bara að eiga fallegt heimili – það þarf að
fylgja nýjustu tískustraumum.
Ef kórónavírusinn kenndi okkur aðeins eina lexíu
var ég ekki í nokkrum vafa um hver hún yrði: Að láta
af þeim ósið að líta á lífið sem keppnisíþrótt. Umsókn
minni um starf völvu vikunnar hefur hins vegar verið
hafnað.
Lífsgæðakapphlaupið víkur nú fyrir súper-sóttkví.
Þau skilaboð berast fólki í sjálfseinangrun að það eigi
að nýta tímann í að skapa, skrifa, lesa, mála, prjóna,
halda matarboð á Zoom – hægeldað og lífrænt – greiða
sér á morgnana, hlaupa maraþon á svölunum, sinna
góðgerðarmálum, taka doktorspróf í faraldsfræði til
að mega tjá sig um kórónavírusinn, hugleiða, baka,
skipuleggja skápana og lakka gólfin. Komir þú ekki úr
sóttkvínni með nýja háskólagráðu upp á vasann, tvö
ný tungumál á hraðbergi og fjölskylduna uppstrílaða í
heimasaumuðu hefur þér mistekist.
Úr einangruninni í London vil ég hins vegar miðla af
tveggja vikna reynslu og senda umheiminum eftir-
farandi ráð: Nýtið tímann í að vera en ekki gera. Komir
þú úr sóttkví með nokkur ný grá hár á höfði og eilítið
skelkað bros á vör hefur þér tekist vel upp.
Súper-sóttkví
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
auglýsir eftir umsóknum um styrki á
málefnasviðum ferðamála-, iðnaðar- og
nýsköpunarráðherra og sjávarútvegs og
landbúnaðarráðherra.
Styrkirnir eru ætlaðir til verkefna sem efla
atvinnulíf og nýsköpun.
Umsóknarfrestur er til 27. apríl 2020.
Umsóknir berist rafrænt í gegnum
eyðublaðavef Stjórnarráðsins.
Allar nánari upplýsingar á anr.is
Styrkir til verkefna
og viðburða
4 . A P R Í L 2 0 2 0 L A U G A R D A G U R16 S K O Ð U N ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð
SKOÐUN