Feykir - 19.12.2018, Qupperneq 19
48/2018 19
Hér birtast tvö síðustu erindin frá málþingi nemenda í Varma-
hlíðarskóla og Grunnskólans austan Vatna er haldið var á afmælis-
fagnaði í tilefni af 100 ára fullveldi Íslands undir yfirskriftinni
Fullveldi – frelsi – lýðræði – hvað er nú það? Í erindum sínum
fjölluðu nemendur um hugtök eins og lýðræði og fullveldi en
jafnframt veltu þeir því fyrir sér sem framtíðin kann að bara í skauti
sér. Hin erindin fimm birtust í tveimur síðustu tölublöðum Feykis.
/FE
Erindi flutt á málþingi í Varmahlíð
Fullveldi – frelsi – lýðræði – hvað er nú það?
Samfélagsmiðlar, risastórt orð. Ég viðurkenni alveg að ég
nota þá daglega og eyði vandræðalega miklum tíma í þá.
Það er eins og ég missi allt tímaskyn þegar ég dett inn í heim
samfélagsmiðla, veit ekki hvort það líða þrjár sekúndur,
mínútur eða
klukkustundir. Jú,
ég lít á klukkuna
af og til og þá er
eins og tíminn hafi
hreinlega hlaupið
frá mér.
En hvað eru
samfélagsmiðlar?
Ég skilgreini þá
sem samskiptaleið
fólks í gegnum internetið. Þetta er samt orðið svo miklu,
miklu stærra en maður áttar sig á. Samfélagsmiðlar hafa
kosti og galla líkt og flest í heiminum. Byrjum á kostunum:
Fólk getur deilt með öðrum hvað það er að gera í sínu
daglega lífi, spjallað við fólk, lesið fréttir, vitað hvað er að
gerast í heiminum svo að nokkur dæmi séu nefnd. Gallar:
Til dæmis þessi blessaða glansmynd sem er svo áberandi á
samfélagsmiðlum, óraunhæfar staðalímyndir, neteinelti,
klámvæðingin og kommentakerfið á DV.
Ég vil trúa því að fólk sem segir ljóta hluti um aðra á netinu
eigi bágt. Það meinar ekki næstum allt sem það lætur
hiklaust flakka og hugsar ekki áður en það framkvæmir.
Hversu frábær væri heimurinn ef það væri til app sem myndi
skanna allt sem maður skrifar eða tekur myndir af áður en
maður setur það á netið. Það er ömurlegt að samfélagsmiðlar
séu notaðir á neikvæðan hátt þegar það er svo margt jákvætt
sem maður getur notað þá í.
Svo eru það þessi blessuðu „læk“. Af hverju pælir maður
svona í því hversu margir „læka“ það sem maður setur
inn. Ég á fullt fullt af frábærum vinum, æðislega fjölskyldu
og bara endalaust af frábæru fólki í kringum mig en á
samfélagsmiðlum er samt eins og það sé ekki nóg. Ég er
gráðug þar, vil fleiri „læk“ og dett stundum í að vera pirruð
við fólk sem „lækar“ ekki mína svakalegu sjálfu sem ég
pósta. Hversu brenglað er það? Þetta er hrein og bein græðgi
og bara svo langt frá raunveruleikanum. Hverju skiptir það
hversu mörg „like“ maður hefur á Instagram? Af hverju er
ekki nóg að eiga fullt af fólki í kringum mann sem þykir
vænt um mann? Þessari spurningu get ég ekki svarað en ég
ætla að gera mitt besta á næstu dögum, vikum og árum til
þess að komast að niðurstöðu um þetta. Ég vil ekki pæla í
þessu en geri það samt ósjálfrátt og ég veit að ég er ekki ein
um það. Ég ætla að nota kraft fjöldans og biðja alla sem
hlusta að pæla ekki í jafn ómerkilegum hlut og það hversu
mörg „læk“ maður hefur. Heimurinn er svo miklu stærri
og lífið hefur upp á svo margt annað að bjóða en „læk“. Í
staðinn fyrir að „læka“ skulum við knúsa fólkið sem okkur
þykir vænt um, í stað þess að kommenta „sæta mín” segja
fólkinu í kringum okkur hvað það sé fallegt. Ég er fullviss
um að ef einhver myndi koma til mín og segja „Sunna, þú ert
sæt í dag” myndi það hafi miklu meiri áhrif en kommentið
„sætust” á Instagram. Ég er ekki að segja að fólk eigi ekki
að kommenta eða „læka“ hluti á samfélagsmiðlum, bara
alls ekki. Heldur er ég að fá ykkur og sjálfa mig til að pæla
í því hvað þetta líf er stutt og „læk“ á Instagram í stóra
samhenginu er svo ómerkilegur hlutur. Elskum hvert annað
og verum vinir. Takk fyrir mig.
Sunna Sif Friðriksdóttir 10. bekk Varmahlíðarskóla
Samfélagsmiðlar
Kæru kennarar, samnemendur og gestir. Ég ætla að fjalla um framtíðina. Nánar tiltekið næstu 20 ár.
Ef við byrjum úti í geimi þá eigum við að öllum líkindum eftir að sjá mann eða jafnvel menn á Mars.
Rússar reyna að komast til tunglsins. Kínverjar ætla að setja upp sína eigin geimstöð. Indverjar ætla
að senda sína fyrstu geimskutlu út í geim og alþjóðlega
geimstöðin hverfur úr notkun svo nokkuð sé nefnt.
En svo ef við færum okkur nú niður á jörðina verður
örugglega ekki neitt minna að gerast þar. Til dæmis gæti
fjöldi mannkynsins farið úr 7,6 milljörðum og allt upp í 9
milljarða. Því næst má nefna aðra hluti eins og að Frakkar
ætla að vera búnir að losa sig við við alla bíla sem ganga
fyrir jarðefnaeldsneyti af götum Parísar og helst í öðrum
borgum líka. Bretar fara formlega úr Evrópusambandinu
2019 og ætla einnig að reyna að losa sig við allar kola- og
olíuverksmiðjur landsins. Árið 2027 verður skýrslan sem
inniheldur upplýsingarnar um það hvernig Elvis Presley dó birt, en hann vildi að hún yrði ekki birt
fyrr en 50 árum eftir andlát hans. Svo fáum við vonandi að sjá alls kyns ný meðöl og lækningar, s.s.
lækningu á krabbameini, alzheimer, HIV, eyðni og geislavirkni og vonandi öðrum sjúkdómum. Ekki
má þó gleyma því að lífið er ekki alltaf grín, glens og gaman, t.d. deyja út um það bil 200 tegundir
lífvera á hverjum degi en þessar tölur hafa ekki verið svona háar síðan risaeðlurnar dóu út fyrir 65
milljón árum.
En nú er kominn tími til að við færum okkur yfir til Íslands. Ég held að eftir 20 ár muni um
þriðjungur landsmanna vinna við einhvers konar ferðaþjónustu eða eitthvað álíka. Svo gæti verið
einhver möguleiki á því að Vestfirðir klofni frá Íslandi þar sem það þarf ekki nema einn hraustlegan
jarðskjálfta til að svo fari. Og hver veit, kannski verður Ísland orðið að konungdæmi eða jafnvel undir
einhverjum einræðisherra. Miðað við hvað það tók stuttan tíma fyrir 1. desember að fara frá því vera
mikill hátíðardagur Íslendinga yfir í að vera nánast alveg eins og hver annar dagur gæti það sama
átt við um 17. júní á aðeins fimm til tíu ára skeiði. Ef hann gleymist gæti voðinn verið vís. Því áður
en við vitum af getur virðingin fyrir þessum hátíðardögum hægt og rólega dofnað ef þeim er ekki
haldið á lofti. Því næst gætu þjóðsöngurinn og fáninn byrjað að gleymast í einhverri vanvirðingu.
Til að forðast þetta finnst mér að við ættum við öll að halda hraustlega upp á þessa hátíðardaga.
Þeir verða að muna að flagga sem hafa tök á og syngjum svo þjóðsönginn hátt og snjallt á þessum
hátíðardögum. Ég þakka ykkur fyrir þennan tíma og eigið þið öll góðan dag.
Óskar Aron Stefánsson 9. bekk Varmahlíðarskóla
Hvernig verður lífið eftir 20 ár?
EFTIRMINNILEGASTA JÓLAGJÖFIN
Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir
Kollsá II í Hrútafirði
Besta jólagjöf sem
hægt er að hugsa sér
Þessu eru í raun fljótsvarað. Fyrir að verða 29 árum
fengum við þá bestu jólagjöf sem hægt er að hugsa
sér. Nefnilega lítið jólabarn! Hann Auðun Inga son
okkar, fæddur 25. des 1989.
Við verðum ávallt þakklát fyrir að hann skyldi velja
okkur sem foreldra sína og Jón Pálmar, eldri bróðir
hans (þá tveggja ára) fagnaði komu hans mjög.
Ein lítil saga af því. Þeir bræður sóttu kirkjuskóla
í Langholtskirkju og í samverustund í desember
spyr presturinn börnin hvort þau viti hvað gerðist á
jólunum. Jón Pálmar, þá fjögurra ára, réttir strax upp
hönd og svarar hróðugur: „Já, það veit ég vel, hann
Auðunn Ingi fæddist.“