Bændablaðið - 17.11.2016, Blaðsíða 7
7Bændablaðið | Fimmtudagur 17. nóvember 2016
Stuttir viðtalsþættir undir heitinu
„Spjallað við bændur“ eru að hefja
göngu sína á vefsíðu Bændablaðsins, bbl.
is. Í þáttunum er tekið hús á bændum og
rætt við þá um búskapinn, hvað er efst á
baugi á búinu, tæknilausnir, bústofninn
og ræktunina, húsakost, vinnuaðferðir
og fleira. Heiti þáttanna er hið sama
og margir þekkja frá fyrri tíð þegar
ráðunautar héldu úti útvarpsþáttum í
Ríkisútvarpinu undir heitinu „Spjallað
við bændur“ á Rás 1 sem þá var eina
útvarpsstöðin.
Þekktustu skólabændur landsins
Í fyrsta þættinum er farið í heimsókn í Miðdal
í Kjós og spjallað við Guðmund H. Davíðsson
bónda. Hann og Svanborg A. Magnúsdóttir
reka blandað bú með kýr, sauðfé og hross. Á
vorin bjóða þau leikskólabörnum og yngstu
bekkjum grunnskólans að heimsækja búið
en í gegnum tíðina hafa þau tekið á móti
þúsundum barna og foreldra. Bændurnir
í Miðdal eru meðal á fjórða tug bænda
sem kynna starfsemi sína undir merkjum
Opins landbúnaðar. Það er öruggt að margir
áhorfendur af yngri kynslóðinni kannast við
sig í Miðdal þegar þeir sjá þáttinn.
Ungir kvikmyndagerðarmenn með rætur
í sveitinni
Þættirnir eru gerðir af Þorsteini Roy
Jóhannssyni og Herði Þórhallssyni í
samvinnu við Bændablaðið. Saman reka þeir
framleiðslufyrirtækið Beit sem m.a. hefur
framleitt vefefni fyrir fotbolti.net og fleiri
vefmiðla. Þeir félagar eru ekki nýgræðingar
þegar kemur að landbúnaði en Þorsteinn er
alinn upp í Svínafelli í Öræfum og Hörður
í Hornafirði. Báðir eru þeir útskrifaðir
fjölmiðlafræðingar frá Háskólanum á
Akureyri.
Gamli polkinn í endurnýjun lífdaga
Einkennislag þáttarins er gamall polki,
sá sami og notaður var um árabil hjá
Ríkisútvarpinu í þáttunum „Spjallað við
bændur“ á Rás 1. Þeir sem komnir eru til
vits og ára muna sjálfsagt laglínuna sem
er býsna grípandi. Flutningur polkans er í
höndum hljómsveitarinnar Rússíbana sem
veitti góðfúslegt leyfi fyrir notkun lagsins.
Sýndir á bbl.is, Facebook og YouTube
Stefnt er að því að birta tvo þætti í mánuði
á bbl.is en þeim verður að auki dreift
á Facebook-síðu Bændablaðsins og á
YouTube. /TB
Nýir þættir um störfin sem unnin eru í sveitum landsins:
Spjallað við bændur á bbl.is
Líf og starf MÆLT AF
MUNNI FRAM
Margt hefur verið ort um embættisverk presta og safnaða gegnum árin. Þórarinn í
Mörtungu í V- Skaftafellssýslu orti um
sr. Stefán og söfnuð hans:
Séra Stefán stólnum í
stundar margt að bulla.
Ýtar sitja undir því
ánægju með fulla.
Syngur hver með sínu nefi
sálma langa og glæsta.
Eru sumir einu stefi
á eftir þeim næsta.
Og nokkuð hastarlega kvað Stefán frá
Móskógum til vinar síns, sr. Lárusar
Arnórssonar prests á Miklabæ:
Þér líkar víst ekki, Lárus minn
ljóðið mitt núna í þetta sinn,
í því bitur broddur.
Margt hefur skeð á Miklabæ
og mér er í huga sí og æ,
þú ættir að hverfa eins og Oddur.
Síðar fór sá kvittur um hérað, að bein Odds
hefðu fundist í fjárhússvegg í nágrenninu og
hafi þá Stefán frá Móskógum ort:
Margt hefur skeð á Miklabæ forðum,
mannlífið breytist og gengur úr skorðum.
Oft er hinn smái til upphefðar krýndur,
Oddur er fundinn, en Lárus er týndur.
Sigurður í Jörva meitlaði í stöku þessa
römmu og þekktu staðreynd:
Daglegt brauðið dauflegt er
með deilu og þungum orðum.
Þykir hátíð, þegar er
þögn og fýla á borðum.
Þegar Bjarni frá Gröf varð sextugur reið
hann vestur í heiðarlönd Húnvetninga sér
til upplyftingar, en svo gerði hann jafnan á
þeim tíma. Páll Helgason frá Þórustöðum
orti þá þessa afmælisvísu:
Hreysti þína hladdu sál,
hæng og gálu veiddu.
Heiðarinnar huldumál
heim í stuðlum reiddu.
Aðstæður hafa verið Tómasi Guðmundssyni
afar mótdrægar þegar hann orti:
Nú má ei framar sólu sjá,
svartnættið byrgir mér veginn.
Helvíti er undir og ofan á
og andskotinn báðum megin.
Jón í Garðsvík fór eitt sinn í bændaferð
til Englands undir fararstjórn Agnars
Guðnasonar. Agnar gekk í fararbroddi um
götur, en leit af og til um öxl til að aðgæta
hvort Matthías væri ekki með. Jón orti:
Hreyfi Agnar höfuðið
heyrist bjallan klingja.
Eltir hann að sauðasið
svarmur Íslendinga.
Fararstjórinn gat um gluggið séð
þann góða mann, og brúnin lyfti sér,
því bara ef að Matthías er með
mega hinir liggja hvar sem er.
Egill Jónasson orti á efri árum:
Mig að leiðarlokum ber,
lánum þarf að skila.
Innvortis og undir mér
er nú flest að bila.
Jónas Jóhannsson frá Öxney orti í algleymi
stríðsáranna:
Íslandsmeyjar eignast jóð
undan svörtum Könum.
Síðan við urðum sjálfstæð þjóð
sinna þær ekki Dönum.
Meðan „Skjónumálið“ var í algleymi, þá
orti Jón Pálmason á Akri:
Ekki kosta minna mátti
málabrasið þar.
Þjófurinn kærði þann sem átti
það, sem stolið var.
166
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
Guðmundur H. Davíðsson, bóndi í Miðdal í Kjós, ríður á vaðið í fyrsta þætti Spjallað við bændur sem sýndur er á bbl.is. Myndir / Beit
Það er kvikmyndafyrirtækið Beit sem framleiðir þættina Spjallað við bændur fyrir Bændablaðið.
völlum verða meðal viðmælenda í Spjallað
við bændur.