Bændablaðið - 14.02.2019, Page 40

Bændablaðið - 14.02.2019, Page 40
Bændablaðið | Fimmtudagur 14. febrúar 201940 LESENDABÁS Sjötíu ár liðin frá fjöldaflutningum Þjóðverja til Íslands Tilefni þessara skrifa er viðtal við Herbert Beck, sendiherra Þýskalands á Íslandi, í Bændablaðinu í desember sl., sem kynnti þá ætlan að minnast þess að nú eru 70 ár liðin frá því að hundruð Þjóðverja komu til að vinna á Íslandi. Að ráðningartímanum loknum héldu margir aftur til sinna heima. Aðrir settust hér að, urðu íslenskir ríkisborgarar og samlöguðust samfélaginu, hver á sinn hátt. Bakgrunnur fólksins var margvíslegur. Sumir voru heimilislausir flóttamenn sem orðið höfðu innlyksa nyrst í Þýskalandi eftir stríðið, aðrir voru í ævintýraleit en flestir áttu það sameiginlegt að vera að flýja bág lífskjör, húsnæðisskort og lakar framtíðarhorfur. Hér verða rifjaðar upp nokkrar tölulegar staðreyndir varðandi komu þessa fólks en þær hafa verið nokkuð á reiki og ýmsar beinlínis rangar upplýsingar komist í umferð eins og til dæmis að um skipulega hjónabandsmiðlun hafi verið að ræða. Því fer víðs fjarri. Fyrsti hópurinn kom með Brúarfossi Fyrstu Þjóðverjarnir sem hingað komu 1949 voru átta stúlkur sem komu til Reykjavíkur með Brúarfossi 1. apríl. Skipið sigldi frá Hamborg 23. mars og hafði viðkomu í Bretlandi á leiðinni til Íslands. Að því er fram kemur í viðtali við eina þeirra, Hildegard Valdason (DV 27. september 1997) höfðu sjö stúlknanna verið ráðnar til að vinna, annaðhvort á Landspítalanum eða á berklahælinu á Vífilsstöðum, en sú áttunda í hópnum, Margot Gamm, er móðir þess sem þessar línur ritar. Hennar beið allt annað hlutskipti á Íslandi. Vistráðning Margotar Margot var einungis 17 ára gömul þegar hún sté á skipsfjöl í Hamborg og hélt á vit ævintýranna á Íslandi. Sex dögum áður hafði hún lokið miðskólaprófi í Hamborg en þar bjó fjölskyldan (móðir Margotar með tvö börn, afi og amma og veikur móðurbróðir) í lítilli risíbúð við þröngan kost. Faðirinn, Karl, hafði fallið á austurvígstöðvunum strax í mars 1942. Framtíðaráform Margotar voru að hefja nám í hjúkrun en til þess geta það þurfti hún að vera orðin 18 ára. Upp á það vantaði tæpt ár þannig að þegar henni bauðst skyndilega vinna á Íslandi var hún snögg að grípa tækifærið. Það var kennari Margotar, Anneliese Timmermann, sem hafði milligöngu um ráðninguna. Bróðir kennarans, Günter Timmermann, var giftur íslenskri konu, Þóru, en hún var dóttir Bjarna Guðmundssonar bókara og síðar kaupfélagsstjóra á Höfn og konu hans, Ingibjargar Gunnlaugsdóttur. Í stríðsbyrjun hafði Günter verið kallaður í þýska herinn þannig að hann fluttist með Þóru konu sinni til Hamborgar. Þar fæddist þeim dóttirin Björk árið 1942. Eftir að styrjöldinni lauk flúðu þær mæðgur til Íslands en hernámsyfirvöld í Hamborg meinuðu eiginmanninum lengi vel för til Íslands þannig að foreldrarnir bjuggu hvort í sínu landinu. Móðirin í Reykjavík en faðirinn í Hamborg. Björk litlu var aftur á móti komið í fóstur til afa síns og ömmu austur á Hornafirði og þar ólst hún upp fram að fermingu. Til að viðhalda þýskukunnáttu Bjarkar ákváðu aðstandendur hennar að fá inn á heimilið þýskumælandi stúlku, sem auk þess að tala við barnið átti að aðstoða við heimilisstörf. Landbúnaðarverkafólkið Í ársbyrjun 1949 báðu íslensk stjórnvöld Árna Siemsen, vararæðismann Íslands í Lübeck, um aðstoð við að ráða landbúnaðarverkafólk til Íslands. Búnaðarfélag Íslands hafði milligöngu um að ráða fólkið til starfa innanlands. Alls komu 314 Þjóðverjar til landsins þetta ár á vegum Búnaðarfélagsins – eins og Páll Zóphóniasson rekur skilmerkilega í samantekt sem hann vann í árslok 1950 og birti næsta ár í Búnaðarritinu. Þar er farið í tilurðina að komu fólksins, dreifingu þess eftir landshlutum og afdrif. Á s e i n n i árum hafa ýmsir fræðimenn farið nánar í saumana á afdrifum þessa fólks, meðal annarra Nína Rós Ísberg, sem varði doktorsritgerð sína um efnið við Lundúnaháskóla árið 2010. Einnig Pétur Eiríksson sagnfæðingur, sem meðal annars birti sínar niðurstöður árið 2007 í tímaritinu Sagnir (27: 20-26). Stærsti hópurinn, 184 full- orðnir og eitt barn, kom með strandferðaskipinu Esju 8. júní 1949 en skipið hafði verið gagngert sent eftir fólkinu til Hamborgar. Næstu mánuðina komu 130 Þjóðverjar til viðbótar til landsins, oftast með íslenskum togurum sem lönduðu ísfiski í Cuxhaven eða Bremerhaven. Þeir síðustu komu samt ekki fyrr en í nóvember. Rétt tæpur helmingur þessa fólks kom frá hernámssvæðum Vesturveldanna í Þýskalandi, álíka fjöldi kom frá hernámssvæðum Sovétríkjanna en stundum (í 8% tilvika) vantaði upplýsingar um uppruna fólksins. Rætur þýska verkafólksins lágu greinilega víða um Evrópu. Afdrif Samkvæmt ofansögðu eru heimildir fyrirliggjandi um að minnsta kosti 323 Þjóðverja sem komu til landsins árið 1949. Um helmingur þessa fólks settist að á Íslandi til frambúðar. Sé einvörðungu horft til landbúnaðarverkafólksins (314 manns) héldu 124 konur og 44 karlanna aftur til Þýskalands eftir að vistráðningunni á Íslandi lauk, sumir fóru reyndar fyrr heim eins og Páll Zóphóniasson rekur í greininni í Búnaðarritinu. Aftur á móti settust 146 þeirra að á Íslandi til frambúðar. Í þeim hópi voru 114 konur og 32 karlar. Fjöldi karlanna sem hér settust að hefur komið mörgum á óvart. Margir hafa talið þá vera færri, en talið var erfiðara fyrir þá að festa hér rætur heldur en konurnar sem öðluðust sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt þegar þær giftust íslenskum körlum, svo fremi sem giftingin fór fram fyrir 1. janúar 1953. Pétur Eiríksson sagnfræðingur rannsakaði íbúaskrár og ýmsar aðrar heimildir og komst að þeirri niðurstöðu að þýsku konurnar og karlmennirnir sem hingað komu 1949 hafi eignast 340 börn sem komust á legg. Margot verður húsfreyja í sveit Foreldrar undirritaðs hittust fyrst í byrjun júlí 1949. Faðir minn, Skírnir Hákonarson, þá 38 ára bóndi á Borgum í Hornafirði, hafði nokkru áður fengið Akureyrarveikina illræmdu og eftir það þjáðst af þreytu og magnleysi. Þess vegna ákvað hann að fá sér til hjálpar við búskapinn einn þeirra þýsku landbúnaðarverka- manna sem í boði voru á vegum Búnaðarfélagsins. Sá sem Búnaðarfélagið valdi og sendi austur var ungur maður, borinn og barnfæddur í Hamborg, Hans Wolfgang May að nafni. Þegar símskeyti barst að Borgum með upplýsingum um það hvenær flugvél með vinnumanninn innanborðs ætti að lenda á vellinum á Melatanga, brá Skírnir á það ráð, að heimsækja kaupfélagsstjórahjónin og fá þau til að ljá sér Margot sem túlk. Hann hafði frétt að hún væri víst strax – eftir ríflega þriggja mánaða dvöl á landinu – farin að tala „svo ljómandi góða íslensku“. Til að gera langa sögu stutta felldu Margot og Skírnir hugi saman. Að vistinni í kaupfélagsstjórabústaðnum lokinni (lok febrúar 1950) flutti Margot inn í Borgir, þau trúlofuðust og giftu sig 17. desember 1950. Og tengdamóðirin sá til þess að lítil klausa birtist um giftinguna í hverfisblaðinu í Hamborg. Margot og Skírni búnaðist vel. Börnin urðu fimm (mynd) og með tímanum, þegar búskap var hætt í Borgum, varð Margot handmennta- og þýskukennari í Nesjum og á Höfn í fullu starfi, allt þar til hún fór á eftirlaun. Svipaða sögu er að segja af vinnumanninum því Hans og Björk, systir Skírnis, felldu hugi saman, þau giftust og eignuðust þrjú mannvænleg börn. Þýskir erfðavísar blönduðust sem sagt genum Borgasystkinanna, þeirra Skírnis og Bjarkar, systkinanna sem eignuðust afkomendur en þeir eru þegar þetta er ritað 36 talsins. Lokaorð Allir eiga Þjóðverjarnir sem hingað fluttust sína sögu. Líka þeir sem hurfu á ný til heimaslóðanna eftir veruna á Íslandi. Hvaða aðstæður voru þeir að yfirgefa ytra? Hvernig gekk þeim að aðlagast á Íslandi? Hvað reyndist þeim erfiðast og hvernig þróuðust tengslin við venslafólkið sem lifði stríðshörmungarnar í Þýskalandi af? Lífssaga Margotar í Borgum er á margan hátt forvitnileg og er skráning hennar þegar hafin, ekki hvað síst vegna þrýstings frá afkomendum hennar. Í niðurlagsorðum áðurnefndrar greinar Péturs Eiríkssonar sagnfræðings kemur fram að ekki séu heimildir fyrir öðru en að þeir Þjóðverjar sem hér settust að hafi orðið hinir bestu þegnar. Þeir hafi samlagast íslensku þjóðinni svo fullkomlega að þeir týndust í fjöldanum. Mjög líklegt er að þeir hafi flutt með sér ýmis hin bestu einkenni þýsku þjóðarinnar eins og hreinlæti, skipulagshæfileika, stundvísi og áreiðanleika, og smitað þessum einkennum út frá sér. Á þann hátt hafi fólkið á hæglátan hátt haft áhrif án þess að láta mikið fyrir sér fara. Karl Skírnisson Þýskar stúlkur sem komu með Brúarfossi 1. apríl 1949. Í efsta þrepinu stendur Margot Gamm. Skírnir Hákonarson í útreiðartúr með Margot Gamm og þýska vinnumanninum Hans Wolfgang May (síðar nefndur Hans Jóhannsson) í Borgum í ágúst 1949. Ljósmyndina tók Björk Hákonardóttir.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.