Bændablaðið - 20.02.2020, Blaðsíða 31

Bændablaðið - 20.02.2020, Blaðsíða 31
Bændablaðið | Fimmtudagur 20. febrúar 2020 31 occidentale segir að tegundin sé upprunin í vestri. Enska heitið cashew á fræinu kemur úr portúgölsku þar sem tréð kallast cajú, en það heiti kemur aftur úr tupian, sem er safn um 70 tungumála innfæddra í Suður- Ameríku, acajú og þýðir hnetan sem vex af sjálfu sér. Frakkar segja anacardier, Grikkir kάσιους, Ítalir anacardio, Króatar kašu, Rússar анакард og Finnar cashewpähkinä. Danir kalla fræið cashew nød og þaðan er íslenska heitið kasjúhneta líkast til komið. Útbreiðsla og saga Elstu steingervingar kasjútrjáa eru taldir vera 45 milljón ára gamlir og benda til að tegundir innan ættkvíslarinnar hafi vaxið í Mið- Ameríku fyrr á tímum. Útflutningur á kasjúhnetum hófst frá Brasilíu um 1550. Almennt er talið að Portúgalar hafi flutt með sér fræ kasjútrjáa frá norðaustur-hér- uðum Brasilíu til Góa á Indlandi á árunum milli 1560 og 1565 og hófu ræktun þeirra þar. Plantan breiddist síðan út frá Indlandi um Suðaustur- Asíu og til hitabeltissvæða Afríku. Franski grasafræðingurinn Andrá Thevet var fyrstur manna til að lýsa plöntunni á tréristu árið 1558. Samhliða lýsingunni segir hann frá innfæddum í Brasilíu sem eru að kreista aldin trésins þegar það hangir á trénu en án frekar skýringa. Árið 1838 segir að á Karíbaeyjum Vestur-Indía sé farið að nota kasjú- eplasafa sem bland með rommi. Fyrir aldamótin 1900 voru kasjú- hnetur fáséðar á veitingahúsum í Evrópu og í Bandaríkjum Norður- Ameríku og ristaðar kasjúhentur verðlagðar svipað og rússneskur kavíar. Ræktun á kasjúhnetum hófst ekki að nokkru ráði í Norður-Ameríku fyrr en eftir aldamótin 1900 og náðu ekki teljandi vinsældum þar fyrr en um 1940, en í dag er neysla þeirra á mann í Bandaríkjunum sú mesta í heimi. Kenningar eru um að kasjúhnet- ur hafi borist til Indlands löngu áður en Portúgalar fluttu plöntuna þang- að um miðja sextándu öld. Þessu til stuðnings er bent á að til séu bæði fornar ritaðar heimildir og steinmyndir frá því um 200 fyrir Krist sem gætu sagt frá og verið af kasjútré. Nytjar Í 100 grömmum af kasjúhnetum eru 553 kaloríur og þær innihalda 67% fitu, 36% prótein, 13% trefjar og 11% kolvetni og eru ríkar af járni, mangan, fosfór, magnesíum og B-vítamínum. Auk kasjúhneta gefa kasjútré af sér aldin sem kallast kasjúepli og þykir gott til átu. Úr aldininu er einnig unninn sætur safi sem meðal annars er gerjaður til að búa til áfengi. Á Indlandi kallast drykkurinn annaðhvort feni og er 40 til 42% áfengi eða urrac sem er 15%. Í Tansaníu er aldinið þurrkað og síðan gerjað í vatni og búinn til sterkur göróttur drykkur sem kalast gongo. Hýði kasjúhneta er ríkt af olíu sem hefur verið notuð sem smurefni í flugvélar og önnur tæki, málningu, til að vatnsverja yfirborð, í blek og til vopnaframleiðslu. Kasjúhnetuolía er dökkgul á litinn og fáanleg sem matarolía á salat og til annarra matargerðar. Framleiðsla hennar fer fram með einni kaldpressun. Viður kasjútrjáa er ágætur smíða- viður og notaður í húsgögn, báta og ýmsa smáhluti. Í berkinum er tanín sem notað er til litunar. Kasjúhneta er mest neytt sem snakk eða sem íblöndun í ýmsa rétti og í sósur. Þær eru algengar í ind- verskum, pakistönskum, taílenskum og kínverskum réttum, annaðhvort heilar eða malaðar. Á Filippseyjum eru hneturnar malaðar og búið til úr þeim eins konar marsípan, sem er vafið með hrísgrjónum í deig og steikt og í Mósambík og Suður- Afríku eru kasjúhnetur muldar með kartöflum í kartöflumús sem kallast bolo polana. Neysla á kasjúeplum er mest í löndum Suður-Ameríku þar sem það er notað í safa eða til matargerðar, soðið í pasta með sykri. Í Afríku er safi úr kasjúhnetum og kasjúeplum kallaður kasjúmjólk. Samkvæmt alþýðulækningu er seyði sem unnið er úr berki kasjú- trjáa og hnetuolíunni góð til að mýkja sigg, líkþorn og vörtur og græða munnangur. Barkarseyðið var einnig drukkið við astma, kvefi og sjúkdómum í öndunarfærum. Olían er sögð vera mótverkandi á ýmis eitur, drepa sníkjudýr sem sækja í líkamann og draga úr einkennum malaríu og sýfilis. Indverskar ayurveda-lækningar segja kasjúepli drepa iðraorma, kynlífshvetjandi, koma í vef fyrir bjúg, magastillandi og hitalækk- andi. Á Filippseyjum er sagt að laufið hafi svipuð áhrif, auk þess sem sagt er að gott sé að tyggja fersk lauf við tannverk. Afgangs hnetur og lauf kasjú- trjáa er notað sem dýrafóður og vitað er að villtir Capuchin-apar í Brasilíu nota steina til að brjóta skelina utan af kjarna kasjúhneta áður en þeir éta þær Neysla kasjúhneta getur valdið alvarlegum ofnæmisviðbrögðum hjá fólki sem er viðkvæmt fyrir slíku. Hnetan sem vildi sjá heiminn Samkvæmt gamalli þjóðtrú þrosk- uðust kasjúhnetur áður alfarið inni í kasjúeplinu. Fræ eitt sem gat heyrt í fuglunum fljúga milli trjánna, árniðinn, sögn skordýr- anna og mál trjánna óskaði þess heitast af öllu að fá að sjá heim- inn utan við aldinið. Skógarandi sem heyrði óskina lét hana rætast og allt frá þeim tíma hefur hnetan vaxið hálf utan við aldinið og notið útsýnisins. Ræktun Kasjútré eru mest ræktuð í hita- beltinu milli 25° norðlægrar og suðlægrar breiddar. Trén dafna best á láglendi og upp í þúsund metra hæð þar sem meðalhiti er milli 21° til 28° á Celsíus og loftraki er ekki of hár og og ársúrkoma milli 500 og 900 millimetrar að meðaltali. Planta hættir að vaxa fari hiti niður fyrir 17° á Celsíus og þolir ekki frost. Trén eru vindþolin og gera ekki miklar kröfur til jarðvegs og þola vel grunnan sendinn jarðveg með sýrustig milli 4,3 til 8,7. Spírunarhæfni kasjúfræa minnkar hratt við geymslu og er ágræðsla algengasta fjölgunar- aðferðin í ræktun. Trén þola illa flutning og afföll eru talsverð við útplöntun. Að öllu jöfnu tekur átta ár frá því að ungplöntum er plantað út þar til þær fara að gefa ávöxt og það tekur aldinið tvo til þrjá mánuði að ná fullum þroska eftir blómgun. Ný afbrigði geta samt gefið ávöxt eftir þrjú ár. Uppskera nýrra yrkja er um tonn af hnetum á hektara og mun meiri en eldri ræktunarsorta. Því fleiri hnetur sem hvert tré gefur af sér, því minni eru þær. Uppskera á kasjúhnetum er mannfrek og ekki hefur tekist að vélvæða hana. Þegar aldinin hafa náð fullum þroska falla þau af trjánum og er þeim safnað á innan við þremur dögum til að koma í veg fyrir skemmdir. Eftir að hnet- unum er safnað eru þær léttristaðar, afhýddar og síðan pakkað. Uppskera og vinnsla á kasjú- hnetum í heiminum tengist víða barnaþrælkun og ömurlegum vinnuaðstæðum þúsunda, aðallega kvenna og barna, í Asíu, á Indlandi og í Afríku. Kasjúhnetur á Íslandi Lítið fer fyrir umfjöllun um kasjú- hnetur í íslenskum fjölmiðlum fram undir 1990, en þá fer þeim að bregða fyrir í mataruppskriftum og auglýs- ingum. Meðfylgjandi uppskrift að ávaxta- og kasjúhnetuís fyrir þrjá til fjóra birtist í Bændablaðinu fyrir tæpum áratug. 125 grömm kasjúhnetur. 500 millilítrar hreinn appelsínusafi. 240 grömm mjúkar og gróft saxaðar döðlur. 150 grömm smátt saxað mangókjöt. Einn stór og vel þroskaður banani. Setjið kasjúhneturnar í matvinnslu- vél og malið þær í um tvær mínútur. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og malið áfram í tvær til þrjár eða þangað til hneturnar eru vel maukaðar. Setjið í stóra skál. Saxið döðlurnar gróft og setjið í matvinnsluvélina ásamt appelsínusafanum. Blandið í eina til tvær mínútur eða þangað til döðlurnar eru líka vel maukaðar. Setjið í skálina. Afhýðið mangó og banana og skerið í litla bita. Setjið síðan í matvinnsluvél og blandið í eina mínútu eða þangað til það er vel maukað. Setjið í skálina og hrærið vel saman. Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið úr frystinum á um hálftíma til klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Endurtakið þangað til erfitt er orðið að hræra í blöndunni. Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30–40 mínútur áður en hann er borinn fram. Kasjúepli til sölu á Indlandi. Óþroskaðar hnetur og aldin. Kona af ættflokki Mameluka-indíána í Andersfjöllum undir Kasjútré. Mynd eftir hollenska málarann Albert Eck- hout (1610–1665). Uppskera og vinnsla á kasjúhnetum í heiminum tengist víða barnaþrælkun og ömurlegum vinnuaðstæðum. Kasjúepli tilbúin til gerjunar. Kasjúhnetur brotnar úr skelinni. Óafhýddar kasjúhnetur eru gráar að lit. Afhýddar kasjúhnetur tilbúnar til neyslu.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.