Dagblaðið Vísir - DV - 14.08.2020, Blaðsíða 28

Dagblaðið Vísir - DV - 14.08.2020, Blaðsíða 28
28 FÓKUS 14. ÁGÚST 2020 DV Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálf- sögðu nafnlaust og í fullum trúnaði. Fjölskylduhornið Sérfræðingur svarar Kristín Tómasdóttir fjölskyldumeðferðar- fræðingur svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín lesanda sem hefur verið í einangrun með maka sínum vegna COVID. AÐÞRENGD Í EINANGRUN S æl, Kristín. Við hjónin lentum verr í ann-arri bylgju Covid en þeirri fyrri. Við greindumst með sjúkdóminn og höfum verið í sóttkví og einangrun til skiptis. Maðurinn minn veiktist töluvert en ég fékk vægari flensueinkenni. Við höfum átt farsælt hjónaband þó svo að það hafi margt breyst eftir að krakkarnir fluttu að heiman, þá þurftum við að vinna í því að finna okkar þráð aftur og höfum markvisst reynt það. Aftur á móti líður okkur báðum eins og undanfarnar vikur hafi alveg farið með okkur. Við fengum engan stuðning frá hvort öðru, vorum að drepa hvort annað úr leiðindum, vorum agaleg fórnarlömb til skiptis og tími sem margir myndu segja að styrktu sambandið myndaði afar djúpa gjá milli okkar. Við erum enn í einangrun en erum búin að ná betri heilsu. Ég er hrædd um að þetta ástand hafi fært okkur á endastöð og ef ég segi það bara eins og er, þá nenni ég ekki að standa í þessu. Hvað gerum við nú? Fjarlægð og vonleysi Sæl, kæru hjón. Ég skil eigin- lega ekki að ég hafi ekki feng- ið sambærilega spurningu fyrr. Í Wuhan mynduðust raðir fyrir utan sýslumanns- embættin eftir COVID því fólk sótti unnvörpum um skilnað. Þó svo að of skammt sé liðið frá því faraldurinn byrjaði til þess að rannsóknarniðurstöð- ur liggi fyrir, þá er það vitað mál að COVID hefur haft áhrif á fjölskyldur á marga vegu. Mikil samvera, veik- indi, tekjumissir og óvissa er blanda sem hlýtur að kalla á skjálfta í hinum stöðugustu hjónaböndum. Aftur á móti er það mín reynsla af vinnu með pörum á þessum tíma að annaðhvort hefur ástandið styrkt sam- bandið eða myndað gjá milli hjóna. Það segir mér að þó þið finnið núna fyrir fjarlægð og vonleysi, þá þýðir það ekki að sambandið sé búið. Kannski er þetta tækifæri til þess að endurskoða tilveru ykkar, vinna í því að styrkja sam- bandið á ný og leggja nýjar áherslur? Kannski varð þessi reynsla til þess að þið eruð ef- ins um hjónabandið. En stóra spurningin er: Hvað ætlið þið að gera við þá upplifun? Formgerðarbreytingar Við köllum það formgerðar- breytingar þegar fjölskylda tekur breytingum, til dæmis þegar fólk skilur, deyr eða fæðist. Þið nefnið að það hafi verið erfitt hjá ykkur þegar börnin fluttu að heiman en það er einmitt dæmi um breytingar sem valda öðru mynstri í formgerð fjölskyld- unnar. Formgerðarbreytingar hafa alltaf áhrif á parsambönd, nokkuð sem þið hafið greini- lega upplifað áður. Þið funduð út úr þeim breytingum sem segir mér að þið getið líka fundið út úr þeim aðstæðum sem þið eruð í núna. Mig langar til að minna ykkur á að þið eruð ennþá í sóttkví, erfiðleikarnir standa enn yfir og þá er kannski ekki rétti tíminn til þess að taka afdrifaríkar ákvarðanir. Þú nefnir að þið standið á endastöð, orðið hljómar svo endanlegt. Skilnaðarferli er alltaf ferli og á sér ekki stað klukkan þrjú á þriðjudegi. Það tekur alltaf tíma, rúm og aðgerðir að ganga í gegnum slíkt, svo þó að þú upplifir þig á endastöð getur vel verið að frá henni liggi leið sem leiðir ykkur að betri og bættri líðan. Hvað gerum við nú? Þú spyrð mig, hvað gerum við nú? Og ég þakka þér innilega fyrir traustið, en þið farið ekki neitt úr sóttkvínni svo hvernig væri að nýta tímann, setja spilin á borðið og ræða framhaldið? Ég get ekki sagt ykkur hver ykkar lausn verður eða hvað þið þurfið svo ég mæli heldur með að taka þann tíma sem þið eigið í sóttkví til að hug- leiða hvernig ykkur líður og hvað þið þurfið til þess að líðan ykkar verði betri? Þó svo að þú „nennir þessu ekki“ þá veistu að þið getið þetta. Reglulegar pásur Margir halda að góð tengsl snúist um að eyða miklum tíma saman, vera alltaf sam- mála, stunda mikið kynlíf og leiðast út um allt. Þar eru fræðin ósammála. Örugg tengsl snúast um að par sé öruggt um að það geti tjáð sig um líðan sína og þarfir og sömuleiðis öruggt um að makinn geri slíkt hið sama. Mörgum líður vel í einrúmi og þurfa að fá næði til þess að vera ein, þó að þeim líði vel í parsambandinu. Öðrum líður vel í miklum félagsskap og þurfa að vera mikið með maka sínum eða öðru fólki svo þeim líði almennt vel. Kannski hafið þið ekki þörf fyrir að vera alltaf saman og þessi reynsla kennt ykkur að til þess að samband ykkar gangi vel þá þurfið þið reglu- legar „pásur“ frá hvort öðru? Kannski þurfið þið að vinna betur með hvernig þið styðjið hvort annað, hvernig þið biðj- ið um stuðning og hvað í því felst. Þá vitiði það bara. Að lokum, þetta eru undar- legir og fordæmalausir tímar. Slíkt getur haft undarleg og fordæmalaus áhrif á parsam- bönd, jafnvel hin farsælustu hjónabönd. Nú andið þið inn og út, meltið þessa miklu reynslu og ræðið ykkur niður á næstu skref. Ég ætla að trúa því að COVID verði bráðum eitt það besta sem hefur komið fyrir ykkur. Gangi ykkur vel. n MYND/GETTY Ég er hrædd um að þetta ástand hafi fært okkur á endastöð.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.