Morgunblaðið - 16.01.2020, Qupperneq 26
BAKSVIÐ
Guðrún Hálfdánardóttir
guna@mbl.is
Umönnun barna fyrstu árin, allt frá
getnaði, hefur áhrif á allt þeirra líf og
gagnreyndar rannsóknir sýna að tím-
inn frá getnaði til tveggja ára aldurs
er afgerandi fyrir þroska og velferð
barna. Megináhersla Geðverndar-
félags Íslands er á tilfinninga- og geð-
heilbrigði ungra barna en félagið
verður 70 ára á morgun.
Kjartan Valgarðsson, fram-
kvæmdastjóri Geðverndarfélags Ís-
lands, segir að félagið hafi verið
stofnað við gjörólíkar aðstæður þeim
sem nú eru og um frumkvöðla-
starfsemi hafi verið að ræða. Ekkert
viðlíka starf eða hugsun var í gangi á
þessum tíma. Kjartan segir að eðli
málsins samkvæmt hafi áherslan hjá
félaginu fyrstu árin og áratugina ver-
ið á endurhæfingu. „Að koma geð-
sjúkum af götunni og í skjól. Það
skýrir áherslu félagsins og aðkomu
að uppbyggingu á Reykjalundi,
vernduðu heimili sem Geðverndar-
félagið rak og áfangaheimili,“ segir
hann, en félagið kom að uppbyggingu
á Reykjalundi í samstarfi við Sam-
band íslenskra berklasjúklinga
(SÍBS).
Þegar nýju lífi var hleypt í Geð-
verndarfélagið fyrir tíu árum rak fé-
lagið tvö vernduð heimili, annað í
Breiðholti og hitt í Ásholti. Íbúarnir
voru þrír á hvorum stað, þrír karlar
og þrjár konur.
Félagið hafði áður rekið fleiri slík
heimili en þessi tvö voru þau sem enn
voru eftir í rekstri á vegum þess, seg-
ir Kjartan. „Á þessum tíma varð okk-
ur ljóst að þessi rekstur væri barns
síns tíma þar sem lagaumhverfið
hafði gjörbreyst og hlutverk ríkis og
sveitarfélaga orðið allt annað en það
var þegar félagið var stofnað. Rökrétt
niðurstaða var að fara út úr þessum
rekstri og Reykjavíkurborg tók við
rekstri vernduðu heimilunum og þau
færð til nútímans,“ segir hann.
Að sögn Gunnlaugar Thorlacius,
formanns Geðverndarfélags Íslands,
voru vernduðu heimilin rekin í sam-
starfi við Landspítalann og eins
áfangaheimilið í Álfalandi en þar
bjuggu átta skjólstæðingar. Áfanga-
heimilið var ætlað fólki eftir útskrift á
geðdeild og þar gat það dvalið í eitt ár
og fengið þjálfun hjá starfsfólki við að
fóta sig í daglegu lífi. „Þetta var milli-
stig frá því að vera á sjúkrahúsi í að
vera þátttakandi í daglegu lífi,“ segir
Gunnlaug.
Samið við Landspítalann
„Áður en við lokuðum áfangaheim-
ilinu gerðum við samning við Land-
spítalann um alla faglega þjónustu en
heimilið var rekið af okkur. Fyrir
fjórum árum var síðan tekin ákvörð-
un um að það væri ekki lengur hlut-
verk félagsins að reka slíkt heimili og
því lokað,“ segir Kjartan.
„Í beinu framhaldi og í samræmi
við upphaflega hugmyndafræði og
menningu í félaginu gekk það á und-
an öðrum með því að opna þessi
heimili. Enginn annar aðili sinnti
þessu á þeim tíma,“ segir Kjartan en
fyrir nokkrum árum komst stjórn fé-
lagsins, sem er að mestu skipuð fag-
fólki á þessu sviði, að þeirri niður-
stöðu að tímabært væri að orka
félagsins myndi beinast í aðrar áttir
og í samræmi við hefðir félagsins þá
einbeitir félagið sér nú að tilfinninga-
og geðheilbrigði ungra barna sem það
telur að sé ekki nógu vel sinnt.
London School of Economics
(LSE) gaf út skýrslu árið 2014 sem
sýndi að fyrir hverja krónu sem eytt
er í þennan málaflokk mætti spara
30. Miðað við íslenskan raunveruleika
og árlega fæðingartíðni mætti spara 7
milljarða íslenskra króna fyrir hvern
árgang með því að sinna foreldrum á
meðgöngu og börnum þeirra fyrstu
tvö árin á fullnægjandi hátt. Það,
hvernig við önnumst börn frá fæð-
ingu til tveggja ára aldurs, ræður
framtíð þeirra sem hefur í kjölfarið
áhrif á framtíð samfélags okkar.
Að sögn Gunnlaugar er Geð-
verndarfélagið ekki í klínískri starf-
semi og hefur aldrei verið nema þá
kannski í gegnum þessi vernduðu
heimili sem voru rekin af félaginu hér
áður. Félagið hefur alltaf verið félag
fagfólks og stjórnin alltaf skipuð fag-
fólki.
„Við eru mest í stefnumótum og að
reyna að koma á framfæri breyttri
hugsun í málefnum sem snerta geð-
fatlaðra. Þegar þörfin var sem mest í
að tengja fólk og draga úr fordómum
í garð geðfatlaðra þá vorum við þar –
að gera það sýnilegra en hugmynda-
fræði okkar núna snýr að því að fara í
mjög snemmtækar forvarnir. Það er
á fræðilegum grunni, búum til
fræðsluefni, skrifum greinar, gefum
út tímarit og setjum fram skoðanir á
frumvörpum og fleira. Þetta er ekki
alfarið stefna félagsins en þetta er
stefna okkar í forvörnum og þar er
meginþungi starfseminnar,“ segir
Gunnlaug.
Geðverndarfélagið er með samning
við Solihull Approach, sem tilheyrir
breska heilbrigðiskerfinu. Hjá Soli-
hull er að finna samantekna reynslu
af því að halda vel utan um mæður,
nýfædd börn og fjölskyldur almennt.
Anna Guðríður Gunnarsdóttir,
MSc. hjúkrunarfræðingur og sér-
fræðingur í heilsugæsluhjúkrun, hef-
ur notað Solihull-aðferðina í starfi
sínu og mun hún fjalla um reynslu
sína á afmælisfundi Geðverndar-
félagsins í næstu viku. Kjartan segir
að hún leggi áherslu á fyrsta viðtal við
verðandi mæður í eftirliti á með-
göngu. Í stað þess að ræða við þær í
20 mínútur þar sem drepið er á fjölda-
mörgum atriðum er lagður spurn-
ingalisti fyrir verðandi mæður og rætt
lengur við sumar, í allt að eina klukku-
stund. 20 mínútur eru hvergi nærri
nógur tími fyrir ljósmóður eða hjúkr-
unarfræðing að átta sig á því hvort
konan þurfi aukinn stuðning á með-
göngu, stuðning sem getur haft mikil
áhrif á allt líf viðkomandi.
Miðað við tölur frá WHO þurfa um
5% kvenna verulegt inngrip á með-
göngu, það er þurfa á þriðja stigs
þjónustu að halda, segir Gunnlaug og
miðað við meðaltal barna í árgangi eru
það um 200 börn á ári á Íslandi. „Þess-
ar fjölskyldur þurfa á verulegri aðstoð
að halda. Meðal annars vegna alvar-
legs vímuefnavanda, virkra alvarlegra
geðsjúkdóma og alvarlegs félagslegs
vanda. Síðan má bæta við 20-30% sem
þurfa á aðstoð að halda. Rannsóknir
bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt
að fjölskyldumiðuð lengri viðtöl
starfsmanna í mæðraeftirliti og ung-
barnavernd hjálpa meirihluta foreldra
með vanlíðan svo sem kvíða eða
streitu í foreldrahlutverki að leysa úr
sínum vanda.
Þetta er gríðarlega ódýr leið miðað
við forvarnargildið og áhrifin á við-
komandi börn síðar. Ef gripið er inn
strax er hægt að koma í veg fyrir mik-
inn vanda síðar. Hefur mikil áhrif fyr-
ir fjölskyldur í landinu sálrænt séð og
beinan kostnað sem fellur á heilbrigð-
iskerfið, menntakerfið og félagslega
kerfið, segir Gunnlaug.
Inngrip strax getur skipt sköpum
Megináherslan á tilfinninga- og geðheilbrigði ungra barna 200 börn í árgangi þurfa aukna aðstoð
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Geðverndarfélagið Gunnlaug Thorlacius er formaður Geðverndarfélags Íslands og Kjartan Valgarðsson er fram-
kvæmdastjóri þess. Félagið er stefnumótun og reynir að koma á framfæri breyttri hugsun í málefnum geðfatlaðra.
26 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 16. JANÚAR 2020
Geðverndarfélag Íslands verður 70
ára á morgun og verður haldið upp
á afmælið með hátíðarfundi
fimmtudagskvöldið 23. janúar í sal
Íslenskrar erfðagreiningar. Sér-
stakir heiðursgestir verða Eliza
Reid forsetafrú og dr. Hazel Gou-
glas, stofnandi og stjórnandi Sol-
ihull Approach, sem tilheyrir
breska heilbrigðiskerfinu (NHS) í
Birmingham á Englandi. Geðvernd-
arfélagið gerði á síðasta ári samn-
ing við Solihull Approach og er
fulltrúi þess á Íslandi. Með honum
er félagið „Solihull Approach Li-
cenced Center“ sem þýðir að félag-
ið mun kynna þá þekkingu og
reynslu sem SA hefur þróað á und-
anförnum áratugum innan breska
heilbrigðiskerfisins með því að
bjóða upp á námskeið sem Solihull
hefur þróað og boðið upp á Stóra-
Bretlandi og víðar.
Dr. Hazel Douglas hóf starfsferil
sinn sem klínískur sálfræðingur og
vann með fullorðna. Hún fékk
snemma áhuga á snemmtækri
íhlutun og fyrirbyggjandi heilsu-
gæslu. Hún lagði í framhaldinu
stund á nám í viðtalsmeðferð með
börnum og hóf að starfa að tilfinn-
inga- og geðheilbrigði barna. Hún
hafði forystu um að þróa Solihull-
aðferðina (The Solihull Approach)
þar sem markmiðið er að samþætta
þekkingu á tilfinningalegu heil-
brigði og vellíðan við fræðslu og
þjálfun heilbrigðisstarfsfólks ásamt
upplýsingum fyrir foreldra. Hún
talar fyrir aðgengi fyrir alla að
námskeiðum og fræðslu fyrir mæð-
ur á meðgöngu og nýbakaða for-
eldra.
Geðverndarfélag Íslands telur að
til þess að bæta aðstæður barna í ís-
lensku þjóðfélagi fyrstu árin þurfi
að stytta vinnuvikuna og lengja
fæðingarorlof í 18 mánuði. Styrkja
fagþekkingu starfsfólks leikskóla
og ráða fleiri leikskólakennara í
stað ófagmenntaðra. Auka skilning
og þekkingu stjórnmálamanna á
mikilvægi fyrstu ára í lífi barns og
stofna Fjölskylduhús. guna@mbl.is
Áhersla á fræðslu
fyrir foreldra
Solihull Approach Dr. Hazel Douglas.
Hægt er að lesa lengri útgáfu af
viðtalinu við Gunnlaug Thorlacius
og Kjartan Valgarðsson á mbl.is
Nautakjöt, lambakjöt, svínakjöt, grillkjöt,
lúxus hamborgarar, bacon og álegg
Fossháls 27, 110 Reykjavík
Opnunartími 7.30-16.30
Sími 557 8866
pantanir@kjotsmidjan.is
Komdu við
eða sérpantaðu
Gæða
kjötvörur