Morgunblaðið - 20.02.2020, Blaðsíða 18
VIÐTAL
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Nýverið færði Seðlabanki Íslands
hagvaxtarspá sína fyrir árið 2020 nið-
ur um helming. Nú gerir bankinn ráð
fyrir 0,8% hagvexti en undir lok síð-
asta árs stóðu vonir til þess að við-
spyrnan yrði meiri, eða 1,6%. Fleiri
mælikvarðar hafa snúist á verri veg
að undanförnu, m.a. atvinnustigið,
þróun gjaldeyristekna, atvinnuvega-
fjárfestingar og fleira.
Lilja D. Alfreðsdóttir, varafor-
maður Framsóknarflokksins og
mennta- og menningarmálaráðherra,
situr í ráðherranefnd um efnahags-
mál og endurskipulagningu fjár-
málakerfisins. Hún er gestur Við-
skiptapúlsins, hlaðvarps Viðskipta-
Moggans, sem sendur var út nú í
morgun. Þar ræðir hún stöðuna í ís-
lensku hagkerfi og segir nauðsynlegt
að bregðast hratt við versnandi
horfum.
Dauðafæri sem þarf að nýta
„Við erum í dauðafæri til þess að
veita hressilega viðspyrnu vegna þess
að við erum búin að undirbúa okkur
vel fyrir þetta. Ef við lítum á hrein er-
lenda stöðu þjóðarbúsins, hún hefur
aldrei verið betri, við erum búin að
vera að safna gjaldeyri í landinu og
þess vegna þurfum við núna að veita
hagkerfinu okkar og efnahagslífi það
súrefni sem það þarf til þess að at-
vinnuleysi aukist ekki enn frekar.“
Segir hún að atvinnustigið hafi
versnað hratt á einu ári og sé nú kom-
ið í 4,8%. Hætt sé við að það aukist
enn frekar, bæði vegna innri og ytri
aðstæðna.
Bendir Lilja á fréttir af þreng-
ingum í atvinnugreinum sem séu
gjaldeyrisskapandi og séu þúsundum
Íslendinga lifibrauð.
„Við sjáum til að mynda að það eru
blikur á lofti með álverin. Þarna þurf-
um við að tryggja samkeppnishæfn-
ina.“
Spurð hvort hún sé þar að vísa til
raforkuverðsins, en Rio Tinto sem
rekur álverið í Straumsvík segir raf-
orkusamning við Landsvirkjun frá
árinu 2010 eina af ástæðum þess að
fyrirtækið hafi verið rekið með halla
um langt skeið, segir Lilja að tryggja
þurfi fyrirtækjum hér á landi þær að-
stæður sem geri þeim kleift að keppa
við fyrirtæki í öðrum löndum. Það
þurfi að skoða ofan í kjölinn þegar
hætt sé við að fyrirtæki hrökklist úr
landi.
Skórinn kreppir víðar
En hún nefnir fleiri mikilvægar at-
vinnugreinar eins og ferðaþjónustuna
og sjávarútveginn. Þar séu einnig
uppi aðstæður sem reynst hafi ís-
lensku hagkerfi mótdrægar á síðustu
misserum, einkum vegna færri ferða-
manna sem hingað koma en einnig
minnkandi loðnustofns. Lilja starfaði
lengi fyrir Seðlabanka Íslands og Al-
þjóðagjaldeyrissjóðinn. Hún segir að
fyrrnefnda stofnunin hafi reynt sitt á
síðustu mánuðum til að örva hag-
kerfið. Vísar hún þar sérstaklega til
vaxtalækkana sem nema 1,75 pró-
sentum á einu ári en hún segir margt
benda til að þau skref hafi ekki dugað
til.
„Við sjáum að Seðlabankinn hefur
verið að lækka meginvexti,“ en
„bankakerfið hefur ekki verið að auka
sín útlán í takt við þessa lækkun. Það
hefur hægst á þeim og við sjáum
t.a.m. að fjárfestingar atvinnulífsins
voru minni en við gerðum ráð fyrir á
síðasta ári. Og það er mjög brýnt að
miðlunarferlið virki þegar staðan er
eins og þessi og við sjáum líka að við
þurfum að lækka eiginfjáraukana til
að liðka fyrir í fjármálakerfinu.“
Allir þurfa að standa sína plikt
Aðgerðirnar sem Lilja vísar til og
segir nauðsynlegar eru hins vegar
ekki bundnar við ákvarðanir Seðla-
bankans. Nú þurfi ríkissjóður einnig
að bretta upp ermar og það eigi einn-
ig við um sveitarfélögin.
„Við erum rétt yfir langtímameðal-
talinu varðandi opinberar fjárfest-
ingar ríkissjóðs og ég vil sjá meiri
aukningu þar.“
Spurð út í hvert umfang slíkrar
aukningar eigi að vera segir hún að
verja þurfi að minnsta kosti 2% af
landsframleiðslu í slíkar örvunar-
aðgerðir en það jafngildir að minnsta
kosti 50 milljörðum króna. Það sé við-
spyrna sem koma þurfi til á næstu
mánuðum.
„Ég tel að við séum í dauðafæri til
að koma með meiri innspýtingu, flýta
framkvæmdum sem eru tilbúnar og
við eigum að nýta kjöraðstæður á
markaði vegna þess að við erum í
miklu lágvaxtaumhverfi alþjóðlega.“
Bendir hún í því sambandi á að
hreinar skuldir ríkissjóðs séu sögu-
lega mjög lágar og aðeins um 20% af
landsframleiðslu en til samanburðar
sé hlutfallið um 110% í Bandaríkj-
unum.
Tímabundinn halli í lagi
Telur Lilja rétt að ríkissjóður verði
rekinn með halla til þess að tryggja
fyrrnefnda innspýtingu. Segir hún að
enn sé stefnt að því að greiða upp
stóra gjalddaga af skuldabréfaflokk-
um ríkisins á árinu en að rétt væri að
fresta því og nýta fjármagnið fremur
til fjárfestinga.
Innt eftir því hvers konar fjárfest-
ingar sé hægt að ráðast í með
skömmum fyrirvara, þ.e. innan árs-
ins, nefnir Lilja nokkur dæmi.
„Ég held við séum öll sammála um
að við þurfum að fara í uppbyggingu
sem varðar snjóflóðavarnir. Við þurf-
um að bæta hafnaraðstöðu víða um
land og svo þurfum við líka að styðja
betur við raforkukerfið okkar, þannig
að það eru mörg verkefni sem bíða og
eru tilbúin. Einnig eigum við að horfa
til stuðnings við aukna íbúðaupp-
byggingu, aukinn stuðning við kvik-
myndagerð og frekari uppbyggingu
hjúkrunarýma. Ég nefni t.a.m. í mínu
ráðuneyti, við erum á lokametrunum
með að geta hafið uppbyggingu við
Menntaskólann í Reykjavík, Fjöl-
brautaskólann í Breiðholti og Fjöl-
brautaskólann á Suðurnesjum. Við
erum með á teikniborðinu undir-
búning að nýjum Listaháskóla og svo
nefni ég auðvitað þjóðarleikvanga.“
Lækka beri álögur
Ráðherra segir að viðfangsefnið sé
hins vegar ekki aðeins bundið inn-
viðfjárfestingu. Ríkissjóður eigi einn-
ig að hraða lækkun tryggingagjalds-
ins til þess að létta undir með fyrir-
tækjum landsins. Þá eigi sveitar-
félögin einnig að leggja sitt af
mörkum og nefnir hún dæmi í því
sambandi.
„Fasteignagjöld eru t.d. mjög há á
Íslandi í dag.“
Lilja telur að samstarfsfólk sitt í
ríkisstjórn deili þeirri skoðun að nú
þurfi að bregðast skjótt við. Hið sama
eigi án efa við þegar litið sé til stjórn-
arandstöðunnar.
Segir hún að forsætisráðherra og
formenn stjórnarflokkanna hafi sýnt
framsýni með þeim aðgerðum sem
boðaðar séu í fjárlagafrumvarpi árs-
ins 2020. Hins vegar þurfi að spyrna
fastar við fótum. Það sé hægt í
tengslum við endurskoðun ríkisfjár-
málaáætlunar sem nú standi yfir.
„Forsætisráðherra hefur stýrt
þessu ríkisstjórnarsamstarfi mjög vel
þannig að ég er mjög bjartsýn á að
þau áform sem við erum að vinna
núna verði til heilla fyrir samfélagið.“
Viðspyrna til að varðveita störfin
Menntamálaráðherra leggur til að ráðist verði í meiri fjárfestingar en áætlanir gerðu ráð fyrir
Hægja beri á niðurgreiðslu skulda Lækka beri tryggingagjaldið hraðar og einnig fasteignagjöld
Morgunblaðið/Hari
Aukin innspýting Lilja D. Alfreðsdóttir segir nauðsynlegt að spyrna hressilega við fótum og örva hagkerfið.
18 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. FEBRÚAR 2020
LAUGAVEGI 24 - REYKJAVÍK - S. 552 0800
SKIPAGÖTU 7 - AKUREYRI - S. 462 4646
Gylfaflöt 17, 112 Grafarvogur
til sölu eða leigu – tvær stærðir
Nýtt steinsteypt iðnaðar og skrifstofuhúsnæði
Húsnæðið er á tveimur hæðum þar sem iðnaðarrými er á jarðhæð og
skrifstofurými á 2. Hæð. Tvær innkeyrsluhurðir, gott útipláss og hiti í gólfi.
Góð staðsetning.
231,5fm - 371,3fm
Sveigjanlegir kaup/leigu skilmálar í boði - möguleiki á forkaupsrétti við leigu.
Pétur Pétursson
Löggiltur fasteignasali – s. 897 0047
petur@berg.is
Davíð Ólafsson
Löggiltur fasteignasali – s. 896 4732
david@berg.is
BERG Fasteignasala | Háholt 14 | Mosfellsbæ | Sími: 588 5530 | berg@berg.is | berg.is