Morgunblaðið - 20.02.2020, Page 20
BAKSVIÐ
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Mannréttindadómstóll Evrópu
(MDE) í Strassborg er kominn langt
út fyrir hlutverk sitt og hefur það
valdið deilum og umtali í Danmörku.
Mads Bryde Andersen, lagapró-
fessor við Kaupmannahafnarháskóla,
gerði grein fyrir þessu sjónarmiði
sínu á afmælishátíð vegna hundrað
ára afmælis Hæstaréttar Íslands í
Þjóðleikhúsinu um síðustu helgi.
Ávörp fluttu Þorgeir Örlygsson, for-
seti Hæstaréttar, Guðni Th. Jó-
hannesson, forseti Íslands, Katrín
Jakobsdóttir forsætisráðherra, Stein-
grímur J. Sigfússon, forseti Alþingis,
Toril Marie Øie, forseti Hæstaréttar
Noregs, og Áslaug Arna Sigurbjörns-
dóttir dómsmálaráðherra.
Ræðumenn voru svo Markús
Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti
Hæstaréttar, og Andersen.
Fyrir hátíðina ræddi Andersen við
Morgunblaðið um Mannréttinda-
dómstólinn og þá stefnu sem dóm-
stóllinn hefur tekið í seinni tíð.
Út fyrir ætlað hlutverk sitt
Gagnrýni Andersen á Mannrétt-
indadómstólinn lýtur fyrst og fremst
að því að dómstóllinn taki sér réttar-
skapandi hlutverk. Þ.e.a.s. taki sér
það hlutverk að móta ákvæði sáttmál-
ans svo túlka megi ákvæði hans rúmt
og þar með mannréttindaverndina
umfram það sem höfundar sáttmál-
ans gerðu ráð fyrir.
Andersen er ekki einn um þessa
skoðun. Samkvæmt heimildum blaðs-
ins er þetta nokkuð algeng skoðun
meðal fræðimanna. Þá séu dómarar
við dómstóla einstakra ríkja margir
hallir undir þessi sjónarmið. Einnig
séu jafnvel dómarar við Mannrétt-
indadómstólinn á hverjum tíma hallir
undir slík viðhorf og hafi efasemdir
um róttækni við réttarsköpun. Með
þetta í huga vekur athygli að tvö dag-
blöð í Reykjavík skuli hafa gagnrýnt
að Andersen skyldi hafa vera boðið í
afmæli Hæstaréttar Íslands.
Hávaði falli undir friðhelgi
Spurður hvernig slík réttarsköpun
hafi birst fyrir Mannréttindadóm-
stólnum tekur Andersen dæmi af því
þegar lög um friðhelgi einkalífs voru
túlkuð á annan hátt en löggjafinn ætl-
aði. Þá þannig að undir verndun frið-
helginnar falli rétturinn til að búa
ekki við hávaða frá flugvélum eða frá
netkaffihúsum. Fram að því hafi lögin
verið túlkuð sem vernd gegn m.a.
ólöglegum símhlerunum og frelsis-
sviptingu.
Með slíkri túlkun útvíkki dóm-
stólar ætlað valdsvið sitt. Þessi til-
hneiging sé áberandi hjá Mannrétt-
indadómstól Evrópu og að einhverju
leyti hjá Evrópudómstólnum, dóm-
stól Evrópusambandsins sem dæmir
mál er varða túlkun Evrópuréttar.
Jafnframt hafi þessi tilhneiging
birst hjá EFTA-dómstólnum, sem
þurfi að fylgja Mannréttindadómstól
Evrópu og Evrópudómstólnum.
Felur í sér ógn við lýðræðið
Andersen telur réttarsköpun geta
falið í sér ógn við lýðræðið. Mislíki
löggjafanum túlkun dómstóls á lög-
um geti hann breytt lögunum. Ef til
dæmis dómur fellur um að fánastöng
flokkist undir byggingu geti löggjaf-
inn áréttað hið gagnstæða með laga-
setningu.
Mannréttindadómstóll Evrópu
dæmir í málum sem snúa að mann-
réttindabrotum samkvæmt Mann-
réttindasáttmála Evrópu.
Andersen segir að þegar sáttmál-
inn sé túlkaður þannig að undir frið-
helgi einkalífs falli rétturinn til að búa
ekki við hávaða frá flugvélum, eða að
ekki megi vísa útlendingum úr landi
sem framið hafa alvarleg brot með
vísan til mannréttindasjónarmiða, sé
ekki hægt að bregðast við því með því
að breyta sáttmálanum.
Andersen nefnir líka sem dæmi
dóm Mannréttindadómstólsins frá
árinu 2006 um að það brjóti gegn
réttindum einstaklinga til félaga-
frelsis að vera skyldaðir til aðildar að
tilteknu verkalýðsfélagi til að fá starf
hjá dönsku fyrirtæki.
Vísar hann til máls Sørensen &
Rasmussen gegn danska ríkinu, en
dómur yfirdeildar Mannréttinda-
dómstólsins féll 11. janúar 2006 í mál-
um 52562/99 og 52620/99.
Grafið undan vinnumarkaði
Fram kom í tilkynningu frá dóm-
stólnum að Danmörk og Ísland væru
meðal fárra ríkja sem staðfest hefðu
Mannréttindasáttmálann sem þá
höfðu slíkt fyrirkomulag. Áætlað var
að 10% vinnuaflsins í Danmörku
væru undir það sett.
Andersen telur að niðurstaðan hafi
grafið undan dönskum vinnumarkaði
með því að leiða til útgöngu fólks úr
verkalýðsfélögum, sem hafi talið sig
spara fjármuni með því að þurfa ekki
að greiða félagsgjaldið. Þetta hafi aft-
ur veikt samtakamátt verkafólks og
samningsstöðu þess við fyrirtækin.
Danskt launafólk hafi búið við mikil
réttindi og í sameiningu meðal ann-
ars byggt upp öflugt eftirlaunakerfi.
Niðurstaða Andersen er að Mann-
réttindadómstóllinn hafi í málinu
skapað ný réttindi sem sáttmálinn
geri ekki ráð fyrir. Það sé á hinn bóg-
inn kjósenda að ákveða fyrirkomulag
á vinnumarkaði en ekki dómara í
Strassborg sem leitist við að útvíkka
gildissvið sáttmálans.
Annað dæmi af sama meiði sé dóm-
ur Mannréttindadómstólsins (Biao
gegn danska ríkinu) um að það fæli í
sér mismunun að lögfesta lágmarks-
aldur við hjónabönd innflytjenda.
Konurnar gjarnan einangraðar
Tilefni lagasetningarinnar hafi
meðal annars verið að koma í veg
fyrir þvinguð hjónabönd innflytjenda.
Konur í slíkum hjónaböndum hafi
gjarnan verið félagslega einangraðar
í Danmörku og dæmi um að menn-
irnir þekktu konurnar sem þeir gift-
ust lítið sem ekkert.
Umrædd lagasetning hafi komið til
kasta danskra dómstóla alla leið upp í
hæstarétt Danmerkur.
Eftir dóm yfirréttar MDE, sem
klofnaði í málinu, hafi danska þingið
breytt lögunum, þvert gegn vilja
danskra þingmanna.
Einnig megi nefna mál sem danska
ríkið hafi óskað eftir að yfirdeild
MDE taki fyrir. Það varði þá niður-
stöðu undirréttar MDE að ólögmætt
hafi verið að vísa manni úr landi sem
varð, ásamt öðrum, manni að bana, í
máli Savran gegn danska ríkinu (mál
57467/15). Maðurinn, Arıf Savran,
fæddist í Tyrklandi en flutti með
fjölskyldu sinni til Danmerkur er
hann var sex ára.
Ómannúðleg meðferð
Undirdeildin hafi rökstutt það
með vísan til þess að maðurinn hafi
átt við andleg veikindi að stríða. Með
hliðsjón af því að hann gæti ekki
vænst sömu meðferðar vegna veik-
inda sinna í Tyrklandi og hann
myndi gera í Danmörku jafngilti það
ómannúðlegri meðferð eða pyndingu
að vísa honum til Tyrklands. En í
þriðju grein mannréttindasátt-
málans segir að „enginn maður skal
sæta pyndingum eða ómannlegri eða
vanvirðandi meðferð eða refsingu“.
Fjórir dómarar af sjö í undirdeild-
inni voru að baki niðurstöðunni. Á
það má benda að undirdeild og yfir-
deild MDE eru sami dómstóll.
„Ef dómurinn stendur gæti Dan-
mörk orðið að stóru geðsjúkrahúsi
fyrir sérhvern útlending sem neitar
að fara úr landi, enda geti það falið í
sér pyndingu að vera sendur til
lands sem býður ekki sömu meðferð-
arúrræði og Danmörk,“ segir
Andersen um möguleg áhrif.
Án lýðræðislegs umboðs
Andersen tekur fram að málin
varði viðkvæmar spurningar.
„Skoðun mín er að slíkar ákvarð-
anir eigi ávallt að vera teknar af
kjörnum fulltrúum. Ég sé enga
ástæðu fyrir því að slíkar ákvarðanir
séu teknar af dómurum sem hafa
ekkert lýðræðislegt umboð, túlka
ákvæði sem eru ekki ætluð slíkum
málum og skortir aðhald löggjaf-
ans,“ segir Andersen.
Hann segir ummæli sín um mögu-
leikann á úrsögn Danmerkur úr
Mannréttindadómstól Evrópu hafa
orðið tilefni minnisblaðs danska
dómsmálaráðuneytisins. Þar hafi
niðurstaðan meðal annars verið sú
að slíkt skref gæti haft afleiðingar
fyrir aðild Danmerkur að Evrópu-
sambandinu. Sú niðurstaða sé út af
fyrir sig áhugaverð.
Hann hafi orðið var við það í
heimalandi sínu að menn hiki við að
gagnrýna Mannréttindadómstólinn
af ótta við að vera úthrópaðir.
Breytti um stefnu
Andersen segir aðspurður að al-
þjóðlegir dómstólar hafi tilhneigingu
til að þróa með sér eigin dómara-
menningu og eigin túlkun á lögum.
„Mannréttindadómstóll Evrópu
var stofnaður árið 1951 en fór ekki
Mannréttindadómstóll á rangri leið
Danski lagaprófessorinn Mads Bryde Andersen gagnrýnir Mannréttindadómstólinn í Strassborg
Með skapandi réttarfari sé dómstóllinn kominn út fyrir valdsvið sitt Það geti ógnað lýðræðinu
Ljósmynd/MDE
5. febrúar 2020 Við málflutning í landsréttarmálinu við yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Dani Mads hefur verið lagaprófessor við Kaupmannahafnarskóla frá 1991.
SJÁ SÍÐU 22
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. FEBRÚAR 2020
Tryggðu þér borð á
www.matarkjallarinn.is
Aðalstræti 2 | s. 558 0000
LEYNDARMÁL
Matarkjallarans