Morgunblaðið - 20.02.2020, Blaðsíða 66
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Ég er hugfanginn af þessu leikriti,
enda magnað að lesa gamalt verk
sem gæti hafa verið skrifað í dag,“
segir Guðjón Davíð Karlsson, betur
þekktur sem Gói, sem leikstýrir
Útsendingu sem frumsýnd verður á
Stóra sviði Þjóðleikhússins annað
kvöld. Leikritið er eftir Lee Hall og
byggist á Óskarsverðlaunamyndinni
Network sem Paddy Chayefsky
skrifaði handritið
að. Það fjallar um
fréttamanninn
Howard Beale
sem sagt er upp
eftir 25 ára starf
hjá sömu banda-
rísku sjónvarps-
stöðvakeðjunni
þar sem áhorfið
hefur dalað. Hann
tilkynnir áhorf-
endum að eftir
viku muni hann svipta sig lífi í beinni
útsendingu og skyndilega er frétta-
þátturinn hans orðinn miðpunktur
athyglinnar. Verkið spyr fjölda
spurninga um vald fjölmiðla og áhrif
þeirra á líf fólks.
„Í lok dags erum við að segja sögu
og viljum að hún sé skýr. Við viljum
að áhorfendur velti því fyrir sér
hvernig leikritið endurspegli sam-
tímann og hvort líkindin séu í lagi.
Ég ætla ekki að svara þeirri spurn-
ingu,“ segir Gói og tekur fram að sér
finnist miklu áhugaverðara að áhorf-
endur fái rými til að svara spurning-
unum fyrir sig.
„Það sem heillaði mig við þetta
verk þegar ég las það var frásagnar-
mátinn, hvernig tæknin er notuð,“
segir Gói og bendir á að stærstur
hluti verksins gerist í sjónvarps-
stúdíói. „Í sýningunni höfum við
bæði alla miðla leikhússins til að
segja söguna og alla miðla sjónvarps-
og kvikmyndaheimsins,“ segir Gói og
viðurkennir að það sé vissulega
ákveðin áskorun en á sama tíma
skemmtilegt verkefni. „Við höfum til
dæmis þurft að finna út úr því hvað
leikararnir mega leika stórt fyrir ka-
meruna án þess að það verði óeðli-
legt og leika lítið án þess að það verði
óeðlilegt fyrir sviðið og leikhúsáhorf-
endur.“
Í ljósi þess að verkið gerist á átt-
unda áratug síðustu aldar langar mig
að forvitnast hversu langt listrænir
stjórnendur ganga í að nálgast útlit
og tækni þess tíma?
„Hvað útlit sýningarinnar varðar
tókum við þá ákvörðun að láta útlit
leikara, búninga og leikmuni endur-
spegla ritunartíma verksins, en það
er skrifað 1975. En hins vegar
ákváðum við að hafa nútímatækni.
Við erum því með flatskjái og nú-
tímamyndavélar sem skilar bestu
mögulegu mynd. Okkur listrænu
stjórnendunum fannst þetta mikil-
vægt. Höfundurinn hefur sjálfur lýst
því í viðtölum að hann hafi skrifað
verkið sem satíru á fjölmiðlaheiminn.
Þegar maður les verkið árið 2020
virkar það hins vegar eins og heim-
ildarleikhús eða nútímaleikhús. Sag-
an talar allt öðruvísi til okkar en 1975
þegar gefið var í skyn að við mynd-
um lenda í vandræðum og brjóta öll
siðferðismörk ef fram færi sem
horfði. Í dag erum við búin að brjóta
öll þessi siðferðismörk. Við erum
hvert og eitt okkar sjónvarpsstjórar
yfir okkar eigin fjölmiðli, hvort sem
hann heitir Instagram, Facebook eða
Snapchat. Af þeim sökum talar leik-
ritið allt öðruvísi til okkar í dag en
það gerði þá. Þess vegna fannst mér
mikilvægt að brjóta tískuna sem við
erum með á sviðinu. Við erum ekki
að segja sögu af fólki í gamla daga
heldur erum við að segja sögu af
vandamálum sem við erum öll að
glíma við í samtímanum. Fjölmiðlar
beita þessu í formi klikkbeitna, við
beitum þessu með ímyndarsköpun
þegar við reynum að sýna umheim-
inum okkar bestu hliðar. Það er það
sem heillaði mig við þetta leikrit.
Þess vegna langaði okkur að undir-
strika það enn frekar með því að hafa
tæknina nútímalega,“ segir Gói og
lýkur lofsorði á samstarfsfólk sitt.
„Ég er mjög lukkulegur með allt
fólkið sem er í þessu ferðalagi með
mér,“ segir Gói og vísar þar til Egils
Eðvarðssonar sem hannar leikmynd-
ina og Helgu I. Stefánsdóttur sem
hannar búningar, en bæði hafa þau
mikla reynslu úr sjónvarps- og kvik-
myndabransanum sem nýtist vel í
Útsendingu. „Svo er ég með Björn
Helgason sem tæknistjóra sem sér
um kameruvinnslu, þjálfun mynda-
tökumannanna og hvernig við send-
um efnið út á stóra tjaldið,“ segir Gói
og bendir á að tæknilega væri hægt
að fara í beina útsendingu frá Stóra
sviðinu hvenær sem er.
Þetta er svakalegt hlutverk
Talandi um áhöfnina, þá var skipt
um lykilmann í brúnni í miðju ferli
þegar Ingvar E. Sigurðsson þurfti að
segja sig frá hlutverki Howards
Beale og Pálmi Gestsson tók við kefl-
inu. Hvernig horfði það við þér sem
leikstjóra?
„Þetta gerðist í raun áður en æf-
ingaferlið fór af stað þó vissulega
værum við í listræna teyminu langt
komin í okkar vinnu. Ingvar er að
fylgja eftir gríðarlegum vinsældum
kvikmyndarinnar Hvítur, hvítur dag-
ur og sá fram á árekstra við leik-
húsvinnuna sökum þessa. Hann er
það mikill fagmaður að hann vildi
ekki gera okkur það og steig til hlið-
ar strax,“ segir Gói og tekur fram að
hann gleðjist yfir velgengni Ingvars.
„Í mínum huga kom enginn annar
til greina í hlutverkið en Pálmi
Gestsson, þar sem hann hefur þá
stærð, orku og nærveru sem hlut-
verkið krefst,“ segir Gói og bendir á
að hlutverk Howards Beale sé ein-
staklega krefjandi. „Þetta er svaka-
legt hlutverk. Fyrir leikara að fá
svona hlutverk er eins og að fá einn
af stóru körlunum í Shakespeare.
Þetta er mikill texti, það eru miklar
tilfinningar með tilheyrandi blæ-
brigðum. Þú þarft að hafa fullkomið
vald á tækninni þinni til að takast á
við þetta hlutverk. Og Pálmi er í
svakalegu formi enda búinn að leika
mjög mikið. Ég hlakka til að fá áhorf-
endur í salinn til að njóta listar hans
– sem og allra annarra í sýningunni,
því ég er með stórskotalið leikara.
Ég vakna á hverjum morgni og þarf
að klípa mig til að sannfærast um að
ég sé í raun að fá að upplifa draum-
inn minn um að starfa í leikhúsinu.“
Það hefur ekki farið mjög mikið
fyrir þér á leiksviðinu síðan Shake-
speare verður ástfanginn var frum-
sýnt í haust þar sem þú ferð á
kostum sem leikhússtjórinn
Henslowe. Ertu nokkuð hættur að
leika og sestur í stól leikstjórans ein-
vörðungu?
„Alls ekki. Ég ætla hins vegar að
sinna föðurhlutverkinu næstu mán-
uði, en sný aftur á svið í haust,“ segir
Gói, sem eignaðist dreng fyrir fjór-
um mánuðum sem er þriðja barn
hans. Aðspurður segist Gói aldrei
hafa litið á leikarastarfið sem
ófjölskylduvænt starf þótt það feli í
sér kvöld- og helgarvinnu. „Konan
mín er ljósmóðir og vinnur vakta-
vinnu, sem er ekkert frekar fjöl-
skylduvænt en leikarastarfið sam-
kvæmt skilgreiningu. En saman
lifum við mjög fjölskylduvænu lífi
því stundum erum við bæði í fríi
heilu dagana og stundum er hún að
vinna og ég í fríi og öfugt. Þannig að
þetta er fullkomið púsluspil. Öll störf
hafa bæði kosti og galla, en ég reyni
að lifa lífinu þannig að ég horfi frek-
ar á plúsana,“ segir Gói og bendir á
að Þjóðleikhúsið sé mjög fjölskyldu-
vænn vinnustaður. „Krökkunum
mínum finnst mjög gaman í leikhúsi
og mæta með mér í vinnuna á starfs-
dögum. Þeim er tekið opnum örmum
af samstarfsfólki og hafa setið heilu
og hálfu æfingarnar og hafa gaman
af,“ segir Gói, en eldri börnin hans
eru átta og ellefu ára.
Vill að mestur tími fari
í það sem er skemmtilegt
„Fyrir fimm árum var ég í viðtali
spurður hvort ég hefði áhuga á að
leikstýra og þá svaraði ég því neit-
andi. En í millitíðinni gerðist eitt-
hvað og áhuginn kviknaði án þess að
ég kunni skýringu á því. Mig fór að
langa til að segja sögu, ekki bara á
sviðinu heldur líka að búa til sögu
með öðrum. Mér finnst mjög gaman
að leikstýra. Eitt af því sem er svo
gaman við starfið í leikhúsinu er að
fá tækifæri til að gera alls konar sem
aftur viðheldur neistanum svo mað-
ur fær ekki svo auðveldlega leiða á
vinnunni. Það eru 35 ár síðan ég tók
þá ákvörðun aðeins fimm ára gamall
að ég vildi verða leikari og í dag nýt
ég þeirra forréttinda að fást við það
sem mig dreymdi alltaf um,“ segir
Gói og tekur fram að hann langi til
að leikstýra meira í framtíðinni með-
fram leikarastarfinu.
„Ég er með mikla leikreynslu og
hef unnið með mjög mörgum leik-
stjórum og veit sökum þess alveg
hvernig leikstjóri ég vil verða. Fyrir
mér snýst þetta umfram allt um að
ég vil skapa þægilegt og öruggt
starfsumhverfi. Ég vil að öllum líði
vel og það sé gaman á æfingum,
enda verður enginn þvingaður til
sköpunar. Ég er að eðlisfari mjög já-
kvæður og finnst mikilvægt að öllum
líði vel á æfingum. Mér finnst líka
mikilvægt að leikhópurinn finni að
hann hafi fullt traust og frelsi til að
skapa. Ég spyr sjálfan mig eftir
hverja einustu æfingu hvort ég hefði
sjálfur viljað vera leikari á umræddri
æfingu og líka hvort ég hefði getað
gert eitthvað betur og þannig reyni
ég sífellt að bæta mig,“ segir Gói og
jánkar því að hann sé mjög skipu-
lagður.
„Í samstarfi okkar listrænu
stjórnenda settum við strax upp
mjög skýrt plan og á fyrsta samlestri
kynnti ég æfingaplan sem náði alveg
fram að frumsýningu svo leikhópur-
inn vissi hvernig við ætluðum að
vinna þetta. Þetta hefur mér oft
fundist vanta þegar ég er að leika
hjá öðrum, því oftast fær maður bara
æfingaplan sem nær viku fram í
tímann. Ég held að góð skipulagning
hafi skilað okkur á þann stað að við
vorum löngu farin að renna verkinu
tveimur vikum fyrir frumsýningu, þó
að við verðum auðvitað í fínstillingu
alveg fram að frumsýningu. Ég
reyni alltaf að vera vakandi fyrir því
hvað gagnast best til að nýta tímann
sem best þannig að sem mestur tími
fari í það sem er skemmtilegt – sem
er að búa til og skapa.“
Ljósmynd/Hörður Sveinsson
Reiður Pálmi Gestsson leikur Howard Beale, sem er ósáttur við að vera sagt upp eftir 25 ár sem fréttaþulur.
Erum búin að brjóta öll mörk
Þjóðleikhúsið frumsýnir Útsendingu í leikstjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar Frásagnarmáti
verksins heillaði leikstjórann umsvifalaust Verk sem spyr erfiðra spurninga um vald fjölmiðla
Guðjón Davíð
Karlsson
66 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 20. FEBRÚAR 2020
veita náttúrulega vörn
gegn bakteríum í munninum
Tvíþætt sink
og arginín
Dregur úr
tannskán
Styrkir
glerunginn
Dregur úr
tannskemmdum
Frískari
andardráttur
Dregur úr
blettamyndun
Dregur úr
viðkvæmni
Dregur úr
tannsteini
Fyrirbyggir
tannholdsbólgu
NÝTT
Veruleg fækkun baktería á
tönnum, tungu, kinnum og
gómi eftir samfellda notkun
í fjórar vikur.
BYLTING FYRIR
ALLANMUNNINN
Heildarvörn fyrir tennur, tungu, kinnar og tannhold
Frábær
vörn í
12
tíma