Morgunblaðið - 16.03.2020, Qupperneq 15

Morgunblaðið - 16.03.2020, Qupperneq 15
15 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 16. MARS 2020 Unnið úti Það eru ekki öll störf sem bjóða upp á vinnu með fjartengingu heiman frá. Vinnudagurinn hjá þessum verkamönnum líður áfram í köldu veðri eins og áður. Kristinn Magnússon Á þessum degi fyrir hundrað árum fæddist í Reykjavík Alfreð Elías- son, maðurinn á bak við Loftleiðaævintýrið (1944-1973). „Það er erfitt, ef ekki ómögulegt, að útskýra fyrir nýjum kynslóðum, hvers konar áhrif Loft- leiðaævintýrið hafði í ís- lensku þjóðlífi og ekki sízt á ungt fólk,“ skrifuðu ritstjórar Morgunblaðsins í Reykjavíkurbréfi við andlát Alfreðs Elíassonar árið 1988: „Uppgangur félagsins hófst nokkrum árum eftir lýðveldisstofnun og blómaskeið þess stóð í tvo áratugi. Þjóðin var stolt af Loftleiðum, baráttu félagsins við risafyrirtækin í fluginu, frumkvæði þess í að lækka flugfar- gjöld yfir Atlantshafið og þeirri dirfsku, sem einkenndi allan rekstur þess félags.“ Alfreð Elíasson fæddist í Reykjavík 16. mars 1920. Foreldrar hans voru hjónin Áslaug Kristinsdóttir hár- greiðslukona í Reykjavík og Elías Dagfinnsson bryti. Strax á unga aldri fann Alfreð at- hafnaþörf sinni stað. Hann bar út blöð, hjólaði með fisk í hús fyrir Stein- grím í Fiskhöllinni, hélt rollur í garð- inum heima hjá sér, varð umsvifamik- ill dúfna- og kanínubóndi, og síðan frímerkjakaupmaður. Hann lærði hnefaleika og varð Íslandsmeistari í fluguvigt, en hætti þeim slagsmálum þegar hann lauk prófi úr Verslunar- skóla Íslands og tók að gera út leigu- bíla. Um það lauk átti hann þrjá leigu- bíla, ók einum sjálfur, en réð menn upp á prósentur til að aka hinum tveimur. Með dugnaði og sparsemi var hann orðinn efnamaður aðeins tví- tugur að árum. En vinnan og afrakst- ur hennar var honum ekki nóg; hann þurfti að svala ævintýraþrá sinni. Í miðri heimsstyrjöldinni síðari braust Alfreð til Vesturheims, 22 ára gamall, og lærði flug í skóla Konráðs Jóhannessonar í Winnipeg. Að loknu flugmannsprófinu gekk hann í kan- adíska flugherinn og aflaði sér nauð- synlegrar reynslu með því að þjálfa sprengjuvarpara sem voru á leið í stríðið. Alfreð var handhafi flug- skírteinis númer átta og einn af stofn- endum Félags íslenskra atvinnuflug- manna. Hann fékk fyrstur Íslendinga rétt- indi til þess að stjórna fjögurra hreyfla milli- landaflugvél og flaug heim fyrstu þremur Skymaster-vélum Loft- leiða, Heklu, Geysi og Heklu II. Rólyndi Al- freðs, og hin mikla ná- kvæmni hans, gerði hann að mjög traustum og farsælum flugmanni; öryggi hans var annálað. Hann var yfirflugstjóri Loftleiða og flugrekstrarstjóri fyrstu tíu árin í sögu fyrirtækisins. Alfreð stofnaði Loftleiðir ásamt tveimur félögum sínum, Kristni Olsen og Sigurði Ólafssyni, 10. mars lýðveld- isárið 1944. Þeir höfðu verið saman við flugnám í Kanada og keypt með að- stoð vina og vandamanna litla Stin- son-flugvél til að treysta atvinnuhorf- urnar þegar heim kæmi. Velgengni Loftleiða var ekki skjót- fengin: fyrstu tíu árin í Loftleiðasögu voru á brattann en mjög viðburðarík. Ævintýraljómi lék um flugið í þá daga og Loftleiðamenn unnu hug og hjörtu samlanda sinna með ýmsum athöfn- um sínum. Má þar t.d. nefna upphaf áætlunarflugs til Ísafjarðar og Vest- mannaeyja, síldarleitina frá Mikla- vatni, komu fyrstu íslensku milli- landaflugvélarinnar (Heklu), upphaf áætlunarflugs til margra Evrópu- borga, leiguflug til framandi landa og uppgröft og björgun flugvélar af Vatnajökli (Jökulsævintýrið). Árið 1953 varð Alfreð forstjóri Loft- leiða. Í kjölfarið hóf félagið farsælt samstarf við norska flugfélagið Braat- hen sem gerði Loftleiðum kleift að byggja upp áætlunarflug milli Banda- ríkjanna og Evrópu. „Slower but lo- wer“ urðu einkunnarorð Loftleiða sem gátu boðið lægri fargjöld en önn- ur flugfélög, í hægfleygari flugvélum með viðdvöl á Íslandi. Flugstarfsemi í Evrópulöndum var þá nær eingöngu á vegum flugfélaga í ríkiseigu. Þau þoldu illa lágfargjaldastefnu Loftleiða og beittu miklum þrýstingi til að úti- loka Loftleiðir frá helstu við- komustöðum. Af því hlaust svonefnd Loftleiðadeila sem árum saman var eitt helsta verkefni íslensku utanríkis- þjónustunnar. Loftleiðir fundu griða- stað í Lúxemborg, en loftferðasamn- ingar Íslands við Lúxemborg og Bandaríkin byggðust á svokölluðum Chicago-sáttmála sem var mun frjáls- lyndari en sá samningur sem ríkisein- okunarflugfélögin í Evrópu þvinguðu fram (Bermuda-sáttmálinn). „Slower but lower“-herferð Loft- leiða sló í gegn og þegar best lét var félagið með 3,8% hlutdeild í farþega- flugi yfir Atlantshaf. „Stopover“- tilboð Loftleiða lagði gundvöll að ís- lenskri ferðaþjónustu með því að bjóða flugfarþegum að dvelja 1-3 daga á Íslandi á ferðalagi sínu yfir Atlants- hafið. Í kjölfar gríðaröflugs auglýs- inga- og landkynningarstarfs Loft- leiða stórfjölgaði ferðamönnum á Íslandi. Þegar Loftleiðir héldu upp á 25 ára afmæli sitt 1969 var fyrirtækið orðið að stórveldi á íslenskan mælikvarða. Félagið átti dótturfyrirtæki í New York og Lúxemborg, starfrækti sjálf- stætt alþjóðlegt flugfélag á Bahama- eyjum, átti 30% í þriðja stærsta vöru- flutningaflugfélagi heims (Cargolux), fimmtung í glæsihóteli í Lúxemborg; – og hér heima átti félagið og rak Hót- el Loftleiðir, Bílaleigu Loftleiða (með 200 bílum) og sá um alla flugafgreiðslu fyrir íslenska ríkið á Keflavík- urflugvelli. Félagið hafði eigin skrif- stofur í 29 borgum út um allan heim og auk þess fjölda söluskrifstofa. Starfsmenn Loftleiða voru nálægt 1.300 (1.500-1.600 um háannatímann yfir sumarið) og um helmingur þeirra vann á vegum félagsins í útlöndum. Höfuðstöðvar félagsins voru í nýrri þriggja hæða skrifstofubyggingu á Reykjavíkurflugvelli. Fyrirtækið afl- aði þrefalt meiri tekna en allur tog- arafloti landsmanna og skilaði gríðar- legum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. Það er því ekki að undra að Loftleiðir hafi iðulega verið kallað „stærsta æv- intýrið á Íslandi“ eða „óskabarn lýð- veldisins“. Forystumaðurinn í þessu mikla ævintýri var hár vexti, þrekinn um brjóst og herðar, handleggjalangur og hendurnar hrammar miklir. Hann var karlmenni en ákaflega rólegur og fór orð af gæflyndi hans. Hann hafði sig lítt í frammi á opinberum vettvangi og veitti sjaldan blaðaviðtöl. Hann var mikill útivistarmaður og fór oft í veiði- ferðir á sjó og landi. Eiginkona Alfreðs var Kristjana Milla Thorsteinsson (1926-2012), dótt- ir Sigríðar Hafstein og Geirs Thor- steinsson. Þau eignuðust sjö börn. Í ágúst 1971 veiktist Alfreð skyndi- lega í skrifstofu sinni. Á sjúkrahúsi kom í ljós að hann var með æxli við heilann. Æxlið var numið brott og með sleitulausum æfingum fékk Al- freð aftur mátt í útlimi sína og mætti á ný til vinnu í janúar 1972. Strax fyrsta daginn varð hann að hverfa af stjórn- arfundi vegna þreytu og áfalls. Hann var sjúkur maður, aðeins 51 árs gam- all. Samstarfsmenn hans sögðu að hann hefði ekki verið hálfur maður eftir uppskurðinn. Ævintýrið um Loftleiðir var úti við veikindi Alfreðs. Þá kom berlega í ljós hver hafði verið burðarstólpinn í fyrir- tækinu. Í Alfreðs sögu og Loftleiða er ævintýrið geymt á bók – en líka sögð hin hörmulega sameiningarsaga ís- lensku flugfélaganna. Eftir að Alfreð veiktist settist Milla eiginkona hans á skólabekk, lauk stúdentsprófi og síðan prófi í við- skiptafræðum frá Háskóla Íslands. Auk þess að annast mann sinn sjúkan hélt hún uppi öflugri málsvörn fyrir Loftleiðir í því annarlega andrúmslofti sem ríkti í höfuðstöðvum hins samein- aða flugfélags. Alfreð bar þungbær veikindi af æðruleysi og heimspekilegri ró. Síð- asta árið dvaldi hann á Hrafnistu í Hafnarfirði og þar andaðist hann 12. apríl 1988, 68 ára gamall. Eftir Jakob F. Ásgeirsson » „… þegar best lét var félagið með 3,8% hlutdeild í farþegaflugi yfir Atlantshaf. „Stop- over“-tilboð Loftleiða lagði gundvöll að ís- lenskri ferðaþjónustu með því að bjóða flug- farþegum að dvelja 1-3 daga á Íslandi á ferðalagi sínu yfir Atlantshafið. Jakob F. Ásgeirsson Höfundur er rithöfundur og bókaútgefandi. Aldarafmæli Alfreðs Elíassonar 1920 – 16. mars – 2020 Athafnamaður Alfreð Elíasson, frumkvöðullinn á bak við Loftleiðir.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.