Fréttablaðið - 02.09.2020, Blaðsíða 9

Fréttablaðið - 02.09.2020, Blaðsíða 9
Ferðaþjónustan er merkileg atvinnugrein og gjöful en við viljum hvorki né getum lifað af henni einni saman. Opið bréf til Harðar Ægissonar, sem svar við leiðara hans þann 28. ágúst 2020. Ágæti Hörður, á mánudaginn 18.  ágúst setti ríkisstjórnin þær reglur að allir sem kæmu til Íslands yrðu að undirgangast skimun eftir SARS-CoV-2 veirunni á landa- mærum, fara í fimm daga sóttkví og síðan aðra skimun. Þetta eru býsna þungar kvaðir og vega harkalega að rekstrargrundvelli ferðaþjónust- unnar, sem er ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins. Það er því ekki að undra þótt þessi ákvörð- un ríkisstjórnarinnar hafi sætt tölu- verðri gagnrýni þeirra sem eiga beinna, efnahagslegra hagsmuna að gæta. Það er ekkert rangt við það, menn verja gjarnan bæði sinn bita og sitt skammrif. Hvers vegna valdi ríkisstjórnin þessa af þeim þremur leiðum sem sóttvarnalæknir rakti í minnisblaði sínu til ráðherra? 1 Töluverð reynsla hafði fengist af því að skima á landamærum og þótt við næðum flestum sýktra þá náðum við ekki öllum. 2 Það var líka ljóst að þótt það tækist að takmarka útbreiðslu veirunnar frá flestum sem komust í gegn þá voru á því undantekningar. 3 Um hríð hafði verið sú regla að þeir sem höfðu búsetu á Íslandi urðu að fara í skimun við kom- una til landsins og viðhafa síðan smitgát í fimm daga og fara svo aftur í skimun. Þegar búið var að skima 8.000 manns sem höfðu viðhaft smitgát fundust tveir með mikið magn veiru og hefði hvor um sig getað byrjað nýja bylgju farsóttarinnar hérlendis. Smitgátin er illa skilgreind og að fenginni þessari reynslu var eðlilegast að krefjast sóttkvíar í hennar stað. 4 Andstætt því sem þú gefur í skyn, Hörður, þá var fjöldi þeirra sem greindust á landa- mærum ekki að minnka heldur að aukast mikið um það leyti sem núverandi landamærareglu var komið á. Það var við því að búast vegna þess að fjöldi nýgreindra tilfella var að aukast í heimalöndum þeirra sem helst ferðast til Íslands. 5 Það er engin ástæða til þess að ætla annað en að fjöldi þeirra sem sleppa sýktir fram hjá skimun á landamærum sé í réttu hlutfalli við þá sem þar greinast. 6 Reynslan af núverandi tilhögun er sú að af 4.500 sem höfðu lokið seinni skimun voru þrír sýktir, sem er næstum þrisvar sinnum hærra hlutfall en fannst í fyrstu 8.000 sem fóru í seinni skimun íbúa. 7 Sú reynsla sem er lýst í atrið- unum sex hér að ofan bendir sterklega til þess að án þess að viðhafa skimun–sóttkví–skim- un yrðum við að reikna með því að fá yfir okkur hverja bylgjuna á fætur annarri. Með atriði númer sjö lýkur lýs- ingu staðreynda sem falla innan ramma þess sem ég kalla stað- bundna reynslu og hefst nú sá kapí- tuli þessa bréfs sem er sambland staðreynda og skoðana. Ég er sam- mála þér, Hörður, að við stöndum frammi fyrir mjög alvarlegri efna- hagskreppu en ég er ósammála því að hún eigi rætur sínar í sótt- varnaaðgerðum á landamærum. Hún á rætur sínar í veirunni illvígu sem hefur vegið að alls konar um allan heim og meðal annars efna- hagslífi. Ég er alls ekki viss um að íslenskt efnahagslíf sé að fara verr út úr veirunni en efnahagslíf landa sem hafa tekist á við hana af miklu meira kæruleysi en við. Ég er heldur ekki viss um að íslensku efnahagslífi farnaðist betur með míglek landa- mæri, fjölda manns í sóttkví og slík- ar fjöldatakmarkanir að það væri erfitt að reka verslanir, frystihús, skóla, leikhús og tónleikasali. Ferða- þjónustan er merkileg atvinnugrein og gjöful en við viljum hvorki né getum lifað af henni einni saman. Hörður, það er ekki skynsamlegt að gera ráð fyrir því að faraldurinn sé í mikilli rénun á sama tíma og nýjum tilfellum er að fjölga í mörgum lönd- um Evrópu, heildarfjöldi nýrra til- fella í heiminum sólarhringinn áður en þú birtir ritstjórnargreinina var 241 þúsund og í Bandaríkjunum einum saman 44 þúsund. Og hún heldur áfram að meiða og deyða þessi veira. Hún er líka búin að sýna okkur að þótt hún virðist vera að hverfa er fullt eins líklegt að hún sé bara að hvíla sig fyrir næstu árás. SARS-CoV-2 veiran er ólíkindatól. Hún er bara búin að vera í mann- heimum í átta mánuði og við vitum lítið um hana en erum að læra hratt. Eitt af því sem við höfum lært er að það er mikilvægt að vera stöðugt að afla gagna um veiruna í okkar sam- félagi og láta gögnin hverju sinni hjálpa okkur að ákveða hvað gera skal, í stað fyrir fram ákveðinna hugmynda um hvernig ástandið ætti að vera. Þess vegna var það í sjálfu sér ósköp eðlilegt að Sig- mundur Davíð kvartaði undan því í fyrirspurnatíma um daginn að það vantaði hjá ríkisstjórninni áætlun um hvað skyldi gera næst, vegna þess að það var engin áætlun til, meitluð í stein, önnur en að láta gögnin tala og bregðast við þeim á hverjum tíma fyrir sig eins skyn- samlega og hægt væri. Þannig á það að vera en það þarf ekki bara þekk- ingu og vit heldur líka kjark til þess að skilja það. Að lokum er þér svo sannarlega fyrirgefið fyrir að langa til þess að enda greinina þína á eftirminni- legan hátt. Ég fell fyrir þessari freistingu næstum því alltaf þegar ég drep niður penna svo ég skil hana vel. En þetta er alltaf vandmeðfarið vegna þess að ef of langt er seilst er hætta á því að hvellurinn eftir- sóknarverði breytist í hjáróma væl. Lokasetningin í greininni þinni er eitt slíkt í mjög háum tóni. Þú gefur sterklega í skyn að ríkisstjórnin hafi komið á núverandi fyrirkomu- lagi við landamærin af því að ég hafi hótað henni. Hverju átti ég að hóta henni? Að Íslensk erfðagreining myndi hætta að skima? Við vorum hætt að skima og ákvörðunin hafði ekkert með skimunargetu að gera heldur þá staðreynd að ein skimun nægir ekki. Eða var það kannski að ég myndi hætta að gagnrýna ríkis- stjórnina og fara að styðja hana? Það er nefnilega almannarómur að það sé ekkert til verra fyrir góðan málstað en ég fari að styðja hann. Það er öllum ljóst að í þessari stað- hæfingu þinni ferðu ekki bara yfir línuna heldur hagar þér eins og línan sé ekki til. Þú endaðir ekki úti í mýri sem er sá göfugi partur af landslaginu sem verður gjarnan áfangastaður þeirra sem fara yfir línuna heldur lentirðu í ekkert-að- marka landinu þar sem vex lítið annað en ósannindi innan um rembing og þvælu. Varið land Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfða greiningar Samkeppnishæfni fyrirtækja og einstaklinga í atvinnulífinu byggist að verulegu leyti á því hversu mikil aðlögunarfærnin er og hversu vel þeim gengur að til- einka sér þær breytingar sem eiga sér stað í samfélaginu, hvort sem er vegna tækni eða breyttrar sýnar almennings, til dæmis á jafnréttis- og umhverfismál. Framfarir munu ekki eiga sér stað ef okkar áætlanir byggja alltaf á því sem liðið er. Við getum ekki haldið áfram að gera áætlanir okkar miðað við aðstæður sem voru uppi síðasta haust og jafnvel ekki miðað við aðstæður í síðustu viku. Sam- keppnishæfni einstaklinga, félaga- samtaka og fyrirtækja mun alltaf byggja á viðbrögðum okkar í þeim aðstæðum sem uppi eru á hverjum tíma. Það er undir hverju og einu okkar komið hvort við leitum leiða til að aðlaga okkur þessum nýju tímum eða hvort við ætlum að setja orkuna í að svekkja okkur yfir því sem ekki er lengur hægt að gera. Enn eitt starfsár Félags kvenna í atvinnulífinu er um það bil að hefjast. Starf FKA snýst að stóru leyti um að efla tengslanetið með ýmsum viðburðum og kynnast inn- byrðis til að koma á tengslum sem nýtast vel í atvinnulífinu. Sá veru- leiki að takmarkanir séu á nálægð í raunheimum þarf ekki endilega að skapa eintóm vandamál. Við getum líka leitað að tækifærunum í þeim aðstæðum sem nú eru uppi. Við fáum tækifæri til að læra nýjar aðferðir á ógnarhraða til að tryggja skilvirkni og framhald mikilvægra verkefna þó að við þurfum nú að „skjá“ hvert annað, í stað þess að sjá hvert annað augliti til auglitis. Þátttakendur í atvinnulífinu fá nú einstakt tækifæri til að tileinka sér nýjar leiðir með tilheyrandi lær- dómi, til að halda fundi, fara á hrað- stefnumót, sinna mentorhlutverki, halda ráðstefnur, halda námskeið og hittast yfir kaffibolla. Við getum valið að bíða þetta af okkur og vona að brátt verði heimurinn samur á ný, eða nota þetta tækifæri til að vaxa og læra á nýja tækni. „Tækniskuld“ er hugtak sem notað er til að meta hvort fyrirtæki hafi náð að fylgja þeirri þróun sem á sér stað í tækniumhverfinu. Fyrir- tæki sem missa af lestinni í þróun á kerfum og lausnum í fyrirtækja- rekstri, eiga það á hættu að verða skyndilega hálfgerðar risaeðlur í heimi tækninnar, því þau standa í tækniskuld við tímann sem rýkur áfram. Við FKA-konur viljum eiga innistæðu í „tæknibankanum“ á tímum framþróunar og finnum því sífellt nýjar leiðir til að tryggja að við höldum áfram að sinna hlutverki okkar í eflingu tengslanets og hvatn- ingu til kvenna í atvinnulífinu. Opnunarviðburður FKA þetta árið verður haldinn í raunheimum úti í guðsgrænni náttúrunni. Hann er auðvitað skipulagður innan ramma reglna almannavarna um sóttvarnir, þar sem hámarksfjöld- inn verður 100 konur og tveggja metra reglan verður tryggð með frumlegum hætti. Einnig verður þeim sem ekki komast á staðinn gefið tækifæri til að taka þátt með rafrænum hætti. Þannig opnum við tækifæri fyrir landsbyggðarkon- urnar í FKA, sem ekki hafa getað sótt opnunarviðburð fram að þessu nema með miklum tilkostnaði. Við sjáum tækifæri í COVID-19, til að auka jöfnuð og auðga framboð viðburða til lengri tíma. Við höfum snerpu spíttbátsins til að gera breyt- ingar sem auðvelda okkur að til- einka okkur nýjar leiðir og aðferðir. Tími olíuskipanna í viðskiptalífinu er liðinn. Spíttbátur eða olíuskip? Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) Auglýstar eru til umsóknar átta nýdoktorastöður til tveggja ára, fimm á sviði náttúruvísinda og þrjár á sviði hug- og félagsvísinda, við rannsóknarsetrið. Setrið var stofnað af Carlsbergsjóðinum í samvinnu við íslensk stjórnvöld í tilefni áttræðisafmælis Margrétar II. Danadrottningar og níræðisafmælis Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, síðastliðið vor. Rannsóknarsetrið er þverfaglegt og er því ætlað að auka skilning á samspili loftslagsbreytinga og vistkerfa hafsins og mikilvægi þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu. Nýdoktorar á sviði náttúruvísinda munu kanna samband loftslags- og vistkerfa gegnum söguna í hafi og á landi, með því að kortleggja tengsl loftslags og lífríkis hafsins á mannöldinni, og rannsaka loftslagstengdar breytingar á láði og legi. Nýdoktorar á sviði hug- og félagsvísinda munu kanna áhrif hafsins og loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag og menningu. Gert er ráð fyrir að styrkþegar dvelji bæði á Íslandi og í Danmörku. Umsóknum skal skilað í umsóknarkerfi Carlsbergsjóðsins. Nánari upplýsingar á vef Rannís: www.rannis.is/sjodir/rannsoknir/rocs. Rannsóknasetur Margrétar II. Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um haf, loftslag og samfélag Umsóknarfrestur er 1. október 2020 S K O Ð U N ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð 9M I Ð V I K U D A G U R 2 . S E P T E M B E R 2 0 2 0

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.