Fréttablaðið - 17.10.2020, Blaðsíða 22
Líkaminn besti læknirinn
Jóhanna hafði um árabil starfað í
fjölmiðlum en fór að einbeita sér
meira að aðalhugðarefninu, heilsu-
eflingu.
„Ég var hætt í Kastljósi og hafði
verið með heilsuþætti á sjónvarps-
stöðinni ÍNN þegar útgáfufélagið
Bjartur Veröld bað mig að skrifa bók
um mín hugðarefni, sem eru hvern-
ig við getum hjálpað líkamanum
að viðhalda heilbrigði. Hvernig við
getum leyft honum að vera þessi
besti læknir í heimi sem hann er.
Það er enginn betri læknir til, ef
hann bara fær aðstæður til þess.
Gallinn er að umhverfi okkar, lífs-
stíll og mataræði hefur breyst svo
gríðarlega á síðustu 100 árum að við
erum í auknum mæli að veikjast af
lífsstílssjúkdómum,“ segir Jóhanna
sem gaf nýverið út sína aðra bók,
Heilsubók Jóhönnu, þar sem aðal-
umf jöllunarefnið er manngerð
eiturefni í umhverfi okkar og áhrif
þeirra á okkur og lífríkið. Í fyrri
bókinni fjallaði hún um áhrif mat-
aræðis og lífsstíls á heilsuna.
Allt hluti af stórri mynd
„Þegar ég fór að skrifa bókina um
eiturefnin áttaði ég mig almenni-
lega á því að þetta er allt hluti af svo
stórri mynd. Ég gat ekki bara farið
að skrifa um eiturefnin í daglega
lífinu. Ég gat ekki bara skrifað um
eiturefnin heima hjá okkur þó svo
að þar verðum við mest fyrir þessum
efnum. Við verðum að horfa á heild-
ina, á loftslagsvána, plastmengunina
út um alla jörð og höf og loftmeng-
unina og hvernig manninum hefur
tekist, á örtíma í sögu mannsins, að
menga nánast hvern einasta skika
jarðarinnar með þessum efnum og
ógna jafnframt þannig vistkerfum
jarðarinnar sem eru undirstaða lífs
okkar hér á jörð.
Við verðum að átta okkur á því
að allt sem við gerum náttúrunni
gerum við okkur. Það þýðir ekki
að hugsa þetta þannig að við séum
aðskilin frá náttúrunni. Við erum
náttúran. Við erum hluti af öllu
þessu kerfi,“ segir Jóhanna ákveðin.
COVID veitir tækifæri
„Auðvitað hefur verið mikil vit-
undarvakning frá því ég byrjaði
að skrifa þessa bók fyrir sjö árum
síðan,“ segir Jóhanna, sem sótt hefur
sér upplýsingar í vísindarannsóknir
þó sjálf sé hún ekki vísindamaður á
þessu sviði og skrifi ekki sem slíkur.
„Ég hef alveg skoðun á þessu og
ég get alveg sagt að vísindin styðji
hana. Hún er sú að þessi leið sem við
erum að fara gengur engan veginn
og við verðum einhvers staðar að
staldra við. Rétt eins og ég segi í for-
mála bókarinnar, að eins ömurlegur
og COVID-faraldurinn er búinn að
vera, þá hefur hann líka gefið okkur
tækifæri til að staldra við. Náttúran
hefur notið góðs af því að við höfum
neyðst til að hægja á. Við þurfum
því að spyrja okkur hvort við viljum
halda áfram á sömu braut eða gera
hlutina öðruvísi. Það er erfitt að
fara upp úr hjólförum vanans, enda
erum við vön vissum lífsgæðum.
En ef fjöldinn stígur í sömu áttina
getur það haft gríðarleg áhrif. Það
hefur gríðarmargt breyst á síðustu
tíu árum og þá sérlega varðandi
mataræði.“
Þurfum við allar þessar vörur?
Jóhanna segir bókina vera eins
konar uppf lettirit eða handbók.
„Markmiðið er að hvetja lesandann
til að vera vakandi neytandi. Á
hverjum degi tökum við ákvarðanir
um það sem við kaupum og það er
mikilvægt að vera meðvitaður um
innihald og framleiðsluaðferðir.
Bara eitt lítið dæmi: Á fjölda heimila
er fullt af alls konar snyrti-, hrein-
lætis- og hreinsivörum í plastbrús-
um. Þurfum við allar þessar vörur?
Fjöldi þessara vara inniheldur
skaðleg og í besta falli varasöm efni,
til dæmis allar vörur sem innihalda
gerviilm innihalda þalöt, sem geta
verið hormónaraskandi. Gætum við
svo jafnvel fundið þær vörur sem við
þurfum í annars konar umbúðum
en plasti? Við getum til dæmis keypt
hársápustykki í stað hársápu í plast-
brúsa og notað venjuleg handsápu-
stykki við vaskinn í stað handsápu
í plastbrúsa.“
Jóhanna bendir jafnframt á að
umhverfisvottanir séu frábær tæki
fyrir neytendur til að finna vörur
án skaðlegra efna og fer yfir þær í
bókinni. „En grundvallaratriðið
er að draga úr neyslu því þannig
getum við dregið úr loftmengun,
plastmengun, eiturefnaframleiðslu
og hlýnun jarðar. Við þurfum að
spyrja okkur oftar: „Þarf ég þetta?“
segir Jóhanna, sem setti sér mark-
mið um að kaupa sér ekki ný föt og
það entist í heil þrjú ár.
Verðum að staldra við
„Hugleiðsla er mikilvægur þáttur
af þessu öllu, því við getum ekki
gert stórar breytingar nema staldra
aðeins við. Margt af þessu vitum
við, að við eigum að gera svona en
ekki hinsegin, en þetta fer oft inn
um annað eyrað og út um hitt. Mig
langar ekki að vera besservisser
sem predikar yfir fólki, mig langar
mikið frekar að fólk skoði þessi mál,
staldri við og tengi inn á við. Það
held ég að sé mikilvægast af öllu – að
finna sjálfan sig í öllu þessu stressi.“
Jóhanna viðurkennir að frá ungl-
ingsaldri hafi henni alltaf fundist
eitthvað vanta og verið í sífelldri leit
að svörum um tilgang lífsins, hver
við værum og hvort líf væri handan
við dauðann.
„Ég hef lengi velt því fyrir mér
hver tilgangur lífsins er og fór til að
mynda snemma að lesa jógabækur
og velta því fyrir mér hver ég væri –
hvort ég væri bara þessi líkami eða
eitthvað meira,“ útskýrir Jóhanna.
„Þegar ég var í Kastljósinu á árinu
2006 bauðst mér að taka viðtal við
hina indversku Dadi Janki, and-
legan leiðtoga og jóga, sem var um
nírætt þegar ég hitti hana. „Ég varð
djúpt snortin eftir fund okkar, eins
og maður verður þegar maður hittir
fólk sem sannarlega hefur stundað
andlega vinnu.“
Áhrif in voru það mik il að
nokkrum vikum eftir viðtalið voru
Jóhanna og Geir farin til Indlands á
jóganámskeið.
Jóga breytti lífi okkar
„Í framhaldi kynntumst við starf-
inu í Lótushúsi og hjónunum Þóri
og Sigrúnu sem það ráku, en eru nú
bæði fallin frá. Þau hjálpuðu ótrú-
lega mörgum að ná innri ró og lifa í
þessum heimi, sem getur verið stór
andleg áskorun.
Við fórum á mjög djúpt námskeið
á Indlandi í tíu daga og héldum svo
áfram í þeirri vinnu í Lótushúsi
og þetta raunverulega breytti lífi
okkar. Þetta hjálpaði okkur að tak-
ast á við þær áskoranir sem síðar
komu, með þessi tæki og tól til að
nota í öllum aðstæðum. Þetta var
eftir á að hyggja í raun aðstoðin
sem við sóttum okkur ómeðvitað.
Og þarna fann ég líka mín svör við
öllum þeim spurningum sem ég
hafði haft og gat hætt að leita.“
Erum eilífar verur
„Ég held að það sem við þurfum
helst á að halda sé að gefa sjálfum
okkur tíma og tengja inn á við – við
Veruna okkar eins og Gunnar Dal
kallaði hana, en ekki bara tengja
okkur við hlutverkin okkar, það
sem við gerum á hverjum degi og
allt þetta veraldlega í kringum
okkur, sem er ekki varanlegt og veit-
ir okkur tímabundna hamingju. Við
þurfum að finna þessa tengingu við
okkur sjálf sem er handan líkamans
og hlutverka okkar. Við sækjumst
öll eftir kærleika og friði. Það hefur
held ég enginn skrifað bókina um
hvernig við getum hatað meira eða
hvernig við getum búið til ófrið. Við
drögumst að kærleika og friði og ég
held að það sé kjarni okkar allra.“
Jóhanna segist nota hugleiðslu
flesta daga og hafa lagt sig fram um
að gera hana að vana þó misjafn-
lega hafi gengið. „Undanfarið hefur
gengið betur að gera þetta að hluta
af degi okkar. Það getur verið nóg
að setjast niður og setja fókusinn á
andardráttinn og svo líðanina. Það
má líka gera þetta með möntrum eða
jákvæðum hugsunum. Við erum öll
hluti af þessari sameiginlegu upp-
sprettu sem er á bak við alla sköpun
heimsins, það er þessi kærleikur og
þessi orka. Líkaminn deyr en við
lifum áfram, þannig sé ég þetta. Það
breytti öllu í mínu lífi að hugsa um
okkur sem eilífar verur sem aldrei
deyjum. Þannig erum við öll tengd
og við erum tengd öllu sem er.“
Barnahópurinn er stór og glæsilegur: Vilhjálmur, Sveinn, Anna, Ragnheiður
Katrín og Arnar Sveinn á góðri stundu við fljótið Saxelfi í Magdeburg.
Jóhanna og Geir kynntust á fertugsaldri og segist hún enn vera skotin í
honum, en það sé bæði vinna og ákvörðun að vera í nánu sambandi.
Geir og Jóhanna ásamt elstu börnum sínum, Önnu og Arnari Sveini, sem vill
svo skemmtilega til að eru jafnaldrar og voru saman á leikskóla.
Fjölskyldan
öll saman-
komin í
Weimar í
Þýskalandi.
Þó að elstu
börnin tvö
búi á Íslandi
er samgangur
mikill.
Á ÞEIM TÍMAPUNKTI ER
ÉG EKKI BARA AÐ ÁKVEÐA
AÐ FARA AÐ BÚA MEÐ GEIR
HELDUR LÍKA AÐ TAKA
HANA AÐ MÉR OG TENGJ-
AST HENNI SEM MÓÐIR.
1 7 . O K T Ó B E R 2 0 2 0 L A U G A R D A G U R22 H E L G I N ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð