Morgunblaðið - 03.07.2020, Blaðsíða 27
ÍÞRÓTTIR 27
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 3. JÚLÍ 2020
Þór Akureyri er með fullt hús stiga
á toppi Lengjudeildar karla í fót-
bolta eftir 2:0-útisigur á Þrótti
Reykjavík á Eimskipsvellinum í gær-
kvöld. Spánverjinn Álvaro Montejo
kom Þór yfir á 13. mínútu með öðru
marki sínu í sumar og félagi hans í
framlínunni, Jóhann Helgi Hann-
esson, skoraði annað mark sitt í
sumar er hann bætti við öðru marki
á 39. mínútu. Þór hefur unnið alla
þrjá leiki sína til þessa en Þróttur
tapað öllum þremur leikjum sínum
og stefnir í fallbaráttu annað sum-
arið í röð.
Fullkomin byrjun
Þórsara
Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Mark Jóhann Helgi Hannesson skorar annað mark Þórsara í gær.
Real Madrid tók stórt skref í áttina að
Spánarmeistaratitlinum með 1:0-
heimasigri á Getafe í spænsku 1. deild-
inni í fótbolta í gærkvöld. Fyrirliðinn
Sergio Ramos skoraði sigurmarkið úr
vítaspyrnu á 79. mínútu. Real hefur
spilað mun betur en erkifjendurnir í
Barcelona síðan deildin fór af stað á ný
eftir frí vegna kórónuveirunnar og er
liðið nú með 74 stig, fjórum stigum
meira en Börsungar, þegar fimm um-
ferðir eru eftir. Hefur Real unnið alla
sex leiki sína eftir hlé á meðan Barce-
lona hefur unnið þrjá og gert þrjú jafn-
tefli.
Real tók stór skref
í áttina að titlinum
MEIÐSLI
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
„Ég stefni að því að geta byrjað að
spila á ný í byrjun næsta tímabils,“
segir Hallgrímur Jónasson, knatt-
spyrnumaðurinn reyndi úr KA, sem
er fótbrotinn, með slitið krossband og
skaddað liðband í hné eftir að hafa
slasast illa í bikarleik liðsins við
Leikni úr Reykjavík á dögunum.
Frá fyrstu stundu blasti við að
krossbandið væri slitið en það hefur
nú verið endanlega staðfest, auk þess
að fréttirnar af fótbrotinu fékk Hall-
grímur fyrir þremur dögum. „Ég fór
í röntgen og sneiðmyndatökur og þá
kom í ljós að sköflungurinn er brot-
inn, alveg upp við hnéð, þar sem ég
fékk höggið á mig. Ég var í aðgerð í
gær þar sem stór hluti liðþófans í
hnénu var fjarlægður en nú tekur við
bið og langt bataferli. Ég get ekki
farið í krossbandsaðgerðina fyrr en í
ágúst því fyrst þarf ég að jafna mig
eftir brotið, ná aftur réttunni á hnéð
og styrkja mig aðeins, annars gæti ég
lent í vandræðum í endurhæfing-
unni,“ sagði Hallgrímur við Morgun-
blaðið í gær.
Í sófanum hjá Baldri
og í aðgerð hjá Gauta
Hann var þá staddur í Reykjavík,
heima hjá Baldri Sigurðssyni, sínum
gamla félaga frá Húsavíkurárunum
sem nú leikur með FH.
„Já, ég ligg hérna í sófanum hjá
Baldri og er að hvíla mig eftir aðgerð-
ina í gær. Svo sér annar fótboltamað-
ur, Gauti Laxdal, um mig, hann gerði
aðgerðina í gær og lagar krossbandið
í ágúst. Við Gauti þekkjumst vel því
hann vann með landsliðinu á þeim sjö
árum sem ég var þar,“ sagði Hall-
grímur en Gauti lék líka með KA á
sínum tíma og var í eina Íslands-
meistaraliði félagsins árið 1989.
Þetta eru fyrstu alvarlegu meiðslin
sem Hallgrímur þarf að glíma við á
löngum ferli í fótboltanum en hann
var byrjaður að spila sextán ára gam-
all með meistaraflokki Völsungs árið
2002.
Hef verið mjög heppinn
„Ég hef verið mjög heppinn og
aldrei áður þurft að fara í neina að-
gerð á hnjám. Þau hafa verið mjög
stöðug allan minn feril. Eina teljandi
fjarveran hjá mér var þegar ég var
nýbyrjaður í atvinnumennskunni og
fór í fyrirbyggjandi aðgerð á mjöðm
en þá var ég frá keppni í einhverja
fimm til sex mánuði,“ sagði Hall-
grímur sem lék erlendis í níu ár með
GAIS í sænsku úrvalsdeildinni og
dönsku úrvalsdeildarliðunum
SønderjyskE, OB og Lyngby en
hann gekk til liðs við KA í árslok
2017. Hann er næstleikjahæsti Ís-
lendingurinn í dönsku úrvalsdeildinni
með 174 leiki.
„Það er skrýtið að upplifa þetta
þótt maður viti alltaf að svona lagað
getur gerst. Eins og Gunni [Gunnar
Þór Gunnarsson KR-ingur] sagði um
daginn, þá er gott að þetta gerðist
þegar ég var orðinn 34 ára en ekki
þegar ég var um tvítugt. En þetta er
afar svekkjandi, mér leið orðið mjög
vel, var búinn að ná mér af meiðslum
í kálfa og var með allt í standi.“
Veit að hann hefur verið í rusli
Atvikið í bikarleiknum gegn Leikni
þar sem Sólon Breki Leifsson sókn-
armaður Breiðholtsliðsins skall af
miklum þunga á Hallgrími og tæklaði
hann við hnéð rennur Húsvíkingnum
ekki úr minni í bráð.
„Nei, ég er líklega búinn að skoða
þetta þúsund sinnum og endalaust
hugsað um hvað ég hefði getað gert
öðruvísi. Strákurinn var peppaður, að
spila gegn úrvalsdeildarliði, og ætlaði
eflaust bara að láta finna vel fyrir sér.
Hann átti aldrei möguleika í boltann
en ég veit að þetta var ekki ásetn-
ingur og hann rann í lokin áður en
hann lenti á mér. Sólon sendi mér
skilaboð og sagði hve leitt sér þætti
þetta og ég veit að hann hefur verið
alveg í rusli yfir þessu. Ég sagði hon-
um að ég bæri engan kala til hans,“
sagði Hallgrímur um atvikið, sem átti
sér stað eftir rúmlega 20 mínútna leik
á Akureyrarvelli.
Hann er staðráðinn í að láta
meiðslin ekki binda endi á ferilinn og
stefnir á eins stutta fjarveru frá fót-
boltanum og mögulegt er. „Planið er
að halda áfram og svo verður að
koma í ljós hve langan tíma það tekur
að komast aftur inn á völlinn. Í svona
meiðslum er talað um níu til tólf mán-
uði og mitt markmið er að vera til-
búinn aftur næsta vor þegar nýtt
tímabil fer af stað.“
Sinnir þjálfuninni áfram
Þegar Hallgrímur kom til KA fyrir
hálfu þriðja ári gerði hann samning
við félagið til fjögurra ára sem leik-
maður og þjálfari. „Já, ég er með af-
rekshóp KA, er í þjálfarateymi 4.
flokks karla og er síðan aðstoð-
arþjálfari meistaraflokks. Ég sinni
þessum verkefnum áfram um leið og
ég kemst eitthvað af stað. Það verða
væntanlega bara fundir og skipulags-
vinna til að byrja með en ég fer með á
völlinn um leið og ég get.“
KA-liðið hefur orðið fyrir ýmsum
skakkaföllum á tímabilinu, allt frá því
framherjinn Elfar Árni Aðalsteins-
son slasaðist á hné í janúar og verður
ekkert með. Orðrómur hefur verið
um að enski miðvörðurinn Callum
Williams sem lagði skóna á hilluna
eftir síðasta tímabil og starfar nú hjá
Leeds United á Englandi myndi
koma aftur til Akureyrar en Hall-
grímur segir að það sé ekki inni í
myndinni.
Leyst með tilfærslum
„Nei, en það er verið að skoða
þessi mál. Við fengum alla vega eng-
an áður en þessi félagaskiptagluggi
var lokaður. Við ætluðum að spila
með þrjá miðverði og nú hefur þeim
fækkað um einn og hinir eru ungir og
ekki með mikla reynslu. En við get-
um leyst þetta með tilfærslum, Rodri
[Rodrigo Gómez] hefur ekkert spilað
ennþá vegna meiðsla en hann lék
þessa stöðu hjá Óla Stefáni í Grinda-
vík og Ívar Örn Árnason getur líka
leyst hana.
Rodri hefur ekki spilað leik, ekki
heldur Jibril Abubakar sem tognaði í
læri rétt fyrir mót en við erum sem
betur fer komnir með Guðmund
Stein Hafsteinsson sem fellur vel inn
í liðið. Við vorum búnir að setja okkur
markmið um að gera betur en í fyrra
þegar við náðum fimmta sæti en í
ljósi aðstæðna verður það erfiðara
eftir þessi skakkaföll. Vonandi getum
við alla vega keyrt um miðja deildina
og megum alls ekki lenda í einhverri
botnbaráttu.“
Langar mikið í bikarinn
„Svo langar okkur mikið í bikarinn,
þar liggja möguleikarnir eins og sást
þegar Víkingar urðu bikarmeistarar í
fyrra og þegar mínir gömlu félagar í
SønderjyskE urðu bikarmeistarar í
Danmörku í gærkvöld. Það eru oft lið
sem eru um miðja deild eða neðar
sem vinna bikarinn og við KA-menn
stefnum ótrauðir á það í ár,“ sagði
Hallgrímur, sem lék með Völsungi,
Þór og Keflavík áður en hann fór í at-
vinnumennskuna á sínum tíma. Hann
hefur samtals spilað 333 deildaleiki á
ferlinum, heima og erlendis, og lék 16
A-landsleiki þar sem hann gerði þrjú
mörk, tvö þeirra gegn Cristiano Ron-
aldo og félögum í 5:3 ósigri Íslands í
Portúgal í undankeppni EM árið
2011.
Í sambandi við Gunnar
Hallgrímur er ekki einn um að eiga
langa endurhæfingu fyrir höndum.
Tveir aðrir af reyndustu leikmönnum
deildarinnar, Gunnar Þór Gunnars-
son úr KR og Helgi Valur Daníelsson
úr Fylki, hafa slasast illa síðustu
daga. Helgi, sem verður 39 ára í þess-
um mánuði, er fjórbrotinn á fæti og
Gunnar, sem er 35 ára, sleit kross-
band í bikarleik á sama tíma og Hall-
grímur. „Þetta var hrikalegt hjá
Helga, sem var í ótrúlega góðu
standi, og er í raun bara 35 ára því
hann tók sér þriggja ára hlé! Gunnar
er á svipuðum stað og ég, við erum í
sambandi og ætlum að fylgjast að í
endurhæfingunni,“ sagði Hallgrímur
Jónasson.
„Búinn að skoða þetta
atvik þúsund sinnum“
Hallgrímur fótbrotinn auk slitins krossbands Stefnir á að spila næsta vor
Ljósmynd/Baldur Sigurðsson
Brattur Hallgrímur Jónasson á Reykjavíkurflugvelli í gær en hann ætlar
sér að komast aftur inn á völlinn eins fljótt og mögulegt er.
Knattspyrnumaðurinn ungi Ísak
Bergmann Jóhannesson heillaði
marga með frammistöðu sinni er hann
var í byrjunarliði Norrköping í fyrsta
skipti í 4:2-sigri á Östersund síðastlið-
inn laugardag í sænsku úrvalsdeildinni.
Ísak þakkaði traustið og lagði upp tvö
mörk og var valinn í lið umferðarinnar.
„Hann hefur einstaka hæfileika og í
framtíðinni munum við líta á það sem
heiður að hafa fengið að fylgjast með
honum í Svíþjóð. Hann verður margra
milljarða virði eftir nokkur ár,“ skrifaði
Robert Laul um Ísak í Aftonbladet.
Hægri bakvörðurinn Achraf Hakimi
er orðinn leikmaður ítalska knatt-
spyrnufélagsins Inter Mílanó, en félag-
ið greiddi 40 milljónir evra fyrir leik-
manninn, sem kemur frá spænska
stórliðinu Real Madríd. Hakimi gerir
fimm ára samning við Inter.
Eyrún Guðmundsdóttir, fyrrverandi
leikmaður Stjörnunnar og Þórs/KA í
knattspyrnunni, er gengin til liðs við
Selfyssinga en hún hefur leikið í Sví-
þjóð um árabil, með Sunnanå, Öster-
sund og Skövde. Eyrún er 33 ára gömul
og lék með meistaraflokki Þórs/KA frá
2004 til 2006 en síðan með Stjörnunni
2007 og aftur frá 2011 til 2013. Hún
varð tvisvar Íslandsmeistari og einu
sinni bikarmeistari með Garðabæjar-
liðinu og á að baki 60 leiki í efstu deild
hér á landi.
Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum
verður haldið á Þórsvellinum á Akur-
eyri 25.-26. júlí en ekki á Kópavogsvelli
eins og til stóð. Í fréttatilkynningu frá
FRÍ í gær kom fram að ekki hefði verið
hægt að halda mótið í Kópavogi en UFA
á Akureyri hefði í annað sinn á nokkr-
um árum stigið fram við svona að-
stæður og boðist til að sjá um mótið.
Kolbeinn
Sigþórsson,
landsliðs-
maður í fót-
bolta, segir
mögulegt
að hann
hafi fengið
kórónuveir-
una í vor.
Kolbeinn var
lengi frá vegna
veikinda en hann
hefur enn ekki
fengið staðfest
hvers konar veik-
indi hann glímdi við.
„Ég var veikur í 1-2
mánuði og kannski var
það kórónuveiran, ég
er ekki viss,“ sagði Kol-
beinn við Aftonbladet í
Svíþjóð.
Eitt
ogannað
KNATTSPYRNA
Úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildin:
Origo-völlur: Valur – ÍA............................ 20
1. deild karla, Lengjudeildin:
Hásteinsvöllur: ÍBV – Víkingur Ó ........... 18
Nettóvöllur: Keflavík – Leiknir R ...... 19.15
Framvöllur: Fram – Afturelding ........ 19.15
Grenivíkurv.: Magni – Leiknir F ........ 19.15
2. deild karla:
Jáverksvöllur: Selfoss – Völsungur ......... 19
Vogaídýfuvöllur: Þróttur V. – Haukar 19.15
Hertz-völlur: ÍR – Dalvík/Reynir ....... 19.15
3. deild karla:
Sauðárkróksvöllur: Tindastóll – KFG..... 18
Þorlákshafnarvöllur: Ægir – Álftanes .... 20
KR-völlur: KV – Vængir Júpíters ........... 20
1. deild kvenna, Lengjudeildin:
Víkingsv.: Víkingur R. – Tindastóll .... 19.15
Í KVÖLD!