Morgunblaðið - 10.07.2020, Qupperneq 32
Sumardagskrá Jazzklúbbsins Múlans held-
ur áfram í kvöld, föstudaginn 10. júlí. Tón-
leikar með kvartett Þorgríms Jóns-
sonar hefjast kl. 20 í Flóa á jarð-
hæð Hörpu. Bassaleikarinn
Þorgrímur Jónsson leiðir nýjan
kvartett, en með honum leika
þeir Rögnvaldur Borgþórsson
gítarleikari, Magnús
Trygvason Elíassen
trommuleikari og
hinn fjölhæfi Tómas
Jónsson. Þeir munu
flytja nýja tónlist
eftir Þorgrím, sem
er útsett af þeim fé-
lögum sérstaklega
fyrir þetta tilefni.
Þeir útiloka þó ekki að
eldri tónsmíðar fái að
fljóta með.
Kvartett Þorgríms Jónssonar
á sumardagskrá Múlans
FÖSTUDAGUR 10. JÚLÍ 192. DAGUR ÁRSINS 2020
Sími: 569 1100
Ritstjórn: ritstjorn@mbl.is Auglýsingar: augl@mbl.is
Áskrift: askrift@mbl.is mbl.is: netfrett@mbl.is
Í lausasölu 697 kr.
Áskrift 7.530 kr. Helgaráskrift 4.700 kr.
PDF á mbl.is 6.677 kr. iPad-áskrift 6.677 kr.
Fylkismenn eru komnir í þriðja sæti úrvalsdeildar karla
í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, eftir sigur á KA,
4:1, á Würth-vellinum í Árbænum í gærkvöld. Fylkir er
þá með 9 stig eftir fimm leiki og hefur unnið þrjá leiki í
röð eftir tvö töp í byrjun móts. KA situr eftir með tvö
stig úr fjórum leikjum og er í næstneðsta sætinu. Að-
eins KA og Fjölnir eiga enn eftir að fagna sigri í sumar.
Fylkismönnum var ekki spáð góðu gengi í sumar og
áttu fáir von á að Árbæingar yrðu í þriðja sæti eftir
fimm leiki. »26
Fylkismenn upp í þriðja sæti Pepsi
Max-deildarinnar eftir stórsigur
ÍÞRÓTTIR MENNING
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Skemmtilegast er að vera í vagn-
inum þegar mest er að gera. Þó að
ég sé farin að minnka við mig vinnu
tek ég alltaf tarnir, þá sérstaklega
um helgar og á annatímum því það
höfðar til mín að vera í asanum og
hitta fólk,“ segir Ingunn Guðmunds-
dóttir, sem á og hefur rekið Pylsu-
vagninn á Selfossi í 36 ár. Þar í bæ
er þessi skyndibitastaður sem föst
stærð og nýtur vinsælda. Staðinn á
Ingunn með Þórdísi Sólmundsdóttur
dóttur sinni.
Hamborgarar með rauðkáli
Sjaldan kemur sú stund að ekki sé
fólk við afgreiðsluna eða bílar í röð
sem liggur að lúgunum. Á seðlinum í
Pylsuvagninum eru um 30 réttir; ein
með öllu er þar efst og selst eins og
enginn sé morgundagurinn. Einnig
má nefna fisk og franskar, pítur,
samlokur, kjúklingarétti og fleira.
Þá bjóðast hamborgarar af sjö
gerðum, svo sem með rauðkáli og
súrum gúrkum. „Þetta er sérstaðan;
Selfossborgarinn sem við köllum
svo. Norður á Akureyri tíðkast að
setja rauðkál á pylsurnar en hér ger-
um við enn betur,“ segir Ingunn,
sem með þáverandi eiginmanni sín-
um keypti Pylsuvagninn árið 1984 –
en reksturinn hófst fáum árum fyrr.
Þegar Ingunn tók við var starf-
semin í þriggja fermetra skúr og
mátti varla þrengra vera. Nokkrum
árum síðar voru húsakynnin meira
en tvöfölduð, í sjö fermetra. Árið
1995 var starfsemi Pylsuvagnsins,
sem nú er í 86 fermetra húsi, svo
flutt á núverandi stað sem er vestan
við Ölfusárbrú og á hægri hönd þeg-
ar yfir hana er ekið inn í bæinn.
Úr innheimtu í pylsur
Rekstur Pylsuvagnsins var lengi
aðeins aukageta hjá Ingunni, sem
lengi starfaði í Landsbankanum.
„Ég var síðast í því að skrifa út inn-
heimtubréf fyrir lögfræðinga. Ég
mæddist um síðir á því, kannski
skiljanlega, og sneri mér því alfarið
að pylsunum,“ segir Ingunn og hlær.
„Þessi rekstur byggist annars
mikið á því að hafa gott starfsfólk
sem mér hefur haldist vel á. Sumar
stelpurnar hafa unnið hér hjá mér í
áraraðir. Alls vinna hjá mér 38
manns; sumir eru bara virku dagana
en fleiri aðeins um helgar, því þá er
opið lengi. Aðfaranætur sunnudaga
er hér opið fram undir morgun og
oft er talsverður erill á nóttunni, til
dæmis þegar fólk er á heimleið eftir
skemmtanir. Þegar sveitaböllin voru
og hétu var oft líf í tuskunum hér
fyrir utan,“ segir Ingunn og að síð-
ustu:
Lít á lífið út um lúguna
„Já, og oft hef ég séð hér á planinu
síðla nætur þar sem strákur og
stelpa eru saman á spjalli og labba
síðan heim. Já, ég hef svo oft séð
fyrsta kossinn – og sama fólki
bregða fyrir með börnunum sínum
þegar fram líða stundir. Mannlífið
birtist nefnilega í svo mörgum
skemmtilegum myndum þegar litið
er út um lúguna á Pylsuvagninum.“
Ljósmynd/Guðmundur Karl
Pylsukonur Ingunn Guðmundsdóttir (t.h.) ásamt dóttur sinni og meðeiganda, Þórdísi Sólmundsdóttur.
Ingunn pylsusali í 36 ár
Selfossborgarinn vinsæll með rauðkáli og súrum gúrkum
Hamborgarinn Selfossútgáfan