Morgunblaðið - 27.07.2020, Side 28

Morgunblaðið - 27.07.2020, Side 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 27. JÚLÍ 2020 Eyjar í Dalasýslu Byggðar eyjar á Breiðafirði sem töldust til Dalasýslu koma ekki mikið við sögur þótt víða væri stundaður dágóður búskapur um lengri eða skemmri tíma eða þær nytjaðar frá bæjum uppi á landi. Þær sem búið hefur verið í svo öldum skipti eru tal- ið frá suðri til norðurs Purkey, Hrappsey, Klakkeyjar, Arney, Langeyjar, Rúfeyjar, Rauðseyjar, Ólafseyjar og Akureyjar. Þær hafa allar horfið úr byggð á seinustu hálfri öld en eigendur nýta enn ým- isleg hlunn- indi, dún, fugl, egg og sel, jafnvel beit. Suður af Dagverðar- nesi liggur Skáley sem stundum var búið í. Sumir vildu kenna hana við gripi Einars skálaglamms Helgasonar. Suður af henni er Purkey. Nafnið merkir Svíney (sbr. pork á ensku) og það er hún nefnd í Landnámu. Þar segir að Æsa Kjallaksdóttir hafi búið í Svíney og síðan Eyjólfur sonur hennar, og var hann einn þeirra sem hjálpuðu Eiríki rauða að komast brott úr Breiðafirði til Grænlands. Stundum voru fleiri en eitt býli í Purkey og heimilismenn meira en tveir tugir. Nafnkunnastur bóndi mundi vera Ólafur Sveinsson sem dó um áttrætt 1845. Hann var einn þeirra sem hvað einlægast trúði á til- veru huldufólks og skrifaði sérstakt Álfarit sem Jón Árnason studdist mikið við í þjóðsögum sínum. Það var prentað í lokabindi heildarútgáfu þjóðsagnanna 1961. Búið var í Purk- ey fram undir 1980. Þar var bænhús á miðöldum. Hrappsey liggur suðvestan við Purkey og er Selasund á milli. Nafn hennar sést skrifað með ýmsu öðru móti í skjölum, Rafnsey, Hrafnsey, Hrafsey, Hrapsey, en fyrst sést hennar getið í sögum daginn eftir víg Snorra Sturlusonar 1241, þegar Tumi Sighvatsson fer frá Sauðafelli inn í Hvamm og þaðan út í Hrapps- ey. Þar var bænhús á 14. öld. Þar voru ýmist eitt eða tvö býli og heim- ilisfólk einn til tveir tugir. Austast á eynni heitir Kapteinsvík milli kletta. Þar drukknaði árið 1728 Magnús Arason kapteinn sem unnið hafði að landmælingum í sjö ár á vegum dönsku stjórnarinnar. Eftir hann eru varðveittir 32 uppdrættir af vestur- hluta landsins frá Gullbringusýslu norður í Barðastrandarsýslu. Hrappsey er frægust fyrir þá sök að þar var árið 1773 stofnsett fyrsta prentsmiðja á Íslandi sem ekki laut forræði biskupa. Aðalhvatamaður var Ólafur Ólafsson (Olavius) en fjár- hagslegur bakhjarl var Bogi Bene- diktsson stórbóndi í Hrappsey og víðar. Bogi var sonarsonur Brokeyj- ar-Jóns Péturssonar sem fyrstur Breiðfirðinga auðgaðist á hreinsun æðardúns. Rekstur prentverksins kom þó að mestu í hlut Magnúsar Ketilssonar sýslumanns í Búðardal. Hólaprentverk hélt enn einkarétti til að prenta guðsorð, en af Hrappseyj- arprenti má nefna Annála Björns á Skarðsá, Lagasafn Magnúsar Ketils- sonar, fyrstu útgáfu Egils sögu, Atla síra Björns Halldórssonar í Sauð- lauksdal, Búnaðabálk Eggerts Ólafs- sonar og fyrstu þýdd ljóð eftir tengdason Boga, Jón Þorláksson síð- ar kenndan við Bægisá. Þar var gefið út fyrsta tímarit á Íslandi, reyndar á dönsku, IslandskeMaanedsTidend- er. Prentsmiðjan var seld Lands- uppfræðingarfélaginu 1795 og flutt að Leirárgörðum. Um miðja 19. öld bjó í Hrappsey Þorvaldur Sívertsen, konunglegur umboðsmaður Skógarstrandarjarða. Ragnheiður Skúladóttir kona hans var frá Skarði en hann átti samt í miklum útistöðum við suma Skarð- verja. Kristín dóttir þeirra giftist Jóni skáldi Thoroddsen og Katrín dóttir þeirra Jóni Árnasyni þjóð- sagnasafnara. Klakkeyjar eða Dímonarklakkar eru norður af Hrappsey og vestur af Purkey. Það eru hæstu eyjar á Breiðafirði, 72 og 54 metrar. Þær eru auk þess þekktar úr Eyrbyggju og Eiríks sögu rauða fyrir það að skipi Eiríks á að hafa verið leynt í Dím- onarvogi, sem einnig er nefndur Ei- ríksvogur, meðan hann beið færis að sigla til Grænlands. Í Jarðabók Árna og Páls segir að þar muni eitt sinn hafa verið búið en það hefur ekki verið að staðaldri. Norðaustan við klakkana er hin láglenda Bæjarey og fjarar á milli. Sunnan til á henni eru glöggar bæjartóttir og þar hefur ver- ið sumarbústaður á 20. öld. Vestur af Klakkeyjum er hin smáa Kiðey. Þar hefur stöku sinnum verið búið fá ár í senn. Vestar er Arney mun stærri og þar var búið nokkuð stöðugt fram yfir miðja 20. öld. Ekki kemur hún þó við fornsögur nema hið eina skipti sem getið var í tengslum við Langeyjar sumarið 1243, þegar Kolbeinn ungi ætlaði með her manns að Sturlu Þórðarsyni í Fagurey (bls. 86). Seint á 18. öld bjó í Arney fræðimaðurinn Ólafur Jóns- son. Sonarsonur hans hét Sveinn Guðmundsson og þótti góður verk- maður en kynlegur í háttum. Dróst hann inn í deilur höfðingja í grennd- inni sem bitust um Arney, einkum þeirra Þorvalds Sívertsens í Hrapps- ey og prestafeðganna Eggerts Jóns- sonar á Ballará og Friðriks Eggerz í Akureyjum sem Sveinn kallaði Ballarársteggi. Er til kátleg frásögn af þeim væringum. Þjóðsaga greinir frá því að huldukona fékk léðan hrút hjá Arneyjarbónda til að lemba ær sínar. Þegar hefur verið greint frá þeim fáu skiptum sem Langeyjar koma við sögur. Því má bæta við að munn- mæli herma að Spjóthólmar austan við suðurenda Fremri-Langeyjar séu kenndir við spjót Einars skálag- lamms sem á að hafa drukknað í Selasundi við Purkey. Bænhús var í eynni á 14. öld og sennilega fram til siðaskipta. Árið 1744 keypti Sig- urður Ormsson eyna. Niðjar hans bjuggu lengi í eynni og kallast Orm- sætt og hafa móbrún augu þótt vera kynfylgja þeirra og kallast „orms- augu“. Frá Efri-Langey var Jón Ólafsson annálaritari á 18. öld, sem meðal annars samdi Grímsstaða- annál, og þar bjó fram á miðja 20. öld Sigurður Sveinbjörnsson sem gaf út endurminningar sínar, Bjart er um Breiðafjörð. Talsvert langt norður af Lang- eyjum eru Djúpeyjar undan Skarðs- strönd. Þar virðist aldrei hafa verið búið nema í mesta lagi stutta stund í einu. Enn norðar eru tveir eyjaklas- ar, Rúfeyjar utar og Rauðseyjar inn- ar. Í báðum var búið fram undir miðja 20. öld. Rúfeyjar þóttu mun rýrari til grasnytja en fiskimið voru þar góð. Þó kemur á óvart að norð- vestast á Bæjareynni vex kúmen sem þar hefur einhverntíma verið sáð. Meiri sögum fer af huldufólki en mönnum í Rúfeyjum. Samt bjó þar um 1100 Þórður Rúfeyjaskáld áður en hann fluttist inn í Hvammsdal í Saurbæ í skjól Þorgils Oddasonar á Staðarhóli. Rauðseyjar þóttu langtum betri bújörð og grasgefnari. Auk þess var sérstök Beitarey fyrir nautgripi. Þar bjuggu oft gildir bændur þótt þeir væru leiguliðar Skarðverja. Á 19. öld voru þekktir feðgarnir Einar Ólafs- son ríki og Sturlaugur auðgi. Á 17. öld bjó í Rauðseyjum Jón Guð- mundsson sem þótti með betri al- þýðuskáldum um sína daga, orti bæði heimsádeilur og gamankvæði og gerði lítið úr galdrakukli. Sjálfur fékk hann orð fyrir að vera forn í skapi. Átti hann að hafa beðið um að verða grafinn í Andrahaus á Hóley nokkru norðar. Þegar kista hans var flutt að Skarði þótti hún furðu létt þegar lent var í Skarðsstöð. Töldu menn líklegt að Jón hefði gengið úr kistunni í Andrahaus. Norður af Rauðseyjum eru Ólafs- eyjar. Þar mun aldrei hafa verið föst búseta en eyjarnar því meir nýttar til beitar og heyskapar. Þær koma því við Grettis sögu þegar Þorgils bóndi á Reykjahólum sendir þá fóstbræður Þorgeir Hávarsson og Þormóð Kol- brúnarskáld ásamt Gretti að sækja uxa góðan fyrir jólin út í Ólafseyjar. Að vísu bjó þar frægur útlagi nokkur ár snemma á 17. öld, sjálfur Jón Guð- mundsson lærði sem hafði hrakist frá Vestfjörðum. Áðurnefnd Hóley er vestan við Bæjarey og þar á Andri fornmaður að vera heygður í hólnum Andrahaus. Hann mátti því aldrei slá. Akureyjar eru inni á Gilsfirði und- an Fagradal og Heinabergi. Það eru alls um þrjátíu eyjar og grashólmar og töldust einna auðveldastar til bú- skapar af öllum eyjum á Breiðafirði. Þær eru grösugar og gengt milli flestra, mikið um æðarvarp og önnur hlunnindi af fugli og sel. Eyjarnar eru oft nefndar í Sturlungu en ekki verður séð á því hvort þær voru byggðar. Þær virðast mikið hafa ver- ið nýttar til slægna og beitar frá stórbýlum á borð við Búðardal og Staðarhól. Í Jarðabók Árna og Páls um 1700 er að vísu búið þar en síðan ekki fyrr en niðjar Magnúsar sýslu- manns Ketilssonar í Búðardal gera þær að sjálfstæðu stórbýli um 1800. Umsvifamestur þeirra var dóttur- sonur Magnúsar, síra Friðrik Egg- erz, sem bjó þar 1851-1879. Hann stóð fyrir miklum framkvæmdum, lét meðal annars reisa nýtískulegt tvílyft íbúðarhús árið 1859 og hlaða mikla bátakví 1854-1861 sem hlaut nafnið Steingerður. Hann var fróð- leiks- og fjáraflamaður en átti í sífelldum erjum við ýmsa frændur sína meðal Skarðverja. Minningar hans, Úr fylgsnum fyrri aldar, eru með merkustu og hispurslausari þjóðlífslýsingum frá 19. öld. Um skeið var vinnukona hjá honum Júlí- ana Jónsdóttir, sem gaf út ljóðabók- ina Stúlka árið 1876, fyrstu ljóðabók eftir konu sem út kom á Íslandi. Pétur Eggerz bjó eftir föður sinn í Akureyjum til 1892 en síðan bjuggu þar ýmsir, seinast frá 1945 til 1954 Tómas Jónsson frá Elvogum í Skagafirði. Hann hafði áður verið dæmdur fyrir hrossaþjófnað. Skarðsstrendingar göspruðu um það að sauðaþjófurinn Magnús á Heina- bergi og hrossaþjófurinn Tómas í El- vogum hefðu kynnst í fangavist á Litla-Hrauni og Magnús bent Tóm- asi á Akureyjar sem vænlegan bú- stað langt frá heimaslóðum sínum. Tummi var óvanur æðarvarpi og amaðist við æðarkollum sem urpu í túninu hjá honum. Það þótti Skarðs- strendingum ekki mikil hagsýni. Á söguslóðum í Dalabyggðum Bókarkafli | Í bókinni Söguslóðir í Dölum skrifar Árni Björnsson menningarsagnfræðingur um heimahaga sína og vísar veg um Dalabyggðir með sögulegan fróðleik í hverju skrefi. Klakkeyjar Hæstu eyjar á Breiðafirði (70 m). Í langa voginum var skipi Eiríks rauða leynt áður en hann sigldi til Grænlands, eins og fram kemur í bók Árna Björnssonar, Söguslóðir í Dölum. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Höfundur Árni Björnsson.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.