Morgunblaðið - 30.07.2020, Side 49
MENNING 49
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 30. JÚLÍ 2020
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
©2019 Disney/Pixar
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI
S P LÚNKUNÝ OG STÓRSKEMMT I L EG
RÓMANT Í SK GAMANMYND.
KAT I E HOLMES JOSH LUCAS
Sýnd með
íslensku tali
HEIMSFRUMSÝNING!
Magnaður nýr spennuþriller með Russell Crowe in aðalhlutverki.
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Ein af mörgum forvitnilegum
heimildarmyndum sem frumsýndar
verða á Skjaldborgarhátíðinni er
Hálfur álfur eftir Jón Bjarka
Magnússon. Myndin er 64 mínútur
að lengd og segir af vitaverðinum
Trausta sem er 99 ára og tengist
sínum innri álfi á meðan hann und-
irbýr hundrað ára afmælið eða eig-
in jarðarför. Á sama tíma hörfar
Hulda, eiginkona hans, inn í heim
horfinna ljóða með aðstoð stækk-
unarglersins síns, eins og því er
lýst á vef Skjaldborgar og þegar
Trausti brestur í söng skipar hún
honum að hætta þessum öskrum.
Jón Bjarki tók myndina og
framleiddi með Hlín Ólafsdóttur
sem hann segir hafa verið sér
mikla stoð og styttu í gegnum allt
framleiðsluferlið en hún á líka
heiðurinn að frumsaminni harm-
onikkutónlist sem heyrist í mynd-
inni. Auk þess útsettu þeir Teitur
Magnússon og Sindri Freyr
Steinsson tvö lög fyrir myndina.
Vildi heita Álfur
Blaðamaður hitti Jón Bjarka á
sólríkum sumardegi og komst að
því að í myndinni er hann að fjalla
um ömmu sína og afa sem nú eru
látin. Hann er beðinn að útskýra
frekar af hverju hann valdi mynd-
inni þennan titil. „Inni í ferlinu
miðju finn ég þennan titil og eig-
inlega þetta þema. Ég lagði ekki
upp með að gera einhverja álfa-
mynd, per se. Ég er að fjalla
þarna um afa minn og ömmu, þau
Trausta Breiðfjörð Magnússon og
Huldu Jónsdóttur heitin. Þau voru
99 og 96 ára þegar myndatökur
hefjast og afi minn verður svolítið
uppteknari af álfum og líka því að
hann langar að breyta nafninu
sínu í Álfur,“ útskýrir Jón Bjarki
og segist hafa fengið á tilfinning-
una, eftir því sem á leið, að afi
hans væri mögulega hálfur álfur.
Jón Bjarki hlær innilega að þessu.
En hvers vegna hafði afi hans
þennan áhuga á álfum? Jón Bjarki
segir ömmu hans og afa bæði hafa
verið frá Ströndum og afi hans
hafi alist upp við þá trú að álfar
byggju þar. „Ég upplifði það að
þetta væri kannski einhver teng-
ing aftur til æskunnar og aftur í
þessa veröld og líka þetta, eins og
kemur fram í myndinni, að hann
dreymdi álf þegar hann var tíu ára
sem sagði við hann að hann myndi
ekki drukkna á sjó. Hann var því
verndaður og vildi sem sagt breyta
nafninu sínu. Þetta er svona gegn-
umgangandi þema í myndinni og
verður kannski líka eins konar
metafóra fyrir kveðjuna og ferða-
lagið yfir í handanheiminn,“ segir
Jón Bjarki.
Afmæli og jarðarför
Jón Bjarki segir afa sinn hafa
verið mjög upptekinn af því að
undirbúa jarðarför sína sem og
100 ára afmælið sem hann átti
sumarið 2018. Hann hafi verið bú-
inn að kaupa líkkistuna, eins og
sést í stiklu myndarinnar.
„Ömmu þótti þetta nú allt of
mikið, að þurfa að stýra öllu út
yfir gröf og dauða!“ segir Jón
Bjarki og hlær að minningunni. Afi
hans féll frá í mars í fyrra, á 101.
aldursári og amma hans lést í maí
á þessu ári. Afi hans náði því að
halda upp á 100 ára afmælið en
amma hans varð 99 ára.
Jón Bjarki segir að hann hafi
verið boðinn velkominn inn á
heimili ömmu sinnar og afa með
myndavélina og fengið að vera þar
fluga á vegg og fylgjast með hjón-
unum. Afi hans hafi verið til í
athyglina og beinlínis sóst eftir
henni öfugt við ömmu hans sem
var öllu hlédrægari. „Hennar ele-
ment verður svolítið ljóðlistin, hún
var að flytja ljóð og annað og hún
las alltaf mikið,“ segir Jón Bjarki.
Afi hans var vitavörður í Sauða-
nesvita við Siglufjörð og þar
bjuggu hjónin í 39 ár, til ársins
1998. Jón Bjarki er alinn upp á
Siglufirði og segir hann vitann og
sveitina hjá ömmu og afa hafa ver-
ið honum annað heimili. „Vitinn
spilar svolítið hlutverk í myndinni
líka og er svona gegnumgangandi
merki líka sem kemur inn og út,“
útskýrir hann.
Lokaverkefni í meistaranámi
Jón Bjarki segir myndina upp-
haflega hafa verið lokaverkefni í
meistaranámi í sjónrænni mann-
fræði við Frei Universität í Berlín
sem hann og lauk fyrir tveimur ár-
um. Hann hafi svo unnið myndina
áfram að loknu námi.
Jón Bjarki er spurður út í
aðferðina sem hann beitir í mynd-
inni og segist hann hafa lagt upp
með að vera fluga á vegg, sem fyrr
segir, og fylgjast með daglegu lífi
afa hans og ömmu. Hann hafi líka
tekið fjölda viðtala og bútar úr
þeim hafi síðar ratað með einum
eða öðrum hætti inn í myndina,
sem sé þó langt í frá klassísk við-
talsmynd. Þá kemur fyrir að kvik-
myndagerðarmaðurinn sjálfur birt-
ist áhorfendum sem barnabarnið á
bak við myndavélina eða á augna-
blikum þar sem þau tengsl opin-
beruðust náttúrulega og bættu
þannig einhverju við. Það samband
er þó engan veginn fókus mynd-
arinnar, að sögn leikstjórans.
Um Skjaldborgarhátíðina segir
Jón Bjarki að hún sé æðisleg og
virkilega gaman að sækja hana á
Patreksfirði. Bíóið sé líka fallegt
og kærkomið að geta frumsýnt í
kvikmyndahúsi nú á tímum kófsins
þegar flestar kvikmyndahátíðir
fara fram á netinu.
Frekari upplýsingar um Hálfan
álf má finna á skakbiofilm.com og
um Skjaldborgarhátíðina á skjald-
borg.is. Viðtalið við Jón Bjarka má
hlusta á í heild sinni í nýjasta
kvikmyndahlaðvarpi mbl.is, BÍÓ,
sem finna má á vefslóðinni
www.mbl.is/frettir/malefnibio_kvik-
myndahladvarp/.
Hvíld Trausti hvílir lúin bein með kött sér við hlið í heimildarmyndinni Hálfur álfur sem sýnd verður á Skjaldborg.
Ljósmynd/Sjöfn Ólafsdóttir
Leikstjóri Jón Bjarki Magnússon.
Myndlíking fyrir hinsta ferðalagið
Jón Bjarki Magnússon fjallar um afa sinn og ömmu í Hálfum álfi Fylgdist með afa sínum und-
irbúa hundrað ára afmæli og eigin jarðarför Afinn til í athyglina en amman öllu hlédrægari