Morgunblaðið - 06.08.2020, Síða 29
29
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 6. ÁGÚST 2020
Lokað Rafmagnslaust var á Akureyri og víðar á Norðurlandi í gær. Loka þurfti hinum vinsæla veitingastað Bautanum þar til rafmagn komst á að nýju um tveimur og hálfum tíma síðar.
Eggert
Fyrir nokkru birtist í
Stundinni grein eftir
Stefán Snævar prófess-
or í heimspeki. Í grein
sinni fjallar höfundur
um pistil sem Karl Th.
Birgisson ritstjóri
Herðubreiðar hafði birt
á sama stað í vor, þar
sem hann fjallaði um
nýútkomna bók mína
„Umbúðalaust – hug-
leiðingar í hálfa öld“.
Stefán Snævarr skrifar ekki mikið
um þessa nýútkomnu bók. Skrif hans
eru að mestu tileinkuð annarri bók
eftir mig sem kom fyrst út á árinu
1987 hjá Almenna bókafélaginu og
bar heitið „Deilt á dómarana“. Þar
hafði ég fjallað á gagnrýnan hátt um
nokkra dóma Hæstaréttar Íslands
sem höfðu varðað vernd mannrétt-
inda í landinu.
Stefán er ekki lögfræðingur, en
hann er sonur fyrrverandi hæsta-
réttardómarans Ármanns Snævars
sem nú er látinn. Ármann var ágæt-
ur lögfræðingur og gegndi um nær
aldarfjórðungs skeið stöðu prófess-
ors við lagadeild Háskóla Íslands.
Hann var dómari við Hæstarétt á ár-
unum 1972 til 1984. Víst má því telja
að Stefán hafi í uppvextinum kynnst
lögfræðinni svolítið í gegnum föður
sinn og störf hans. Kannski má sjá í
viðhorfum Stefáns birtast áhrif frá
lagaviðhorfum sem ef til vill voru
ríkjandi á Íslandi fyrir nokkrum ára-
tugum. Þau leiddu stundum til úr-
lausna sem fremur verða rakin til
geðþótta dómenda en beitingar rétt-
arheimilda. Þessi viðhorf eru afar
áhrifamikil enn þann dag í dag, þó að
vonandi hafi dregið úr áhrifamætti
þeirra.
Ekki finnst mér Stefáni takast
mjög vel upp þegar hann ræðir um
aðferðafræði í lögfræði. Mér sýnist
hann saka mig um að einfalda mál
fyrir mér og hampar mjög orðum
sem ég held upp á og nota oft þegar
ég tel mig hafa skýrt út lög-
fræðilegar úrlausnir í rituðu máli:
„Svo einfalt er það.“ Sýnist mér Stef-
án einmitt telja lögfræðilegar úr-
lausnir flóknar, jafnvel svo að sá sem
úr leysi eigi margra kosta völ við úr-
lausn sína. Hann segir:
„Vandinn er sá að það
eru ævinlega til fleiri en
ein tæk (e. acceptable)
túlkun á öllum lögum
…“ Virðist hann telja
að dómarinn geti valið á
milli þessara kosta og
eigi því val á milli mis-
munandi úrlausna.
Kannski þetta sé eitt-
hvað sem hann drakk í
sig með móðurmjólk-
inni? Að minnsta kosti
þekkjast þessi viðhorf
vel og þá ekki síst hjá
dómurum fyrri tíðar. Það var eins og
þeir teldu dómurum heimilt að láta
stjórnmálaviðhorf og persónulegar
lífsskoðanir hafa afgerandi áhrif á
úrlausnir sínar. Þetta er að-
ferðafræði af því tagi sem íslenskir
dómarar hafa gegnum tíðina beitt til
að koma fram niðurstöðum sem þeim
hafa þótt „æskilegar“.
Gagnrýni mín í bókinni forðum
beindist m.a. að aðferðum af þessu
tagi. Skrif mín síðan, sem orðin eru
nokkur að vöxtum, hafa einnig að
verulegu leyti beinst að þessu sama.
Ég sé því ástæðu til að gera af þessu
tilefni Stefáns tilraun til að skýra að-
ferðafræði lögfræðinnar eins og ég
hef séð hana í störfum mínum og
skrifum.
Einungis eftir lögum
Í samfélagi okkar hefur verið kom-
ið á fót sérstökum stofnunum til að
leysa úr ágreiningsefnum, hvort sem
er milli ríkis og einstaklinga eða ein-
staklinga innbyrðis. Þessar stofnanir
nefnum við dómstóla. Þeir eiga að
beita lögfræðilegum aðferðum við að
komast að niðurstöðum.
Í stjórnarskrá er kveðið svo á að
dómstólar skuli einungis dæma eftir
lögum. Í þessu felst ekki einungis
bann við því að dómendur láti per-
sónuleg eða pólitísk sjónarmið ráða
niðurstöðum dómsmála, heldur felst
líka í þessu krafa um að lögð sé rækt
við að finna þá lagareglu sem við á og
beita henni síðan á úrlausnarefnið.
Lögfræðin felur því í sér að kenna
hvaða aðferðir séu heimilar við úr-
lausn málanna.
Menn ættu að hafa í huga að í
stjórnskipun okkar er dómstólum
ekki ætlað að móta nýjar lagareglur.
Því hlutverki gegnir löggjafinn, Al-
þingi. Verkefni dómstóla er á hinn
bóginn að finna þær reglur sem voru
í gildi þegar atvik máls urðu og beita
þeim á úrlausnarefnið. Það er reynd-
ar undarlegt að heyra lögfræði-
menntaða menn halda því fram að
dómstólar hafi heimildir til að mynda
nýjar reglur. Hefðu þeir slíkar heim-
ildir fælist í þeim sú aðferðafræði að
leysa skuli úr ágreiningi með því að
fela málið í hendur mönnum sem
hefðu heimildir til að móta nýjar
reglur sem ekki voru til staðar, þegar
atvik máls urðu, og beita þeim aftur-
virkt á ágreiningsefnið. Þetta finnst
mér að ekki fái staðist. Svo einfalt er
það.
Ein rétt niðurstaða
Aðferðafræðin í lögfræðinni við
úrlausn ágreiningsmála byggist á
þeirri forsendu að einungis ein nið-
urstaða sé rétt í þeim lögfræðilega
ágreiningi sem til úrlausnar er. Allir
sem um fjalla verða að byggja á þess-
ari forsendu. Niðurstöður dómsmála
eiga til dæmis ekki að geta orðið mis-
munandi eftir því hvaða dómari
dæmir. Menn mega ekki láta það
rugla sig í þessu að menn kann að
greina á um hver hin rétta niður-
staða sé að efni til. Forsendan um að
verkefnið sé að leita hinnar réttu nið-
urstöðu verður að gilda hjá hverjum
og einum.
Ég hef starfað sem málflytjandi og
dómari alla mína tíð í lögfræðinni.
Það hefur oft komið fyrir mig að hafa
ekki haft hugmynd um hver verða
muni hin rétta niðurstaða þegar
vinnan við að leita hennar hefst í því
máli sem til meðferðar er. Það verð-
ur þá oft hreinlega heillandi við-
fangsefni að feta sig áfram eftir álita-
efnunum í réttri röð hverju á eftir
öðru, þar til niðurstaðan birtist í lok-
in og er þá oftar en ekki skýr og
greinileg. Enginn geðþótti hefur þá
fengið að komast að, einungis öguð
lögfræðileg aðferðafræði.
Svo hef ég einatt upplifað það í
flóknustu málum að málið snýst í
raun og veru um tiltölulega einfalt
grundvallaratriði, þó að tíma og
vinnu hafi tekið að finna það og þá
oftast vegna þess að annar málsaðil-
inn hefur haft hagsmuni af því að
reyna að leiða fram ályktanir sem
styðja hans málstað og hann telur að
ráða eigi niðurstöðunni. Það er allt
saman eðlilegt því í dómsmálunum
takast málsaðilar á og hver og einn
þeirra talar fyrir sínum hagsmunum.
Skylda þess sem dæmir er að kynna
sér ástæður málsaðila til hlítar. Að
öðrum kosti getur hann ekki fundið
þá réttu. Hann þarf með öðrum orð-
um ekki aðeins að finna rökin fyrir
henni, heldur þarf hann líka að hafna
þeim sem kunna að vísa í aðrar áttir.
Margir menn, bæði lögfræðingar
og aðrir, aðhyllast aðferðafræði sem
þeir telja að gefi þeim valkosti um
niðurstöðu. Þeir leggja þá venjulega
áherslu á að úrlausnarefnið sé svo
flókið að ekki sé unnt að ákveða með
markvissum hætti hver sé hin rétta
niðurstaða. Auðvitað kann
úrlausnarefnið að vera flókið þannig
að lausnin verður ekki örugg fyrr en
að lokinni gaumgæfilegri athugun á
öllu því sem máli kann að skipta.
Þetta breytir engu um að hin rétta
niðurstaða hlýtur alltaf að vera ein,
eða sú sem leiðir af réttri beitingu
réttarheimildanna. Menn ættu að
muna að til aðferðafræði í lögfræði
heyrir að beita réttarheimildum eftir
heimildargildi þeirra. Þannig ganga
til dæmis sett lög fyrir ólögfestum
heimildum (venju, eðli máls o.s.frv.).
Dæmi um ótækar
forsendur dóma
Dómasafnið er fullt af dæmum um
að dómarar hafa bersýnilega ekki
beitt þeirri aðferðafræði sem þeim
var skylt heldur látið geðþóttann
ráða. Hér læt ég duga að nefna lítið
dæmi sem allir skilja. Á þeim tíma að
deilt var um hvort leyfa ætti sölu á
áfengu öli hér á landi tók hann Gutt-
ormur upp á því að bjóða mönnum
þjónustu við að blanda kláravíni, sem
þeir höfðu keypt í ríkinu, saman við
pilsner. Við þessa athafnasemi var
auðvitað ekki um tilbúning áfengis
(bruggun) að ræða. Þetta var bara
blöndun áfengis við óáfengan drykk
líkt og átti sér stað úti um allt, þar
með talið á heimilum landsmanna
hvort sem er við neyslu áfengis eða
matargerð, svo dæmi séu nefnd. En
Guttormur var ákærður og sakfelld-
ur fyrir tilbúning áfengis (bruggun)
sem var refsiverður samkvæmt
áfengislögum! Tveir fastir embættis-
dómarar í Hæstarétti sakfelldu hann
(H.1988.104). Þetta var auðvitað
rænulaus vitleysa sem líklega átti rót
sína að rekja til þess að dómararnir
hafi verið andvígir því að leyfa sölu á
áfengu öli í landinu. E.t.v. hafa þeir
sjálfir frekar viljað léttvín!? Það er
að öllum líkindum stórskaðlegt fyrir
traustið sem dómstólar þurfa að
njóta, þegar svona geðþótti er látinn
ráða niðurstöðum.
Svo sýnist mér Stefán Snævarr
vilja gagnrýna mig fyrir að hafa talið
réttinn til að standa utan félaga til-
heyra hinu stjórnarskrárverndaða
frelsi til að mynda félög með öðrum.
Hugleiðing hans um þetta er reyndar
ekki vel skiljanleg en sú er oft raunin
þegar reynt er að gera einfalda hluti
flókna með einhverju sem ekki kem-
ur málinu við. Auðvelt ætti að vera að
átta sig á því að réttinum til að
mynda félög með öðrum hlýtur af
rökbundinni nauðsyn að fylgja réttur
til að synja aðild að félögum sem
menn vilja ekki verða félagar í. Að
öðrum kosti væri unnt að þvinga
menn til stuðnings við málstað sem
þeir kunna að vera andvígir.
Hentugar kenningar?
Segja má að kenningar um að
margbreytilegar niðurstöður séu
dómstólum heimilar í sama málinu
séu hentugar fyrir þá sem vilja að úr-
lausnir dómstóla ráðist fremur af
tækifærismennsku en beitingu rétt-
arheimilda.
Að lokum tek ég fram að mér
finnst æskilegt að menn tjái sig um
starfsemi dómstóla og umfjöllun um
verkhætti þeirra, þó að ekki séu lög-
fræðingar. Stefán Snævarr er pró-
fessor í heimspeki. Kannski honum
takist þó stundum betur upp í skrif-
um sínum á þeim vettvangi en í þeirri
grein sem hér hefur verið gerð að
umtalsefni?
Eftir Jón Steinar
Gunnlaugsson »Menn ættu að hafa í
huga að í stjórn-
skipun okkar er dóm-
stólum ekki ætlað að
móta nýjar lagareglur.
Því hlutverki gegnir lög-
gjafinn, Alþingi.
Jón Steinar
Gunnlaugsson
Höfundur er lögmaður.
Margra kosta völ?