Morgunblaðið - Sunnudagur - 23.08.2020, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - Sunnudagur - 23.08.2020, Blaðsíða 17
Aðdáendaklúbbar virka Í bandarískum stjórnmálum og reyndar víðar er talið að kjósendur séu veikir fyrir „stjörnum“ og þeim sem hafa slegið í gegn á síðustu misserum eða árum. Flokk- um þykir áróðursgildi þess verulegt ef frægt fólk af þessu tagi, leikarar, söngvarar og íþróttastjörnur, leggja þeim pólitískt lið og telja að hikandi og óöruggir kjósendur eigi auðvelt með að samsama sig slíku fólki og miklu betur en harðsoðnum stjórnmálamönnum með margtuggna frasa. Í Bandaríkjunum þykir líka gott ef annar hvor stóru- flokkanna getur veifað liðhlaupum úr hinum stór- flokknum. Allmargir frægir liðhlaupar úr röðum repú- blikana voru á þingi demókrata nú. Hugsanlegt er þó að þessi þáttur sé ofmetinn. Liðhlaupar voru skotnir í raunheimum í gamla daga og í kvikmyndum lengi eftir það og það er lítill hetjubragur á slíkum. Í Bandaríkj- unum hafa bíómyndir kennt mönnum að halda upp á hetjur. Þekkt nöfn geta þó skipt máli í þessu sambandi. Á flokksþingi demókrata þegar Bill Clinton var út- nefndur frambjóðandi var eitt slíkt leynitromp klappað upp á sviðið, Ronald Reagan jr. Flokksfulltrúar fögn- uðu mjög. Sjálfsagt hefur þetta farið í fínar taugar óvinarins, sem var auðvitað hjálplegt. En uppákoman hafði engin marktæk áhrif til lengri tíma enda hafði lengi verið vitað og rækilega kynnt af repúblikönum þegar von var á Ron yngri hjá demó- krötum að hann hefði lengi verið vinstrisinnaður trú- leysingi og launaður þátttakandi hjá þeim sjónvarps- stöðvum sem hatast mest út í repúblikana, hvar sem þá er að finna. Lengi vel töldu margir leikarar sem náð höfðu frægð eðlilegt að þeir héldu sig til hliðar við stjórnmálin. Þeir sem vildu hins vegar að viðhorf sín væru kunn skiptust á þeim tíma nokkuð jafnt á milli flokka. Síðustu áratugi hefur það skaðað atvinnu- og framavonir leikara þar vestra að sjást nærri repúbli- könum. Leikarar, sem hafa verið búnir að koma sér vel fyrir, hafa þó ekki látið slíkan þrýsting hafa áhrif á sig. Stuðningur við demókrata er afgerandi í heimi leik- aranna og honum þarf ekki að leyna. Obama- og Clin- ton-hjónin voru tíðir gestir heima hjá Harvey Wein- stein og þangað mættu allir sem vettlingi gátu valdið á tjaldinu og var því mjög flaggað enda var Weinstein einn af helstu fjársöfnurum fyrir framboð þeirra allra. Af þeim vagni var ekki hoppað fyrr en útséð var orðið um að tækist að þagga niður í ásökunum kvenna á hendur honum. Eins og fyrr segir er ekkert að því, þótt einhverjir úr aðdáendahópi íþrótta- og listamanna eða annarra sem eru í sviðsljósinu, láti goðin hafa áhrif á val sitt í stjórn- málum. En langflestir skilja vel þarna á milli. Annar Ronnie nefndur til sögu Bréfritari og heimilisköttur hans hafa dálítið gaman af því að horfa saman á billiard í íþróttasjónvarpi eða snooker eins og það heitir þar. Þessir tveir áhorfendur, sem er vel til vina, eru um flest ólíkir hvað áhugamálið varðar. Kötturinn er heilmikill íþróttamaður í sér en bréfritari verður seint sagður íþróttaköttur. Karlinn gerir nokkurn mun á keppendum og heldur pínulítið meira með einum en öðrum. Kötturinn gerir ekki þann mun. Karlinn hefur haft töluvert dálæti á Ronnie O’Sullivan sem nú síðast vann heimsmeistarabikar í 6. sinn. Margt var sögulegt við það. Ronnie verður 45 ára á þessu ári og það eru tveir áratugir síðan hann vann heimsmeistaratitilinn fyrst. Einn hefur unnið titilinn 7 sinnum, Stephen Hendry. Steve Davis og Ronnie O’Sullivan 6 sinnum. Eftir þennan síðasta sigur ber flestum saman um að Sullivan sé sigursælasti kepp- andi allra tíma í snooker. Sigurganga hans er þó ekki endilega rósum stráð. Faðir hans sem rak klúbba í Soho þar sem stúlkur fækkuðu fötum var dæmdur fyr- ir morð og sat inni í 17 ár. Hann gat því fagnað sigri sonar síns nú. Ronnie yngri hefur átt við andlega spennu af ýmsu tagi að stríða þótt hann hafi náð betra valdi á því. Þótt hann sé kominn í hóp elstu snookerkeppenda er hann enn sá keppandi sem leikur hraðast allra og munar miklu. Það er ekki síst það sem heimiliskötturinn kann best að meta við hann. Þetta er hans eftirlætissjónvarpsefni og hann á það til að hneggja ósjálfrátt eins og hross þegar kúlan titrar í holugatinu áður en hún hverfur óvænt og skyndilega ofan í. Það er eitthvað sem kisi skilur til fulls með sínum genum og ódrepandi áhuga fyrir músum úti við. Pólitísk fyrirmynd? En þótt sá tvífætti sé með Ronnie O’Sullivan efstan á sínu blaði í snooker myndu skoðanir hans í pólitík seint ýta við honum, nema síður væri. Ronnie var með þeim fyrstu úr hópi frægðarfólks sem lýsti yfir stuðningi við Corbyn þegar sá varð leiðtogi Verkamannaflokksins. Og þegar Bretar samþykktu í frægu þjóðaratkvæði að ganga úr ESB tilkynnti Ronnie O’Sullivan að hann væri alvarlega að hugsa um það að flytja til Þýska- lands. Af því hefur enn ekki orðið. Frægðarfólkið vestra verður vinstrisinnað þegar það hefur „meikað það“ enda fær það þá að vera í friði með öll sín auðæfi. Ronnie O’Sullivan er sagður ríkasti snookerspilari allra tíma og efni hans talin í milljörðum (reiknað í ísl. krónur). Meðal þéttustu vina Ronnie Sullivan eru Da- mien Hirst, listmálarinn frægi, sem dvelur með honum í keppnisbúðum til halds og trausts, og nafni hans Wood úr Stones sem sat gjarnan með listmálaranum úti í sal, áður en veiran bannaði það. Hinum áhorfandanum í Skerjafirðinum hefur verið bent á þessa staðreynd en hann sýnir því næstum eng- an áhuga. Skrítið. Morgunblaðið/Árni Sæberg 23.8. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.