Morgunblaðið - Sunnudagur - 13.09.2020, Síða 13

Morgunblaðið - Sunnudagur - 13.09.2020, Síða 13
enda á garðurinn sér langa og merkilega sögu,“ segir hún og sýnir blaðamanni dásam- legar brúðarmyndir sem eru eins og úr ævin- týraveröld. „Svo þegar við vorum að leggja af stað heim til Íslands var ég alveg viss um að ég væri ólétt. Ég fann það á mér,“ segir hún og segist hafa fengið staðfestingu á því við heimkomuna. „Við fórum svo í sónar og þá er okkur sagt að ég sé líklegast með utanlegsfóstur. Það var auð- vitað áfall og við tók tveggja daga rannsókn. Okkur var sagt að mögulega þyrfti ég að fara í aðgerð til að fjarlægja annan eggjaleiðarann. Nokkrum dögum síðar var ég svo kölluð inn í aðra skoðun og þá sást fósturvísir. Hins vegar var enginn hjartsláttur greinanlegur og við vor- um því beðin um að koma aftur viku seinna. Við krossuðum fingur að þetta litla líf myndi dafna. Í þriðju skoðuninni var okkur svo sagt að ég gengi með tvíbura,“ segir hún og þó að það hafi tekið smá tíma að melta þessar fréttir var gleðin að vonum mikil,“ segir hún. „Tindur og Stormur fæddust svo í mars 2019 og enn eru þeir stöðug uppspretta gleði en eiga eflaust líka eitthvað í baugunum og gráum hárum sem við foreldrarnir skörtum, “ segir hún og brosir. „Við vorum komin með eldinn og ísinn og vantaði bara loftið og jörðina,“ segir Ragnhild- ur, en fyrir eiga þau fyrrnefndu Eldeyju, fædda 2010, og Jökul, fæddan 2013. „Nöfnin lýsa tvíburunum ágætlega; Tindur er mjög jarðtengdur og yfirvegaður á meðan Stormur er skapmeiri,“ segir hún. Það er alltaf líf og fjör á heimilinu, að sögn Ragnhildar, enda nóg að gera með fjögur börn og báðir for- eldrarnir í krefjandi störfum, en Haukur Ingi vinnur hjá Sidekick- Health sem er íslenskt heilbrigð- istæknifyrirtæki. Öldin var önnur Ragnhildur Steinunn hefur snert á fjölbreyttum og ólíkum verkefnum á sínum náms- og starfsferli. „Ég er með B.Sc. í sjúkraþjálfun en hef aldrei unnið við það. Þegar ég var að klára námið og var í verknámi á Landspítalanum, starfaði ég á sama tíma bæði í Kastljósinu og kynnti Söngvakeppnina. Þá lenti ég iðulega í því að gamla fólkið á spítalanum sagði; „þú ert svo lík þessari stelpu sem ég sá í Kastljósi í gær!“ án þess að átta sig á að um sömu manneskju væri að ræða,“ segir Ragnhildur og hlær. „Það var auðvitað brjálað að gera en þarna var maður ungur og barn- laus,“ segir hún. Fleira tók hún sér fyrir hendur á þessum ár- um, því eins og margir muna var hún kosin Ungfrú Ísland árið 2003. Ragnhildur segist sem minnst vilja tala um það, enda hefur hún áorkað ýmsu síðan þá sem hún vilji frekar ræða um. „Öldin var önnur þá. Ég horfi ekkert til baka með eftirsjá því allt er reynsla. Ég hef hins vegar afrekað margt síðan þá og finnst miklu áhugaverðara að tala um það og miðla þeirri reynslu.“ Söngvakeppnin vítamínsprauta Hvernig dastu inn í sjónvarpið, nemi í sjúkra- þjálfun? „Ég tók þátt í nokkrum leiksýningum, með- al annars Fame sem var sett upp í Smáralind- inni. Þá var bent á mig fyrir prufu í unglinga- þátt sem hét Ópið. Ég fékk starfið, og varð einn þriggja umsjónarmanna. Eftir ár í Ópinu fór ég yfir í Kastjósið þar sem ég öðlaðist gríð- arlega reynslu. Ég vann með reynslumiklu fólki og fékk að takast á við fjölbreytt verkefni og er ég óendanlega þakklát fyrir að hafa feng- ið það tækifæri,“ segir hún. „Síðar meir duttu fleiri verkefni á borðið eins og Söngvakeppnin, Óskalög þjóðarinnar, Dans dans, dans, Ísþjóðin og beinar útsendingar frá ýmsum viðburðum. Auk þess vann ég að heim- ildamyndum líkt og „Ég gafst ekki upp“ og „Hrafnhildur“ en þar fékk leikstjórinn og fram- leiðandinn í mér útrás. Við tóku svo verkefni eins og að ritstýra Hæpinu og öðrum þáttum sem var virkilega skemmtilegt,“ segir hún. Söngvakeppnin er eitt af þeim stóru verk- efnum sem Ragnhildur Steinunn hefur haldið utan um og leitt nær viðstöðulaust frá árinu 2007 og sinnir enn. „Í upphafi kom ég inn í Söngvakeppnina sem kynnir enda hafði ég litla sem enga reynslu af dagskrárgerð og framleiðslu á þeim tíma. Hlutverk mitt þar hefur svo breyst með árunum og hef ég haldið utan um dagskrár- gerð og kem að flestu sem við kemur keppn- inni ásamt Rúnari Frey Gíslasyni. Fyrir um sex árum byrjuðum við markvisst að byggja keppnina upp og óhætt er að segja að sú vinna hafi gengið vel. Þetta er algjör vítamínsprauta inn í janúar og febrúar hjá mér og einstaklega skemmtileg vinna,“ segir hún. „Ég hef verið svo lánsöm að fá tækifæri til að vaxa og þróast í starfi innan veggja RÚV. Smátt og smátt fékk ég að koma meira að dag- skrártengdum málefnum sjónvarps og það, meðal annars, leiddi af sér að ég var ráðin að- stoðardagskrárstjóri sjónvarps árið 2018; starf sem ég gegni enn. Það hefur verið lærdómsríkt að vinna með Skarphéðni Guðmundssyni dag- skrárstjóra; hann er reynslubolti í faginu og hefur einstaklega gott nef fyrir góðum hug- myndum. Við erum sannarlega ólík sem styrkir okkur sem teymi. Það er mikilvægt að fjöl- breyttur hópur fólks komi að vali dagskrárefnis og gerð dagskrárstefnu almannamiðilsins. Það er magnað að upplifa þá ástríðu og þann áhuga sem samstarfsfólk RÚV hefur fyrir sínu starfi. Helgun starfsfólks er auðvitað gríðarlega dýr- mæt og eitthvað sem stjórnendur þurfa að vera meðvitaðir um,“ segir Ragnhildur og segir starfið henta sér fullkomlega. Þurfum að vera á tánum Ertu fullkomnunarsinni? „Ég myndi segja að ég hafi verið það meira áður. Núna hef ég lært að láta það ekki þvæl- ast fyrir mér og geri það meðvitað. Ef þú þorir aldrei að taka skot á markið munt þú aldrei skora,“ segir hún. „Það vita allir sem vinna með mér að þegar ég tek að mér verkefni er ég „all in“. Þau eiga þá hug minn og hjarta. Ég get legið í tölvunni til þrjú, fjögur á nóttinni að textaklippa þætti, skrifa handrit og útfæra viðtalssenur. Þetta er bæði áhugamál og vinna. Ég held að sumir geri sér ekki grein fyrir að maður er allt í öllu. Mér finnst gott að vera með góða yfirsýn yfir mín verkefni vegna þess að það nærir mig og auðgar hugmyndaflug mitt,“ segir hún. Spurð um mannkosti sína og galla nefnir Ragnhildur að hún sé dugleg og fylgin sér, en mögulega svolítið þrjósk. „Ég er örugglega svolítið stjórnsöm á sama tíma og ég legg mig fram um að vera opin fyrir tillögum annarra. Við Rúnar Freyr vinnum til að mynda ofsalega vel saman í Söngvakeppninni og öðrum verkefnum. Það ríkir gagnkvæmt traust og við vitum hvar styrkleikar okkar og veikleikar liggja. Það er ekkert sjálfsagt að mynda svona samstarf og því þarf að rækta það vandlega.“ Ragnhildur segir að kórónuveiran hafi að sjálfsögðu haft veruleg áhrif á alla dag- skrárgerð og sér ekki fyrir endann á því. „Ég byrjaði að vinna eftir fæðingarorlof um það leyti sem fyrri bylgja kórónuveirunnar skall á. Það var auðvitað bæði erfitt og svekkjandi en um leið rifjaðist upp fyrir mér hvað þetta er magnað starf og vinnustaður. Á meðan önnur fyrirtæki þurftu að draga saman seglin þurftum við á RÚV heldur betur að spýta í lófana. Við þurftum ekki bara að sinna hlutverki okkar sem öryggis- og almannavarnir, heldur líka að bregð- ast á einhvern hátt við skertri afþreyingu í þjóð- félaginu. Við settum á laggirnar MenntaRÚV sem var nokkurs konar viðbragð við skertu skóla- og frístundastarfi og því til stuðnings framleiddum við þættina Heimavist,“ segir hún. „Við streymdum beint frá Sinfó og reyndum að færa fólki menninguna með öðrum leiðum og eldri borgarar fengu sína leikfimi í gegnum sjón- varpið. Á þessu nærumst við; að geta brugðist við þörfum almennings. Við erum auðvitað búin að leggja línurnar fyrir vetrardagskrána, en í þessu óvissuástandi er viðbúið að ýmsir viðburðir falli niður og við þurfum að bregðast við því. Við þurfum að vera á tánum og spila þetta eftir eyr- anu. Það eru nýjar áskoranir á hverjum degi.“ Bíð eftir að Balti hringi Bökkum aðeins; nú hefur þú leikið í kvikmynd- um líka. Hvernig vildi það til? „Já, einmitt,“ segir hún og hlær. „Þegar ég var lítil þá átti ég mér draum um að verða leikkona og sótti um hlutverk í Bíódögum, en fékk ekki. Eftir að hafa tekið þátt í nokkrum leiksýningum, eins og Kalla á þakinu og Fame eins og ég nefndi áðan, leiddi eitt af öðru,“ seg- ir Ragnhildur. „Ég var svo beðin um að koma í prufu fyrir aðalhlutverkið í Astró- píu. Leikstjóri myndarinnar taldi mig réttu manneskjuna í hlutverkið, en mér fannst launin of lág þannig að ég afþakkaði gott boð. Leikstjór- inn var hins vegar staðráðinn í að ráða mig þannig að ég settist aftur við samningsborðið með framleið- endum myndarinnar og það tókst að semja. Í kjölfar þess lék ég í fleiri kvikmyndum. Það er gaman að leika; að geta fjarlægst sjálfa sig í smá stund,“ segir Ragnhildur. „Ég er ekki menntuð leikkona en ég er ágæt í að taka leiðsögn. Ef leikstjórinn er góður er hægt að galdra ýmislegt fram,“ segir Ragn- hildur en hún hefur leikið alls í sex kvikmyndum. „Nú bíð ég bara eftir að Balti hringi,“ segir hún og hlær. Hamingja barna minna Kaffið er löngu kólnað í bollunum og börnin þurfa athygli móður sinnar. Við eigum þó eftir að tala um áhugamálin, þó að ljóst sé að fjöl- skyldan og vinnan séu áhugamál númer eitt, tvö og þrjú. En eitt á hug Ragnhildar sem er algjörlega ótengt vinnu og fjölskyldu. „Það eru blómin, hin börnin mín; ég elska blóm,“ segir hún og hlær. „Mig dreymir um að eignast gróðurhús. Það er skemmtilegt að segja frá því að ég erfði víst þennan áhuga frá mömmu minni. Pabbi lét mig hafa allar gömlu garðyrkjubækurnar hennar. Mér þykir mjög vænt um það; það tengir okkur á einhvern hátt,“ segir hún. „Svo finnst mér æðislegt að fara í göngu- og hjólatúra. Það er ekki mikið pláss í lífinu fyrir ræktina þannig að ég reyni að hreyfa mig um leið og ég get notið samverustunda með fjöl- skyldunni. Það tekur á að ýta á undan sér tví- buravagni,“ segir hún kímin. Ragnhildur nýtur þess að lifa lífinu og njóta augnablikanna. „Maður þarf að leyfa sér að taka þátt í eigin tilveru; það má ekki drekkja sér í vinnu. Lífið er ævintýralegt ferðalag.“ Spurð um framtíðarplön segir Ragnhildur: „Langtímaplanið snýr að hamingju barna minna og að njóta lífsins með þeim. Ég hefði aldrei ímyndað mér að eignast fjögur börn, ég sem er alin upp sem einbirni. Ég nýt þess í botn að vera mamma. Það er vissulega krefj- andi á köflum en að sama skapi svo mikil betr- un,“ segir Ragnhildur. „En svo er það þetta jafnvægi milli vinnu og fjölskyldu eins og ég nefndi áðan. Þessi dýrk- un á duglega fólkinu sem vinnur allan sólar- hringinn er hættuleg. Ég vil að það sé dáðst að mér fyrir hvernig ég sinni börnum og fjöl- skyldu; ekki bara vinnunni minni. Það geta margir leyst mig af í vinnunni en það á enginn að leysa mig af í móðurhlutverkinu.“ Ljósmyndir/Íris Dögg Einarsdóttir ’Ég vil að það sé dáðst að mér fyrir hvernig égsinni börnum og fjölskyldu; ekki bara vinnunniminni. Það geta margir leyst mig af í vinnunni enþað á enginn að leysa mig af í móðurhlutverkinu. Ragnhildur og Haukur giftu sig í ítalskri sveit árið 2018. Stuttu eftir heimkomuna kom í ljós að von væri á tvíburum. 13.9. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.