Morgunblaðið - Sunnudagur - 13.09.2020, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 13.09.2020, Blaðsíða 14
K ristinn Magnússon ljósmyndari er mættur í Kópavoginn til Guð- rúnar Guðlaugsdóttur þegar mig ber að garði og er að sigta út heppilega staði í betri stof- unni fyrir portrettmyndatökuna. „Æ, mér finnst alltaf frekar erfitt að láta taka af mér myndir,“ trúir Guðrún mér fyrir, „en ég veit að ég á þetta skilið; ég er sjálf búin að senda ljós- myndara á svo marga viðmælendur gegnum tíðina,“ bætir hún sposk við en Guðrún starfaði um langt árabil sem blaðamaður á Morg- unblaðinu og grípur enn þá annað slagið í verkefni af því tagi enda segir hún vonlaust að slíta sig alveg frá blaðamennskunni; skemmti- legasta starfi í heimi. Ég er ekki kominn til að tala við Guðrúnu um blaðamennsku, heldur ritstörf en nýjasta glæpasagan hennar, Hús harmleikja, er komin út. Blaðamennskan er þó uppi á borðinu og allt um kring enda er söguhetjan, Alma Jóns- dóttir, blaðamaður og fyrrverandi kollegi okk- ar á Morgunblaðinu. Þegar hér er komið sögu í sjöundu bók Guðrúnar um Ölmu hefur hún þó misst það starf og er að máta sig við skáld- sagnaskrif. Alma dvelst í litlu húsi á Eyrarbakka og söguefni sem hún glímir við er reimleikar í húsum og margvísleg áhrif þeirra. Alma kynn- ist hinni litríku leikkonu Oktavíu Bergrós sem er safnvörður í Húsinu, gamla kaupmanns- setrinu á staðnum og vonast jafnframt eftir hlutverki í nýrri kvikmynd. Fyrr en varir æs- ist leikurinn. Irma kvikmyndaleikstjóri kemur ásamt Ormari eiginmanni sínum og erlendum aðstoðarmanni til að skoða tökustaði. Einnig eru mættir á svæðið tveir handritshöfundar. Leyndarmál þorpsbúa krauma undir yfirborð- inu, dauðinn ber að dyrum og ýmsir liggja undir grun, að því er fram kemur á bók- arkápu. Hús sem erfitt er að selja „Hugmyndin að þessari bók kviknaði fyrst þegar ég var að ritstýra Fasteignablaði Morg- unblaðsins fyrir nokkrum árum,“ útskýrir Guðrún. „Þá tók ég viðtal við ágætan fast- eignasala sem sagði mér frá húsum sem hann hefði lent í vandræðum með að selja vegna þess að einhver hefði dáið þar voveiflega eða eitthvað annað hræðilegt átt sér stað. Þetta eru ekki mjög mörg hús en samt nokkur. Eitt frægasta húsið af þessu tagi er líklega Dillons- hús sem nú er komið á Árbæjarsafnið. Eins og fram kom í fréttaskrifum 1953 treysti þáver- andi húsráðandi sér ekki til að lifa lengur en vildi heldur ekki skilja fjölskyldu sína eftir bjargarlitla þannig að hann tók eiginkonu sína og börn þeirra með sér til handanheima. Sorg- legt mál og umtalað á sínum tíma.“ Alma Jónsdóttir var ekki komin fram á sjón- arsviðið er þetta viðtal átti sér stað en Guð- rúnu fannst síðar upplagt að setja hana í þess- ar aðstæður – forvitin sem hún er. Og þær báðar. „Þegar hún losnar úr þessari ættarsögu sinni get ég vel unnt henni að grúska í þessu,“ hugsaði Guðrún með sér. „Þetta fellur vel að hennar áhugasviði.“ Eins og í fyrri bókum Guðrúnar byggir hún á atburðum sem hafa gerst, bæði sem hún og aðrir hafa upplifað. „Allt sem hefur einu sinni gerst getur gerst aftur. Það eina sem hefur ekki gerst er það hvernig morðin eru framin – og ég á alltaf jafn erfitt með að dæma fólk til dauða. En einhverjum þarf ég að fórna, það er eðli glæpasögunnar.“ Tilvalinn vettvangur – Af hverju Eyrarbakki? „Tveir úr fjölskyldu minni hafa verið tíma- bundið safnverðir í Húsinu á Eyrarbakka og þegar ég kom þar einu sinni í heimsókn, drakk kaffi og skoðaði mig um sá ég strax að þetta væri tilvalinn vettvangur fyrir sögu af þessu tagi. Ég hitti líka stúlku sem sagði mér ýmsar sögur sem kveiktu enn frekar í mér. Þess utan er umhverfið á Eyrarbakka mjög heppilegt; mörg gömul hús og staðurinn hefur frá fyrri tíð orð á sér fyrir mörg sjóslys. Ýmislegt hefur gengið þarna á gegnum tíðina enda var Eyrar- bakki aðalverslunarstaður Sunnlendinga áður fyrr. Óskaplega sjarmerandi staður.“ Leiklistin er einnig miðlæg í bókinni. Hún er ekki úr lausu lofti gripin en sjálf lærði Guðrún leiklist í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins. Dregur til gamans fram ljósmynd þar sem Gunnar heitinn Eyjólfsson er að leikstýra henni á seinni hluta sjöunda áratugsins. „Alma hefur til þessa ekki verið sérlega listræn, fer lítið í leikhús, á söfn og annað slíkt og mér fannst tími til kominn að hún fengi að kynnast því. Það var mjög gaman að leyfa hinni ungu leikkonu Oktavíu Bergrós að leiða Ölmu á fund Þalíu. Það var gaman að skapa Oktavíu; hún er mjög hátt uppi, svolítið fiðrildi og á margan hátt ólík hinni jarðbundnu Ölmu.“ Spurð hvers vegna hún hafi hætt í leiklist- inni svarar Guðrún: „Ég var búin að leika þó dálítið en þegar börnunum fjölgaði áttaði ég mig á því að þetta er ekki fjölskylduvæn vinna.“ Hún lauk í staðinn stúdentsprófi og hóf nám sagnfræði og bókmenntafræði í Háskóla Ís- lands. Þá höfðu tvíburar bæst í barnahópinn þannig lítið varð úr lestri. Guðrúnu bauðst á hinn bóginn vinna á Ríkisútvarpinu og þaðan lá leiðin á Morgunblaðið nokkrum árum síðar. Fær alltaf gæsahúð – En aftur að nýju bókinni. Hefur þú mikinn áhuga á draugasögum? „Mér finnst ég alltaf fá gæsahúð þegar mér eru sagðar draugasögur. Ég las þjóðsögurnar þegar ég var krakki og seinna fyrir börnin mín, til að auka orðaforðann þeirra, og þar eru draugar auðvitað yfir og allt um kring. Við Ís- lendingar erum alla jafna ekki gömul þegar við áttum okkur á því að hér trúir fólk í stórum stíl á drauga, álfa og huldufólk. Er það ekki bara okkar viðleitni til að fóta okkur betur í þessari tilveru sem við erum í?“ Margir hafa greint Guðrúnu frá yfir- skilvitlegum upplifunum gegnum tíðina og sumt af því hefur hún skrifað hjá sér. „Þetta er mjög spennandi viðfangsefni; fólki hefur vitr- ast ýmislegt.“ – Á það við um þig sjálfa? „Ég tek stundum við hugsunum frá fólki. Ég get ekki neitað því. Það hefur gerst of oft til að það geti verið tilviljun. Manninum mínum þyk- ir þetta frekar furðulegt,“ segir hún og brosir. – Skynjarðu sumsé hvað annað fólk er að hugsa í kringum þig? „Já, það kemur fyrir. Ég sé líka og finn spennu þegar ég kem inn í sum herbergi. Mað- ur veit ekki af hverju en það liggur eitthvað í loftinu, eins og sagt er.“ Guðrún lærði ung að spá í bolla og gerir það enn, aðallega fyrir unglingana í fjölskyldunni. Þá fór hún fyrst til spákonu á unglingsaldri. Spurð hvort sú menning sé á undanhaldi svar- ar Guðrún: „Ég held ekki. Yngsta dóttir mín, sem er rúmlega þrítug, hefur til dæmis áhuga á þessu. Minnkar þetta ekki bara þegar líður á ævina? Þetta er ákaflega séríslenskt áhugamál og mjög ríkt í þjóðarsálinni. Við viljum hafa samband við okkar fólk fyrir handan.“ Sagt að laga skápinn Danska skáldkonan Thit Jensen er nefnd í Húsi harmleikja en hún var þekktur spíritisti sem kom hingað til lands í byrjun tuttugustu aldarinnar; hjálpaði fólki að ná tengingu og lagði grunn að sálarrannsóknum á Íslandi. „Móðursystir mín trúði á þetta. Hún fór einu sinni til London á miðilsfund og þar komst hún í samband við látinn eiginmann sinn sem sagði henni að laga þyrfti skáp í eld- húsinu. Annar einstaklingur kom líka fram á fundinum og hvatti hana til að huga að ruggu- stól á heimilinu. Þegar hún kom heim kom í ljós að skápurinn var laus og ruggustólinn að gliðna í sundur. Það er ekki svo langt síðan þetta var, svona 25 ár. Ef til vill hefði hún þó ekki þurft að fara til London til að afla þessara upplýsinga, mögulega hefði hún bara getað skoðað sig vel um á heimilinu.“ Hún brosir. Jóga og hugleiðsla njóta mikillar hylli nú um stundir og að áliti Guðrúnar er það að vissu leyti angi á sama meiði. Fólk vilji komast í aðra vídd og fá aðra orku. „Það er svo ríkt í mann- eskjunni.“ Hún gerir þó greinarmun á draugum annn- ars vegar og huldufólki hins vegar. „Draugar birtast okkur yfirleitt ekki í góðu. Þeir hafa oftast illt orð á sér. Huldufólkið er meinlausara og getur jafnvel verið hjálplegt. Það er til marks um þessa trú að hér í grenndinni, á Álf- hólsveginum, var gata á sínum tíma færð til að vernda álfabyggð og forða okkur frá ógæfu. Það þótti sjálfsagt mál. Þessi forlagatrú liggur mjög djúpt í þjóðarsálinni; okkur finnst við alltaf þurfa að borga fyrir eitthvað gott. Ef það koma til dæmis þrír sólardagar í röð þá erum við ekki í vafa um að við þurfum að borga fyrir það með þremur rigningardögum.“ Fólk fremur en fjöll Guðrún kveðst fyrst og fremst vera að skrifa um fólk. „Sumir hafa ofboðslegan áhuga á náttúrunni. Ég hef svo sem ekkert á móti henni en ég hef bara enn þá meiri áhuga á fólki. Það er skemmtilegra að horfa inn í hug- arheim fólks en að horfa á fjöll. Við eigum mikið undir náttúrunni en líka undir öðru fólki. Maður verður að vita hvar maður stend- ur gagnvart öðru fólki. Það tengist öryggis- tilfinningunni sem okkur er eðlislæg. Ég hef orð fyrir að vera mjög forvitin að eðlisfari og sagt er að það komi sér vel fyrir blaðamann. Sama máli gegnir um glæpasagnahöfundinn; forvitnin rekur hann áfram. Bæði mig og Ölmu.“ Sjö bækur á jafnmörgum árum er bæði til vitnis um vinnusemi en ekki síður yndi og ánægju. „Mér finnst ofboðslega gaman að skrifa þessar sögur; ég hverf inn í þennan heim meðan á skrifunum stendur og verð mjög einmana þegar ég er búin með bók. Sem betur fer byrja nýjar persónur yfirleitt strax að labba inn á sviðið. Það er eins með blaða- mennskuna og glæpasöguskrifin, þetta gefur manni svo mikil tengsl við fólk. Ég kynnist ein- hverju nýju á hverjum einasta degi.“ Hvað þarf mikið af eitri? – Það lá því alltaf beint við að Alma væri blaða- maður? „Já, það lá alltaf beint við. Það er gott að vera á vettvangi sem maður þekkir vel. Núna er Alma að vísu búin að missa vinnuna sem er auðvitað veruleiki sem við búum við; rekstur fjölmiðla er víða þungur og margir hafa misst starf sitt á undanförnum árum og misserum.“ Henni þótti ekki eins spennandi að hafa lög- reglumann í forgrunni. „Þar er ég ekki á heimavelli. Ég hef hins vegar haft samband við lögreglumenn til að bera ýmislegt undir þá. Eins lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn. Minnisstætt er þegar ég hringdi á Eitur- efnamiðstöðina, kynnti mig og spurði hvað þyrfti að gefa manni mikið af blóðþynning- arefninu Kovar til þess að hann dæi. Þarna stóð til að eitrað yrði fyrir fórnarlambinu í einni bókinni. „Fyrirgefðu, hver ert þú seg- irðu?“ spurði konan sem varð fyrir svörum hvumsa og neitaði að gefa mér þessar upplýs- ingar nema ég sendi formlegt erindi í tölvu- pósti. Það er víst algengara að fólk hringi þeg- ar einhver hefur óvart borðað eitur en til að spyrja hvernig eigi að fara að því að drepa menn. Þetta starf getur leitt mann í hlægilegar aðstæður.“ Hún hlær. „Annars er manni yfirleitt mjög vel tekið með erindi sem þessi og beint annað geti fólk ekki sjálft hjálpað.“ Tek stundum á móti hugsunum frá fólki Hús harmleikja er sjöunda glæpasaga Guðrúnar Guðlaugsdóttur á jafnmörgum árum. Þar ber fyrir áhugamál okkar allra, reimleikar og yfirskilvitlegir hlutir. Guðrún segir margt líkt með blaðamennsku og ritstörfum en þó hafi hún leyfi til að afvegaleiða lesandann annað slagið í glæpasögunum. Slíkt er ekki vel séð í blaðamennskunni. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is „Við Íslendingar erum alla jafna ekki göm- ul þegar við áttum okkur á því hér trúir fólk í stórum stíl á drauga, álfa og huldu- fólk. Er það ekki bara okkar viðleitni til að fóta okkur betur í þessari tilveru sem við erum í?“ segir Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður og rithöfundur. ’Mér finnst ég alltaf fágæsahúð þegar mér erusagðar draugasögur. Ég lasþjóðsögurnar þegar ég var krakki og seinna fyrir börnin mín, til að auka orðaforðann þeirra, og þar eru draugar auð- vitað yfir og allt um kring. BÆKUR 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13.9. 2020

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.