Morgunblaðið - 06.10.2020, Qupperneq 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 6. OKTÓBER 2020
SMÁRALIND
www.skornir.is
Verð 17.995
Stærðir 36-41
Flex&Go
Í Flex&Go skóna er notað hágæða leður sem og náttúruleg efni,
sem gerir það að verkum að skórnir falla vel að fætinum og eru
einstaklega þægilegir.
Flex&Go skórnir eru
hannaðir fyrir allar konur
sem eru á ferðinni í daglegu
lífi og eru þeir tímalausir
og einstakir.
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Hanna Dóra Sturludóttir mezzó-
sópran og píanóleikarinn Antonía
Hevesi koma fram á hádegistón-
leikum í dag kl. 12 í Hafnarborg og
verður beint streymi frá tónleik-
unum á Facebook-síðu Hafnar-
borgar og einnig á slóðinni https://
livestream.com/accounts/15827392/
events/9336958. Tónleikarnir bera
yfirskriftina Konur úr öllum áttum
og verða fjórar óperuaríur fluttar:
„Amour! Viens aider“ úr Samson og
Dalila, „Voce di donna“ úr La Gio-
conda sem og „Habanera“ og „Se-
quidilla“ úr Carmen.
Þakklát fyrir fasta vinnu
Engir gestir verða á tónleikunum
vegna hertra sóttvarnareglna og
Hanna Dóra er spurð að því hvernig
árið hafi verið fyrir hana, fyrir
klassíska söngkonu. „Það er búið að
vera mjög óvenjulegt, vægast sagt.
Ég er tiltölulega heppin að vera í
fastri vinnu, ég kenni söng og er
þakklát fyrir að hafa það öryggi en
ég veit að margir kollegar mínir
hafa lent illa í því. Þessi þörf fyrir
að syngja er svo sterk í manni að
það er skiljanlegt að fólk sé í alls
konar verkefnum þar sem er
kannski ekki mikið greitt fyrir. Allir
hafa reynt að gera sitt besta til að
halda sér í formi. En þetta er búið
að vera mjög erfitt, allir viðburðir
sem maður hefur stefnt að og
hlakkað til hafa verið blásnir af,“
svarar Hanna Dóra sem kennir í
Listaháskóla Íslands. Hún segir
kennsluna hafa gengið ótrúlega vel
og líka þá sérkennslu sem hægt hef-
ur verið að hafa á netinu. Bæði
kennarar og nemendur hafi verið
þakklátir fyrir að geta haldið
kennslunni gangandi í kófinu.
Ein tælandi, önnur illgjörn og
sú þriðja góðhjörtuð
Við snúum okkur að tónleikunum
í Hafnarborg, „Konum úr öllum átt-
um“, og segist Hanna Dóra hafa
reynt að velja bæði þekkt og minna
þekkt verk og raðað á efnisskrána í
samráði við Antoníu. „Þetta eru
konur úr öllum áttum, sem er yf-
irskrift tónleikanna. Þarna er Car-
men, þessi sterka og tælandi kona
sem er svolítið mikið í því að nota
persónutöfra sína. Svo er Dalíla sem
er í rauninni að notfæra sér áhrifin
sem hún hefur á Samson, nýta sér
ástina sem hún veit að hann ber til
hennar, til að fá það sem hún vill frá
honum þannig að hún er svolítið ill-
gjörn,“ segir Hanna Dóra. Í aríunni
„Voce di donna“ úr óperunni La
Gioconda eftir Amilcare Ponchielli
syngur svo blind og góðhjörtuð
móðir titilpersónunnar.
– Þetta eru mjög ólíkar konur
sem þú ert að túlka sem kemur
væntanlega fram í söngnum?
„Já, mjög ólíkir karakterar með
fjölbreyttan bakgrunn. Það er mjög
gaman að fá að setja þær allar
svona saman og líka af því að ég hef
ekki mikið verið að syngja óperur
undanfarið. Sú síðasta sem ég tók
þátt í var í Íslensku óperunni fyrir
ári og ég hef ekki fengið neitt tæki-
færi til að syngja aríur mikið þannig
að þetta er mjög skemmtilegt, að fá
að gera þetta og blanda þessu svona
saman,“ svarar Hanna Dóra. Hún
segist hafa sungið hlutverk Carmen
á sviði en ekki hlutverk hinna per-
sónanna. „Ég hef kennt söngkonum
sem hafa verið að syngja þessar arí-
ur þannig að ég lærði þær með því
að kenna þær, kynntist þeim þannig
og hef líka heyrt þær margoft í
óperusýningum.“
Orkunni dreift
–Sönglega séð er efnisskráin þá
sett saman þannig að ef ein arían
reynir mikið á verður sú næsta að
reyna minna á?
„Já, góð spurning. Þetta eru frek-
ar stuttir tónleikar þannig að það er
í raun ekki mikið mál að syngja fjór-
ar aríur. Það er mjög mikilvægt,
þegar maður er að setja saman pró-
gramm, að hugsa um hvernig það sé
best samsett, hvað sé best að syngja
fyrst. Maður þarf að dreifa
orkunni,“ svarar Hanna Dóra.
Hún er að lokum spurð að því
hvernig sé að syngja á tónleikum án
gesta. „Það er alltaf langskemmti-
legast að syngja fyrir fólk, fá við-
brögð og finna andann í loftinu en
maður fer samt sem áður alltaf inn í
karakterinn og reynir að vera það
sem maður er að túlka í hvert
skipti. Ég treysti því bara að það
gerist.“
Ljósmynd/Hafnarborg
Samstarf Antonía Hevesi og Hanna Dóra Sturludóttir í Hafnarborg í gær. Þær halda tónleika saman í dag.
Fjórar aríur í beinni
Konur úr öllum áttum verða á efnisskrá hádegistónleika
í Hafnarborg Hanna Dóra syngur við píanóleik Antoníu
Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi
þingmaður og ráðherra, hreppti
spennusagnaverðlaunin Svartfugl-
inn en þau voru afhent í gær í þriðja
sinn. Eliza Reid, forsetafrú og bók-
menntafrömuður, afhenti Katrínu
verðlaunin og fyrsta eintak bókar-
innar, Sykur, sem kom þá út.
Samkeppnin um Svartfuglinn er
ætluð höfundum sem hafa ekki áður
sent frá sér glæpasögu. Höfundarnir
Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jón-
asson stofnuðu til verðlaunanna í
samvinnu við útgefanda sinn, Ver-
öld, og nema verðlaunin 500 þúsund
krónum auk hefðbundinna höfund-
arlauna. Einnig býðst þeim sem sig-
ur ber úr býtum samningur við um-
boðsmanninn David H. Headley en
tímaritið Bookseller útnefndi hann
sem einn af 100 áhrifamestu mönn-
um breskrar bókaútgáfu. Yrsa og
Ragnar skipuðu dómnefndina ásamt
Bjarna Þorsteinssyni, útgáfustjóra
Veraldar.
Dómnefnd taldi sigurhandrit
Katrínar áberandi best af þeim sem
send voru inn að þessu sinni. Í áliti
nefndarinnar um verðlaunasöguna
Sykur segir meðal annars: „Í sög-
unni tekst höfundi í liprum texta að
draga upp mynd af sérlega trúverð-
ugum persónum sem standa and-
spænis skelfilegum glæpum. Fléttan
er ákaflega vel unnin og samhliða
henni er sögð átakanleg fjölskyldu-
saga. Persóna ódæðismannsins er
afar haganlega samansett og sum-
staðar má sjá að höfundurinn hefur
góða innsýn í baksvið íslenskrar
stjórnsýslu. Bókin er grípandi strax
frá fyrstu síðu og allt til óvæntra
endalokanna sem setja söguna í nýtt
samhengi.“
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Spennusagnahöfundur Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi alþingismaður og
ráðherra, ásamt sonum sínum við afhendingu verðlaunanna í gær.
Katrín hreppti
Svartfuglinn
Kvikmyndin Þetta er ekki jarðarför,
þetta er upprisa eða This Is Not a
Burial, It’s a Resurrection, hlaut
Gyllta lundann, aðalverðlaun Alþjóð-
legu kvikmyndahátíðarinnar í
Reykjavík, RIFF, sem lauk um
helgina. Leikstjóri hennar er Lemoh-
angs Jeremiah Moseses og er hann
frá Lesótó.
Í Vitranaflokki hlaut myndin Ein-
manaklettur eða Piedra Sola í leik-
stjórn Alejandros Telémacos Tarrafs
heiðursummæli dómnefndar og í
flokki íslenskra stuttmynda hlaut að-
alverðlaun Já-fólkið í leikstjórn Gísla
Darra. Heiðursummæli dómnefndar
hlaut Animalia í leikstjórn Rúnars
Inga. Verðlaunamyndin í flokki stutt-
mynda íslenskra stúdenta er Raunir
Bellu eftir Andra Má Enoksson og
Önnu Knight. Í flokki alþjóðlegra
stuttmynda hreppti myndin Reki /
Drifting í leikstjórn Hanxiong Bo
hnossið. Heiðursummæli dómnefnd-
ar hlaut stuttmyndin Á milli þín og
Milagros / Entre Tú Y Milagros í
leikstjórn Mariönu Saffon.
Kúgunarsöngvar / Songs Of Re-
pression í leikstjórn Estephans
Wagners og Marianne Hougen-
Moraga var valin besta myndin í
flokknum Önnur framtíð og heiðurs-
ummæli dómnefndar hlaut myndin
Jörðin er blá eins og appelsína / The
Earth Is Blue As An Orange í leik-
stjórn Irynu Tsilyk.
Best Úr kvikmyndinni Þetta er ekki
jarðarför, þetta er upprisa.
Kvikmynd Moseses
hlaut Gyllta lundann
Unnar Örn Auðarson, sýningarstjóri og myndlist-
armaður, flytur fyrirlesturinn „Sjónrænn arfur Halldórs
Péturssonar“ í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands í dag
kl. 12. Þar dregur hann upp mynd af starfi teiknarans
Halldórs Péturssonar (1916-1977) frá miðri 20. öld og
skoðar helstu áhrifavalda í verkum hans. Að fyrirlestri
loknum veitir Unnar stutta leiðsögn um sýninguna Teikn-
að fyrir þjóðina – Myndheimur Halldórs Péturssonar í
Myndasal safnsins en hann er sýningarstjóri hennar. Gest-
ir eru beðnir um að virða sóttvarnareglur og upptaka af
fyrirlestrinum verður birt á YouTube-rás safnsins.
Unnar Örn
Auðarson
Fyrirlestur og leiðsögn um Halldór