Morgunblaðið - 13.10.2020, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 13.10.2020, Blaðsíða 27
ÍÞRÓTTIR 27 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 13. OKTÓBER 2020 Afstaða margra leikmanna íslenskra knattspyrnuliða í efstu deildum gagnvart því að halda áfram keppni á Íslandsmótinu, eða ekki, sem fjallað er um hér á síðunni kemur engan veginn á óvart. Eins og staðan er á höfuð- borgarsvæðinu þessa dagana er lítið vit í því að reyna að spila fótbolta, hvað þá að ferðast á milli landshluta til þess. Það eina rétta er að halda að sér höndum, gera sitt besta til að hefta útbreiðslu kórónu- veirunnar og vonast til þess að faraldurinn sé í rénun. Hafi staðan gjörbreyst næsta mánudag og allt horfi til betri vegar er sjálfsagt mál að gera það sem hægt er til að ljúka Íslandsmótinu á eðlilegan hátt á 2-3 vikum. En sem betur fer setti KSÍ reglugerð til bráðabirgða í sumar sem veitir sambandinu heimild til að hætta keppni hvenær sem er, héðan af, og þá mun hlutfalls- staða liða í deildum verða endan- leg lokastaða. Sum félög myndu hagnast á því, önnur ekki, en slíka ákvörð- un þyrfti að taka með heildar- hagsmuni allra að leiðarljósi. Þá verður að horfa framhjá stund- arhagsmunum einstakra félaga. Undanúrslit og úrslitaleikir eru eftir í bikarkeppni karla og kvenna og eiga að fara fram á fyrstu átta dögum nóvember. Mögulegt væri að ljúka þeim ef ástandið lagast, jafnvel þótt Ís- landsmótinu væri hætt. Bikarúrslitin má eftir sem áður alltaf leika snemma á nýju ári, eða þess vegna næsta vor. Þau þarf ekki að útkljá til að fá Evrópusæti á hreint fyrr en í lok maí. BAKVÖRÐUR Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Töluvert verður um forföll bæði hjá Íslendingum og Belgum þegar liðin mætast í Þjóðadeild UEFA í knatt- spyrnu á Laug- ardalsvelli annað kvöld. Alfreð Finn- bogason, Aron Einar Gunnarsson og Ragnar Sig- urðsson fóru af velli vegna meiðsla í leiknum gegn Dönum, Kári Árna- son sömuleiðis í leiknum gegn Rúm- enum og þá glímir Arnór Sigurðs- son við meiðsli og er ekki leikfær. Til viðbótar eru Gylfi Þór Sigurðs- son og Jóhann Berg Guðmundsson farnir til Englands til að búa sig undir leiki sinna liða í ensku úrvals- deildinni. Í gærkvöldi bárust þær fréttir að ein stærsta stjarna Belga, Kevin De Bruyne, væri kominn aftur til Man- chester City og kemur því ekki til Íslands. De Bruyne bað um skipt- ingu í leiknum gegn Englandi á sunnudag og er því tæpur vegna meiðsla. Fyrr í gær kom fram að varnarmaðurinn Jan Vertonghen yrði ekki með. Þá má geta þess að Belgar voru án Edens Hazard í þessu verkefni þar sem hann var ekki leikfær. Forföll hjá báðum liðum á morgun Gylfi Þór Sigurðsson ÍSLANDSMÓTIÐ Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Tæplega helmingur leikmanna í úr- valsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, vill aflýsa tíma- bilinu en þetta kom fram í könnun á vegum Leikmannasamtaka Íslands. Niðurstöður úr könnuninni voru birtar í gær en 177 leikmenn úr efstu deild kvenna tóku þátt í henni. Þá vilja tæplega 40% þeirra sem tóku þátt í könnuninni í efstu deild karla aflýsa tímabilinu en alls tóku 197 leikmenn karlaliða þátt. Knattspyrnusamband Íslands hef- ur frestað öllum leikjum til og með 19. október vegna kórónuveirufarald- ursins og þá mega lið á höfuðborg- arsvæðinu ekki æfa vegna hertra sóttvarnareglna. Yfirlýst markmið KSÍ er að klára tímabilið í öllum deildum en þrívegis hefur þurft að gera hlé á keppni í efstu deildum karla og kvenna í sum- ar vegna kórónuveirunnar. Bæði kostir og gallar „Það er engin fullkomin lausn á þessu ástandi sem hér ríkir,“ sagði Almarr Ormarsson, fyrirliði KA, í samtali við Morgunblaðið, en KA siglir lygnan sjó í Pepsi Max-deild karla í sjöunda sætinu með 21 stig. „Í mínum huga eru kostir og gall- ar við þá tvo möguleika sem standa okkur til boða. Það er hægt að slaufa mótinu en á sama tíma verður fullt af liðum mjög ósátt með þá niður- stöðu. KR og Fylkir eru í Evrópu- baráttu í úrvalsdeildinni og í 1. deild- inni yrðu Fram, Leiknir frá Fáskrúðsfirði og Magni eflaust mjög ósátt. Kvennamegin yrðu þau lið sem féllu á þennan hátt eflaust líka brjáluð. Eins og ég skil þetta var ákveðið að það væri einn möguleiki í stöð- unni, að slaufa mótinu ef allt fer á versta veg. Það þarf að sjálfsögðu að skoða þennan möguleika og hvort það sé rétta lausnin. Svo er auðvitað bara hinn kost- urinn að bíða og sjá hvað verður. Þetta er erfitt fyrir alla því það er svo hrikalega mikil óvissa í gangi. Liðin fyrir sunnan mega ekki æfa á meðan við megum æfa en það er virkilega óþægilegt fyrir okkur leik- mennina að vita ekkert hvenær verð- ur byrjað aftur að spila eða hvenær liðin fyrir sunnan mega byrja að æfa aftur. Erum við að tala um að mótið sé að fara að klárast um miðjan nóv- ember eða lok nóvember?“ Tekur á hausinn Almarr bendir á að það sé erfiðara fyrir íslenskt knattspyrnufólk að ein- angra sig eins og kollegar þess er- lendis geta gert. „Mér finnst allt of seint að klára mótið í desember. Við erum vön því að vera í fríi í október. Sum lið byrja svo að æfa aftur í nóvember en við sáum strax fram á að æfingum yrði seinkað eitthvað vegna kórónuveiru- faraldursins. Núna er sá möguleiki fyrir hendi að við munum spila út nóvember og eftir allt sem á hefur gengið á árinu verður það erfitt fyrir alla. Undir- búningstímabilið varð nánast að engu, við fengum smá pásu um mitt mót, og svo er aftur pása núna. Það er verið að teygja endalaust á þessu sem er erfitt. Þetta er heldur ekki eins og í atvinnumannadeild- unum erlendis þar sem hægt er að fara fram á að fólk einangri sig þar sem þetta er þess vinna. Á Íslandi eru langflestir leikmenn í skóla eða vinnu og með fjölskyldur. Vissulega fá flestir greitt fyrir þetta karlamegin í efstu deild en stelp- urnar fá ekki mikið greitt. Þetta eru ekki háar upphæðir í neðri deild- unum og það er því erfitt að ætla að fara fram á það við fólk að vera að spila fram í desember. Þetta getur raskað svo miklu hjá leikmönnum, vinnu, skóla sem og fjölskyldulífi. Það er kannski kjána- legt að segja þetta en þetta tekur al- veg á hausinn hjá manni líka.“ Almarr viðurkennir að menn séu ekki í rónni vegna faraldursins. „Ef við ættum að fara og spila fyr- ir sunnan núna þá væri maður stressaður. Það hefur ýmislegt verið gert til þess að minnka líkur á smiti eins og til dæmis að skipta klefunum upp og annað í þeim dúr. Að sama skapi hafa engar auka- skimanir átt sér stað á leikmönnum né starfsfólki. Það þarf því að hafa allan varann á þegar það verður byrjað að spila á ný í næstu nið- ursveiflu, hvenær svo sem það verð- ur því auðvitað er maður sjálfur stressaður fyrir þessari blessuðu veiru eins og aðrir,“ sagði Almarr. Misjafnt flækjustig Dagný Brynjarsdóttir, landsliðs- kona í knattspyrnu og leikmaður Selfoss, er ein af þeim sem vilja klára tímabilið. „Mér finnst gaman að spila og æfa fótbolta þannig að ég vil að sjálf- sögðu klára tímabilið,“ sagði Dagný við Morgunblaðið en Selfoss er í þriðja sæti Pepsi Max-deildar kvenna með 22 stig. „Fyrir þá leikmenn sem eiga að spila landsleiki í lok nóvember og byrjun desember þá hentar það okk- ur mjög vel að spila í nóvember, upp á leikform að gera. Fyrir þá sem eru í vinnu og skóla er flækjustigið orðið aðeins meira núna þar sem að það er ekki hægt að samtvinna fótboltann með sum- arfríinu lengur en ef það er horft til helganna ætti þetta að vera auðveld- ara fyrir þá.“ Dagný viðurkennir að það væri svekkjandi fyrir liðin í neðstu sætum úrvalsdeildar kvenna ef tímabilinu yrði aflýst á þessum tímapunkti. „Mér finnst of langt gengið að tala um að það væri ósanngjarnt að af- lýsa tímabilinu því við höfum enga stjórn á þeim aðstæðum sem eru í þjóðfélaginu í dag. Stundum þarf að fara erfiðu leiðina ef ekkert annað er í boði. Að sama skapi væri hundfúlt að vera í þeim liðum sem eru neðst á töflunni núna, ef ákveðið verður að slaufa mótinu, því vissulega geta bæði liðin enn þá bjargað sér og því sanngjarnast að klára mótið“ Mikið púsluspil Dagný stundar nám í heilsuþjálfun og kennslu í HR, ásamt því að kenna í grunnskólanum á Laugarvatni. „Ég er í mastersnámi í Háskól- anum í Reykjavík og hluti af náminu er að kenna líka í grunnskólanum í Bláskógaskóla á Laugarvatni. Ég er mamma líka og í fótbolta þannig að það er nóg að gera hjá mér og mikið púsluspil en ég á góða að sem er allt- af hægt að treysta á með aðstoð. Ég hef líka fengið góðar und- anþágur frá vinnu og námi þegar við erum að spila leiki á virkum dögum en á sama tíma þarf maður að vera bæði vel skipulagður og andlega gír- aður í verkefnin sem fram undan eru.“ Landsliðskonan viðurkennir að henni standi ekki á sama um kór- ónuveiruna. „Ég er alveg smeyk við að smitast því ég vil alls ekki fá þessa veiru. Í fyrsta lagi veit maður ekkert hvaða afleiðingar þetta getur haft á mann til lengri tíma litið og eins vil ég ekki að fólkið í kringum mig sem er í ákveðnum áhættuhópi fái þetta. Ég reyni að passa mig eins og ég get og í þessari bylgju hef ég vanið mig á það að vera með grímu á mér við nánast allar æfingar, nema þegar að ég sæki son minn á leikskólann og á æfingum,“ sagði Dagný. Með sanngirni að leiðarljósi Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að stefna KSÍ sé mjög skýr og hún sé að klára tímabilið. „Það er stutt í að við munum til- kynna okkar áform um hvernig við hyggjumst klára tímabilið,“ sagði Guðni við Morgunblaðið. „Við höfum rætt við bæði félögin og Íslenskan toppfótbolta (ÍTF) um framhald mótsins og annað í þeim dúr. Þrátt fyrir þá stöðu sem uppi er í þjóðfélaginu tel ég vera almennan vilja fyrir því hjá félögunum að klára mótið. Það er ákveðin sanngirni fólg- in í því að úrslit þess ráðist með eðli- legum hætti á knattspyrnuvellinum. Markmið KSÍ eins og staðan er í dag er að sjálfsögðu að klára mótið og við horfum til þess að ná því markmiði.“ Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir mörg lið í öllum deildum sem eru annaðhvort í baráttum um Evr- ópusæti eða fall og hafa forráðamenn þessara liða verið í sambandi við Guðna undanfarnar vikur. Ásættanleg lausn fyrir alla „Við höfum fengið viðbrögð frá mörgum, bæði frá liðum þar sem mikið er undir og líka þar sem lítið er undir. Það veltur aðeins á stöðu liðanna hver þeirra skoðun er á því hvort klára eigið mótið eða ekki. Við reyn- um að finna lausn sem er ásættanleg og gerleg í núverandi stöðu. Við bindum vonir við að þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins sé í rénun en hlutverk okkar er að sjálf- sögðu að finna lausn sem er ásætt- anlegust fyrir heildina og að sem flestir leikir geti farið fram. Við er- um í algjörlega óþekktum aðstæðum og erum að reyna vinna sem best úr því eins og við mögulega getum.“ Guðni á ekki von á því að spilað verði í desember en segir mikilvægt að allir rói í sömu átt. „1. desember er sú dagsetning sem við erum að miða við og það verði ekki spilað eftir þann dag. Við viljum klára mótið mun fyrr ef það er í boði en það er alveg ljóst að við erum að fara teygja okkur eitt- hvað inn í nóvember með mótið í efstu deild. Vonandi náum við hins vegar að klára aðrar deildir fyrr. Það er samt alveg ljóst að við get- um ekki haldið áfram út í hið óend- anlega en að sama skapi tel ég mik- ilvægt að allir leggi sitt að mörkum til þess að klára Íslandsmótið 2020,“ sagði Guðni við Morgunblaðið. Engin fullkomin lausn  Skiptar skoðanir um hvort ljúka eigi Íslandsmótinu í fótbolta eða hætta keppni vegna kórónuveirunnar  Guðni segir KSÍ stefna alfarið á að spila til loka Ljósmynd/Þórir Tryggvason Óvissa Almarr Ormarsson segir skiljanlegt að leikmenn séu á báðum áttum varðandi framhaldið á Íslandsmótinu og hvort því verði lokið. Morgunblaðið/Eggert Púsluspil Dagný Brynjarsdóttir vonast eftir því að hægt verði að ljúka mótinu, ekki síst vegna landsliðsins sem spilar í lok nóvember.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.