Morgunblaðið - 22.10.2020, Qupperneq 26
26 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. OKTÓBER 2020 VIÐSKIPTAMOGGINN FRAMÚRSKARANDI FYRIRTÆKI
F
yrir 14 árum stofnaði Ómar Gunn-
arsson fyrirtækið Sérefni og líkt og
hann segir þá var það „kortér fyrir
hrun“. Hann átti því fljótt eftir að
kynnast boðaföllum sem líklega hafa litað
hans viðhorf til rekstrar.
Hann er fljótur til svara þegar hann er
spurður um hverju hann þakkar þann árang-
ur að vera nú í sjötta sinn á lista framúrskar-
andi fyrirtækja: „mín heimspeki í viðskiptum
og lukka í viðskiptarekstri er að greina hætt-
urnar betur en möguleikana. Því möguleik-
arnir hafa legið fyrir, en hætturnar verið
miklu hættulegri“.
Ómar sem er veiðimaður grípur til mynd-
líkinga og skýrir út að þegar vaða skal á, þá
þarf að velja vaðið vandlega, taka skrefin ró-
lega og standa öxl í öxl við þann sem vaðið er
með. Betra sé að taka skrefin rólega en að
missa fótanna og lenda í ósi. Þannig lýsir
Ómar sínu viðmóti til viðskipta.
Með þessu er hann ekki að segja að
áhættufælni sé rétta leiðin, heldur fremur að
í viðskiptum þurfi menn að vera varfærnir en
vera útsjónasamir og fljótir að hlaupa til þeg-
ar að tækifærin gefast. „Þetta snýst um að
vera fljótur að skipta um flugu þegar fisk-
urinn er til staðar en gefur sig ekki,“ segir
Ómar og vísar til þess að stundum þurfi ekki
miklar breytingar í vöru og þjónustu til að
laða að nýja viðskiptavini.
Hatar skuldir
Ómar er efnaverkfræðingur að mennt og
hafði frá útskrift starfað í málningargeir-
anum, þegar hann ákvað að reyna sig á eigin
spýtur og stofnaði Sérefni. Í upphafi sér-
hæfði hann sig í sölu á iðnaðar- og skipa-
málningu og harkaði nær eins síns liðs frá
einni sölu til annarrar og reksturinn óx í
hægum skrefum.
Um efnahagshrunið segir hann: „Það er
einfalt. Ég græddi á hruninu og náði að
kaupa fasteignir sem seldar voru á hrakvirði
eftir að fasteignafélög fóru á hausinn.“ Ómar
segist hafa náð að koma undir sig fótunum
án fjarbindinga eða skulda. Svo afdráttarlaus
er hann í skoðun sinni að hann segist hata
skuldir og hefur aldrei trúað eða treyst á
bankakerfið og „væri ekki í þessum sporum
ef ég hefði gert það“.
Ómari er einnig tíðrætt um traust í við-
skiptum en hann segist vilja geta staðið í
skilum við alla, en það sé ekki alltaf svo á
báða bóga. Hann segir að ef „traustið er fall-
ið, þá er allt fallið“ og þannig gangi hann til
leiks.
Tók stórt skref inn í framtíðina
Eftir því sem umfang starfseminnar varð
meira, tók að þrengja að verslun Sérefna í
Síðumúla. Ómar segir að plássskortur hafi
verið orðinn vandamál og tími kominn til „að
hrökkva eða stökkva“. Með sýn til framtíðar
gerði hann í fyrra 14 ára leigusamning fyrir
nýja verslun á Dalvegi, sem hann telur afar
góða staðsetingu. Allt kapp var lagt á að
koma versluninni í gagnið fyrir sumarvertíð-
ina í ár, en hætturnar sem Ómari er tíðrætt
um leynast við hvert fótmál. Hlæjandi segir
hann: „Sá ég fyrir Covid? Nei. Sá ég fyrir
mér þessa miklu söluaukningu? Nei. Sá ég
fyrir mér að flytja inn á háannatíma? Nei.“
En þrátt fyrir ýmis ljón í veginum gekk
dæmið upp og glæsileg verslun á Dalvegi
hefur litið dagsins ljós.
Mikil ráðgjöf til viðskiptavina
Ómar sótti sjóinn á yngri árum og segist
draga þaðan ákveðinn lærdóm um uppsetn-
ingu verslunar. Þar grípur hann aftur til
myndlíkingar og segist líta á verslunina eins
og flæðilínu í frysitogara. Viðskiptavinurinn
þarf ákveðna snertifleti til að fá ósk sína upp-
fyllta: ekkert megi vera þar út undan og
nauðsynlegt sé að tryggja að allt ferlið taki
sem stystan tíma án þess að það komi niður á
gæðum þjónustunnar. Þetta sé áskorun, sér-
staklega þegar mikið er að gera, en Ómar
segir að með skipulagningu megi ná miklum
árangri í þeim efnum. Mikil áhersla er lögð á
ráðgjöf til viðskiptavina og segir Ómar að
fyrirtækið sé leiðandi á því sviði.
Viðskiptatækifæri í heimsfaraldri
Í stað þess að ferðast til útlanda hefur
landinn sótt sér ný hugarefni og segir Ómar
að margir hafi snúið sér að því að breyta og
bæta heimili sín. Málning er upplagt efni til
að gera ásýndarmiklar breytingar án mikils
tilkostnaðar og því hafi sprottið upp skyndi-
legur markhópur í sumar. Ómar segir það
augljóst að á meðan „200 milljarðar“ verða
eftir heima, sem annars var eytt í skemmti-
ferðir ytra, þá aukist viðskiptin í innlenda
hagkerfinu. Innlendir söluaðilar hafi ekki far-
ið varhluta af því og hjá Sérefnum hafi
myndast langar raðir þegar mest lét.
Málning er ekki bara málning
„Okkar lukka og gæfa hefur verið að hafa
aðgengi að góðum birgjum sem eru leiðandi á
sínu sviði,“ segir Ómar og bætir við að máln-
ing sé ekki bara málning. Þannig þurfi að
vanda þá vöru sem hentar á markaðinn og
tækifæri séu að skapa nýjan markað, jafnvel
með vöru sem virðist í býsna föstum skorð-
um. Ómar segir birgjana hafa verið framar-
lega í ýmsum litaafbrigðum, sem séu háð
sveiflum rétt eins og í tískuiðnaðinum. Einnig
hefur hann séð tækifæri í að vera með aðrar
skreytingarvörur, s.s. veggfóður, rósettur og
kalkmálningu. Í raun bjóði Sérefni heildar-
lausn til lita á allt nema flísar og parket.
Vöruþróun er mikil í þessum geira að sögn
Ómars og tæknin taki stöðgum breytingum.
Þannig nefnir hann til dæmis að mött efni
sem hægt sé að þrífa með góðu móti hafi rutt
sér til rúms hjá Sérefnum og nýr markaður
hafi orðið til með þessa vöru, en aðrir hafi
svo fylgt á eftir. Reyndar segir Ómar að það
sé kyndugt þegar viðskiptavinir birtist með
litaspjöld frá öðrum söluaðilum þar sem litir
og samsetningar hafa augljóslega verið
„fengnir að láni“.
Annars segir Ómar að hann horfi hæfilega
mikið á hvað aðrir eru að gera en hugsi frek-
ar um eigin stefnu og horfi þannig fram á
veginn.
sighvaturb@mbl.is
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Mikilvægt að þekkja hætturnar
Sérefni leggja áherslu á framboð nýrra og spennandi lita, sem taka sveiflum í tísku hvers tíma.
686. sæti
FYRIRTÆKI
Lítið 135. sæti
Ómar Gunnarsson
Ómar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sérefna, leggur
áherslu á að greina hætturnar til jafns við tækifærin og
fer sér hvergi óðslega þótt vöxturinn hafi verið góður.