Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.11.2020, Blaðsíða 19
kallast stríðsglæpir, eins og það sé ekki í sjálfu
sér, eðlinu samkvæmt, andstyggilegur glæpur;
mannréttindi, sem ætti að styðja friðsamlega
við, eru stöðugur vígvöllur, það er stöðugt verið
að berjast um þau til að verja og vernda; ríkið
heldur því fram að það hafi einkaleyfi á ofbeldi,
en í fyrsta lagi er það ekki satt og í öðru lagi er
það mjög augljóst að þetta einkaleyfi er misnot-
að: stór hluti jarðarbúa veit að full þörf er á að
óttast, umfram allt annað, lögregluvald ríkisins,
meira að segja þar sem ríkir sterk lýðræðishefð.
Við konur förum heldur ekki varhluta af ofbeld-
inu. Vægast sagt þá höfum við orðið fyrir stans-
lausu ofbeldi karla og erum svo gjörsamlega úti-
lokaðar frá þeim leiðum sem karlmenn hafa
nýtt sér við það, að kannski eru það aðeins kon-
ur, í nútímanum, sem geta fundið friðsama leið
til þess að bannfæra það fyrir fullt og allt. Ekki
nema við ruglum saman sjálfstæði við með-
virkni og endum jafnvel í þessu á valdi karlægra
hefða yfirgangs, útrýmingar, eyðileggingar og
gerum þar með lærðar röksemdir og smá-
smugulegar reglur þeirra að okkar eigin.“
— Skáldsögur þínar draga að sér lesendur hvaðan-
æva að úr heiminum. Hefur þessi alþjóðlegi lesenda-
hópur áhrif á skrif þín? Enza Campino bóksali, Ítalíu.
„Skrif eru mjög persónuleg athöfn. Ég hef allt-
af skrifað fyrir sjálfa mig og mikið af mínum
skrifum eru enn ofan í skúffu. En í hvert sinn sem
ég hef ákveðið að gera sögu opinbera vona ég allt-
af að hún fari eins langt frá mér og mögulegt er,
að hún muni ferðast, að hún muni tala önnur
tungumál en það sem ég skrifaði hana á, að hún
muni enda á stöðum, í húsum, fjarri mér, að hún
muni breyta um miðil og verða að leikhúsverki,
kvikmynd, sjónvarpsefni, teiknimyndasögu.
Þannig hef ég hugsað og það hefur ekki breyst.
Ég er mjög feimin við sjálfar skriftirnar, en þeg-
ar skrifin ákveða að verða að bók verða þau
metnaðarfull, jafnvel ósvífin. Það sem ég á við er
að ég er ekki bækurnar mínar – ég myndi ekki
dirfast að lifa jafn sjálfstæðu lífi og þær gera.
Leyfið bókunum að fara eins langt og þær kom-
ast, ég mun halda áfram að skrifa samkvæmt
mínum smekk, hvernig sem er og hvenær sem
mér hentar. Um leið og þær taka á sig útgáfu-
myndina og yfirgefa mig, hefur sjálfstæði mitt
ekkert lengur með sjálfstæði þeirra að gera.“
— Í skáldsögum þínum togast persónur gjarnan milli
ástar og vináttu. Hvort myndir þú frekar vilja eiga að
eilífu, vin eða elskhuga? Lola Larumbe bóksali, Spáni.
„Ég myndi helst vilja elskhuga sem er fær
um að mynda djúpa vináttu. Það er erfitt að
skilja slíka blöndu þegar maður er ungur, en ef
maður hefur heppnina með sér opnast smám
saman nýr sjóndeildarhringur með aldrinum.
Ég hef alltaf haft gaman af því að lesa gömul
bréfaskipti milli elskenda og rekast á kveðju á
borð við „vinur minn“. Sömuleiðis nafngiftina
„systir“, sem kom fyrst fram í riddarasögum og
birtist eftir það í aldaraðir, mér fannst sú nafn-
gift ekki vera merki um minnkandi ástarþrá:
þvert á móti.“
— Hvernig birtust Lila og Lenù þér? Og hvað er
svona sérstakt við að búa í Napólí miðað við, til dæm-
is, Róm? Suomalainen Kirjakauppa bóksali, Finnlandi.
„Lenù og Lila eru andar, rétt eins og allar
persónur sem búa í sögum. Í fyrstu birtast þær
sem hverfulir svipir eitt andartak, svipir sem
minna á kunnugleg andlit úr fortíðinni sem við
höfum ekki séð lengi eða af látnu fólki. Við föng-
um þær í nokkrum setningum, lokum þær inni í
minnisbók, endurlesum þær síðar. Ef setning-
arnar búa yfir styrk birtast svipirnir aftur og
við sveipum þá fleiri orðum. Og þar fram eftir
götunum: eftir því sem setningarnar hlaðast
upp bæta viðkvæmir svipirnir við sig holdi og
blóði, skilgreina sjálfa sig, með þeim fylgja hús,
götur, landslag, Napólí, söguþráður þar sem allt
hreyfist og hitnar upp, og svo virðist sem aðeins
maður sjálfur sé fær um að gefa þessum óljósu
formum merkingu og jafnvel yfirbragð raun-
verulegs lífs. En það heppnast ekki alltaf vel; í
raun endar það oft illa. Svipirnir rata ekki að
réttum heimilisföngum, eru of óstöðugir, orðin
eru fölsk eða líflaus, borgin er ekkert nema
nafnið og ef einhver spyr þig hver munurinn á
henni og til dæmis Róm sé, veistu ekki svarið og
finnur það ekki í þessum hálfdauðu setningum
sem þú hefur skrifað.“
— Margar af aðalpersónum þínum yfirgefa heima-
borg sína um leið og þær verða fullorðnar. Að
hvaða leyti hefur það áhrif á þroska þeirra? Ieva
Mazeikaite þýðandi, Litháen.
„Það er mikilvægt að fara en ekki úrslita-
atriði. Lenù fer, Lila fer aldrei frá Napólí, en
þær þroskast báðar, líf þeirra er fullt af uppá-
komum. Eins og ég hef áður sagt tengi ég meira
við val Elenu. Við þurfum ekki að óttast breyt-
ingar, það sem er framandi ætti ekki að hræða
okkur. En mér finnst ekki rangt að halda kyrru
fyrir; það sem er mikilvægt er að „sjálfið“ okkar
verði ekki fátækara ef við takmörkum okkur við
einn stað það sem eftir er. Ég kann að meta fólk
sem getur átt djörf ævintýri með því einu að
ferðast götuna sem það ólst upp á frá einum
enda til annars. Þannig sá ég Lilu fyrir mér.“
— Eru skrif einhvers konar sjálfshjálp fyrir þig? Og
hver er skoðun þín á kennsluaðferðum bókmennta í
skólum? Ivo Yonkov þýðandi og Dessi Dimitrova bók-
sali, Búlgaríu.
„Nei, ég hef aldrei litið á skrif sem einhvers
konar meðferðarform. Fyrir mér eru þau eitt-
hvað allt annað: þau eru hnífurinn sem snýst í
sárinu, sem getur verið mjög sársaukafullt. Ég
skrifa eins og þeir sem ferðast reglulega með
flugvélum en eru dauðhræddir við að hrapa,
þeir þjást í gegnum allt flugið, og þegar þeir
lenda gleðjast þeir þótt þeim líði eins og undinni
tusku. Hvað skóla varðar, þá veit ég ekki mikið
um hvernig þeir starfa í dag. Þegar ég var í
skóla, umbreyttist lesefni sem mér fannst
dásamlegt á fullorðinsárunum í einstaklega leið-
inleg verkefni sem þurfti að gefa einkunnir fyr-
ir. Bókmenntakennslan í skólanum takmarkaði
ánægjuna af innlifuninni og ímyndunaraflinu.
Ef þú tekur orkuna úr setningu með því að leika
þér með einhver lýsingarorð eða þetta málsnið
verður ekkert eftir á blaðsíðunni nema litlaus
samsetning bókstafa og það breytir ungu fólki, í
besta falli, í fágaða svikahrappa.“
— Nýjasta bókin lýsir þýðingarmiklu skeiði á ung-
lingsárum Giovönnu. Eru einhver ráð sem þú mynd-
ir gefa sjálfri þér á þessum aldri? Fleur Sinclair bóksali,
Bretlandi.
„Í lífi okkar er það sem er liðið, liðið. Við ræð-
um unglingsárin ekki síðar meir: hvað mig varð-
ar var þetta staðnað, óhaggandi tímabil. Á mín-
um fullorðinsárum hef ég alltaf passað mig að
segja ekki við ungmenni, jafnvel þau sem virð-
ast hamingjusöm: heppin þú. Því fyrr sem þessu
tímabili lýkur, því betra. Á hinn bóginn er un-
aðslegt að skrifa um það. Mig grunar að örlítill
hluti unglingsára gægist í gegnum allar bækur,
sama hvert viðfangsefni þeirra er, einmitt
vegna þess að það er tímabil þruma, eldinga,
óveðurs og skipbrots. Maður er næstum því
barn, næstum því fullorðinn, það tekur líkam-
ann þinn heila eilífð að færa sig úr einu formi yf-
ir í annað. Sjálft tungumálið virðist ekki hafa
rétt snið fyrir þig, stundum talarðu eins og
barn, stundum tjáirðu þig eins og fullorðin
kona, hvort heldur er ertu alltaf vandræðaleg. Í
raun breytist fortíðin ekki. En þegar maður
skrifar skipta unglingsárin endalaust um lit.
Hvert brot fellur á réttan stað og öðlast skyndi-
lega sína réttmætu merkingu í sögunni. Við
skriftirnar fer þessi trufl-
andi og kæfandi tími, á
mörkum fullorðinsáranna,
að flæða, skapaður og
endurskapaður, finnur
sinn eigin hvata.
— Hver eru möguleg áhrif
kórónuveirunnar á stöðu
kvenna og myndir þú hafa
áhuga á því að skrifa um
það? Malgorzata Zawieska
bóksali, Póllandi.
„Ég finn enn fyrir afleiðingum óttans og ráða-
leysisins yfir því hve lífsskilyrði þeirra varnar-
lausustu á jörðinni hafa versnað á nokkrum vik-
um. Ég hef ekki sérstakan áhuga á veirunni
sjálfri. Það er viðkvæmni kerfisins sem hefur
hrætt mig, svo mikið að ég á í raun erfitt með að
útskýra það. Þá meina ég hversu skyndilega var
þrengt að öllu. Konur hafa fengið fleiri tilskip-
anir en vanalega, þeim er ætlað, eins og venjan
er, að gleyma sjálfum sér og sjá um afkomu og
þarfir fjölskyldunnar: fæða hana, gæta hennar,
annast börnin, einangra þau, einangra sjálfar
sig og upplifa samviskubit yfir öllu, líkt og þær
hafi fram að þessu haft of miklar væntingar. Nú
virðist skref aftur á bak óhjákvæmilegt til þess
að fullnægja frumþörfunum: mat, vatni, þaki yf-
ir höfuðið, lyfjum.
Já, frekar en að tala um útbreiðslu faraldurs-
ins ættum við að segja frá því hvernig útbreiðsla
óttans breytir okkur, kippir fótunum undan
æðri kröfum og metnaði, í stuttu máli undan
öllu þessu sem þykir sjálfsagt í efnahags-félags-
og menningarkerfinu sem þykist vera traust.
En, eins og ég sagði, þá þarf ég að hugsa málið.
Nú er vandinn hvað sé hægt að gera til að halda
málefnum kvenna miðlægum. Það þarf að líta á
þau sem grundvallaratriði.“
— Er einhver aukapersóna sem stendur þér hvað
næst? Tim van den Hoed bóksali, Hollandi.
„Ef ég verð að segja satt, sem höfundur,
finnst mér ég vera móðir Solaras. Með þessari
rauðu okurlánabók hefur hún allt hverfið í greip-
um sér þó hún sé smávaxin kona með minni
háttar vægi. Hún birtist aðeins á nokkrum lín-
um, að kafna úr hita að kæla sig með blævæng.“
— Hvaða merkingu hefur hugtakið „skrif kvenna“
fyrir þér? Bókabúðin Readings, Victoria, Ástralíu.
„Ég ætla að nýta þessa spurningu þína til
þess að útskýra. Það er ekkert að því að tala um
„skrif kvenna“ en það þarf að gera varfærnis-
lega. Fyrst það er til reynsla sem er óneitanlega
kvenlæg, ætti öll tjáning, hvort sem hún er töluð
eða skrifuð, að bera ótvírætt handbragð konu.
En svo er því miður ekki. Allar þær aðferðir
sem við konur notum til þess að tjá okkur til-
heyra okkur í raun ekki, heldur eru, sögulega,
afurð feðraveldis, umfram allt málfræði, setn-
ingafræði, einstök orð, jafnvel lýsingarorðið
„kvenkyns“ með öllu sem því tilheyrir. Bók-
menntaskrif eru því augljóslega ekki undan-
skilin. Þannig geta kvennabókmenntir aðeins
mjakað sér með erfiðismunum, innan hinnar
karlægu hefðar, jafnvel þótt þær troði sér
áfram, jafnvel þegar þær leita eftir sinni eigin,
sérstöku tegund, jafnvel þegar þær gleypa í sig
og, innan gefinna marka, gera samneyti
kynjanna og hina óbreytanlegu kynferðislegu
löngun að sinni.
Þýðir það að við séum fangar, að okkur sé ætl-
að að dvelja í skugga tungumálsins sem við
reynum að nota til þess að tala um okkur sjálfar?
Nei. Við verðum þó að átta okkur á, að í þessu
samhengi, felst tjáning okkar í því að prófa sig
áfram og gera mistök. Við verðum stöðugt að
vinna út frá þeirri tilgátu að við séum, þrátt fyrir
miklar framfarir, ekki alveg sýnilegar, ekki al-
veg heyranlegar, ekki alveg skiljanlegar og að
við þurfum að hræra upp í reynslu okkar ótal
sinnum, eins og gert er við salat, enduruppgötva
óvæntar raddir fólks og fyrirbæra. Við þurfum
að finna hina dularfullu leið (eða leiðir), sem
byrjar á sprungu í einhverju sem áður var
rótgróið, til þess að skrifin komi meira að segja
okkur sem skrifum á óvart.“
— Hvernig vinnur þú? Lagfærirðu mikið, og þá
hvernig? Ann Goldstein þýðandi, Bandaríkjunum.
„Ég byrja með ekkert í höndunum og mark-
miðið er að enda á samanþjöppuðu, óreiðu-
kenndu uppkasti. Sú vinna er óskaplega þreyt-
andi. Það fer mikil orka í að fá út texta sem
hefur upphaf, endi og sinn eigin kraft. Þetta er
langt ferli, eins og að fylgjast með lífveru sem er
ekki með mótaða andlits-
drætti vaxa. Einstaka
sinnum er þetta ekkert
mál og ég þýt áfram, jafn-
vel án þess að lesa yfir, en
það er sjaldgæft. Oftar en
ekki skrifa ég nokkrar lín-
ur á hverjum degi, skrifa
og endurskrifa. Reglulega
missi ég alla ást á text-
anum og legg hann til hlið-
ar. En við skulum ekki
hugsa um það kvalafulla ferli núna. Þess í stað
vil ég segja þér, kæra Ann, að ég finn ekki fyrir
alvöruhamingju við skriftir fyrr en eftir að þessi
undirbúningsvinna ber ávöxt. Ég byrja aftur frá
byrjun. Ég eyði heilum köflum, ég endurskrifa
heilmikið, ég breyti um stefnu og jafnvel eðli
persóna, ég bæti við hlutum sem virðast nauð-
synlegir eftir að textinn er kominn á blaðið, ég
þróa atriði sem áður var einungis ýjað að, ég
breyti tímaröð ákveðinna atburða, ég sæki
ósjaldan aftur í blaðsíður sem ég var búin að
henda – eldri, lengri, kannski ljótari útgáfur en
mikilvægari. Ég sinni þessu starfi ein, ég myndi
ekki deila því með neinum. Á vissum tímapunkti
þarf ég þó eftirtektarsama lesendur sem ein-
beita sér að óvandvirkni minni: mistökum í
tímaröð, endurtekningum, óskiljanlegu orðfæri.
Ég óttast tillögur sem eiga það til að gera text-
ann of venjulegan, tillögur á borð við: ekki segja
þetta svona, það er ekki nóg af greinamerkjum,
þetta orð er ekki til, þetta er rangt orðfæri,
þetta er ljót lausn, þetta er fallegra svona. Fal-
legra? Ritstjórn sem byggir á núverandi fag-
urfræði viðurkennds hefðarveldis er hættuleg.
En það á líka við ritstjórn sem ýtir undir frávik
frá því almenna og vinsæla. Ef ritstjóri segir:
það er margt gott í þessum texta en við þurfum
að vinna í honum, það væri betra fyrir þig að
draga handritið til baka. Þessi fyrstu persónu
fleirtala er ógnvekjandi.“
Þýðing: Hólmfríður María Bjarnardóttir og
Þóra Sif Guðmundsdóttir.
Svona birtust vinkonurnar Lila Cerrullo og
Elena Greco í fyrsta þætti sjónvarpsþátt-
araðarinnar Framúrskarandi vinkona sem
byggist á frægum þrílek Elenu Ferrante.
’Ég hef ekki sérstakanáhuga á veirunni sjálfri.Það er viðkvæmni kerfisinssem hefur hrætt mig, svo
mikið að ég á í raun erfitt
með að útskýra það. Þá
meina ég hversu skyndilega
var þrengt að öllu.
22.11. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19