Morgunblaðið - 04.12.2020, Side 19
MINNINGAR 19
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. DESEMBER 2020
✝ RagnhildurAndrésdóttir
fæddist á Saurum í
Hraunhreppi 7.
september 1947.
Hún lést á líkn-
ardeild Landspít-
alans í Kópavogi 8.
nóvember 2020.
Foreldrar henn-
ar voru Andrés
Guðmundsson og
Lilja Finnsdóttir,
bændur á Saurum. Systkini
hennar voru Guðmundur Ragn-
ar, Hervald, Óskar, Unnur, Guð-
rún, drengur, Þorsteinn Arnar,
Guðbjörg Stefanía og Bragi.
Ragnhildur giftist Ölver
Benjamínssyni, f. 24.5. 1945,
þann 6. maí 1967. Þau hófu bú-
skap í Stóra-Langadal sama ár.
Árið 1973 fluttu þau að Ystu-
Görðum og tóku við búi foreldra
Ölvers, þeirra Benjamíns Mark-
ússonar og Arndísar Þorsteins-
dóttur, og hafa búið þar síðan.
Ragnhildur og
Ölver eignuðust 5
börn. 1) Óskar,
maki: Þórunn Sig-
ríður Þorsteins-
dóttir. Barn: Mark-
ús Loki. 2) Benja-
mín, börn: Jóhann
Ólafur, Magnús og
Jón Grétar. 3)
Andrés, maki: Þóra
Sif Kópsdóttir.
Börn: Ragnhildur,
Ársæll Dofri og Árbjartur Angi.
4) Björk Ben, börn: Snædís og
Patrekur Alex. 5) Björgvin,
maki: Margrét Kolbeinsdóttir.
Börn: Ölver og Emil.
Langömmubörnin eru 2.
Útför Ragnhildar fer fram
frá Borgarneskirkju í dag, 4.
desember 2020, og er henni
streymt á eftirfarandi vefslóð:
http://kvikborg.is
Virkan hlekk á streymi má
nálgast á:
https://www.mbl.is/andlat
Elsku mamma, sem alltaf
varst til staðar ef maður vildi. Ég
vildi óska að við hefðum fengið að
hafa þig lengur hjá okkur.
Við áttum ekki alltaf skap
saman við mamma og hún var
þannig minn helsti kennari í líf-
inu til þessa, kenndi mér að vera
ekki meðvirk og standa með
sjálfri mér. Ég er svo þakklát
fyrir allt sem hún kenndi mér og
fyrir að hafa fengið að fæðast inn
í hennar líf og vera elskuð af
henni.
Ég var svo heppin að það var
Covid þegar hún var orðin mikið
veik, þá gat ég fengið að hafa
hana hérna heima hjá mér en
ekki inni á stofnun, því þá hefði
enginn getað heimsótt hana. Það
var ómetanlegt og ég er svo
þakklát fyrir það.
Kistulagning hennar var á af-
mælisdaginn minn og ég er líka
svo þakklát fyrir það, því ég get
alltaf yljað mér við það að hafa
séð mömmu mína í síðasta sinn á
sjálfan afmælisdaginn minn.
Alltaf setti hún aðra í fyrsta
sæti á undan sínum þörfum. Ég
er þakklát fyrir að hún gerði það
og hennar leið í gegnum lífið var
svo sannarlega að vera fyrir aðra
en ekki sig. Ég naut góðs af því
eins og aðrir í hennar nánasta lífi.
Hennar leið var öðruvísi en
mín og ég veit núna að við eigum
öll okkar eigin leið. Ég er æv-
inlega þakklát fyrir að hún setti
mig í fyrsta sæti á undan sér, en
ég skil að það er ekki gott að gera
það ef maður ætlar að sinna sjálf-
um sér vel. Ég er því líka þakklát
fyrir að hún hafi kennt mér það.
Nú er hún farin annað, á nýja
leið þar sem hún lærir nýja hluti.
En ég er eftir og hef allan kær-
leikann og hlýjuna, ástina og um-
burðarlyndið sem hún kenndi
mér og get gefið það áfram til
minna nánustu.
Takk, elsku mamma, fyrir allt
sem þú hefur kennt mér, alla ást-
úð þína og hlýju og fyrir að stuðla
að því að ég er sú sem ég er í dag.
Elsku mamma.
Mundu að þú ert elskuð sama hvar þú
ert, hvíldu í friði.
Dreymdu þína fallegu drauma þar til
sál þín svífur á braut
og þú breytist í fallegan engil sem vakir
yfir okkur hinum sem eftir erum.
Björk Ben Ölversdóttir.
Amma mín var ótrúleg kona.
Hún var svo ljúf og yndisleg á
sama tíma og hún var algjört
hörkutól. Hún var mjög vitur og
oft hélt ég að hún vissi einfald-
lega allt. Hún huggaði mig hik-
laust ef ég var eitthvað sár og var
alltaf til staðar þegar ég þurfti á
henni að halda. Sjaldan hefur af-
kastameiri prjónari gengið um
þessa jörð og hún passaði mjög
vel upp á það að mér yrði ekki
kalt og sá alltaf til þess að ég ætti
nóg af ullarpeysum og ullarsokk-
um.
Það leið nánast aldrei dagur
þar sem það var ekki eitthvað
gott til með kaffinu heima hjá
ömmu. Ég man svo vel eftir því
þegar ég var lítil og við vorum að
gera vöfflur með kaffinu og hún
kenndi mér að búa til súkku-
laðiglassúr. Öllu skellt í skál, eitt-
hvað dass og sirkabát og síðan
smökkuðum við það til. Það er
henni og mömmu að þakka að ég
hef aldrei á ævinni getað fylgt al-
veg uppskriftinni á nokkrum
hlut. Til hvers að stressa sig á
einhverju þegar þú getur bara
smakkað þetta til. Elsku amma
mín, þú munt alltaf skína sterkt í
gegnum mig og í mínu hjarta
munt þú alltaf vera dansandi á
skýi.
Ég elska þig svo mikið
elsku amma mín
þú bakar kökur
og býður mér til þín
spilar við mig ólsen
og prjónar á mig
svo ég sé fín
gefur mér súkkulaðibita
og kyssir á öll bágtin mín.
Ég veit að guð geymir þig
því þú ert engillinn minn
í hjarta mínu hefurðu alltaf búið
og munt alltaf búa
ég elska þig endalaust mikið
og ást þín mun alltaf
að mér hlúa.
Alla daga
og allar nætur
umvefja mig
þínar rætur
en þú geymir
alltaf hjartað mitt
því ég verð
alltaf gullið þitt.
(RA)
Ragnhildur Andrésdóttir.
Elsku amma, þú ert besta
amma í alheiminum.
Takk fyrir að vera svona góð
við okkur.
Elsku amma.
Þegar ég hugsa um engla, hugsa ég
um þig.
Með stóra vængi og innilegt bros.
Ég vildi óska að ég gæti gefið þér eitt
knús í viðbót.
En ég veit ég get alltaf lokað augunum
og þá kemur þú til mín.
Patrekur Alex Ívarsson
og Snædís Ívarsdóttir.
Æviár Raggýjar urðu ekki
mörg á okkar mælikvarða. Þau
sem hún fékk voru gjöful og
spönnuðu ólíka þjóðarhætti. Hún
ólst upp við hefðbundin sveita-
störf á Saurum. Þar bjuggu
amma og afi og afkoman ekki ólík
sem títt var í íslenskri sveit 1930
- 1970. Hún byggðist á striti, út-
sjónarsemi og hagsýni. Verk
voru unnin með höndum, innan
bæjar og utan. Vélvæðingin var á
frumstigi, Farmal Cub og Nalli
leystu þó hestöflin af hólmi. Raf-
magn kom loks, framleitt af mót-
or sem Hansi í Hraundal kom
fyrir. Á Saurum var alltaf nóg að
bíta og brenna. Góðs atlætis og
rausnar nutu allir sem komu
bæði til skemmri og lengri dval-
ar. Fjöldi barna naut hlýju og
elskusemi Lilju og Andrésar.
Uppvöxtur litar líf okkar. Höfð-
ingsskapur og fádæma dugnaður
einkenndu Raggý, eðlisþættir
sem hún hlaut í æsku. Hún laðaði
til sín fólk og eftir því sem þeir
eldri hafa fallið frá gegndi hún
hlutverkinu að treysta frænd-
skap og fjölskyldubönd. Ung
giftust hún og Bóa. Þau hófu bú-
skap í Stóra-Langadal og bollok-
uðu þar í fjögur ár. Strax tók hún
að huga að öldruðum á næstu
bæjum sem nutu dugnaðar
þeirra. Eftirminnilegar eru frá-
sagnir af nágrönnunum. Það virt-
ist vera öðruvísi heimur á Skóg-
arströnd. Þegar þau fluttu að
Ystu-Görðum fór í hönd stórtæk
uppbygging. Bæði gegndi hún
lykilstörfum í mjólkurframleiðsl-
unni og mjólkaði kvölds og
morgna. Matargerðin var mynd-
arleg. Máltíðir í hádegi og á
kvöldin auk kaffitíma með ríku-
legu kaffibrauði. Þá er ótalin öll
handavinnan, saumaskapur og
prjónles. Lopapeysur urðu til á
færibandi. Þau eru víða ung-
barnateppin frá Raggý og hel-
sjúk undir lokin spurði hún hvort
litla frænkan, sem væntanlega
var, væri fædd. Miklum tíma var
varið til þess að hugsa um aðra,
um foreldrana, Lillu systur sína
sem kvaddi í byrjun september
og afkomendurna sem fer fjölg-
andi. Raggý stóð og vaktina í
Kolbeinsstaðahreppnum. Hún
gat ekki til þess vitað að bóndi á
næsta bæ væri matarlítill á jól-
um. Þau hjón höfðu yndi af að
ferðast og gerðu víðreist um
heiminn þegar um hægðist. Sein-
asta utanlandsferðin var farin í
upphafi veirufaraldursins þegar
hún hélt sínu striki og fór eins og
jafnan til Kanaríeyja til þess að
sækja sér vorið og hvíldina. Það
var dæmigert fyrir Raggý sem
kunni að lifa og njóta. Þótt sam-
vistir okkar frænkna væru stop-
ular í seinni tíð þá voru ekki aðr-
ar skýringar á því en að báðar
höfðu í ýmsu að snúast. Á ung-
lingsárum hennar var fastur lið-
ur haustverka á Beigalda að hún
kom til hjálpar systur sinni og
mági. Hún birtist með mjólkur-
bílnum glaðbeitt og hress. Gekk
til allra verka í sláturtíðinni og
hjálpaði til með okkur systkinin.
Það var alltaf stutt í hlátur og
sprell.Hún var þeim sem dóttir
enda smástelpa á Saurum þegar
strákurinn frá Álftártungu tók að
gera hosur sínar grænar fyrir
heimasætu á Saurum. Við ótíma-
bært fráfall Raggýjar er hrokk-
inn strengur til fortíðarinnar og
þess umhverfis sem við ættingj-
arnir erum sprottnir úr. Að lok-
um er samfylgdin þökkuð og öll-
um eftirlifendum sendar
samúðarkveðjur.
Lilja Árnadóttir.
Sólargeisli brýtur sér leið
gegnum skýjahulu á heldur
gráum haustdegi þegar mér eru
færðar sorgarfréttir. Raggý, kær
frænka mín, hefur kvatt. Fréttin
kom ekki á óvart. Raggý barðist
lengi við illvígan sjúkdóm sem
hafði loks betur.
Hikleysi er orð sem kemur
upp í huga mér þegar ég hugsa
um Raggý mína. Hún gekk hik-
laust til verka, óttaðist ekki að
takast á við viðfangsefnin sem
urðu á vegi hennar. Margir nutu
góðs af hikleysi hennar, dugnaði
og góðum úrræðum.
Raggý var yngsta systir pabba
míns sem var elstur tíu barna afa
og ömmu, Andrésar og Lilju,
bænda á Saurum í Hraunhreppi.
Þegar við Andrjes bróðir minn
komum, smákrakkar, í sveitina
til afa og ömmu voru Raggý og
Bragi, yngsti bróðirinn, um ferm-
ingu.
Fátt var meira tilhlökkunar-
efni í bernskunni en að fá ætt-
ingjana „ofan að“ í heimsókn.
Heimili foreldra minna stóð alltaf
opið fyrir frændfólkinu úr sveit-
inni. Okkur til mikillar gleði
nýttu þau það oft. Þá var hátíð í
bæ. Það var alltaf dálítið sérstakt
að sjá ættingjana komna suður í
betri fötunum til að erinda eitt og
annað í bænum. Kannski þurfti
að hitta lækni, kannski versla dá-
lítið eða bara lyfta sér upp.
Raggý og eftirlifandi eigin-
maður hennar, Ölver Benjamíns-
son, eignuðust fimm börn. Ég
hlaut þann heiður að verða fyrsta
kaupakonan þeirra þegar þau
hófu búskap í Stóra-Langadal á
Skógarströnd síðla á sjöunda
áratugnum. Þar er geysifallegt
og ber dalurinn nafn með rentu.
Þar var dreifbýlt en góðir grann-
ar. Raggý og Bói leigðu jörð sem
er sú innsta í dalnum og sam-
nefnd honum.
Hlutverk mitt var að passa
Óskar, frumburðinn, þá korna-
barn. Nóg var af verkefnum og
stelpan að sunnan lærði ýmislegt
af frænku sinni. Raggý sýndi
strax þá rétt rúmlega tvítug, eig-
inkona, móðir og bóndi, að hún
fór vel skóuð út í lífið. Hún gekk
hiklaus til verka úti sem inni, allt-
af rösk og afkastamikil. Hún
mundaði hrífuna, sleifina,
skrúbbinn og prjónana af sama
krafti. Þegar bærinn fylltist af
gestum var veisluborð reitt fram
alveg eins og hjá ömmu og
frænkum mínum, systrum Rag-
gýjar. Minningar mínar frá
sumrunum tveimur hjá Raggý og
Bóa eru ljúfar. Þau reyndust mér
góð bæði tvö.
Raggý og mamma mín voru
nánar mágkonur alla tíð þótt ald-
ursmunur þeirra spannaði tutt-
ugu ár. Raggý hélt lengst allra af
ættfólkinu áfram að koma og
gista hjá mömmu þegar hún kom
í bæinn. Hvað þeim fór á milli
fær enginn að vita héðan af. Þeg-
ar mamma var orðin ekkja heim-
sótti hún Raggý og Bóa oft í
Ystu-Garða. Hún kom alltaf end-
urnærð úr þeim reisum.
Það er sárt að kveðja ættar-
stólpa og vinkonu eins og Raggý
frænku. Við erum mörg frænd-
systkinin sem höfum horft upp á
elskaða frænku heyja harða bar-
áttu sem sýnilega var við ofurefli
núna í haust. Við syrgjum hana
sárt. Við systkinin og fjölskyldur
okkar sendum Bóa, Óskari,
Benna, Andrési, Björk, Björgvini
og fjölskyldum innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Guðlaug Guðmundsdóttir.
Enn einu sinni hefur verið vit-
laust gefið. Við kveðjum nú mína
ágætu frænku, Ragnhildi Andr-
ésdóttur, Raggý, sem lést 8. nóv-
ember sl. aðeins 73 ára.
Raggý ólst upp á Saurum í
Hraunhreppi á Mýrum og bjó
þar ásamt foreldrum sínum, Lilju
Finnsdóttur og Andrési Guð-
mundssyni. Systkinin voru alls
tíu en þegar ég kom fyrst að
Saurum voru þar, auk Raggýjar,
Óskar, Lilla og Bragi.
Svo lengi sem ég man var það
helsta sumarfrí okkar fjölskyld-
unnar að fara að Saurum og
hjálpa til við heyskapinn. Það
þótti því ekkert tiltökumál að
senda mig sjö ára gamla með
áætlunarbílnum til sumardvalar
til þessa góða skyldfólks. Hún er
ógleymanleg fyrsta ferðin mín
sem tók allan daginn því víða var
stoppað. Loks komum við að af-
leggjaranum heim að Saurum. Á
brúsapallinum biðu þau Lilla og
Bragi sem höfðu komið nokkurra
kílómetra leið á vagninum með
honum Óðni.
Ekki voru miklir kærleikar
með okkur Raggý þessi ár mín í
sveitinni. Þessi „Reykjavíkur-
stelpa“ sem komin var og tók frá
henni bróðurinn. Þetta var auð-
vitað vel skiljanlegt en við Bragi
vorum jafnaldrar og mikill þros-
kamunur á tveimur árum á þessu
aldursskeiði.
Svo liðu árin og við frænkur
hittumst ekki í langan tíma.
Raggý hitti sinn lífsförunaut,
Bóa; þau giftu sig ung og hófu
búskap. Þau voru harðduglegt
fólk, ráku stórt kúabú til margra
ára og eignuðust fimm börn á tíu
árum.
Það kom að því að við frænkur
tókum aftur upp þráðinn og hitt-
umst og spjölluðum saman mjög
reglulega. Ekki var ekið fram hjá
Görðum án þess að koma þar við
og alltaf svignuðu borðin undan
veitingunum. Raggý var mjög
ættrækin í stórum frændgarði og
því var það fyrir aldarfjórðungi
að við frænkur stóðum fyrir all-
stóru ættarmóti. Komu þarna
saman afkomendur þeirra systk-
inanna, Lilju, Ragnars og
Ágústs, og auk þess líka hálf-
bróður þeirra, Valdimars Davíðs-
sonar. Var þetta einstaklega vel
heppnað, skemmtilegt og gaman
að hitta skyldfólkið okkar sam-
ankomið.
Raggý og Bói voru dugleg að
halda tengslunum en þau komu
nokkrum sinnum til okkar Krist-
ins þegar við bjuggum á Akur-
eyri og heimsóttu okkur líka í
Geðbótina í Landsveitinni. Við
frænkur hittumst oft þegar
Raggý kom suður og fórum þá
gjarnan að heimsækja aðrar
frænkur. Voru allar þessar sam-
verustundir gefandi og góðar.
Fyrir nokkrum árum losuðu
þau sig við kýrnar og fóru að
njóta lífsins. Ferðalög voru ofar-
lega á baugi og höfðu þau ferðast
víða innanlands og utan og voru
áform um að heimsækja enn
fleiri staði. Í fyrravor hitti ég þau
á Keflavíkurflugvelli, við öll á leið
til Kanaríeyja. Þau að fara í sína
tuttugustu og eitthvað ferð, ég í
mína fyrstu. Gaman var að sjá
hversu mjög þau nutu Kanarí-
eyja sem þau þekktu orðið svo
vel og ætluðu sannarlega að fara
oftsinnis enn.
En fljótt skipast veður í lofti.
Ég kveð kæra frænku mína
með miklum söknuði og þakklæti
en mestur er söknuður Bóa og
elsku Bjarkar, einkadótturinnar,
sem horfir nú á eftir ástkærri
móður en samband þeirra
mæðgna var sérlega fallegt og
sterkt.
Við Iðunn sendum ykkur öll-
um, kæra frændfólk, hjartanleg-
ar samúðarkveðjur.
Sigríður Ágústsdóttir.
Sumir samferðamenn hafa
meiri mótandi áhrif og setja
sterkari svip á umhverfi sitt en
aðrir. Raggý yngsta móðursystir
mín og fyrirmynd var einmitt
þannig. Raggý hafði sterkan og
eftirminnilegan persónuleika.
Eðliskostir hennar voru margir,
hún var yfirleitt kát og oftast
orðheppin, hún bjó yfir æðruleysi
og umburðarlyndi, hún var
félagslynd, kærleiksrík, hlý og
styðjandi. Hún var afbragðs-
kokkur og mikil handavinnu-
kona. Hún prjónaði mikið og
hratt. Peysur, sokkar, vettlingar
og húfur urðu til á undraverðum
hraða.
Á tímamótum verður ekki hjá
því komist að minningaleiftur
skjóti upp kollinum. Ég minnist
ótalmargra gagnkvæmra heim-
sókna og samverustunda frá því
ég man eftir mér og til hinstu
stundar hennar. Fyrstu minning-
arnar tengjast læknum og bíla-
kirkjugarði sem var undurgaman
að leika í og svo var komið inn og
notið dýrindisveitinga. Oftar en
ekki var ég holdvot eða með
smurolíu á fingrunum eftir leik
okkar frændsystkina en yfir því
var ekki fárast. Þegar ég varð
fullorðin voru börnin mín með í
för og fengu þau bæði að vera um
skemmri og lengri tíma í sveit-
inni hjá ömmu Raggý eins og þau
kölluðu hana. Fjósið var undra-
veröld þar sem Raggý og Bói
gengu samhent til verka og litlir
gestir voru velkomnir. Eftir því
sem árunum fjölgaði urðum við
frænkur vinkonur og við gátum
rætt allt milli himins og jarðar.
Raggý smitaði mig af prjóna-
bakteríunni, hún var minn helsti
leiðbeinandi í því handverki og
mörg ráðin sótti ég til hennar í
matargerðarlistinni. Þegar við
sátum saman í Ystu-Görðum
stöðvaðist tíminn og ekkert
skipti máli nema samveran við
frænku þar sem málin voru rædd
í takt við tif prjónanna. Enda var
það svo að eftir slíkar heimsóknir
var undirrituð undantekningar-
laust endurnærð á líkama og sál.
Eftir að veiran lét á sér kræla
síðasta vetur nutum við þess að
hittast „online“ í hverri viku,
ásamt tveimur öðrum frænkum,
og prjóna saman þar sem hitt-
ingur í raunheimum var of
áhættusamur.
Síðasta heimsókn mín til
Raggýjar var á heimili dóttur
hennar fáum dögum áður en hún
dó, það var verulega af frænku
dregið en þó var styrkur í öllum
skilningi í faðmlaginu hennar.
„Sorgin er gjaldið sem við
greiðum fyrir að elska aðra,“
sagði séra Anna Eiríksdóttir við
útför Lillu, systur Raggýjar, síð-
astliðið haust. Þetta eru sönn orð
og nú er komið að mér að greiða
gjaldið. Ég kveð elsku Raggý
með innilegu þakklæti fyrir að
hafa fengið að hafa hana í lífi
mínu sem frænku og vinkonu og í
þeirri fullvissu að ég hef núna
eignast enn einn verndarengil-
inn. Bóa og afkomendunum öll-
um votta ég mínar dýpstu samúð.
Steinunn Þórdís.
Ragnhildur
Andrésdóttir
Minningarvefur á mbl.is
Vefur þar sem er sameinað efni sem snýr að
andlátum og útförum. Þar eru birtar andláts-,
útfarar- og þakkartilkynningar sem eru að-
gengilegar öllum en auk þess geta áskrifendur
lesið minningargreinar á vefnum.
þjónustuaðila sem aðstoða þegar andlát ber
ætlaðar aðstandendum við fráfall ástvina.
www.mbl.is/andlát
Minningar
og andlát