Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 4
4 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18
EVA HALLDÓRSDÓTTIR LÖGMAÐUR
RITSTJÓRI
ORÐRÆÐAN
UM FULLVELDIÐ
Það kennir ýmissa grasa í efnismiklu síðasta tölublaði
ársins.
Þórunn Guðmundsdóttir lögmaður er í forsíðuviðtali
að þessu sinni. Þessi reyndi og farsæli lögmaður segir í
áhugaverðu viðtali frá sinni reynslu af lögmennsku, sem
hún hefur stundað samfleytt í um það bil 35 ár. Hefur
hún á þeim tíma þurft að takast á við mál af ýmsum toga
og segir einnig frá því hvernig tækniþróun undafarin ár
hefur breytt störfum stéttarinnar.
Þórunn komst í sögubækur Lögmannafélags Íslands þegar
hún varð fyrsti kvenkyns lögmaðurinn sem var kjörinn
formaður þess. Þetta var árið 1995 og á þeim tíma var
mikill meirihluti félagsmanna karlmenn. Þórunn gegndi
stöðunni til ársins 1997 en frá þeim tíma hefur konum
fjölgað umtalsvert í félaginu og hlutfall kynjanna jafnast.
Eins merkilegt og það nú er liðu hins vegar rúm 20 ár þar til
annar kvenmaður tók við forystu í félaginu þegar Berglind
Svavarsdóttir var kjörin formaður á aðalfundi síðastliðið
vor. Það má velta fyrir sér hvað valdi því að ekki hafi fleiri
konur gegnt formennsku. Þar koma til margir þættir og
þessi leiðari er of stuttur til að kryfja öll sjónarmið í því
sambandi. Þó má segja að til framtíðar litið sé hins vegar
mikilvægt að huga að sjónarmiðum um jafnrétti kynjanna
þegar kemur að því að kjósa forystu félagsins.
Í blaðinu er einnig að finna einkar áhugaverð grein Dr.
Davíðs Þórs Björgvinssonar um fullveldi en líkt og kunnugt
er fögnuðum við aldarafmæli fullveldis Íslands 1. desember
sl. með pompi og prakt. Á þeim degi voru 100 ár liðin frá
því að sambandslagasamningurinn tók gildi og Ísland varð
frjálst og fullvalda ríki.
Í grein sinni leggur Dr. Davíð Þór út af fullveldi í lögfræði
legum skilningi. Greining hans á einkar vel við um þessar
mundir enda hafa umtalsverðar deilur átt sér stað á
opinberum vettvangi um svokallaðan þriðja orku pakka
Evrópusambandsins sem Ísland þarf að innleiða vegna
aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Í grunninn er um
að ræða innleiðingu regluverks um flutning á orku milli
landa og stofnun orkustofnunar Evrópu (ACER).
Sú skoðun hefur verið nokkuð óumdeild hér á landi,
undanfarin ár hið minnsta, að innganga Íslands í EES
hafi verið gæfuspor. Í tilefni af innleiðingu þessa þriðja
orkupakka hafa hins vegar þær raddir verið háværar að
innleiðing regluverksins feli í sér einhvers konar framsal
á fullveldi Íslands. Þessi orðræða og þessar fullyrðingar
standast ekki skoðun, líkt og fræðimenn á sviðinu hafa
vitnað um í viðtölum og greinarskrifum. Felur hún raunar
í sér afbökun á staðreyndum málsins og viðurkenndum
sjónarmiðum um eðli fullveldisins, því eins og fram
kemur í grein Dr. Davíðs Þórs neytir íslenska ríkið þvert
á móti fullveldisréttinda sinna með því að taka þátt í
alþjóðasamstarfi.
Orðræðan um framsal fullveldis í þessu sambandi virðist því
fremur sett fram í þeim tilgangi að gera alþjóðlegt samstarf
tortryggilegt. Virðist þannig raunverulegur tilgangur þeirra
sem halda henni á lofti vera sá að koma því á dagskrá hvort
rétt sé að Ísland segi sig frá EESsamningnum.