Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 15
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18 15
HVER ER TILGANGUR
BIRTINGA DÓMA Á NETINU?
Lögmannafélag Íslands í samstarfi við Dómarafélag Íslands,
Lögfræðingafélag Íslands og dómstólasýsluna efndu til
hádegisverðarfundar miðvikudaginn 28. nóvember sl., þar
sem fjallað var um drög að frumvarpi til laga um birtingu
dóma og myndatökur í dómhúsum. Frumvarpinu er
ætlað að koma til móts við þá gagnrýni sem undanfarið
hefur komið fram þess efnis að ekki sé nægilega gætt að
sjónarmiðum og reglum um persónuvernd og friðhelgi
einkalífs við birtingu dóma á netinu. Fundurinn fór fram
á Nauthól og var vel sóttur.
Fundurinn hófst á orðum Kristínar Haraldsdóttur, lektors
við lagadeild Háskólans í Reykjavík, þar sem hún bauð gesti
velkomna og reifaði tilefni fundarins. Sigríður Á. Andersen,
dómsmálaráðherra, fjallaði því næst um aðdraganda
frum varpsins og ástæður þess að það er nú til umsagnar
á samráðsgátt stjórnvalda. Ráðherra sagði nokkur tilvik
hafa komið til kasta dómstóla sem sýndu að birting dóma
og nafnbirting hafi valdið málsaðilum tjóni. Kallað hafi
verið eftir samræmdum reglum um birtingu dóma og
dómstólasýslan hafi í kjölfarið lagt til texta í frumvarpið
sem dómsmálaráðuneytið vann með.
Að loknu ávarpi ráðherra héldu framsöguerindi þau
Benedikt Bogason, Hæstaréttardómari og formaður
stjórnar dóm stólasýslunnar, Sigurður Tómas Magnússon,
Lands réttar dómari og formaður réttarfarsnefndar,
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari og formaður DÍ,
Berglind Svavarsdóttir, formaður LMFÍ, og Helga Þóris
dóttir, forstjóri Persónuverndar.
Benedikt fjallaði um tillögur frumvarpsins. Þær felast í því
að settar verði samræmdar reglur um birtingu dóma, að
þeim málaflokkum þar sem héraðsdómar eru ekki birtir
verði fjölgað og ef dómar í slíkum máli gangi til Landsréttar
og Hæstaréttar verði niðurstaða æðri dóms eingöngu birt í
formi reifunar, að í sakamálum verði ávallt nafnleynd, og
að settar verði reglur um myndatökur í dómhúsum.
Sigurður Tómas fjallaði um áhrif nýrrar persónuverndar
löggjafar og sagði að vegna lögfestingar hennar biði
löggjafans nú það mikilvæga verkefni að finna jafnvægi
og málamiðlun á milli andstæðra sjónarmiða um opinbera
málsmeðferð og sjónarmiða um persónuvernd. Ingibjörg
kvaðst hins vegar telja umhugsunarverða þá fyrirætlan að
draga úr upplýsingum sem almenningi væru veittar enda
gæti slíkt sáð fræjum vantrausts. Þá kvaðst hún telja rétt að
þær reifanir sem verði birtar séu samdar af dómaranum
sjálfum og verði þannig hluti af niðurstöðu dómsins. Að
lokum tók Ingibjörg fram að hún teldi varhugavert að afmá
öll nöfn úr sakamálum. Sömu persónuverndarsjónarmið
ættu ekki við þar og í einkamálum og að nöfn sakamanna
ættu oft erindi við almenning.
Reifanir og nafnleynd
Berglind fór yfir framkvæmdina í öðrum Norðurlöndum.
Þar væri notast við reifanir þar sem allt væri undir nafnleynd.
Hún sagði skiptar skoðanir vera um þetta meðal lögmanna
og að laganefnd LMFÍ hefði skilað umsögn þar sem efast
væri um að reifun væri heppileg útfærsla. Þá sagði hún að
við vinnslu slíkrar reifunar yrði að vanda mjög til verka
og að slík reifun yrði að geyma kröfugerð, málsástæður
og forsendur. Helga tók síðust til máls og fjallaði um þau
sjónarmið sem Persónuvernd horfir til í frumvarpinu.
Anna Lilja Hallgrímsdóttir